Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 201  —  174. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Einar Már Sigurðarson, Mörður Árnason .



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga sem hafi það verkefni að kanna og gera tillögur um bætta stöðu þolenda kynferðisbrota, einkum barna og unglinga.
    Verkefni nefndarinnar verði að gera ítarlega úttekt á stöðu þolenda kynferðisbrota og ferli kærumála í réttar- og dómskerfinu. Sérstaklega skal skoða lagaákvæði er varða starfshætti dómstóla og hvort þörf er á að herða refsiúrræði. Einnig skal nefndin leggja fram tillögur um hvernig bæta megi stuðning og meðferðarúrræði sem fórnarlömb kynferðisbrota eiga kost á.
    Í úttektinni skal jafnframt kanna hvaða fyrirbyggjandi aðgerðum hægt er að beita, m.a. gagnvart gerendum, til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jafnframt skal nefndin leitast við að benda á leiðir sem eru færar til að hvetja þá sem beittir eru kynferðislegu ofbeldi til að kæra verknaðinn.
    Tillögur nefndarinnar og úrbætur skulu lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en á haustþingi árið 2000.

Greinargerð.


    Kynferðisbrot gegn börnum þjóðarinnar er einn alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja, enda ljóst að hann getur eyðilagt líf þolenda.
    Á 121. löggjafarþingi veturinn 1996–97 svaraði félagsmálaráðherra fyrirspurn um kynferðislega misnotkun á börnum. Þar kom fram að á árunum 1992–96 hefðu barnaverndarnefndir fengið til meðferðar 465 mál vegna meintrar kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis gegn börnum og áttu þar hlut að máli 560 börn yngri en 16 ára. Athyglisvert var að aðeins var birt ákæra í 45 málum af 465, eða um 10% þeirra mála sem barnaverndarnefndir fengu til meðferðar. Gerendur voru sakfelldir enn færri málum, eða í um 35 þeirra.
    Í svarinu kom jafnframt fram að búast mætti við að árlega þurfi ekki færri en 50 börn á sérhæfðri meðferð að halda vegna kynferðisofbeldis. Væru fjölskyldur þeirra reiknaðar með mætti áætla að á annað hundrað manns þyrfti á stuðningi og meðferð að halda á ári hverju. Engin hópmeðferð stæði þessum börnum til boða en áfallameðferð og langtímameðferð væri sjaldnast skipulögð af barnaverndarnefndum, enda væru lagaskyldur á því sviði óljósar.
    Á Alþingi 1997–98 var flutt frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum í þá veru að lágmarksrefsing fyrir kynferðisbrot gegn börnum yrði eitt ár, en lengi hefur verið kveðið á um eins árs lágmarksrefsingu við nauðgunarbrotum. Sérkennilegt er að ákvæði um lágmarksrefsingu á ekki við um kynferðisbrot gegn börnum. Í yfirliti um refsidóma sem birt var á Alþingi fyrir nokkrum árum komu fram fimm dómar í kynferðisbrotum gegn börnum þar sem refsing var ákveðin 2–30 mánaða fangelsi. Aftur á móti leiddi ákvæði laga um lágmarksrefsingu fyrir nauðgun til þess að í tíu dómum sem gengu í nauðgunarmálum var refsing ákveðin 12–48 mánaða fangelsi. Nauðsynlegt er að skoða ítarlega hvaða rök séu fyrir því að refsingar fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum eigi að vera vægari en refsingar fyrir nauðganir.
    Mikla athygli hefur vakið nýgenginn sýknudómur Hæstaréttar yfir ákærðum manni, föður sem dóttir hafði kært fyrir gróft kynferðisbrot og héraðsdómur dæmt í þriggja og hálfs árs fangelsi.
    Víst er að mörgum þykir þessi sýknudómur mjög óréttlátur og þeir finna ekki fullnægjandi skýringu á niðurstöðunni. Spurt er hvaða skilaboð sýknudómurinn beri annars vegar til barna og unglinga sem hafa orðið fyrir kynferðisbrotum og til kynferðisbrotamanna hins vegar.
    Að öllu samanlögðu er ljóst að varðandi kynferðisbrotamál er alvarleg brotalöm í réttarfarinu sem brýnt er að gera úttekt á og endurskoða. Megintilgangur þessarar tillögu er að sérfræðingar verði fengir til að gera ítarlega úttekt á öllu réttarfari í kynferðisbrotamálum, einkum þeim er snerta börn og unglinga. Eins og lagt er til hér þarf úttektin að vera víðtæk og finna verður hvar í réttarfarinu þessi brotalöm er. Athuga þarf hvaða úrbætur eru nauðsynlegar á allri málsmeðferðinni, frá því að kæra berst og þar til úrskurður dómstóla liggur fyrir.
    Sérstaklega þarf að skoða aðgerðir sem varða stöðu brotaþola kynferðisofbeldis í réttar- og dómskerfinu og hvort herða þurfi refsiúrræði og þá hvernig. Sömuleiðis er brýn þörf á að bæta stuðning og meðferðarúrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota. Þá þarf að benda á mögulegar leiðir til að hvetja þá sem beittir eru kynferðislegu ofbeldi til að kæra glæpinn. Einnig verður að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum svo að börn verði ekki þolendur. Í því sambandi hlýtur staða gerenda eða kynferðisbrotamanna að verða skoðuð og þau meðferðarúrræði sem þeim gefst kostur á, en oftar en ekki er um mjög sjúka einstaklinga að ræða.
    Enn fremur verður að athuga refsiákvæði og starfshætti dómstóla, m.a. meta hvort skylt ætti að vera að kveðja til meðdómendur með sérfræðikunnáttu þegar fjallað um kynferðisbrot gegn börnum. Jafnframt þarf að kanna hvernig betur er hægt að tryggja aðbúnað og aðstöðu þeirra sem leita réttar síns vegna kynferðisbrota, enda ljóst að hér er um mjög vandmeðfarin tilfinningamál að ræða og ber opinberum aðilum skylda til að auðvelda þolendum kæru- og dómsferilinn eins og kostur er.
    Mikilvægt er að í nefndinni, sem skipa á samkvæmt tillögunni, verði sérfræðingar á sviði kynferðisbrota. Flutningsmenn leggja áherslu á að í nefndina verði m.a. skipaðir fulltrúar stéttarfélaga geðlækna, félagsráðgjafa og sálfræðinga, auk fulltrúa Barnaverndarstofu, Stígamóta og lögregluyfirvalda.
    Skoðun flutningsmanna þessarar tillögu er að víðtæk sátt ætti að nást á Alþingi um að láta gera slíka úttekt, enda ætti hún að leiða til úrbóta í kynferðisbrotamálum og bættrar stöðu þolenda.