Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Þriðjudaginn 21. desember 1999, kl. 16:07:24 (3661)

1999-12-21 16:07:24# 125. lþ. 51.4 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, LB
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið löng umræða og ströng og menn hafa fært rök fyrir máli sínu, bæði þeir sem eru fylgjandi tillögunni og þeir sem eru henni andvígir.

Ég ætla ekki að flytja langa ræðu, virðulegi forseti, en ég vil segja það í upphafi máls míns að ég hef alla tíð verið mjög efins um að sú tillaga sem liggur fyrir þinginu sé þingtæk. Í raun og veru hefur hún ekkert annað efni en það að Alþingi álykti að varðandi framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun skuli farið að öllum lögum að undanskildum lögum um umhverfismat. Það er í raun og veru efni tillögunnar og er mjög merkilegt að hingað inn á Alþingi komi tillaga með þessu efni. Ég held að það sé mjög merkilegt og ég hugsa, virðulegi forseti, að það sé einsdæmi að það gerist að hæstv. ríkisstjórn komi hingað inn með þáltill. þess efnis að farið skuli að öllum lögum um tiltekna framkvæmd að einum undanskildum.

Ég held að þetta sé mjög alvarlegt, virðulegi forseti, og sýnir okkur kannski að mörgu leyti á hvaða vegferð menn eru með þetta mál. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að hugmyndir um nýtingu á náttúrunni og umgengni við hana hafa breyst til mikilla muna og hugmyndir sem eru uppi í dag voru allt aðrar þó ekki væri nema fyrir átta árum. Það er alveg fráleitt að við séum að horfa upp á að menn séu að leita leiða í þessu máli til að komast hjá því að fara eftir réttum leikreglum.

Það er einfaldlega þannig að ef við förum ekki að þeim leikreglum sem okkur eru settar í samfélaginu er lýðræðinu hætta búin. Ég lít það mjög alvarlegum augum að við skulum vera að ræða tillögu í þessu formi sem hefur með það eitt efni að gera að ekki sé farið eftir þeim reglum sem við höfum sett okkur fyrir löngu.

Ég vil segja það, virðulegi forseti, að við sem mörg erum fylgjandi því að virkjað sé þar sem það er hagkvæmt og við mörg sem erum fylgjandi því að farið sé í stóriðju þar sem það er hagkvæmt og hægt að fá menn til þess að byggja hana upp getum ekki á grundvelli þess að ekki sé farið eftir réttum leikreglum í samfélagi okkar stutt þetta mál. Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hefur sett þetta mál í slíkt uppnám að hún hefur gert það að verkum að mjög margir sem ella hefðu stutt málið geta ekki stutt það. Það er þannig sem hún hefur sett þetta mál upp og því miður, virðulegi forseti, óttast ég að þegar umræðunni hér lýkur sé langt í frá að umræðum um þetta mál sé lokið. Það stafar einfaldlega af því að ríkisstjórnin hefur lagt upp í þá vegferð sem við ræðum á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti.