Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 20. desember 1999, kl. 15:24:34 (3549)

1999-12-20 15:24:34# 125. lþ. 50.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fullyrt í álitinu að Ágúst H. Bjarnason hafi ekki farið á Eyjabakkasvæðið. Það er fullyrt í álitinu. Ég las það upp áðan. Það þýðir ekkert að reyna að þræta fyrir það. Það stendur þarna. (Gripið fram í: Í hvaða vandræðum er þingmaðurinn með sannleikann?) Ég er ekki í neinum vandræðum. Ég er að benda á þetta vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi mikið um að Landsvirkjunarskýrslan væri svo ómarktæk, þar væri ekki tekið á málunum og að frjálslega væri farið með. Ég segi: Í þessu áliti 2. minni hluta umhvn. er farið með hreinar kjaftasögur og þær notaðar sem rök í málinu. Það er fullyrt að þessi virðulegi vísindamaður hafi ekki farið þangað sem hann fór, að hann hafi aldrei komið á Eyjabakkasvæðið.

Það hefur verið upplýst að þessi vísindamaður kom á Eyjabakkasvæðið. Hann fór upp með öllu Snæfelli. Þó hann hafi ekki komist út á hólmana sem eru í miðju flæðinu þarna, þá er það algjört aukaatriði og engin ástæða er til að ætla að þar sé neitt öðruvísi en annars staðar á þessu svæði.

Herra forseti. Ég er einfaldlega að benda á að hv. þingmenn sem semja þetta álit fara rangt með. Þeir hafa vísindamenn fyrir rangri sök en hafa ekki hugsað sér að leiðrétta það. Og mér finnst það ekki mjög fagmannlega unnið af fólki sem er síðan að reyna að rífa niður aðra skýrslu. Það ætti þá kannski að átta sig á að það er ekki alveg sama hvernig hlutir eru bornir fram.