Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:22:33 (3548)

1999-12-20 15:22:33# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir að ég vorkenni hv. 8. þm. Reykn., Kristjáni Pálssyni, fyrir að vera í þeirri klemmu og klípu sem hann greinilega er í vegna þess að hann er að mínu viti að svíkja samvisku sína og kjósendur sína í öllu falli.

Ég skildi ekki alveg spurninguna, en ég ætla samt að reyna að svara henni vegna þess að ég held að ég viti hvað honum liggur á hjarta. Álit hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar, formanns hv. umhvn., og hv. þm. Katrínar Fjeldsted er samið af þeim. Þeirra uppkast var samt sem áður ekki leyndarmál. Uppkast þeirra var lagt fyrir okkur þremenningana sem rituðum bréf og lýstum yfir stuðningi við hvert einasta orð sem í áliti þeirra stóð. Við þremenningarnir sömdum ekki álit hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og Katrínar Fjeldsted. En það var, eins og ég segi, ekki skot í myrkri að við studdum það álit. Og við skrifum undir hvert orð, líka það er lýtur að þætti Ágústs H. Bjarnasonar í þessu máli.

Það var alveg ljóst á öllum gögnum sem við höfðum þegar þetta álit var búið til að Ágúst H. Bjarnason hafði ekki farið alla leið yfir í Þóriseyjar og ekki inn að hraukum. Og satt að segja, herra forseti, hefur því þar af leiðandi ekki verið hægt að rannsaka mjög stóran hluta af Eyjabakkasvæðinu vegna vatnavaxta. Ágúst H. Bjarnason hefur aldrei sagt að hann hafi farið neitt annað en hann fór. Það hefur heldur enginn í raun og veru borið það upp á Ágúst H. Bjarnason að hann hafi verið að skrökva einhverju til. Hann bara fór ekki út í Þóriseyjar og hann fór ekki að hraukunum. Þar af leiðandi stendur það eftir, herra forseti, að stór hluti af Eyjabakkasvæðinu var ekki rannsakaður sumarið 1998 af Ágústi H. Bjarnasyni.