Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 12  —  12. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo og afleiðinga þeirra.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem fari í samráði við stjórnvöld með eftirfarandi hlutverk:
     1.      að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í hvers kyns starfi sem miðar að því að bregðast við umhverfisáhrifum af átökunum í Júgóslavíu á þessu ári,
     2.      að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfi á Balkanskaga,
     3.      að gera úttekt á lögfræðilegum álitamálum sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í Júgóslavíu og þjóðréttarlegum afleiðingum þeirra.

Greinargerð.


    Í rannsókn sem unnin var á vegum Umhverfisstofnunar Mið- og Austur-Evrópu (Regional Environmental Center for Central and Eastern Europe) kom berlega í ljós hversu alvarlegar afleiðingar hernaðarátökin í Júgóslavíu hafa þegar haft og munu hafa í framtíðinni fyrir umhverfi og náttúrufar á Balkanskaga. Stofnun þessi, sem sett var á fót árið 1990 af Bandaríkjunum, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Ungverjalandi og hefur það hlutverk að aðstoða við lausn umhverfisvandamála í Mið- og Austur-Evrópu, stóð að umfangsmikilli gagnasöfnun og rannsóknum í Júgóslavíu og fjórum nágrannalöndum með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga í ýmsum málefnum Júgóslavíu, Makedóníu og Albaníu. Í skýrslunni, sem er aðgengileg á vefsíðu stofnunarinnar ( www.rec.org/REC/ Announcements/yugo/exec_sum.html), er að finna alvarlegar staðreyndir um umhverfisáhrif sem þegar liggja fyrir og ískyggilegar framtíðarhorfur á mörgum sviðum. Í köflum A og Bhér að neðan er stutt yfirlit um þessi efni samkvæmt fyrrnefndri skýrslu.

A. Mengun á einstökum sviðum.
1. Yfirlit.
    Rannsóknir benda til þess að ekki verði að svo komnu máli talað um allsherjar umhverfisslys af völdum stríðsins í Júgóslavíu. Samt sem áður er mengunin mjög alvarleg í nágrenni við verksmiðjur sem urðu fyrir loftárásum, svo sem í Pancevo, Prahovo og Novi Sad, og mörg dýrmæt vistkerfi urðu eyðileggingu að bráð. Átökin höfðu einnig mikil áhrif á hið mannlega umhverfi, einkum í Kosovo-héraði. Alls staðar í Júgóslavíu urðu innviðir samfélagsins fyrir miklu tjóni. Þrátt fyrir að ekki verði enn séð að stríðið hafi haft stórkostleg áhrif (large-scale effects) á flóru eða fánu svæðisins segir það ekkert um langtímaáhrifin. Rannsóknin leiddi í ljós að eftirfarandi tjón hefur þegar orðið eða gæti orðið:
     *      Mikil mengun í kringum helstu hernaðarleg skotmörk, einkum í efnaiðnaði.
     *      Vistkerfum er ógnað, einkum í og við ár.
     *      Matvæli eru menguð vegna jarðvegs- og loftmengunar.
     *      Mengun er í drykkjarvatni.
     *      Heilbrigðisvandamál eru fyrirsjáanleg vegna langtímaverkana eitraðra og krabbameinsvaldandi efna og geislavirkni.
     *      Umhverfisspjöll hafa orðið í tengslum við flóttamannavandann í Kosovo-héraði, Albaníu og Makedóníu og einnig í Serbíu og Svartfjallalandi.
    Geta júgóslavneskra yfirvalda til að takast á við umhverfisvandamál er enn minni en var fyrir átökin. Sama er að segja um borgaraleg samtök (NGO). Þar að auki er fyrirsjáanlegt, m.a. í ljósi reynslunnar frá Bosníu, að umhverfissjónarmið eru lítils metin þegar kemur að enduruppbyggingu, ekki síst þar sem slíkt starf er iðulega kapphlaup við tímann. Til að komast fyllilega að raun um langtímaáhrifin þarf að afla frekari gagna um ástandið eins og það er og fylgjast vel með þróun mála í framtíðinni.

2. Vatnsmengun.
    Mengun í vatni á yfirborði jarðar er mikil vegna leka frá skemmdum efnaverksmiðjum eða illa skipulögðum flóttamannabúðum. Einstök áhrif sem þegar eru komin í ljós eru m.a. sem hér segir:
     *      PCB-efni hafa farið út í umhverfið úr skemmdum spennistöðvum.
     *      Olíuefni hafa lekið í Dóná úr iðnaðarhverfum Pancevo og olíuhreinsunarstöð í Novi Sad.
     *      Meira en 100 tonn af köfnunarefni fóru í Dóná.
     *      Meira en 1.000 tonn af etýlen-díklóríði fóru í Dóná úr olíuvinnslustöðinni í Pancevo.
     *      Meira en 1.000 tonn af vítissóda fóru í Dóná frá sama stað.
     *      Næstum því 1.000 tonn af saltsýru fóru sömu leið.
     *      Ófullnægjandi fráveitur við flóttamannabúðir í Albaníu hafa leitt til þess að skólp hefur streymt inn í vatnsveitur.
     *      Í Makedóníu hefur grunnvatn hugsanlega mengast af sömu ástæðum.
     *      Olíu hefur orðið vart í Dóná í Rúmeníu, hún er þó undir leyfilegu hámarki.
     *      Í Rúmeníu hefur styrkur þungmálma í Dóná mælst tvöfalt hærri en leyfileg hámörk gera ráð fyrir, þar á meðal kopar, kadmíum, króm og blý.

3. Loftmengun.
    Hvað snertir loftmengun af völdum hernaðarins hefur eftirfarandi komið í ljós:
     *      Fullyrt er að í Júgóslavíu mælist geislavirk mengun frá vopnum sem innihald sneytt úran.
     *      Vínyl-klóríð-einliður (sem eru einföld efnasambönd, gerð úr fáum atómum) hafa samkvæmt júgóslavneskum skýrslum náð 10.600 sinnum meiri styrk en leyfilegt er í nágrenni olíuefnaverksmiðjunnar í Pancevo. Leifar þessara efna dreifðust með mengunarskýjum, þar á meðal fosfórsambönd, klór, klóroxíð og níturoxíð.
     *      Mengun af völdum ófullkomins bruna kolvetnissambanda í tengslum við árásir á olíuhreinsunarstöðvar.
     *      Í árásunum á Pancevo og Novi Sad brunnu miklar olíubirgðir og þar af leiðandi varð til mikið sót og aðrar mengandi agnir (particulates). Eftir atburðina í Pancevo var 15 km mengunarský yfir svæðinu í tíu daga. Sót, brennisteinsoxíð og klór-kolefnissambönd (chlorocarbons) mældust í 4–8 sinnum meira mæli en leyfilegt er.
     *      Flúorsýra fór út í umhverfið þegar efnaverksmiðja í Baric var eyðilögð.
     *      Eyðilegging málmiðjuvera leiddi til þess að ryk þungmálma fór út í andrúmsloftið, m.a. kvikasilfurs, kadmíums, króms, kopars og sinks.
     *      Súrt regn mældist víða í tengslum við loftárásirnar, t.d. 12., 15., og 21. maí og 1. júní 1999 í Rúmeníu og 23.–26. maí í Búlgaríu. Umhverfisverndarstofnun í Rúmeníu upplýsti að súrt regn hefði aukist miðað við sama árstíma fyrir átökin. Tímasetningar þessara mælinga og vindátt viðkomandi daga gefur til kynna samhengi við loftárásir á skotmörk í júgóslavneskum iðnaði.
     *      Í Timis-héraði í Rúmeníu, sem er norðaustan við Belgrad, fór styrkur brennisteinsoxíða, níturoxíða og köfnunarefnis upp í að vera 5–10 sinnum meiri en leyfileg hámörk kveða á um dagana 18.–26. apríl.

4.     Mengun í jarðvegi.
     *      Land- og lofthernaður eyðilagði búsvæði margra plöntu- og dýrategunda.
     *      Mörg búsvæði munu spillast vegna efnamengunar í jarðvegi og mengunar sem berst í lofti og vatni.
     *      Mikil röskun varð á dýralífi/fánu, m.a. við helstu leiðir flóttamanna. Í Makedóníu hefur orðið mikil fjölgun meðal sumra dýrategunda. Talið er að þau hafi flúið frá Kosovo- héraði.
     *      Að auki urðu mörg verndarsvæði og þjóðgarðar fyrir tjóni, bæði í Júgóslavíu og Albaníu.

5. Mannlegt umhverfi og heilsufar.
    Stórkostlegar skemmdir hafa verið unnar á mannvirkjum, einkum í tilteknum þorpum í Kosovo-héraði og miðbæjum ýmissa þéttbýlisstaða í öðrum hlutum Júgóslavíu. Meira en 1.400 óbreyttir borgarar féllu í loftárásunum á Júgóslavíu en ekki eru til áreiðanlegar tölur um mannfall meðal óbreyttra borgara í Kosovo-héraði eða mannfall í herliði stríðandi aðila. Því hefur þó verið slegið föstu að þær tölur séu hærri.
    Búist er við neikvæðum áhrifum á heilsufar fólks í Júgóslavíu vegna skemmda á veitukerfum, þar á meðal fráveitum, og bágra aðstæðna í sumum flóttamannabúðum.
    Ekki eru til áreiðanlegar upplýsingar um hversu umfangsmikil mengun verður í öðrum löndum af völdum stríðsátakanna. Búist er við áhrifum af eyðileggingu verksmiðjanna í Novi Sad, Prahovo og Pancevo sem leiddu af sér súrt regn og mengun í Dóná, eyðileggingu spennistöðva (í Kragujevac og nágrenni Belgrad) og hugsanlegri losun geislavirkra lofttegunda við notkun vopna sem innihalda sneytt úran. Þá er ótalinn allur sá úrgangur og eyðilegging/sóun af ýmsu tagi sem fylgir hernaði og er gríðarlega umfangsmikil. Þar er þörf á sérstökum hreinsunaraðgerðum, m.a. þar sem um er að ræða ónotuð skotfæri og virkar jarðsprengjur.

B. Hugsanleg áhrif í framtíðinni.
    Á þessu sviði er þörf á frekari gagnasöfnun og rannsóknum en eftirfarandi er augljóslega áhyggjuefni:
     *      Hætta er á viðvarandi mengun vatns og votlendis af völdum ýmissa hættulegra efna. Reiknað er með þau muni safnast fyrir í ám og grunnvatni. Mikilvæg vatnsból í Albaníu og Makedóníu eru í mikilli hættu.
     *      Þrátt fyrir að dregið hafi úr loftmengun eftir að átökunum lauk ber að athuga að hugsanleg áhrif af notkun sneydds úrans (DU) eru miklu langvinnari.
     *      Hætta er á að margs konar mengun hafi langtímaáhrif á heilsufar fólks. Hugsanleg mengun í matvælum í framtíðinni er veruleg ógnun við íbúa þessa svæðis. Þar að auki hefur hið opinbera ekki bolmagn til að standa að fullnægjandi rannsóknum og eftirliti og það ástand eykur mjög á hættuna í þessum efnum.
     *      Hægfara uppbygging ógnar líka lífi og heilsu fólks, ekki síst í Kosovo-héraði. Sama gildir um hina gífurlegu eyðileggingu á orkuveitum Júgóslavíu þar eð vetur nálgast.

C. Ýmsar efnahagslegar og samfélagslegar afleiðingar.
    Ljóst er að vinna þarf geysilegt uppbyggingarstarf í Júgóslavíu allri á komandi árum, ekki síst ef þar á geta orðið friðvænlegt í framtíðinni. Í því sambandi hefur verið talað um að kostnaðurinn geti orðið 31 milljarður Bandaríkjadala eða hátt í 2.300 milljarðar íslenskra króna. Brýnasta verkefnið er að tryggja öryggi og aðbúnað flóttamanna af öllum þjóðernum. Víðs vegar um Serbíu og Svartfjallaland verður að endurbyggja orkuveitur og ýmis samgöngumannvirki. Mörg hundruð verksmiðjur og fjölmörg íbúðarhús hafa verið eyðilögð. Jafnframt er nauðsynlegt að hreinsa upp jarðsprengjur og klasasprengjur auk skaðlegra efna sem hafa farið út í umhverfið í árásum á olíuhreinsistöðvar og efnaverksmiðjur. Sýnt þykir að mengunin muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í landinu á sama tíma og Júgóslavar munu neyðast til að snúa sér að landbúnaði í auknum mæli vegna þess að iðnaður þeirra hefur að stórum hluta verið lagður í rúst.
    Efnahagsleg uppbygging er lykilatriði í því að koma á friði og stöðugleika í landinu. Ef íbúar Júgóslavíu verða fátæktinni að bráð er útilokað að tryggja friðsamlega sambúð þjóðanna á þessu svæði. Slík uppbygging verður að eiga sér stað með aðstoð hinna betur megandi ríkja en ekki á þeirra forsendum heldur í fullri sátt við almenning í Júgóslavíu. Jafnframt er afar mikilvægt að þjóðarbrotunum verði ekki mismunað í þeim efnum þar sem slíkt mundi vafalaust leiða til enn meiri spennu á svæðinu. G-17 stofnunin, sjálfstæð hagfræðistofnun sem hefur sérhæft sig í málefnum Balkanskaga, taldi áður en loftárásirnar hófust að það mundi taka Júgóslava 29 ár að ná svipuðu stigi hagsældar og þeir bjuggu við 1989. Nú er talað um að það muni taka 45 ár nema til komi alþjóðleg aðstoð. Stjórnvöld í Belgrad hafa metið ástand hagkerfisins svo að það líkist helst því sem var í lok síðari heimsstyrjaldar.
    Ofan á allt framangreint bætist svo gífurleg eyðilegging menningarverðmæta og sögulegra minja í þessu stríði. Gamli borgarhlutinn í Pec, þar sem finna mátti tyrkneskar byggingar frá tímum Ottómana-ríkisins, eru rústir einar. Fleiri dæmi eru Hadum-moskan í nágrenni Djakovica, byggð á 16. öld, Vrsac-turninn við rúmensku landamærin, byggður á miðöldum eins og kirkjan í Gracanica skammt frá Pristina þar sem freskumyndir frá 14. og 15. öld hafa orðið eyðileggingunni að bráð. Í Belgrad varð Rakovica-klaustrið sem byggt var á 16. öld fyrir sprengjum. Sama má segja um St. Nikulásar-kirkjuna sem var byggð á 12. öld og kirkju St. Prókópíusar en hún er frá 9. öld. Þetta eru einstakar minjar frá árdögum kristninnar í Austur-Evrópu og því er skaðinn óbætanlegur í menningar- og sögulegu tilliti. Slíkar árásir NATO-hersins minna hastarlega á framferði Serba í umsátrinu um borgirnar Vukovar og Dubrovnik í Króatíu fyrir nokkrum árum.

D. Lögfræðileg álitamál sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í Júgóslavíu.
    Óhætt er að segja að með loftárásunum á Júgóslavíu hafi NATO afhjúpað eðli sitt sem árásarbandalag og tekið sér sjálfdæmi í öryggis- og varnarmálum sem snerta grannríki bandalagsins. Þessar aðgerðir stríða gegn Helsinki-sáttmálanum frá 1975 en í 1. kafla hans, 2. gr., heita samningsaðilar því að beita aldrei hver annan valdi né hótunum um slíkt til að leysa ágreiningsmál sín í milli. Sáttmálinn var undirritaður af Geir Hallgrímssyni, þáverandi forsætisráðherra, fyrir Íslands hönd og Josip Broz Tito fyrir hönd Júgóslavíu.
    Stríðsrekstur NATO í Júgóslavíu ber öll einkenni pólitískra aðgerða sem miðast við hagsmuni árásaraðilans eingöngu, í þessu tilviki ekki síst að skapa sér orðspor sem eina fjölþjóðlega stofnunin sem hafi burði til að stöðva stríðsátök. Efast verður um að hernaður NATO gegn Júgóslavíu vegna ófriðarins í Kosvo leiði til framtíðarlausnar á sambúðarvanda þjóðarbrotanna sem í hlut eiga.
    Fyllsta ástæða er til að óttast fordæmisgildi þessara hernaðaraðgerða þar sem bandalag 19 ríkja tekur sér vald til að beita hervaldi utan aðildarlandanna undir því yfirskini að ófriður í nágrenni þeirra geti ógnað stöðugleika innan bandalagsins. Verði það látið óátalið að þessi hópur ríkja brjóti alþjóðalög hlýtur það að bjóða heim hættunni á að aðrir aðilar, sem hafa til þess nægilegan hernaðarmátt, taki sér slíkt sjálfdæmi í öðrum heimshlutum.
    Ekki er hægt að skilja við þetta mál án þess að fara nokkrum orðum um notkun á ólöglegum vopnum af hálfu NATO-hersins. Annars vegar er þar um að ræða svokallaðar klasasprengjur (CBU-87/B) sem flugher NATO beitti í árásum sínum á ýmis skotmörk í Júgóslavíu. Þær vega um 500 kg og innihalda nokkur hundruð smærri sprengjur sem dreifast í allar áttir þegar klasinn sjálfur springur. Hver smásprengja um sig splundrast í u.þ.b. 300 sprengjuflísar með hræðilegum afleiðingum fyrir þá sem verða fyrir sprengjuregninu eins og kom t.d. á daginn í árás NATO á markaðstorgið í Nis 7. maí. Til að bæta gráu ofan á svart er talsvert um að smærri sprengjurnar dreifist um stórt svæði án þess að springa. Þannig hafa ósprungnar sprengjur breytt heilu þorpunum í einskis manns land, þær geta sprungið við snertingu eða titring frá umferð rétt eins og jarðsprengjur. Þessi vopn eru þegar farin að taka sinn toll af æsku Kosovo-héraðs.
    Hins vegar er ljóst að NATO hefur notað svokallaðar DU-fallbyssukúlur í árásum á skriðdreka og önnur farartæki í Júgóslavíu. DU er skammstöfun fyrir sneytt úran ( depleted uranium) en það er eitthvert þyngsta og þéttasta frumefni sem til er. Af þeim sökum er það afar hentugt í fallbyssukúlur og kemst í gegnum meira en 5 sm þykka brynvörn. Að auki er hitamyndunin við það svo mikil að eldur verður samstundis laus í skotmarkinu. Við slíkan bruna fer mikið af geislavirku ryki út í andrúmsloftið. Mælingar á geislun frá einni DU-kúlu benda til þess að geislunin á hverri klukkustund samsvari 1/ 5af því sem mannslíkaminn er talinn þola á heilu ári. Mikið hefur verið rætt og ritað um afleiðingarnar af notkun slíkra kúlna í Flóabardaga 1991 þrátt fyrir að sú umræða hafi lítið náð hingað til lands. Líkur benda til að aukið nýgengi hvítblæðis og fleiri krabbameinssjúkdóma í Írak megi rekja til þess að u.þ.b. 40 tonn af DU-kúlum voru notuð í Flóabardaga. Þetta á einnig við um fyrirburafæðingar þar í landi. Hermenn sem börðust í liði Bandamanna í Írak hafa kvartað undan hárlosi, húðsjúkdómum og skemmdum á ýmsum líffærum. Jafnframt hafa þeir orðið fyrir stórkostlegum skemmdum á erfðaefni sem koma fram í vansköpunum og meðfæddum sjúkdómum barna sem þeir hafa eignast eftir stríðið.