Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 12:37:16 (3624)

1999-12-21 12:37:16# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég held að fátt skýri alvöru þessa máls betur en orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, og þau varnaðarorð sem hann bar fram. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að hugsunarháttur hefði breyst, okkur bæri nú að beita skynseminni, og ég vek athygli á því, herra forseti, að þetta eru orð frá einum af þeim hv. þm. sem hafa verið hvað harðastir stóriðjusinnar og stórvirkjunarsinnar í gegnum árin. En hv. þm. hefur einnig gert sér grein fyrir því og predikar það nú að beita beri skynseminni, sýna beri varúð og fara að þeim leikreglum sem Alþingi og þjóðin hefur sett sér og það veit best á hverjum tíma.

Ferill þessa máls er í raun með eindæmum. Rakið hefur verið lið fyrir lið að nánast allir þættir sem snerta umhverfi, náttúru og rannsóknir á þessum mikilvægu náttúruperlum eru ófullburða og þörf er á ítarlegri vinnu. Það hefur meira að segja komið fram að síðasta sumar, sem átti þó að vera eitt síðasta sumarið til undirbúnings þessari virkjun og þeim framkvæmdum til að leggja mat á og leggja síðustu hönd á, var ekki einu sinni nýtt til þess að afla gagna eins og skyldi.

Bent hefur verið á að lagaforsendur fyrir þessum stórframkvæmdum eru afar veikar. Beitt hefur verið undanþáguákvæðum sem eru svo veik að þeim er nánast ætlað að vera orð en ekki til þess að standa á bak við gjörðir. Bent hefur verið á að hvorki virkjunarleyfi né framkvæmdaleyfi liggi fyrir svo fullnægjandi sátt sé um. (Gripið fram í: Virkjunarleyfi.) Nei, herra forseti, það er ekki þannig. Það liggur ekki fyrir til að ráðast í þá virkjun sem hér á að ráðast í, það er ekki full sátt um það, um það hef ég fengið upplýsingar og ekki síst frá heimaaðilum. Þar eru áhöld um þær góðu lagalegu forsendur sem þetta á að byggja á. (Gripið fram í.) Ja, herra forseti, það er deilt um framkvæmdaleyfið en það er heldur ekki allt klárt með virkjunarleyfið.

Deiliskipulag liggur ekki fyrir og eðlileg skipulagsvinna heima í héraði liggur ekki fyrir, þannig að farið er á svig. Það má vel vera eins og hæstv. iðnrh. kom inn á í máli sínu í nótt að það sem hér er verið að fara fram á er að fá heimild til að halda áfram um málið en ekki veita leyfi til eins eða neins sem slíks, hvorki framkvæmdaleyfi, virkjunarleyfi, skipulagsleyfi né neitt slíkt. Það er alveg hárrétt. Það er verið að fá leyfi Alþingis til að mega halda áfram að vinna málið eftir þeim farvegi sem nauðsyn krefur. Engu að síður er látið að því liggja að þetta og þetta leyfi sé fyrir hendi sem ágreiningur er um.

Þá hafa einnig hinar fjárhagslegu, efnahagslegu forsendur fyrir þessa stórframkvæmd verið dregnar afar mikið í efa. Ekki aðeins hvaða áhrif þetta hefði á efnahagslíf í landinu, heldur einnig fyrir rekstrargrundvöll og arð af því fyrirtæki sem þarna er verið að huga að.

Það er alveg ljóst að það mikla fjármagn sem þarna færi inn í samfélagið og ég tala nú ekki um ef í það færi innlent fjármagn að mestu leyti, mundi virka eins og hrein olía inn í hagkerfi okkar og mundu þá ekki önnur stórverk, önnur fjárfrek verk sem brýn þörf er á, ef þetta verður sett í forgang, verða að lúta. Gagnvart efnahagslífi landsins er þarna einnig verið að taka mikla áhættu.

Herra forseti. Þetta er mikið deilumál með þjóðinni, það er öllum alveg ljóst. Þetta er stærsta deilumál meðal þjóðarinnar sem upp hefur komið á síðari árum. Það er því, herra forseti, nöturlegt að ein afsökunin eða ein réttlætingin fyrir hinni stóru virkjun og framkvæmd, því stóra álveri sem allt tengist saman í einu afmörkuðu byggðarlagi, eigi að gerast í nafni búsetu- og byggðaáætlunar. Framkvæmd sem sjálfsagt og eðlilega mun hafa mikil áhrif á byggðir þar í nágrenninu og næsta nágrenni en mun jafnframt verða til þess að aðrar byggðaaðgerðir vítt og breitt um landið sem eru líka brýnar og nauðsynlegar og hefði verið virkilega þörf á að tekið hefði verið á, verða settar í uppnám því að þessi aðgerð er bara byggðaáætlun gagnvart afar takmörkuðu svæði þarna. Og hvað þá með allt hitt? Ekki setjum við álver og virkjun á hvern stað, hvern fjörð?

Ég er hlynntur virkjunum sem eru vel grundaðar og undirbúnar samkvæmt bestu vitund og í sátt við samfélag og náttúru og uppbyggingu verkefna á þeim grunni. En það er afar ósanngjarnt að keyra þetta mál sem svo mikil ósátt er um meðal þjóðarinnar, ekki síst hvað snertir vinnubrögð, sem byggðamál því ef ríkisstjórninni væri verulega umhugað um byggðamál, þá hefur hún fullt af verkefnum sem hún getur ráðist í og full sátt er um.

[12:45]

Ég tel mig finna, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu, aukinn skilning og sterka hvatningu til að stjórnvöld taki á í byggðamálum í alvöru í stað þess að safna bara skýrslum og skapa störf fyrir stjórnmálamenn sem eru að hverfa af sjónarsviðinu. Ef stjórnvöld mundu taka á í byggðamálum þá væri hljómgrunnur fyrir því. En að nota þetta illa unna verk og keyra það fram sem byggðamál, í skjóli nauðar byggðanna, er afar ósanngjarnt. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og Alþingi til að endurskoða röksemdir sínar og fara í byggðaaðgerðir sem þjóðin er sátt við.

Það má reyndar ráðast í önnur byggðamál sem ekki ríkir sátt um, t.d. fiskveiðistjórnarkerfið. Ég vísa til ágætrar ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um mikilvægi ferðaþjónustu og ferðamála og þeirra tekna sem öflum þar. Þær aukast hraðar en við gerðum nokkur ráð fyrir. Þessar framkvæmdir eru ekki hluti af framtíðarsýn flestra þeirra sem stunda ferðaþjónustu.

Herra forseti. Átaks er þörf í byggðamálum og átaks er þörf í samgöngumálum. Þess sér ekki stað í áætlunum ríkisstjórnarinnar. Átaks er þörf í menntamálum út um landið, uppbyggingu framhaldsnáms og framhaldsskóla. Á miklu fleiri stöðum þarf að efla grundvallaratriðin fyrir búsetu í landinu. Á þessum sviðum er lítil áhersla.

Herra forseti. Sú leið sem hér er valin til að knýja áfram stórmál eins og þetta er ekki í samræmi við þjóðarvitundina. Hún er ekki í samræmi við leikreglurnar. Hún er hvorki í samræmi við framtíðarsýn okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði né skoðun meginþorra þjóðarinnar.