Ferill 207. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 241  —  207. mál.




Frumvarp til útvarpslaga.




(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI
Skilgreiningar.
1. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
     a.      Með útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, er átt við hvers konar útsendingu dagskrárefnis innan íslenskrar lögsögu sem ætluð er almenningi til beinnar móttöku og dreift er með rafsegulöldum, hvort heldur er í tali, tónum eða myndum, um þráð eða þráðlaust, hvort heldur sem útsendingin er læst eða ólæst.
     b.      Útvarpsstöð er sá aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem leyfi hefur til útvarps, annast og ber ábyrgð á samsetningu útvarpsdagskrár í skilningi a- og c-liða, sendir hana út eða lætur annan aðila annast útsendingu hennar.
     c.      Útvarpsdagskrá er heildarsamsetning dagskrárliða í útvarpi.
     d.      Auglýsing er hvers konar tilkynning sem útvarpað er gegn endurgjaldi eða í eigin þágu útvarpsstöðvar og felur í sér kynningu á vöru eða þjónustu.
     e.      Dulin auglýsing er sýning eða önnur kynning í máli eða myndum á vöru, þjónustu, vörumerki eða starfsemi aðila er framleiðir vöru eða veitir þjónustu í útvarpsdagskrám utan afmarkaðra auglýsingatíma sé slík sýning til þess ætluð af hálfu útvarpsstöðvar að þjóna auglýsingamarkmiðum og villa um fyrir notendum.
     f.      Kostun er hvers konar fémætt framlag lögaðila eða einstaklinga til framleiðslu eða útsendingar dagskrárliða í útvarpi, með það fyrir augum að vekja athygli á nafni sínu, vörumerki, ímynd, starfsemi eða vörum.
     g.      Fjarsala er beint tilboð sem sjónvarpað er til almennings með það í huga að bjóða fram vöru og þjónustu gegn greiðslu. Fjarsala tekur hér einnig til fasteigna, réttinda og skyldna.
     h.      Læst útsending er hljóðvarps- eða sjónvarpsútsending ætluð almenningi þar sem hljóð- eða myndmerkjum hefur verið breytt í því skyni að veita einungis þeim aðgang að útsendingunni sem greitt hafa fyrir hana (áskrifendum).
     i.      Myndlykill er búnaður sem einum sér eða með öðrum búnaði er ætlað að veita aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.

II. KAFLI
Lögsaga.
2. gr.
Lögsaga yfir sjónvarpsstöðvum.

    1. Lögin gilda um útsendingar á sjónvarpsdagskrám ef sendingu verður náð á Íslandi og/eða í einhverjum öðrum þeim ríkjum sem bundin eru af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið („EES-ríkjum“), sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, og sú sjónvarpsstöð sem í hlut á
     a.      hefur staðfestu á Íslandi samkvæmt skilgreiningu 3. mgr.,
     b.      hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki en notar senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi,
     c.      hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki en notar gervitunglaflutningsgetu sem tilheyrir íslenskum aðila,
     d.      hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglaflutningsgetu sem heyrir undir Ísland eða aðila í öðru EES-ríki en notar gervitunglajarðstöð sem staðsett er hér á landi,
     e.      hefur hvorki staðfestu á Íslandi né í öðru EES-ríki, notar ekki senditíðni sem úthlutað hefur verið hér á landi eða í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglaflutningsgetu sem tilheyrir íslenskum aðila eða aðila í öðru EES-ríki, notar ekki gervitunglajarðstöð sem staðsett er hér á landi eða í öðru EES-ríki en telst hafa staðfestu á Íslandi samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. sérstaklega 2. kafla III. hluta samningsins um staðfesturétt.
    2. Enn fremur taka lögin til hvers þess aðila sem hefur öðlast staðfestu í öðru EES-ríki með það að markmiði að fara á svig við íslensk lög, enda beinist starfsemin aðallega að Íslendingum og íslenskum markaði.
    3. Sjónvarpsstöð telst hafa staðfestu á Íslandi samkvæmt lögum þessum, sbr. a-lið 1. mgr., í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Ef sjónvarpsstöðin hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi og ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar hér á landi.
     b.      Ef sjónvarpsstöðin hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi, en ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar í öðru EES-ríki, telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfar hér á landi. Þó að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi einnig í öðru EES-ríki telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef aðalskrifstofa hennar er hér. Þó að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi hvorki hér á landi né í öðru EES-ríki telst stöðin hafa staðfestu hér á landi ef hún hefur hafið útsendingar samkvæmt útvarpsleyfi sem veitt var með stoð í íslenskum lögum, enda hafi stöðin haldið stöðugum og virkum tengslum við íslenskt efnahagslíf.
     c.      Ef sjónvarpsstöð hefur aðalskrifstofu sína á Íslandi en ákvarðanir um dagskrárefni eru teknar utan EES-ríkja, eða öfugt, telst stöðin hafa staðfestu hér á landi að því tilskildu að verulegur hluti starfsliðs við sjónvarpsútsendingar starfi hér á landi.

3. gr.

Lögsaga yfir hljóðvarpsstöðvum.


    Lög þessi gilda um allar hljóðvarpssendingar aðila sem nota senditíðni sem íslensk stjórnvöld hafa úthlutað eða dreifikerfi sem staðsett er á Íslandi.

4. gr.
Útsendingar sem lögin ná ekki til.

    Ákvæði þessara laga ná ekki til dreifingar útvarpsdagskrár eða útsendinga sem eingöngu eru ætlaðar þröngum hópi og takmarkast við byggingar eða húsakynni á samfelldri lóð, svo sem einstök íbúðarhús, sjúkrahús, gistihús, skóla og verksmiðjur.

5. gr.
Tímabundin stöðvun á endursendingum sjónvarps frá EES-ríkjum.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. og skyldu íslenska ríkisins til þess að tryggja frelsi til móttöku á sjónvarpsútsendingum frá öðrum EES-ríkjum getur útvarpsréttarnefnd stöðvað tímabundið sjónvarpsútsendingar frá öðrum EES-ríkjum að uppfylltum eftirgreindum skilyrðum:
     a.      útsendingin brýtur ljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum 14. gr. laga þessara eða telst að öðru leyti geta haft alvarleg skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, eða útsending telst geta kynt undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, trúarskoðana eða þjóðernis;
     b.      sjónvarpsstöðin, sem í hlut á, hefur að minnsta kosti tvívegis á síðastliðnum 12 mánuðum brotið gegn ákvæðum a-liðar;
     c.      útvarpsréttarnefnd hefur tilkynnt sjónvarpsstöðinni, og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, hefur verið tilkynnt skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til ef um verður að ræða endurtekningu á broti og
     d.      samráð við útsendingarríki og Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eftir því sem við á, hefur ekki leitt til lausnar innan 15 daga frá tilkynningu skv. c-lið og framhald er á meintu broti.

III. KAFLI
Leyfi til útvarps.
6. gr.
Leyfi til útvarps.

    1. Til útvarps, sem á uppruna sinn hér á landi, þarf leyfi útvarpsréttarnefndar, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum, sbr. lög um Ríkisútvarpið.
    2. Útvarpsréttarnefnd skipa sjö menn. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann úr hópi nefndarmanna.
    3. Útvarpsréttarnefnd getur veitt lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til útvarps. Leyfi til hljóðvarps má lengst veita til fimm ára í senn en til sjónvarps lengst til sjö ára í senn. Nánari ákvæði um gildistíma útvarpsleyfa skulu sett í reglugerð. Heimilt er að binda leyfi við afmörkuð svæði.
    4. Leyfi til útvarps hér á landi er háð eftirfarandi almennum skilyrðum:
     a.      Leyfishafi skal hafa staðfestu í EES-ríki. Um heimild erlends aðila utan EES-ríkis eða íslensks lögaðila, sem slíkur aðili á hlut í, til að reka útvarpsstöðvar fer samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     b.      Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar senditíðnum í samræmi við alþjóðasamþykktir til þeirra sem fengið hafa leyfi til útvarps, og skal þá kveðið á um tæknilega eiginleika í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár erlendra sjónvarpsstöðva skal einvörðungu heimilað um þráð og/eða þráðlaust um örbylgju.
     c.      Útvarpsstöðvar skulu gera útvarpsréttarnefnd grein fyrir þeirri dagskrárstefnu sem fyrirhuguð er.
     d.      Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarsmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hver sé útvarpsstjóri er beri ábyrgð á útvarpsefni skv. IX. kafla laga þessara. Breyting í þeim efnum skal og tilkynnt útvarpsréttarnefnd.
     e.      Áður en útvarpsstöð tekur til starfa skulu fyrirsvarmenn hennar tilkynna útvarpsréttarnefnd hvert sé kallmerki hennar.
     f.      Rekstri, bókhaldi og fjárreiðum útvarpsstöðvar skal haldið aðgreindum frá öðrum rekstri og fjárreiðum útvarpsleyfishafa. Útvarpsréttarnefnd getur krafist upplýsinga úr bókhaldi og reikningum útvarpsstöðvar, ef þess er talin þörf, um hvort laga- eða reglugerðarákvæði eða leyfisskilmálar hafi verið brotin. Skal sérstakur trúnaðarmaður nefndarinnar annast öflun og könnun slíkra gagna í umboði nefndarinnar. Nefndarmenn, starfsmenn og trúnaðarmenn nefndarinnar eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem leynt á að fara.
     g.      Hafi útvarpsstöð ekki hafið útvarp innan átta mánaða frá dagsetningu leyfis útvarpsréttarnefndar fellur leyfið sjálfkrafa niður. Sé útvarpsrekstri hætt og hann eigi hafinn á ný innan fjögurra mánaða telst útvarpsleyfi sjálfkrafa niður fallið.
     h.      Leyfi til útvarps verður ekki framselt, leigt eða flutt með nokkrum öðrum hætti til annars aðila. Nú er bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta, og fellur þá leyfið þegar í stað úr gildi.
    5. Útvarpsréttarnefnd fylgist með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt og hefur að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laga þessara, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpsútsendingum er lúta íslenskri lögsögu skv. 2. og 3. gr. laga þessara. Útvarpsréttarnefnd getur áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur sjónvarpsstöðva um útsendingu á evrópsku dagskrárefni skv. 7. gr. og um sýningu efnis sem framleitt er af sjálfstæðum framleiðendum, sbr.10. gr. Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinga.
    6. Ákvarðanir útvarpsréttarnefndar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
    7. Kostnaður við starfsemi útvarpsréttarnefndar greiðist úr ríkissjóði.

IV. KAFLI
Skyldur útvarpsstöðva.
7. gr.
Dagskrárframboð.

    1. Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun, efla íslenska tungu og leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Þó skal heimilt, ef sérstaklega stendur á, að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku.
    2. Sjónvarpsstöðvar skulu kosta kapps um að meiri hluta útsendingartíma sé varið í íslenskt dagskrárefni og annað dagskrárefni frá Evrópu. Með útsendingartíma er í þessu sambandi átt við heildarútsendingartíma sjónvarpsstöðva að frádregnum þeim tíma sem varið er til frétta, íþróttaviðburða, leikja, auglýsinga, textavarpsþjónustu og fjarsölu.
    3. Í reglugerð skal það nánar skilgreint hvað telst vera evrópskt efni.

8. gr.
Tal og texti á íslensku.

    1. Efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsstöð, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Það á þó ekki við þegar fluttir eru erlendir söngtextar eða þegar dreift er viðstöðulaust um gervitungl og móttökustöð fréttum eða fréttatengdu efni sem sýnir að verulegu leyti atburði sem gerast í sömu andrá. Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð, eftir því sem kostur er, láta fylgja endursögn eða kynningu á íslensku á þeim atburðum sem orðið hafa. Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
    2. Ákvæði greinar þessarar eiga ekki við þegar um er að ræða endurvarp frá erlendum sjónvarpsstöðvum, enda sé um að ræða viðstöðulaust, óstytt og óbreytt endurvarp heildardagskrár sjónvarpsstöðva. Þau eiga ekki heldur við þegar útvarpsstöð hefur fengi leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, sbr. 1. mgr. 7. gr.

9. gr.
Lýðræðislegar grundvallarreglur.

    Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Þó skal útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar.

10. gr.
Dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum.

    1. Sjónvarpsstöðvar skulu, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma, sbr. 2. mgr. 7. gr., á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Sjónvarpsstöðvar skulu leggja áherslu á að svo stór hluti af verkum sjálfstæðra framleiðenda sem unnt er séu sýnd innan fimm ára frá því að gerð þeirra lauk.
    2. Í reglugerð skal það nánar skilgreint hverjir teljast vera sjálfstæðir framleiðendur samkvæmt þessari grein.

11. gr.
Andsvarsréttur.

    Þeir aðilar, einstaklingar, félög eða stofnanir, sem telja að lögmætir hagsmunir þeirra, einkum orðspor og mannorð, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá, hafa rétt til andsvara í viðkomandi útvarpsstöð eða til annarra jafngildra úrræða. Andsvör skulu send út innan hæfilegs tíma frá því að rök voru færð fyrir beiðninni og á þeim tíma og með þeim hætti sem hæfir þeirri útsendingu er beiðnin tekur til.

12. gr.
Kærur vegna 9. og 11. gr.

    Telji einhverjir að útvarpsstöð hafi ekki uppfyllt skilyrði 9. og 11. gr. gagnvart þeim og þeim er synjað um að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í dagskrá á þann hátt sem þeir vilja við una geta þeir lagt málið fyrir útvarpsréttarnefnd. Nefndin skal þá, eins fljótt og við verður komið, fella úrskurð um kæruefni, og er sá úrskurður bindandi fyrir aðila.

13. gr.
Skyldur vegna almannaheilla.

    Skylt er útvarpsstöð að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.

14. gr.
Vernd barna gegn óheimilu efni.

    1. Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út efni, þar á meðal auglýsingar, um tilefnislaust ofbeldi með trúverðugum blæ eða með klámfengnum myndum á þeim dagskrártíma og á þann hátt að öðru leyti að á því sé veruleg hætta að börn sjái viðkomandi efni.
    2. Nánar skal mælt fyrir um það í reglugerð að sjónvarpsefni, sem ekki er talið við hæfi barna, sé einungis sýnt á nánar tilteknum dagskrártíma eða tryggt sé með einhverjum tæknilegum ráðstöfunum að börn á því svæði, er útsendingin nær til, muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Þegar slíkt dagskrárefni er sent út ólæst skal fara á undan því munnleg viðvörun eða það vera auðkennt með sjónrænu merki allan þann tíma sem útsending stendur yfir.

V. KAFLI
Tekjustofnar útvarpsstöðva.
15. gr.
Tekjustofnar.

    Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með afnotagjaldi, auglýsingum, fjarsöluinnskotum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þeirra.

VI. KAFLI
Auglýsingar, fjarsala og kostun.
16. gr.
Almennar meginreglur.

    1. Auglýsingar skulu vera auðþekkjanlegar sem slíkar og vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni með myndskilti eða hljóðmerki. Hið sama gildir um fjarsöluinnskot.
    2. Duldar auglýsingar eru bannaðar, sem og dulin fjarsöluinnskot.
    3. Í auglýsingum og fjarsöluinnskotum skal ekki beita tækni til að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar.

17. gr.
Tímar fyrir auglýsingar og fjarsöluinnskot.

    1. Almennt skulu auglýsingar fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða. Hið sama skal gilda um fjarsöluinnskot.
    2. Einstök auglýsinga- og fjarsöluinnskot skulu ekki leyfð nema í undantekningartilvikum.
    3. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal vera heimilt að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerði rétt rétthafa, svo sem hér segir:
     a.      Útsendingu dagskrárliða sem samsettir eru úr sjálfstæðum þáttum, íþróttadagskrár eða sambærilega dagskrárliði, sem svipaðir eru að uppbyggingu, er heimilt að rjúfa með auglýsingatíma og fjarsöluinnskotum á þann veg að auglýsingum og fjarsöluinnskotum sé aðeins skotið inn á milli þátta eða í hléum.
     b.      Útsendingu kvikmynda, þar á meðal kvikmynda sem gerðar eru fyrir sjónvarp og eru lengri en 45 mínútur í dagskrá, má rjúfa einu sinni fyrir hvert 45 mínútna tímaskeið með auglýsingatíma eða fjarsöluinnskoti. Heimilt er að rjúfa útsendingu öðru sinni ef sýningartími er meira en 20 mínútum lengri en tvö eða fleiri full 45 mínútna tímaskeið.
     c.      Ef dagskrárliðir, aðrir en þeir sem fjallað er um í a-lið, eru rofnir með auglýsingum eða fjarsöluinnskotum skulu líða a.m.k. 20 mínútur milli auglýsingahléa í sama dagskrárlið.
    4. Óheimilt er að skjóta auglýsingum eða fjarsöluinnskotum inn í útsendingu á guðsþjónustu eða trúarlegri dagskrá, fréttum eða fréttatengdum dagskrárliðum eða dagskrá fyrir börn. Þó er heimilt að rjúfa fréttatengda dagskrárliði ef þeir eru lengri en 30 mínútur.

18. gr.
Takmarkanir á auglýsingatíma í sjónvarpi.

    Í sjónvarpsdagskrám skal hlutfall auglýsingatíma ekki fara yfir 15% daglegs útsendingartíma. Þó má auka þetta hlutfall í 20% ef með eru talin fjarsöluinnskot að undanskildum fjarsöluþáttum í skilningi 19. gr. Hlutfall auglýsinga og fjarsöluinnskota innan tiltekins klukkutímaskeiðs má ekki fara yfir 20%. Hvað þessa grein varðar telst eftirfarandi ekki til auglýsinga:
     a.      Tilkynningar frá sjónvarpsstöð í tengslum við dagskrárefni hennar sjálfrar og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni.
     b.      Tilkynningar um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana sem birtar eru endurgjaldslaust.

19. gr.
Sérákvæði um fjarsöluþætti.

    1. Um fjarsöluþætti í dagskrám sem ekki eru eingöngu helgaðar fjarsölu gilda eftirfarandi ákvæði:
     a.      Þeir skulu standa yfir í að minnsta kosti 15 mínútur órofið.
     b.      Slíkir þættir mega ekki vera fleiri en átta á degi hverjum. Heildarlengd þeirra má ekki vera meiri en þrjár klukkustundir á dag. Þeir skulu vera skýrt auðkenndir sem fjarsöluþættir með hljóðmerkjum og sjónrænt.
    2. Öll ákvæði laga þessara gilda eftir því sem við á og að breyttu breytanda um sjónvarpsdagskrár sem eingöngu eru helgaðar fjarsölu. Auglýsingar eru leyfðar í slíkum dagskrám innan þeirra daglegu marka sem tiltekin eru í 18. gr., þó þannig að a- og b-liðir eiga ekki við.
    3. Ákvæði 4.–8. gr. laga nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu, skulu gilda um fjarsölu samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á.

20. gr.
Vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum.

    1. Útvarpsauglýsingar skulu þannig gerðar og fluttar að þær valdi ekki börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Í útvarpsauglýsingum er óleyfilegt að:
     a.      hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,
     b.      hvetja börn til þess að telja foreldra sína eða aðra á að kaupa vöru eða þjónustu sem auglýst er,
     c.      notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks eða
     d.      sýna börn að tilefnislausu við hættulegar aðstæður.
    2. Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um fjarsöluþætti. Í slíkum þáttum er óleyfilegt að hvetja börn til þess að gera samninga um kaup eða leigu á vöru eða þjónustu.

21. gr.
Kostun.

    1. Heimilt er útvarpsstöð að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða, svo framarlega sem kostandi hefur ekki áhrif á innihald eða efnistök við gerð kostaðs dagskrárliðar og raskar ábyrgð og ritstjórnarlegu sjálfstæði útvarpsstöðvar.
    2. Óheimilt er að kosta fréttaútsendingar og fréttatengt efni.
    3. Nú er dagskrárliður kostaður og má þá efni hans ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostanda eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa slíka vöru eða þjónustu sérstaklega. Heimilt er að ákveða með reglugerð að sérstakar reglur skuli gilda um dagskrárliði sem kostaðir eru af góðgerðar- eða líknarfélögum.
    4. Kostaðar útvarpsdagskrár skulu vera ljóslega auðkenndar sem slíkar með kynningu, nafni og/eða vörumerki kostanda í upphafi og/eða lok dagskrár.
    5. Óheimilt er að aðrir aðilar en sá sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.
    6. Útvarpsdagskrár mega ekki vera kostaðar af aðilum sem bannað er að auglýsa vöru sína eða þjónustu. Þó er framleiðendum og söluaðilum lyfja heimilt að kynna nafn eða ímynd fyrirtækis síns með kostun útvarpsdagskrár, án þess þó að um sé að ræða kynningu á einstökum lyfjategundum eða læknisfræðilegri meðferð.

VII. KAFLI
Aðgangur að almennum fjarskiptanetum.
22. gr.
Aðgangur að almennum fjarskiptanetum.

    1. Nú óskar útvarpsstöð að fá aðgang að kapalkerfi eða öðru almennu fjarskiptaneti sem hagnýtt er til útvarpssendinga, þar á meðal breiðbandi, og skal þá fara með málið svo sem fyrir er mælt í fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, hvort tveggja eftir því sem við á.
    2. Ef þurfa þykir er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um takmörkun á fjölda rása sem útvarpsstöðvar í eigu sömu eða tengdra aðila fá til afnota í framangreindum fjarskiptavirkjum.

VIII. KAFLI
Takmörkun á einkaréttindum.
23. gr.
Aðgangur almennings að þýðingarmiklum viðburðum.

    1. Heimilt er að ákveða í reglugerð að einkaréttindi sjónvarpsstöðva til sjónvarps frá innlendum og erlendum viðburðum, sem taldir eru hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu, sé einungis heimilt að nýta á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum í beinum eða seinkuðum útsendingum án sérstaks endurgjalds. Í reglugerðinni skal vera tæmandi og nákvæm skrá um þá viðburði sem ákvörðun er ætlað að taka til, og skal ákvörðun um skrána tekin með góðum fyrirvara. Í reglugerð skulu enn fremur vera ákvæði um það hvort hinir tilteknu viðburðir skuli vera sýndir í heild eða að hluta í beinum útsendingum, eða í heild eða að hluta í seinkuðum útsendingum, ef það telst nauðsynlegt eða hagfellt vegna þarfa almennings, sem og önnur atriði sem nauðsynlegt þykir að kveða á um.
    2. Sjónvarpsstöð, sem aflar sér einkaréttar sem um ræðir í þessari grein og gildir fyrir Ísland og önnur EES-ríki, skal þegar í stað tilkynna það til útvarpsréttarnefndar sem skal hafa eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.
    3. Bjóði sjónvarpsstöð annarri sjónvarpsstöð að senda út frá viðburði til þess að uppfylla skyldu sína skv. 1. mgr. skal rétturinn boðinn gegn sanngjörnu endurgjaldi.
    4. Rísi ágreiningur milli stöðva sem fullnægja útbreiðsluskilyrðinu og annarrar sjónvarpsstöðvar um endurgjald fyrir sölu sjónvarpsréttarins getur hvor aðili um sig leitað úrskurðar útvarpsréttarnefndar um sanngjarnt endurgjald fyrir réttinn. Endurgjaldið skal nefndin meta með hliðsjón af því hvað telst vera eðlilegt markaðsverð á samkeppnismarkaði fyrir réttindi þau sem um ræðir.
    5.Úrskurði útvarpsréttarnefndar um endurgjaldið verður skotið til dómstóla. Málskot til dómstóla frestar þó ekki framkvæmd á úrskurði útvarpsréttarnefndar, og fær sjónvarpsstöð, sem fullnægir útbreiðsluskilyrðinu, rétt til sýningar frá þeim viðburði sem um er að ræða, enda setji hún tryggingu fyrir greiðslu endurgjaldsins sem útvarpsréttarnefnd metur fullnægjandi.
    6. Heimilt er að ákveða með reglugerð tilteknar takmarkanir á nýtingu sjónvarpsstöðva á einkaréttindum sínum til dreifingar á sjónvarpsútsendingum frá þýðingarmiklum viðburðum þannig að aðrar sjónvarpsstöðvar eigi þess kost með tilteknum skilmálum að flytja stuttar fréttir af þess háttar viðburðum.

24. gr.
Gagnkvæm viðurkenning á reglum EES-ríkja.

    1. Sjónvarpsstöðvum, sem lúta íslenskri lögsögu, er einungis heimilt að nýta einkaréttindi sín til sjónvarps frá viðburðum, sem ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ákveðið að teljist hafa verulega þýðingu í því þjóðfélagi, á þann hátt að meginhluti íbúanna í viðkomandi ríki eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds.
    2. Einkaréttindi skulu nýtt í samræmi við reglur viðkomandi ríkis um útsendingu í heild eða að hluta og um beina eða seinkaða útsendingu frá viðburðunum.
    3. Útvarpsréttarnefnd skal hafa eftirlit með framkvæmd ráðstafana samkvæmt grein þessari.

IX. KAFLI
Ábyrgð á útvarpsefni.
25. gr.
Skylda til varðveislu á frumsömdu útvarpsefni.

    Hver sá sem heimild hefur til rekstrar útvarps samkvæmt lögum þessum skal varðveita í a.m.k. 18 mánuði upptöku af öllu frumsömdu útsendu efni. Þó skal heimilt að varðveita fréttir í handriti. Skylt er að láta þeim sem telur misgert við sig í útsendingu í té afrit af upptöku þeirrar útsendingar. Skylt er að láta útvarpsréttarnefnd í té afrit af upptöku útsendingar samkvæmt ósk nefndarinnar.

26. gr.
Ábyrgð.

    Ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fer um refsi- og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
     a.      Sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni ber ábyrgð á því. Gildir það bæði um efni sem útvarpað er samtímis því að það er flutt og efni sem útvarpað er samkvæmt áður gerðri upptöku. Ákvæði þessarar málsgreinar taka einnig til samtals í útvarpi þannig að hver sem tekur þátt í samtali í eigin nafni ber ábyrgð á sínu framlagi í því.
     b.      Flytjandi ber ábyrgð á efni sem annar maður hefur samið.
     c.      Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu.
     d.      Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.
     e.      Útvarpsstöð ber ábyrgð á greiðslu fésekta og skaðabóta sem starfsmanni stöðvar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein. Má innheimta fésektir og skaðabætur hjá útvarpsstöð með fjárnámi.

27. gr.
Upplýsingaskylda, fyrning sakar o.fl.

    1. Skylt er útvarpsstöð að veita hverjum þeim sem telur rétti sínum hafa verið hallað með útsendingu á útvarpsefni fullnægjandi upplýsingar um hver hafi borið ábyrgð á útsendingunni samkvæmt ákvæðum 26. gr.
    2. Um rétt til málssóknar út af brotum í sambandi við útsendingu útvarpsefnis fer eftir almennum reglum laga. Refsiábyrgð fellur niður ef sex mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber rannsókn út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn.

X. KAFLI
Viðurlög.
28. gr.
Refsingar.

    1. Eftirtalin brot gegn lögum þessum varða fésektum:
     a.      Útvarp án leyfis útvarpsréttarnefndar, sbr. 1. mgr. 6. gr.
     b.      Misbrestur á tal- eða textasetningu efnis á erlendu máli, sbr. 1. mgr. 8. gr.
     c.      Misbrestur á efndum skyldna vegna almannaheilla, sbr. 13. gr.
     d.      Sýning efnis sem bannað er skv. 1. mgr. 14. gr. og misbrestur á varúðarráðstöfunum vegna velferðar barna sem ákveðnar verða í reglugerð skv. 2. mgr. 14. gr.
     e.      Óheimil nýting á einkaréttindum samkvæmt ákvæðum reglugerðar sem sett kann að verða með stoð í 23. gr.
     f.      Óheimil nýting á einkaréttindum skv. 24. gr.
     g.      Misbrestur á efnd skyldu til varðveislu á frumsömdu útvarpsefni og til afhendingar á afriti af upptöku á útsendingu, sbr. 25. gr.
     h.      Misbrestur á efnd upplýsingaskyldu, sbr. 1. mgr. 27. gr.
     i.      Óheimil hagnýting útvarpsefnis, sbr. 32. gr.
     j.      Óheimil meðferð myndlykla, sbr. 33. gr.
    2. Alvarleg eða ítrekuð brot skv. 1. mgr. geta varðað fangelsi.

29. gr.
Upptaka eigna.

    1. Hluti og búnað, sem notaðir hafa verið við brot gegn ákvæðum 33. gr., skal gera upptæka, nema þeir séu eign aðila sem ekki er við brotið riðinn. Ávinning, sem aflað hefur verið með broti, skal gera upptækan. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga forgang til andvirðis hins upptæka ef bætur fást ekki á annan hátt.
    2. Gera má upptæk viðtæki sem notuð hafa verið til hagnýtingar á útvarpsefni í tekjuöflunarskyni, sbr. 32. gr.

30. gr.
Stjórnvaldssektir.

    1. Fari útvarpsstöð ekki að fyrirmælum 9. og 11. gr. og VI. kafla, um auglýsingar, fjarsölu og kostun, varðar það stjórnvaldssektum samkvæmt úrskurði útvarpsréttarnefndar. Gildir þetta nema brot varði refsiviðurlögum samkvæmt öðrum lögum.
    2. Við ákvörðun stjórnvaldssekta skv. 1. mgr. skal m.a. tekið tillit til tekna útvarpsstöðvar af broti. Skal stjórnvaldssekt ákveðin sem tvöfalt til tífalt margfeldi af þeim tekjum sem útvarpsstöð hefur aflað sér með broti gegn VI. kafla laganna.
    3. Sektarúrskurðir útvarpsréttarnefndar eru aðfararhæfir.
    4. Útvarpsstöð getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð útvarpsréttarnefndar. Málskot frestar aðför.
    5. Ef brot gegn þessari grein telst ekki alvarlegt eða er ekki ítrekað getur útvarpsréttarnefnd látið við það sitja að beita áminningu.

31. gr.
Afturköllun útvarpsleyfis.

    Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
32. gr.
Óheimil hagnýting útvarpsefnis.

    Óheimilt er útvarpsnotanda að hagnýta sér útvarpsefni til tekjuöflunar, t.d. með upptöku þess, útgáfu eða með því að selja aðgang að viðtæki sínu.

33. gr.

Myndlyklabrot.


    1. Óheimilt er að framleiða, afhenda, leigja, setja upp eða gera við myndlykla í því skyni að veita einhverjum utan hóps áskrifenda aðgang að innihaldi læstrar útsendingar.
    2. Óheimilt er að nota myndlykil til þess að taka á móti læstri útsendingu án þess að greiða áskriftargjaldið.

34. gr.
Stafrænt útvarp.

    1. Heimilt er menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi.
    2. Útvarpsstöðvum skal gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við undirbúning að stafrænu útvarpi.
    3. Við útgáfu allra nýrra útvarpsleyfa samkvæmt lögum þessum og við endurnýjun annarra útvarpsleyfa skal sett að skilyrði að með reglugerð megi mæla fyrir um breytingu á merkjum útvarpsstöðvar í stafrænt form, enda verði slík breyting ákveðin með eðlilegum fyrirvara að teknu tilliti til tæknilegra og fjárhagslegra ástæðna. Ákvæði þetta gildir einnig um lögbundið leyfi Ríkisútvarpsins.

35. gr.
Setning reglugerðar.

    1. Menntamálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra.
    2. Ákveða má í reglugerð að brot gegn ákvæðum hennar varði refsingu samkvæmt lögum.

36. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi ákvæði útvarpslaga , nr. 68/1985, með síðari breytingum, að undanteknum eftirtöldum ákvæðum laganna sem varða Ríkisútvarpið: 1. mgr. 2. gr., III. kafli, IV. kafli, 31. gr. og 32. gr. Heiti þeirra laga verður: Lög um Ríkisútvarpið. Skulu lögin gefin út svo breytt með nýjum kafla- og greinanúmerum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    1. Þrátt fyrir það sem segir í 2. gr., 3. mgr. 6. gr. og a-lið 4. mgr. 6. gr. í lögum þessum er utanríkisráðuneytinu heimilt að veita varnarliðinu leyfi til áframhaldandi útvarpsrekstrar, sbr. lög nr. 110/1951 og lög nr. 106/1954, og skal þá tekið mið af ákvæðum I.–IV. kafla að svo miklu leyti sem við getur átt.
    2. Núverandi stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva skal sitja áfram eftir gildistöku laga þessara þar til hún hefur lokið starfi sínu, þó ekki lengur en til 31. desember 2001. Hlutverk hennar skal þá einvörðungu vera það að hafa eftirlit með framvindu þegar styrktra verkefna, að framvinda og framkvæmd sé í samræmi við umsóknir og forsendur styrkveitinga, að innheimta ógreidd menningarsjóðsgjöld og að koma að öðru leyti fram fyrir hönd sjóðsins.
    3. Þar til sett hefur verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laga þessara skulu reglugerðir samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem við getur átt.
    4. Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum menntamálaráðuneytisins. Var það lagt fram á 123. löggjafarþingi (371. mál) en varð ekki útrætt. Fyrir framlagningu nú hefur það verið endurskoðað í ljósi athugasemda sem menntamálanefnd Alþingis bárust og nokkrar breytingar gerðar á því. Nefndinni bárust allmargar umsagnir um frumvarpið, og áður en það var lagt fram á síðasta þingi hafði ráðuneytið sent drög að því fjölmörgum aðilum til umsagnar.
    Hér er farin sú leið að leggja fram frumvarp til nýrra útvarpslaga í stað breytinga á einstökum ákvæðum. Þykir það skýrara af ýmsum ástæðum. Um er að ræða nokkuð margar breytingar, þótt misþýðingarmiklar séu, lagðar eru til breytingar á lagagreinum sem áður hefur verið breytt og gert er ráð fyrir nokkurri breytingu á tæknilegri skipulagningu laganna.
    Að stofni til byggist frumvarp þetta á núgildandi útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum.
    Helstu breytingarnar frá núgildandi löggjöf eru þessar:
    1. Með frumvarpi þessu er ætlunin að mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Ekki er þar gert ráð fyrir sérákvæðum um Ríkisútvarpið, eins og eru nú í útvarpslögum, heldur er miðað við að um Ríkisútvarpið gildi sérlög, þó þannig að almenn ákvæði útvarpslaga gildi um Ríkisútvarpið nema annað sé sérstaklega ákveðið.
    2. Hið beina tilefni endurskoðunar útvarpslaga nú er setning nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins 97/36/EB sem breytir sjónvarpstilskipun sambandsins 89/552/EBE. Við endurskoðun útvarpslaga með lögum nr. 82/1993 var að mestu leyti tekið tillit til fyrirmæla í tilskipun 89/552/EBE. Tilskipun 97/36/EB var birt 30. júlí 1997. Tilskipunin var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 82/99 frá 25. júní 1999. Samkvæmt efni sínu tekur sjónvarpstilskipunin aðeins til sjónvarpsmála en ekki til þeirra þátta er varða hljóðvarp. Æskilegt þykir þó að láta sömu reglur gilda samkvæmt útvarpslögum um sjónvarp og hljóðvarp eftir því sem við getur átt.
    3. Tilskipun 97/36/EB hefur meðal annars í för með sér eftirfandi breytingar á íslenskri útvarpslöggjöf:
     a.      Það er skýrt til hvaða sjónvarpssendinga íslensk lögsaga nær, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Ákvæði um þetta efni eru ekki í lögum nú. Reglur tilskipunar 89/552/EBE þóttu ekki nægilega skýrar, spruttu af þeim sökum dómsmál um túlkun þeirra, og hefur verið tekið tillit til niðurstaðna í þeim málum við mótun hinna nýju reglna. Lögsögureglur tilskipunarinnar byggjast á tveimur grundvallarsjónarmiðum: a) frelsi sjónvarpsstöðva innan hvers aðildarríkis EES til þess að sjónvarpa til allra annarra aðildarríkja og b) að sjónvarpsútsendingar eru heimilar um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsending er í samræmi við löggjöf útsendingarríkisins sem á lokaorðið um það. Frá síðarnefnda atriðinu er þó undanþáguheimild í þágu móttökuríkisins, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
     b.      Það nýmæli tilskipunar 97/36/EB, sem hvað mesta athygli hefur vakið, er heimildin í 3. gr. a fyrir hvert aðildarríki EES til þess að gera skrá um tiltekna þýðingarmikla viðburði sem senda skal út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þó að sjónvarpsstöð sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum. Í reynd mun heimild þessi, a.m.k. að sinni, fyrst og fremst geta átt við meiri háttar íþróttaviðburði, innlenda og fjölþjóðlega, svo sem landskeppni, Ólympíuleika, heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu og handknattleik. Er gert ráð fyrir heimild til þess að setja reglugerð um þetta efni í 23. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum kemur fram að gert er ráð fyrir að sjónvarpsstöð uppfylli það skilyrði að hún nái til meginhluta þjóðarinnar ef hin tiltekna útsending nær til a.m.k. 90% allra landsmanna. Gerir þetta að verkum að allar þrjár helstu sjónvarpsstöðvar landsins uppfylla þetta skilyrði, svo framarlega sem útsendingar þeirra eru opnar. Með þessu móti eru afskipti af samkeppni á sjónvarpsmarkaði í lágmarki. Auk þess verða það tiltölulega fáir viðburðir sem skráin um viðburðina getur náð til. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er hugmyndin um upplýsingaþjóðfélagið. Íslenska ríkinu er ekki skylt samkvæmt tilskipuninni að nýta þessa heimild, en rétt þykir að tryggður sé í lögum möguleikinn á að gera það vegna hins mikla áhuga sem ríkir hér á landi á sjónvarpsefni frá meiri háttar íþróttaviðburðum.
     c.      Í beinum tengslum við ákvæði 23. gr. frumvarpsins er ákvæði 24. gr. sem gerir íslenskum sjónvarpsstöðvum skylt að nýta einkaréttindi sín til sjónvarps frá viðburðum, sem ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hefur ákveðið að teljist hafa verulega þýðingu í því þjóðfélagi, á þann hátt að meginhluti íbúanna í viðkomandi ríki eigi þess kost að fylgjast með viðburðunum. Ákvæði í þessa átt er skylt að leiða í íslensk lög samkvæmt tilskipun 97/36/EB.
     d.      Tekin er upp regla þess efnis að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til gerðar evrópskra verka, þar á meðal íslenskra verka, sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum (10. gr. frumvarpsins). Þetta ákvæði er fyrst um sinn aðallega stefnuyfirlýsing, en með því að Menningarsjóður útvarpsstöðva verður lagður niður verður sjónvarpsstöðvum gert auðveldara að fara eftir þessu ákvæði.
     e.      Reglur um auglýsingar og kostun eru gerðar nokkru skýrari en verið hefur. Auk þess er bætt inn ákvæðum um fjarsölu og fjarsöluinnskot, og gilda í meginatriðum sömu reglur um þessi efni og gilda um auglýsingar.
     f.      Tekin eru upp ákvæði um vernd barna gegn óheimilu efni (14. gr.), sem eiga að styrkja gildandi íslensk lög um það efni, sem og um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum (20. gr.), og er þeim ákvæðum ætlað að vera til fyllingar ákvæðum samkeppnislaga.
    4. Þá er það nýmæli í frumvarpinu að menntamálaráðherra er heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi (34. gr). Stafrænt útvarp, sjónvarp og hljóðvarp, er nú hafið í nágrannalöndunum eða er u.þ.b. að hefjast, a.m.k. á tilraunastigi. Hin stafræna tækni gefur mikla möguleika til betri nýtingar tíðnisviðsins en nú og er þannig m.a. meginforsenda þess að fleiri aðilar eigi þess kost að hefja raunverulega samkeppni, sérstaklega í sjónvarpi, auk víðtækari nota af tíðnisviðinu. Þar sem öll nýting VHF-tíðnisviðsins er nú í raun og veru aðeins í höndum tveggja aðila, Ríkisútvarpsins og Íslenska útvarpsfélagsins hf., komast fleiri aðilar ekki að þar. Auk betri nýtingar á tíðnisviðinu mun sá kostur fylgja stafrænu útvarpi að gæði útsendinga aukast til mikilla muna auk fjölmargra annarra kosta, svo sem að skapa möguleika á þáttasölusjónvarpi („pay-per-view“) og kvikmyndapöntun („video on demand“). Hin stafræna tækni er forsenda hins svokallaða samruna („convergence“) sjónvarps, fjarskipta og tölvutækni í eitt svið með óljósum landamærum eða án landamæra. Gera verður ráð fyrir að innleiðing hinnar stafrænu tækni taki allmörg ár og hafi í för með sér verulegan stofnkostnað.
    5. Ætlunin er að ákvæðin um leyfi til útvarps séu gerð fyllri í lögunum en þau hafa verið. Eru tekin upp í frumvarpið ýmis ákvæði um þetta efni sem verið hafa í reglugerð en réttara þykir að mæla fyrir um í lögum.
    6. Hlutverk útvarpsréttarnefndar er aukið frá því sem verið hefur. Skal útvarpsréttarnefnd fylgjast með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt, eins og verið hefur, og hafa að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu (einnig Ríkisútvarpsins). Gert er ráð fyrir að nokkur viðbótarkostnaður verði vegna aukins verksviðs nefndarinnar.
    7. Tekið er upp ákvæði (22. gr.) sem tryggir útvarpsstöðvum aðgang að almennum fjarskiptanetum sem hagnýtt eru til útvarpssendinga. Hefur þótt skorta ákvæði í útvarpslög um rétt útvarpsstöðva til aðgangs að kapalkerfum, og er úr því bætt með þessu ákvæði. Meðal annars er ætlunin að tryggja útvarpsstöðvum aðgang að breiðbandi Landssímans. Um aðgang útvarpsstöðva að fjarskiptanetum fer að öðru leyti samkvæmt fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, þar á meðal um ákvörðun endurgjalds fyrir aðganginn.
    8. Ekki er lengur gert ráð fyrir að leyfi útvarpsréttarnefndar þurfi til endurvarps frá erlendum sjónvarpsstöðvum, heldur verði það Póst- og fjarskiptastofnun sem úthlutar rásum fyrir endurvarp.
    9. Lagt er til að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður. Sjóðurinn hefur verið mjög umdeildur, sérstaklega fjármögnun sjóðsins og ráðstöfun á fé hans, en hún hefur í raun og veru aðeins falist í því að færa fé á milli útvarpsstöðva. Þar sem í gildandi ákvæðum um Menningarsjóðinn (2. mgr. 11. gr. útvarpslaga) er gert ráð fyrir að hlutur Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands greiðist af framlagi Ríkisútvarpsins til sjóðsins þarf að huga sérstaklega að fjáröflun til rekstrar hljómsveitarinnar í tengslum við rekstur Ríkisútvarpsins.
    10. Lagt er til að felld verði brott úr útvarpslögum nokkur ákvæði er varða tengsl útvarpslaga og fjarskiptalaga. Er hér m.a. um að ræða 5. gr. (lagning og not þráðar til útvarps), 6. gr. (m.a. móttaka útvarpsdagskrár um gervitungl) og 7. gr. (heimild útvarpsstöðva til að reisa sendistöðvar o.fl.). Með hliðsjón af fjarskiptalögum frá 1996 þykja þessi ákvæði nú óþörf í útvarpslögum, enda fjalla þau fyrst og fremst um málefni sem heyra undir fjarskiptayfirvöld.
    Í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins verður gerð nánari grein fyrir þeim breytingum sem leiðir af tilskipun 97/36/EB en gert hefur verið hér að framan. Hér þykir þó rétt að fjalla nokkuð frekar um meginsjónarmiðin að baki sjónvarpstilskipun 89/552/ EBE og breytingartilskipuninni við hana, tilskipun 97/36/EB.
    Svo sem fram kemur í inngangsorðum tilskipunar 89/552/EBE er það megintilgangur tilskipunarinnar að tryggja frelsi í sjónvarpssendingum milli aðildarríkja Evrópusambandsins (og nú einnig aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins). Er þetta gert í samræmi við reglur Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um sameiginlegan markað með afnámi hindrana á frjálsri þjónustu milli aðildarríkjanna og að komið verði á fót kerfi er tryggi að samkeppni á svæðinu verði ekki raskað, sbr. einkum 2. mgr. 57. gr. og 66. gr. Rómarsáttmálans, nú 2. mgr. 47. gr. og 55. gr. sáttmálans eftir gildistöku Amsterdamsáttmálans, sbr. 3. kafla í III. hluta EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993. Tilskipun 97/36/EB byggist á sama sjónarmiði og tilskipun 89/552/EBE auk nokkurra nýrra áhersluatriða: Að stuðla að markmiðum hins svokallaða upplýsingasamfélags meðal aðildarríkjanna, að efla gerð hljóð- og myndefnis í Evrópu og samkeppnishæfni slíks efnis á heimsmarkaði, að stuðla að vernd barna og virðingu fyrir manngildi í hljóð- og myndmiðlum og upplýsingaþjónustu og að skýra sérstaklega lögsögu og ábyrgð einstakra aðildarríkja á sviði sjónvarpsmála með staðfestuhugtakið sem grundvallarviðmiðun. Ákvæði sjónvarpstilskipunarinnar fela eins og áður í sér lágmarkskröfur. Aðildarríkjunum er sem fyrr heimilt að krefjast þess af sjónvarpsstöðvum sem undir lögsögu þeirra heyra að þær fari að nákvæmari eða strangari reglum á þeim sviðum er tilskipunin tekur til, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar eins og henni hefur verið breytt.
    Hér er rétt að víkja sérstaklega að efni 2. gr. og 2. gr. a tilskipunar 97/36/EB er geymir fyrst og fremst þjóðréttarlegar reglur en rétt þykir þó að taka að verulegu leyti upp í innanlandsréttinn, í þessu tilviki útvarpslög. Í 1. mgr. 2. gr. er orðuð sú meginregla að hvert aðildarríki um sig skuli sjá til þess að allar sjónvarpsútsendingar, sem sendar eru út af sjónvarpsstöðvum undir lögsögu þess, fari að ákvæðum þeirra laga er gilda um sjónvarpsútsendingar ætlaðar almenningi í því aðildarríki. Þessi regla stendur í beinu sambandi við meginregluna í 1. mgr. 2. gr. a, en þar skuldbinda aðildarríkin sig til þess að tryggja frelsi til viðtöku á sjónvarpsútsendingum frá öðrum aðildarríkjum og setja ekki hömlur á endurvarp þeirra innan yfirráðasvæðis síns af ástæðum er falla undir þau svið sem samræmd eru með tilskipuninni.
    Í þessum tilvitnuðu ákvæðum koma fram tvær grundvallarreglur tilskipunarinnar sem áður var vikið að: a) frelsi sjónvarpsstöðva innan hvers aðildarríkis til þess að sjónvarpa til allra annarra aðildarríkja og b) að sjónvarpsútsendingar eru heimilar um allt Evrópska efnahagssvæðið svo framarlega sem útsending er í samræmi við löggjöf útsendingarríkisins.
    Frá þeirri reglu, að móttökuríki verði að heimila útsendingu innan landamæra sinna á sjónvarpsefni sem löglegt telst í útsendingarríki, verða gerðar undantekningar í vissum þröngum undantekningartilvikum. Skorður við óheftri viðtöku sjónvarpsefnis verða þannig settar tímabundið ef a) sjónvarpsútsending frá öðru aðildarríki brýtur ljóslega, verulega og alvarlega gegn ákvæðum til verndar börnum og allsherjarreglu, b) sjónvarpsstöð hefur á síðustu 12 mánuðum a.m.k. tvívegis áður brotið gegn ákvæðum a-liðar, c) viðtökuríkið hefur tilkynnt sjónvarpsstöðinni og annaðhvort framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, skriflega um meint brot og þær ráðstafanir sem það hyggst grípa til ef brot verður endurtekið og d) samráð við útsendingarríkið og framkvæmdastjórnina eða eftirlitsstofnunina hefur ekki leitt til samkomulags innan 15 daga frá tilkynningu skv. c-lið og framhald er á meintu broti. Um framhald málsins eru svo nánari ákvæði í niðurlagsákvæði 2. gr. a.
    Í 2.–6. mgr. 2. gr. er það ítarlega skilgreint hvaða sjónvarpsstöðvar heyra undir lögsögu hvers aðildarríkis. Er þar fyrst og fremst byggt á staðfestuhugtaki, í aðalatriðum svo sem Evrópudómstóllinn hefur skilgreint það í nokkrum dómum sem gengið hafa út af samsvarandi ákvæði í tilskipun 89/552/EBE. Hefur í dómum þessum verið miðað við að um væri að ræða raunverulega atvinnustarfsemi með föstu aðsetri um ótiltekinn tíma. Má hér sérstaklega nefna tvo dóma frá 10. september 1996 í málum framkvæmdastjórnarinnar gegn Stóra-Bretlandi (mál C-222/94) og gegn Belgíu (mál C-11/95), forúrskurð 29. maí 1997 í máli C-14/96, Paul Denuit, forúrskurð 5. júní 1997 í máli C-56/96, VT4, og forúrskurð 9. júlí 1997 í sameinuðum málum C-34, C-35 og C-36/95 Konsumentombudsmannen gegn De Agostini (Svenska) Förlag AB og TV-Shop i Sverige AB. Er talið rétt að taka nú upp í útvarpslög ákvæði um hvaða skilyrði sjónvarpsstöðvar þurfa að uppfylla til þess að þær falli undir íslenska lögsögu, og verður þar stuðst við fyrrnefnd ákvæði 2.–6. mgr. 2. gr. tilskipunar 97/36/EB. Er ákvæði þetta orðað í 2. gr. frumvarpsins, en ákvæðin um heimild til tímabundinnar stöðvunar á sjónvarpsútsendingum frá EES-ríkjum er að finna í 5. gr. frumvarpsins.
    Það nýmæli tilskipunar 97/36/EB, sem hvað mesta athygli hefur vakið, er heimildin í 3. gr. a fyrir hvert aðildarríki til þess að gera skrá um tiltekna viðburði sem senda skuli út í dagskrá sem meginhluti almennings hefur aðgang að þó að sjónvarpsstöð, sem selur sérstaklega aðgang að efni sínu, hafi keypt einkarétt til sýningar frá þessum viðburðum, sbr. það sem áður sagði almennt um þetta efni. Verður nánar fjallað um þessa heimild í athugasemdum við 22. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði tilskipunarinnar (4. gr.), sem skyldar sjónvarpsstöðvar, eftir því sem við verður komið, til að taka frá meiri hluta útsendingartíma síns fyrir evrópsk verk, er að mestu óbreytt. Skilgreining evrópskra verka í 6. gr. tilskipunarinnar hefur verið víkkuð út svo að til evrópskra verka teljast nú verk sem unnin eru í samvinnu við aðila utan aðildarríkjanna með tilteknum skilyrðum.
    Þá eru tekin upp í tilskipunina nánari ákvæði en áður til verndar börnum gegn sjónvarpsefni sem ýmist er talið geta haft alvarleg skaðvænleg áhrif á þroska þeirra eða til þess fallið að hafa slík áhrif. Verður vikið að þessu efni í skýringu við 14. gr. frumvarpsins.
    Geysilega mikil og ör tækniþróun á sér nú stað um allan heim á sviði sjónvarps og öðrum sviðum sem flokkast undir svokallaða hljóð- og myndmiðlun og upplýsingatækni („audiovisual and information services“). Er sama hver flutningsmiðillinn er, almennt sjónvarp, alnetið með fjarskipta- og tölvutækni eða sérþjónusta ýmiss konar. Evrópuþjóðirnar leggja ríka áherslu á að verða ekki eftirbátar annarra í þessum efnum, og á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins er þetta svið orðið æði fyrirferðarmikið. Ein mesta byltingin í sjónvarpsmálum er sending sjónvarpsefnis, m.a. um gervitungl, stafrænt („digital“) sem gerir það kleift að fjölga svo sjónvarpsrásum að ekki á að verða neinn skortur á sjónvarpsrásum þegar fullur skriður er kominn á þessa tækni. Stafrænar sjónvarpssendingar eru þegar hafnar í Evrópu. Er sérstaklega ör vöxtur í ýmiss konar þjónustu sem send er stafrænt um gervitungl. Nú hafa verið settir staðlar fyrir hvers konar stafrænar útvarpssendingar á vegum Evrópustofnana, m.a. fyrir sjónvarp um þráð og gervitungl og fyrir jarðbundið sjónvarp. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að hafinn verði hér á landi undirbúningur að stafrænu útvarpi, sjónvarpi og hljóðvarpi, sbr. nánar 34. gr. þess. Með frumvarpinu er þannig miðað við að íslensk útvarpslöggjöf sé opin fyrir hvers konar tækniþróun, og í því eru sérstök ákvæði um tengsl útvarpslaga og fjarskiptalaga, sérstaklega með hliðsjón af nýtingu ljósleiðaratækni í þágu sjónvarpssendinga, sbr. VII. kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin er að verulegu leyti samhljóða 1. gr. núgildandi laga. Sú breyting er þó gerð að í greininni eru nú einungis skilgreiningar á hugtökum, en ákvæði greinarinnar, sem varða önnur atriði, eru færð á aðra staði í frumvarpinu. Skal nú vikið að einstökum breytingum.
     a.      Ákvæði 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga er fellt niður þar sem það þykir óþarft. Útvarpslög hljóta að taka mið af fjarskiptalögum í tæknilegum efnum og bera ýmis ákvæði frumvarpsins þess vott, sbr. sérstaklega ákvæði VII. kafla um tengsl útvarpslaga við fjarskiptalög.
                  Í a-lið er nú orðuð skilgreining hugtaksins útvarps, og er hún samhljóða 2. mgr. 1. gr. útvarpslaga. Hugtakið útvarp tekur bæði til hljóðvarps og sjónvarps svo sem verið hefur. Almenna reglan samkvæmt frumvarpinu er sú að sömu reglur gildi um hljóðvarp og sjónvarp svo að útvarpslöggjöfin verði sem heildstæðust. Í nokkrum efnum gilda þó mismunandi reglur um hinar tvær mismunandi tegundir útvarps, og er þess þá sérstaklega getið.
                  Að því er að sjónvarpi lýtur er skilgreiningin í samræmi við skilgreininguna á sjónvarpi í a-lið 1. gr. tilskipunar 89/552/EBE.
     b.      Ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna um útsendingar, sem útvarpslög gilda ekki um, er í frumvarpinu sett í sérstaka grein (4. gr.) þar sem betur þykir fara á því.
                  Í b-lið er skilgreining á hugtakinu „útvarpsstöð“, en skilgreiningin á þessu hugtaki er talsvert breytt frá skilgreiningu hugtaksins í gildandi lögum, sbr. 4. mgr. 1. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985. Þar er það skilgreint sem sá aðili sem leyfi hefur til útvarps samkvæmt lögunum. Hin nýja skilgreining í 1. gr. frumvarpsins hljóðar svo: „Útvarpsstöð er sá aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem leyfi hefur til útvarps, annast og ber ábyrgð á samsetningu útvarpsdagskrár í skilningi a- og c-liða, sendir hana út eða lætur annan aðila annast útsendingu hennar.“ Breytingin er gerð í samræmi við breytingu á áðurnefndri tilskipun 97/36/EB sem við breytinguna á tilskipun 89/552/EBE tók upp nýtt hugtak í 1. gr. b), þ.e. hugtakið „broadcaster“ sem í merkingu tilskipunarinnar þykir rétt að þýða sem „sjónvarpsstöð“ þar sem tilskipunin varðar aðeins sjónvarp. Svo virðist vera sem hugtökin „útvarpsstöð“ og „sjónvarpsstöð“ hafi haft tvenns konar merkingu í íslensku máli, þ.e. bæði náð yfir sendistöð og fyrirtækið sem slíka stöð rekur. Ekki hefur þess orðið vart að þessi hugtakanotkun hafi valdið ruglingi. Er hér því farin sú leið að nota hugtakið „útvarpsstöð“ um þau fyrirtæki sem reka hljóðvarps- og sjónvarpsstöðvar. Gildi sérreglur um sjónvarpsstarfsemi er notað hugtakið sjónvarpsstöð um fyrirtæki sem annast sjónvarpsrekstur. Þykir þessi hugtakanotkun í samræmi við notkun hugtaksins „broadcaster“ í tilskipuninni, en það hefur til dæmis verið þýtt sem „tv-spredningsforetagende“ í hinni dönsku þýðingu tilskipunarinnar og með orðinu „tv-programföretag“ í sænsku þýðingunni. Er gert ráð fyrir notkun hugtaksins sendistöðvar um þá tæknilegu starfsemi að senda dagskrá í loftið, en þetta hugtak er þó hvergi notað í frumvarpi þessu.
     c.      Ákvæði c-liðar um skilgreiningu á því hvað sé útvarpsdagskrá er samhljóða 5. mgr. 1. gr. útvarpslaga.
     d.      Í d-lið er rýmkuð skilgreining á auglýsingum svo að undir auglýsingar falli hvers konar tilkynningar sem útvarpað er í eigin þágu útvarpsstöðvar, auk þeirra tilkynninga sem útvarpað er fyrir aðra aðila gegn endurgjaldi. Er þessi breyting gerð í samræmi við ákvæði tilskipunar 97/36/EB. Í 39. skýringargrein („recital“) í inngangi tilskipunarinnar er kveðið svo á að nauðsynlegt sé talið að taka af tvímæli um það að eigin kynning sjónvarpsstöðvar („self-promotional activities“) sé sérstakt form auglýsingar á framleiðslu, þjónustu, efni eða rásum stöðvarinnar. Hér á landi þykir rétt að láta ákvæði þetta ná einnig til hljóðvarpsstöðva. Í hinni tilvitnuðu 39. skýringargrein tilskipunarinnar er sérstaklega tekið fram að svokallaðar „kynningarstiklur“ eða „stiklur“ („trailers“), sem eru útdrættir eða hlutar úr dagskrárefni, skuli meta sem dagskrárefni, þ.e. ekki sem auglýsingar. Hér þykir rétt að vekja athygli á því að þótt tilkynningar í eigin þágu útvarpsstöðvar falli almennt undir auglýsingahugtakið hefur birting slíkra tilkynninga ekki áhrif til skerðingar á heimilum auglýsingatíma í sjónvarpi, sbr. 18. gr. frumvarpsins.
     e.      Í e-lið er tekin upp óbreytt skilgreining 7. mgr. 1. gr. útvarpslaga á því hvað teljist duldar auglýsingar. Er sú skilgreining efnislega í samræmi við c-lið 1. gr. tilskipunar 89/552/ EBE.
     f.      Í f-lið er því bætt inn í skilgreininguna á kostun að framlag kostanda til sýningar dagskrárefnis skuli vera fémætt til þess að það teljist kostun í skilningi laganna. Er þetta gert til þess að taka af tvímæli um að framlagið þurfi að vera fjárhagslegt, og er það í samræmi við almenna skilgreiningu á kostunarhugtakinu, sbr. d-lið 1. gr. tilskipunar 89/ 552/EBE.
     g.      Í g-lið er tekið upp nýmæli um svokallaða fjarsölu („teleshopping“) í sjónvarpi og hugtakið skilgreint. Svo sem kunnugt er er þessi verslunarmáti nokkuð farinn að tíðkast í sjónvarpi hér á landi. Er ákvæði þetta samkvæmt ákvæði í tilskipun 97/36/EB. Fjarsala er í meginatriðum látin lúta sömu ákvæðum og auglýsingar í tilskipuninni, og svo verður einnig gert í lagafrumvarpi þessu eins og nánar mun koma fram í einstökum ákvæðum þess. Hugtakið fjarsala er þegar komið inn í íslensk lög, sbr. lög nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu. Skv. 4. mgr. 2. gr. þeirra laga merkir fjarsala í lögunum sölu sem fer fram milli kaupanda og seljanda án þess að þeir hittist augliti til auglitis, og getur þetta gerst með notkun síma, bréfsíma, sjónvarps, sölulista og heimatölvu. Ljóst er þó að inntak fjarsöluhugtaksins verður ekki hið sama í lögum nr. 96/1992 og í útvarpslögum. Að sumu leyti verður hugtakið þrengra í útvarpslögum, en að öðru leyti rýmra. Til dæmis verður það þrengra í útvarpslögum að því leyti að eingöngu er gert ráð fyrir að tilboð til kaupanda fari fram um sjónvarp, en ekki með öðrum hætti. Hugtakið verður svo rýmra í útvarpslögum t.d. að því leyti að gert er ráð fyrir að bjóða megi m.a. fasteignir til sölu í fjarsöluþáttum sjónvarps, en svo er ekki í fjarsölu samkvæmt lögum nr. 96/ 1992, sbr. 3. gr. þeirra laga.
                  Hugtakið fjarsöluinnskot, sem er þýðing á hugtakinu „teleshopping spots“ í tilskipun 97/36/EB, er einnig allvíða notað í frumvarpinu. Er með því átt við auglýsingar um fjarsöluþætti.
     h.      Ákvæði h-liðar um læstar útsendingar er samhljóða 9. mgr. 1. gr. útvarpslaga.
     i.      Ákvæði i-liðar um myndlykla er samhljóða 10. mgr. 1. gr. útvarpslaga.


Um 2. gr.

    Í greininni er það skilgreint til hvaða sjónvarpsstöðva lögsaga íslenska ríkisins nær. Er þetta nýtt ákvæði í útvarpslögum. Er greinin orðuð þannig að hún samsvarar efnislega ákvæði 2. gr. sjónvarpstilskipunar Evrópusambandsins eins og henni var breytt með tilskipun 97/36/EB. Þykir rétt að ákvæði um lögsögu íslenska ríkisins á þessu sviði séu tekin upp í íslenskar réttarreglur þannig að upplýsingar um þessi efni séu aðgengilegar almenningi hér á landi í innlendum réttarheimildum, sbr. álit umboðsmanns Alþingis um birtingu og miðlun upplýsinga um „gerðir“ samkvæmt EES-samningnum og réttarreglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, í máli nr. 2151/1997. Í áliti sínu bendir umboðsmaður Alþingis m.a. á það að taka verði upp í íslenskan rétt þær réttarreglur þjóðaréttarins sem ætlunin er að ljá lagagildi hér á landi (bls. 32). Ákvæði um hvaða sjónvarpsstöðvar heyri undir lögsögu íslenska ríkisins hljóta að eiga heima í íslenskum innanlandsrétti.
    Í fyrstu sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins 89/552/EBE kom fram sú meginregla í 1. mgr. 2. gr. að allar sjónvarpsstöðvar í aðildarríkjunum lytu lögsögu einhvers aðildarríkisins. Var þar lögð sú skylda á hvert ríki að sjá til þess að allar sjónvarpssendingar innan lögsögu þess fari að þeim lögum er gilda um sjónvarpssendingar ætlaðar almenningi í því ríki. Er hvert ríki þannig gert ábyrgt gagnvart hinum ríkjunum í þessu efni, enda að aðalreglu til ekki gert ráð fyrir að aðildarríkin hafi eftirlit með eða önnur afskipti af sjónvarpssendingum frá öðrum aðildarríkjum, sbr. 2. mgr. 2. gr. tilskipunar 89/552/EBE. Frá þessari aðalreglu eru tilteknar undantekningar sem vikið var að í almennum athugasemdum hér að framan.
    Framangreindar meginreglur gilda óbreyttar samkvæmt hinni nýju sjónvarpstilskipun 97/36/EB, en reglurnar um ákvörðun þess hvaða ríki er ábyrgt fyrir sjónvarpssendingu hafa verið orðaðar mun nákvæmar og skýrar en áður. Í nýju tilskipuninni er að finna tæmandi lýsingu á þeim reglum sem ætlað er að ákvarða hvaða ríki er ábyrgt fyrir hverri sjónvarpssendingu. Sem fyrr er meginreglan sú að það aðildarríki er ábyrgt gagnvart hinum ríkjunum sem hefur sjónvarpsstöð innan lögsögu sinnar, sbr. 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Við ákvörðun um hvort sjónvarpsstöð telst vera innan lögsögu tiltekins aðildarríkis er fyrst og fremst litið til þess hvar stöðin hefur staðfestu, sbr. nánar a-lið 1. mgr. 2. gr., sbr. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins og 2. og 3. mgr. 2. gr. hinnar breyttu sjónvarpstilskipunar Evrópusambandsins. Er kjarni þessa staðfestuhugtaks sá að um sé að ræða raunverulega atvinnustarfsemi með föstu aðsetri um ótiltekinn tíma, sbr. nánar skilgreininguna í 3. mgr. 2. gr.
    Ef lögsagan verður ekki ákvörðuð á grundvelli staðfestuhugtaks frumvarpsins og tilskipunarinnar ber næst að leitast við að ákveða hana á grundvelli tæknilegra atriða, svo sem þess hvort senditíðni hefur verið úthlutað hér á landi, sbr. nánar b–d-liði 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins og 4. mgr. 2. gr. sjónvarpstilskipunarinnar eftir breytinguna með tilskipun 97/36/ EB.
    Ef lögsagan verður hvorki ákvörðuð samkvæmt staðfestuhugtaki frumvarpsins og tilskipunarinnar né á grundvelli hinna tæknilegu atriða ber að ákveða hana með hliðsjón af hinu almenna staðfestuhugtaki 43. gr. Rómarsáttmálans (52. gr. sáttmálans fyrir gildistöku Amsterdamsáttmálans), sbr. 2. kafla III. hluta EES-samningsins um staðfesturétt, sbr. e-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins og 5. mgr. 2. gr. sjónvarpstilskipunarinnar.
    Loks er svo sérstakt ákvæði um lögsögu íslenska ríkisins yfir sjónvarpsstöðvum, sem öðlast hafa staðfestu í öðru EES-ríki með það að markmiði að fara á svig við íslensk lög, enda beinist starfsemi stöðvarinnar aðallega að Íslendingum og íslenskum markaði, sbr. 2. mgr. 2. gr., og á þessi regla sér stoð í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins.
    Lögsögureglurnar eru ítarlega orðaðar í frumvarpsgreininni svo að ekki er ástæða til frekari útlistunar en að framan greinir. Rétt er þó að benda á að í nokkrum skýringargreinum í inngangi að tilskipun 97/36/EB er vikið að efni hinna nýju reglna sem teknar eru upp í 2. gr. og tilefni þeirra. Í 10. skýringargrein er þannig vitnað til þess að þörf hafi reynst vera á því að skýra betur lögsöguhugtakið og ítrekað að við skilgreiningu þess skuli staðfesta vera meginviðmiðunin. Í 11. skýringargrein segir að staðfestuhugtakið, eins og það hafi verið skýrt af Evrópudómstólnum, feli í sér að um sé að ræða raunverulega atvinnustarfsemi með föstu aðsetri um ótiltekinn tíma. Í 12. skýringargrein eru talin upp nokkur raunhæf viðmið sem beita megi til þess að ákvarða hvar sjónvarpsstöð hafi staðfestu, svo sem aðsetur aðalskrifstofu, þann stað þar sem ákvarðanir um dagskrárstefnu eru venjulega teknar, þann stað þar sem sjónvarpsdagskrá er endanlega samsett og þann stað þar sem er aðsetur verulegs hluta þess starfsliðs sem þarf til útsendingar sjónvarpsefnisins (sbr. a-lið 1. mgr. og 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins). Í 13. skýringargrein er rifjað upp að þrátt fyrir það að tilgangurinn með því að setja fram ákveðnar viðmiðunarreglur hafi verið sá að eitt og aðeins eitt aðildarríki eigi lögsögu yfir tiltekinni sjónvarpsstöð verði með hliðsjón af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og til þess að ekki geti komið upp tómarúm með tilliti til lögsögunnar að leggja til grundvallar sem síðasta viðmið um lögsögu staðfestuhugtakið skv. 52. gr. (nú 43. gr.) og greinunum þar á eftir í stofnsamningi Evrópubandalagsins. Það ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem svarar til 52. gr. (nú 43. gr.) Rómarsáttmálans, er 31. gr. EES- samningsins svo að í frumvarpstextanum, í e-lið 1. mgr. 2. gr., er vísað til 2. kafla III. hluta EES-samningsins um staðfesturétt. Í 14. skýringargrein er svo vitnað til þess að samkvæmt samfelldri dómaframkvæmd Evrópudómstólsins haldi aðildarríki rétti til þess að grípa til aðgerða gegn sjónvarpsstöð með staðfestu í öðru aðildarríki ef starfsemi stöðvarinnar er einvörðungu eða aðallega beint að fyrrnefnda ríkinu svo framarlega sem stöðin hafi valið sér staðfestu í þeim tilgangi að komast undan þeirri löggjöf sem það hefði verið háð ef það hefði haft staðfestu í fyrrnefnda ríkinu (sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins).

Um 3. gr.

    Með grein þessari er orðað sérstakt ákvæði um lögsögu yfir hljóðvarpsstöðvum. Er hér nú orðuð sú regla, sem talin hefur verið gilda, að lögsagan nái til hljóðvarpssendinga þeirra aðila sem nota senditíðni sem íslensk stjórnvöld hafa úthlutað eða dreifikerfi sem staðsett er á Íslandi. Ef vafatilvik kæmu upp mætti að líkindum beita lögsögureglunum um sjónvarpsstöðvar með lögjöfnun um hljóðvarpsstöðvar.

Um 4. gr.

    Hér er tekið upp óbreytt ákvæði 3. mgr. 1. gr. núgildandi útvarpslaga.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að í lög verði tekin upp regla um heimild íslenskra yfirvalda til þess að stöðva tímabundið sjónvarpssendingar frá öðrum EES-ríkjum að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum. Styðst regla þessi við 2. mgr. 2. gr. a sjónvarpstilskipunarinnar eins og henni hefur verið breytt með tilskipum 97/36/EB.
    Í greininni felst undantekning frá þeirri meginreglu um lögsögu yfir sjónvarpsstöðvum samkvæmt reglum sjónvarpstilskipunarinar að viðtökuríki innan EES sé skylt að láta óáreittar sjónvarpssendingar frá öðrum EES-ríkjum sem eru löglegar samkvæmt lögum útsendingarríkisins, en 2. gr. frumvarpsins byggist á þessu sjónarmiði. Er tilgangur ákvæðis 5. gr. að vernda börn fyrir efni sem telst geta haft alvarleg skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska þeirra. Er hér einkum miðað við dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi en er þó ekki takmarkað við slíkt efni. Sú viðmiðun, sem úrslitum ræður, er að efnið teljist geta haft alvarleg skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Í flestum tilvikum væri hér um að ræða efni sem refsivert telst samkvæmt hegningarlögum, sbr. 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Efnið þyrfti þó ekki að vera svo alvarlegs eðlis því að ætlast er til að einnig verði mögulegt að banna tímabundið samkvæmt heimild greinarinnar sjónvarp á efni sem fellur undir 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins.
    Í greininni eru nánari fyrirmæli um hvernig að skuli farið ef íslenska ríkið hyggst beita heimild greinarinnar til þess að stöðva útsendingu hér á landi á efni frá sjónvarpsstöð í öðru EES-ríki. Verður að fara nákvæmlega eftir fyrirmælum greinarinnar, og styðjast þau einnig við fyrrnefnda 2. mgr. 2. gr. a í sjónvarpstilskipuninni.
    Samkvæmt túlkun EFTA-dómstólsins á þessum ákvæðum sjónvarpstilskipunarinnar eru það hin siðferðilegu viðhorf innan viðtökuríkisins sem skulu vera ráðandi í því siðferðilega mati er hér reynir á, en ekki þær siðferðishugmyndir sem ríkjandi eru í útsendingarríkinu, og ekki eru talin vera fyrir hendi nein sameiginleg siðferðisviðhorf í þessum efnum á EES-svæðinu öllu. Má í þessu efni vísa til ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins frá 12. júní 1998 í máli E-8/97: TV 1000 Sverige AB gegn ríkisstjórn Noregs. Álitið byggðist að vísu á túlkun 22. gr. sjónvarpstilskipunarinnar fyrir breytinguna með tilskipun 97/36/EB, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. Mannréttindadómstóll Evrópu og Evrópudómstóllinn hafa einnig talið að hvert ríki hafi mjög rúm valdmörk til ákvarðana þegar um siðferðileg álitaefni er að tefla.
    Í frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd verði falið það hlutverk að stöðva tímabundið þær sjónvarpsútsendingar sem skilyrði greinarinnar eiga við. Er þá miðað við að útvarpsréttarnefnd hafi áður tilkynnt þeirri sjónvarpsstöð, sem í hlut á, um hina yfirvofandi stöðvun. Hins vegar kemur það að sjálfsögðu í hlut ríkisstjórnar að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA eða framkvæmdastjórn ESB, eftir því sem við á, um þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til ef brot eru ítrekuð, sbr. nánar c-lið greinarinnar.
    Grein þessi hefur engin bein áhrif á heimild íslenskra yfirvalda til þess að stöðva móttöku sjónvarpssendinga frá ríkjum utan EES-svæðisins.

Um 6. gr.

    Í greininni er safnað saman ákvæðum er varða leyfi til útvarps, en ákvæði um þetta efni eru nú bæði í 2. og 3. gr. útvarpslaga. Þær breytingar, sem lagðar eru til, hafa flestar ekki mikla efnislega þýðingu.
    Orðalagi 1. og 2. mgr. 2. gr. núgildandi laga er breytt til samræmis við þá fyrirætlun að sérstök lög gildi um Ríkisútvarpið og ákvæði, sem sérstaklega lúta að því, verði tekin út úr hinum almennu útvarpslögum.
    Orðalag 1. mgr. greinarinnar miðast við það að leyfi útvarpsréttarnefndar þurfi einungis til útvarps sem á uppruna sinn hér á landi en ekki til endurvarps. Er það breyting frá gildandi lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. útvarpslaga. Að því er varðar endurvarp frá EES- ríkjum leiðir þessa breytingu af 1. mgr. 2. gr. a í hinni nýju sjónvarpstilskipun. Þar segir að aðildarríkin skuli tryggja frelsi til viðtöku á sjónvarpsútsendingum frá öðrum aðildarríkjum og ekki setja hömlur á endurútsendingar þeirra innan yfirráðasvæðis síns af ástæðum er falla undir þau svið sem eru samræmd með tilskipuninni. Er talið rétt að heimila endurvarp almennt án leyfis útvarpsréttarnefndar, einnig frá öðrum ríkjum en EES-ríkjum. Þykir eðlilegast að láta við það sitja að aðili, sem vill stunda endurvarp, afli sér til þess leyfis rétthafa, sem og leyfis Póst- og fjarskiptastofnunar að því er tæknileg atriði varðar. Er í samræmi við þetta ekki tekið upp í frumvarpið ákvæði í 2. mgr. 2. gr. útvarpslaga, en þar segir að útvarpsréttarnefnd veiti leyfi til starfrækslu útvarps þar sem einvörðungu er dreift viðstöðulaust óstyttri og óbreyttri heildardagskrá útvarpsstöðva. Slík leyfi séu þó einungis háð ákvæðum 5. og 6. gr. eftir því sem við á. Þrátt fyrir afnám leyfisveitingar útvarpsréttarnefndar í þessum efnum verður endurvarp útvarpsefnis ekki sjálfkrafa heimilt hverjum sem er. Í fyrsta lagi þarf að sjálfsögðu heimild frá rétthafa eins og áður sagði. Endurvarp án heimildar yrði stöðvað að kröfu rétthafa. Í öðru lagi verður endurvarpi ekki komið við án atbeina Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. 3. gr. laga nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun, einkum 5. tölul., og 1. mgr. 5. gr. laga um fjarskipti, nr. 143/1996.
    Í 2. mgr. er tekið upp ákvæði 3. mgr. 2. gr. núgildandi laga um skipun útvarpsréttarnefndar. Sú breyting er lögð til að nefndin kjósi sjálf formann og varaformann útvarpsréttarnefndar, en þeir verði ekki skipaðir af menntamálaráðherra eins og verið hefur.
    Með 3. mgr. er lögð til nokkur breyting á ákvæði, sem nú er í 1. mgr. 3. gr. útvarpslaga. Lagt er til að málsgreininni verði breytt á þá leið að ekki verði lengur sérstaklega gert ráð fyrir heimild til þess að veita sveitarfélögum leyfi til útvarps, heldur teljist þau til þeirra lögaðila sem útvarpsréttarnefnd getur veitt leyfi til útvarps. Sveitarfélög hafa ekki sérstaklega sóst eftir útvarpsleyfum, en að sjálfsögðu er við það miðað að þau eigi sama möguleika og aðrir lögaðilar til þess að fá útvarpsleyfi í samræmi við hina frjálslegu framkvæmd sem verið hefur á veitingu útvarpsleyfa. Þá þykir ekki ástæða til annars en að gera ráð fyrir þeim möguleika að einstaklingar geti fengið útvarpsleyfi alveg eins og lögaðilar, m.a. með vísun til jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/ 1995, og skilgreininguna á hugtakinu útvarpsstöð í b-lið 1. gr. frumvarpsins sem er í samræmi við skilgreininguna á sjónvarpsstöð í b-lið 1. gr. sjónvarpstilskipunarinnar svo sem henni var breytt með tilskipun 97/36/EB. Lagt er til að í þessa málsgrein verði bætt ákvæði um gildistíma útvarpsleyfa. Er ákvæði um þetta efni nú aðeins að finna í reglugerð, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 610/1989 um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum. Segir þar að leyfi til hljóðvarps skuli veitt til þriggja ára þegar það er veitt aðila í fyrsta sinn, en eftir það til fimm ára í senn. Samkvæmt sama reglugerðarákvæði skal leyfi til sjónvarps í fyrsta sinn veitt til fimm ára, en eftir það til sjö ára í senn. Veita má leyfi til skemmri tíma sé um það sótt. Rétt þykir að taka í lögin ákvæði um hámark gildistíma einstakra útvarpsleyfa, en kveða að öðru leyti á um gildistíma þeirra í reglugerð. Er gert ráð fyrir að hámarksgildistími útvarpsleyfa verði óbreyttur frá því sem verið hefur samkvæmt reglugerðarákvæðinu.
    Í lok 3. mgr. er orðuð sú regla að heimilt sé að binda útvarpsleyfi við afmörkuð svæði. Í 1. mgr. 3. gr. gildandi útvarpslaga er gert ráð fyrir því að leyfi sé aðeins gefið út til útvarps á afmörkuðum svæðum. Hefur regla þessi valdið nokkrum erfiðleikum í framkvæmd, og hefur t.d. þurft að veita ný útvarpsleyfi til útvarpsstöðva eftir því sem þær hafa náð að auka útbreiðslu sína. Verður að telja þetta óþarft umstang svo að gert er ráð fyrir að útvarpsleyfi nái almennt til landsins alls. Rétt þykir þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að útvarpsleyfi nái aðeins til afmarkaðra svæða, t.d. vegna óska umsækjanda sjálfs.
    Í 4. mgr. eru tilgreind þau almennu skilyrði sem uppfylla þarf til þess að útvarpsleyfi verði veitt hér á landi. Orðalag a-liðar er nú miðað við lagastöðuna samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. B-liður málsgreinarinnar kemur í stað 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. gildandi útvarpslaga, og er ekki um efnisbreytingu að ræða. Orðalagsbreytingar eru gerðar í samræmi við það að samkvæmt lögum nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun, er það nú í verkahring þeirrar stofnunar að úthluta tíðnum, m.a. til útvarpsþjónustu, sbr. 5. tölul. 3. gr. laganna. Fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur verið lagt niður, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 147/1996, og ekki er í lögunum gert ráð fyrir neinu samráði við samgönguráðherra, enda er Póst- og fjarskiptastofnun ætlað að vera sjálfstæð stofnun þótt undir yfirstjórn samgönguráðherra sé, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 147/1996. Þá er það tekið fram berum orðum að átt sé við endurvarp erlendra sjónvarpsstöðva með því endurvarpi sem um er rætt í ákvæðinu. C- og d-liðir eru efnislega óbreyttir frá 6. tölul. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga. Í e-lið er tekið upp ákvæði, sem nú er í 3. gr. reglugerðar nr. 610/1989. Þykir réttara að ákvæði þetta sé í lögum. Efnislega er ákvæði f-liðar nú í 10. gr. reglugerðar nr. 610/1989, en eðlilegra þykir að ákvæði þetta sé í lögum eins og önnur helstu atriði er hafa áhrif á veitingu útvarpsleyfa. Í g-lið er tekið upp ákvæði sem nú er í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 610/1989, en það þykir eiga heima í lögum. H-liður þessarar málsgreinar er nýmæli í útvarpslögunum sjálfum. Í 2. mgr. 5. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 610/1989 er hins vegar mælt fyrir um það að leyfi til útvarps verði ekki framseld. Með vísun til þess sem hér að framan hefur verið getið um ýmis ákvæði reglugerðar nr. 610/1989, sem nú er lagt til að verði lögfest, verður að telja eðlilegra að ákvæði þetta sé í lögum og auk þess gert nokkru fyllra. Meðal annars þykir rétt að kveða á um það berum orðum að útvarpsleyfi falli úr gildi við gjaldþrot útvarpsleyfishafa. Verður sú regla að teljast í eðlilegu samræmi við framsalsbannið. Í reglu h-liðar þessarar málsgreinar felst ekki að útvarpsleyfi falli niður þó að hlutafélög, sem reka útvarp, sameinist, og er sú túlkun í samræmi við framkvæmd mála til þessa. Í slíkum tilvikum getur hins vegar reynt á reglur samkeppnislaga um samruna félaga, sbr. 18. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993.
    Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ekki verði áfram í útvarpslögum regla 8. tölul. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga þar sem segir að gerður skuli samningur milli útvarpsréttarnefndar og útvarpsstöðvar þar sem nánar er kveðið á um ýmis atriði leyfisins. Samkvæmt frumvarpi þessu eiga öll helstu atriði er varða útgáfu útvarpsleyfis að vera í útvarpslögum, en einhver veigaminni atriði verða trúlega áfram í reglugerð. Með þessum breytingum verður sérstakur samningur um útvarpsleyfi óþarfur. Í stað þess verður leyfisveitingin einhliða gerningur útvarpsréttarnefndar á grundvelli þess að skilyrði til útgáfu útvarpsleyfis samkvæmt útvarpslögum og reglugerð samkvæmt þeim séu uppfyllt. Meðal annars er í þessu sambandi fellt út ákvæði um að í samningi útvarpsréttarnefndar og útvarpsstöðvar sé kveðið á um leyfisgjald. Er gert ráð fyrir að leyfisgjald verði ákveðið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs í samræmi við þá stefnu að kveða á um þess háttar leyfisgjöld í þeim lögum. Virðist eðlilegast að ákvæði um gjald fyrir útvarpsleyfi verði bætt í 11. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Var þetta gert við breytingu á nefndu ákvæði á árinu 1998, sbr. 32.–34. tölul. 11. gr. laga nr. 88/1991 svo sem henni var breytt með 3. gr. laga nr. 159/1998.
    Í 2. mgr. 2. gr. útvarpslaga kemur fram að auk þess að veita útvarpsleyfi skuli útvarpsréttarnefnd fylgjast með því að reglum samkvæmt leyfunum sé fylgt. Gildir þetta áfram, en rétt þykir að kveða enn afdráttarlausar á um hlutverk nefndarinnar, og verður hlutverk nefndarinnar með því talsvert aukið. Er lagt til að upphafsákvæði 5. mgr. 6. gr. orðist svo að útvarpsréttarnefnd fylgist með því að reglum samkvæmt útvarpsleyfum sé fylgt og nefndin hafi að öðru leyti eftirlit með framkvæmd laganna, þar á meðal eftirlit með öllum útvarpssendingum er lúta íslenskri lögsögu skv. 2. og 3. gr. Samkvæmt þessu er eftirlitshlutverki nefndarinnar ætlað að ná til allrar útvarpsstarfsemi sem lýtur íslenskri lögsögu, og skiptir engu í því efni hvort nefndin hefur veitt leyfi til starfseminnar eða ekki. Hingað til hefur verið litið svo á að menntamálaráðherra bæri að hafa eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins samkvæmt útvarpslögum auk stjórnsýslulegs eftirlits með stofnuninni. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, yrði það einn aðili sem ætlað væri að hafa allt eftirlit með útvarpsstarfsemi innan íslenskrar lögsögu sem telja verður heppilegt, m.a. með tilliti til þess að gætt verði samræmis í eftirliti með einstökum útvarpsstöðvum.
    Þá er ákveðið í 5. mgr. að útvarpsréttarnefnd geti áskilið að faggilt skoðunarstofa staðfesti skýrslur sjónvarpsstöðva um útsendingu á evrópsku dagskrárefni skv. 7. gr. og um sýningu efnis sem framleitt er af sjálfstæðum framleiðendum, sbr. 10. gr. Verður þannig fylgst með því hvernig íslenskar sjónvarpsstöðvar fylgja fyrirmælum og tilmælum samkvæmt sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins. Er við það miðað að sjónvarpsstöðvarnar sjálfar haldi skýrslur um þessi efni sem útvarpsréttarnefnd geti látið faggilta skoðunarstofu staðfesta, sbr. lög um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, einkum 2. mgr. 11. gr. laganna. Tekið er fram í greininni að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með tæknilegum eiginleikum útsendinga, enda úthlutar sú stofnun senditíðnum, sbr. b-lið 4. mgr. þessarar greinar.
    Lagt er til að í 6. mgr. komi nýtt ákvæði þess efnis að ákvarðanir útvarpsréttarnefndar sæti ekki stjórnsýslukæru. Útvarpsréttarnefnd er þingkjörin, og þykir rétt að undirstrika sjálfstæði hennar með þessu ákvæði. Ákvarðanir nefndarinnar verða hins vegar að sjálfsögðu bornar undir dómstóla og undan þeim kvartað til umboðsmanns Alþingis.
    Í 7. mgr. er lagt til að leitt verði í lög ákvæði, sem nú er í 11. gr. reglugerðar nr. 610/ 1989, þess efnis að kostnaður við starfsemi útvarpsréttarnefndar greiðist úr ríkissjóði. Verður þetta að teljast eðlileg regla, en jafnframt réttara að hún sé í lögum, en ekki einungis í reglugerð. Í umsögn útvarpsréttarnefndar um drögin að frumvarpi þessu er upplýst að kostnaður við störf nefndarinnar nemi nú um 2,5–2,9 millj. kr. á ári, en nefndin hefur haft aðsetur í menntamálaráðuneytinu sem dregið hefur úr rekstrarkostnaði hennar. Undanfarin ár hefur nefndin haft starfsmann í hálfu starfi auk lögfræðilegs ráðgjafa. Innheimt leyfisgjöld vegna útvarpsleyfa voru 1,4 millj. kr. árið 1997, 1,1 millj. kr. árið 1996 og 1,8 millj. kr. árið 1995. Samkvæmt lauslegri áætlun útvarpsréttarnefndar mun kostnaður aukast um 1–1,5 millj. kr. á ári vegna þess aukna hlutverks sem nefndinni er ætlað með frumvarpi þessu. Telur nefndin að vegna aukinna skyldna og vaxandi umsvifa í útvarpsstarfsemi muni nefndin þurfa á að halda starfsmanni í fullt starf auk lögfræðilegs ráðgjafa.

Um IV. kafla.

    Í þennan kafla er safnað saman nokkrum ákvæðum um skyldur útvarpsstöðva. Er þar bæði um að ræða óbreytt ákvæði úr núgildandi lögum og nokkur nýmæli.

    Um 7. gr.

    Í upphafi 1. mgr. er tekið upp ákvæði, sem nú er í 3. tölul. a í 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga, þar sem segir að útvarpsstöðvar skuli stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Því ákvæði er bætt við málsliðinn að útvarpsstöðvar skuli leggja rækt við sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Þá er og lagt til að bætt verði við ákvæði um að þó skuli vera heimilt að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku ef sérstaklega stendur á. Er ákvæði þetta sett til þess að unnt sé að sinna þörfum útlendinga sem hér kunna að dveljast um lengri eða skemmri tíma, og er þá hljóðvarp fyrst og fremst haft í huga. Þykir rétt vegna jafnréttis og tjáningarfrelsis að orða þessa heimild berum orðum í lögum þó að ekki sé gert ráð fyrir ásókn í að reka hér á landi stöðvar til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Frá sjónarmiði málverndar er auðvitað aðalatriðið að starfsmenn þeirra útvarpsstöðva sem útvarpa á íslensku tali rétt og vandað mál.
    Í 2. mgr. er tekið upp, með smávægilegri orðalagsbreytingu, ákvæði 2. málsl. 3. tölul. a í 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga þess efnis að útvarpsstöð skuli kosta kapps um að meiri hluti útsendrar dagskrár sé íslenskt dagskrárefni og dagskrárefni frá Evrópu. Kom ákvæði þetta í útvarpslög með 4. gr. laga nr. 82/1993, og var það sett með vísun til tilskipunar ráðherraráðs Evrópusambandsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur. Tilskipunin var birt sem fylgiskjal II með frumvarpi til laga um breyting á útvarpslögum nr. 68/1985 á 116. löggjafarþingi 1992 (305. mál, þskj. 474), en frumvarp þetta var undanfari laga nr. 82/1993. Að formi til er ákvæði þetta stefnuyfirlýsing þó að ákveðið sé stefnt að því að markmiði yfirlýsingarinnar verði náð „smám saman á grundvelli hæfilegra viðmiðunarreglna“ eins og segir í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 89/552/EBE. Aðildarríkin eiga að skila skýrslum til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, um hvernig gengur að koma á því hlutfalli evrópskra verka sem að er stefnt, og hafa íslenskar sjónvarpsstöðvar nýlega skilað skýrslu um efnið í fyrsta skipti.
    Í 6. gr. tilskipunarinnar var skilgreind merking svokallaðra „evrópskra verka“, en sú skilgreining var ekki tekin upp í útvarpslögin við lagabreytinguna 1993 og heldur ekki í reglugerð samkvæmt þeim. Með áðurnefndri tilskipun 97/36/EB hefur þessari skilgreiningu verið breytt nokkuð. Ekki þykja frekar en áður efni til þess að taka skilgreininguna upp í sjálfan lagatextann. Hins vegar verður að teljast eðlilegt að hana sé að finna í innlendri réttarheimild, sbr. fyrrnefnt álit umboðsmanns Alþingis um birtingu og miðlun upplýsinga um „gerðir“ samkvæmt EES-samningnum og réttarreglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra, í máli nr. 2151/1997. Eru því sett í 3. mgr. greinarinnar fyrirmæli um að skilgreiningin skuli tekin upp í reglugerð.

Um 8. gr.

    Í greininni er tekið upp óbreytt ákvæði 2. og 3. mgr. 3. tölul. a í 2. mgr. 3. gr. núgildandi útvarpslaga sem m.a. mælir fyrir um það að efni á erlendu máli, sem sýnt er í sjónvarpsstöð, skuli jafnan fylgja íslenskt tal eða texti á íslensku eftir því sem við á hverju sinni. Við undantekningarákvæði 2. mgr. er bætt undantekningu í þeim tilvikum þegar útvarpsstöð hefur fengið leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Er undantekning þessi eðlilegur fylgifiskur hins nýja ákvæðis í 1. mgr. 7. gr. sem áður var gerð grein fyrir.

Um 9. gr.

    Í greininni er ítrekuð óbreytt sú grundvallarstefna íslenskra útvarpslaga, sem nú kemur fram í 1. mgr. 3. tölul. b í 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga, að útvarpsstöðvar skuli í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þeim beri að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Í lok þessa málsliðar er lagt til að bætt verði við undantekningu frá reglunni um skyldu allra útvarpsstöðva til þess að stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum. Segir þá að útvarpsstöð, sem fengið hefur útvarpsleyfi í þeim yfirlýsta tilgangi að beita sér fyrir tilteknum málstað, skuli vera óskylt að flytja dagskrárefni sem gengur í berhögg við stefnu stöðvarinnar. Er ákvæði þetta í anda tjáningarfrelsis því að óeðlilegt verður að teljast að þeir sem á réttum forsendum hafa fengið leyfi til útvarpsreksturs til þess að vinna að framgangi einhvers tiltekins málefnis verði neyddir til þess að birta efni sem andstætt er því málefni sem þeir vilja vinna fyrir. Er útvarpsstöðvum í þessu efni játaður sami réttur og t.d. blöðum sem gefin eru út til stuðnings tilteknum málstað og engum dettur í hug að skylt sé að birta efni í andstöðu við baráttumál blaðsins. Hvort sem í hlut eiga útvarpsstöðvar eða blöð verður það að teljast góð blaðamennska og í samræmi við lýðræðislegar grundvallarreglur að ætla andstæðum sjónarmiðum nokkurt rúm, en fráleitt er að gera það að lagaskyldu þegar skilyrði sérákvæðisins er uppfyllt. Skylda til birtingar andsvars skv. 12. gr. frumvarpsins (3. mgr. 3. tölul. b í 2. mgr. 3. gr. núgildandi útvarpslaga) mundi þó einnig gilda í þessum tilvikum.

Um 10. gr.

    Með greininni kemur nýtt ákvæði inn í útvarpslögin. Er það tengt ákvæði 7. gr. um sýningu evrópskra verka. Kjarni ákvæðisins er sá að sjónvarpsstöðvar skuli, eftir því sem unnt er, sjá til þess að minnst 10% af útsendingartíma á ári hverju eða minnst 10% af árlegu dagskrárfé sé varið til evrópskra verka sem framleidd eru af sjálfstæðum framleiðendum. Ákvæðin um þetta efni voru sett í 5. gr. tilskipunar 89/552/EBE að því er sjónvarp varðar. Ekki var tekið tillit til þeirra við setningu laga nr. 82/1993, en um þau getið í hinum almennu athugasemdum frumvarpsins til þeirra laga. Aðeins smávægileg breyting var gerð á þessu ákvæði tilskipunarinnar með tilskipun 97/36/EB. Ber að taka ákvæði um þetta efni inn í lögin, enda ætlast til að íslenskar sjónvarpsstöðvar fari eftir því, þó að formlega sé um stefnuyfirlýsingu að ræða, og gefi skýrslu um framkvæmd sína á þessu fyrirmæli.
    Samkvæmt skýringu í inngangi tilskipunar 89/552/EBE (23. skýringargrein) er ákvæði þessu ætlað að vera hvatning fyrir ný framleiðslufyrirtæki á sviði sjónvarpsefnis, einkum hvatning til stofnunar lítilla og miðlungsstórra fyrirtækja. Með þessu eru talin skapast ný tækifæri og auknir möguleikar á að koma á framfæri skapandi hæfileikafólki og fjölga störfum til handa þeim sem vinna að menningarmálum. Enn fremur segir að skilgreining aðildarríkjanna á hugtakinu óháður framleiðandi ætti að taka mið af framangreindu markmiði með tilhlýðilegu tilliti til lítilla og meðalstórra framleiðenda og með því að gera kleift að heimila fjárhagslega þátttöku dótturfyrirtækja í dagskrárgerð sjónvarpsstöðva. Ekki er enn til nein einhlít skýring á því hverjir teljast vera „sjálfstæðir framleiðendur“. Ljóst er þó að átt er við fyrirtæki í myndefnisframleiðslu á Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki eru í eigu sjónvarpsstöðvar, nema þá að einhverju litlu leyti, og ekki framleiða svo mikinn hluta efnis síns fyrir einstakar sjónvarpsstöðvar að framleiðendurnir geti talist þeim háðir fjárhagslega. Til viðbótar þessum atriðum kemur það fram í 31. skýringargrein við tilskipun 97/36/EB að einnig skuli litið til þess hver sé handhafi afleiddra réttinda. Á vegum samstarfsnefndar aðildarríkjanna um framkvæmd sjónvarpstilskipunarinnar, sem komið var á fót á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með tilskipun 97/36/EB (23. gr. a), er unnið að skilgreiningu á hugtakinu „sjálfstæður framleiðandi“ sem gilt geti a.m.k. í stórum dráttum fyrir aðildarríkin. Þykir rétt að bíða eftir því að sú vinna komist lengra áleiðis, og er því lagt til að skilgreining hugtaksins verði ákveðin með reglugerð hér á landi. Geta má þess að í frumvarpi til útvarpslaga, sem nýlega hefur verið kynnt í Finnlandi, er framleiðandi sjónvarpsefnis talinn vera sjálfstæður framleiðandi ef ein sjónvarpsstöð á ekki meira en ¼ hluta hlutafjár í félaginu eða tvær eða fleiri sjónvarpsstöðvar eiga ekki meira en helming hlutafjárins, enda hafi framleiðandinn á seinustu þremur árum ekki framleitt meira en 9/ 10 hluta af sjónvarpsefni sínu fyrir sömu sjónvarpsstöð. Má sjálfsagt hafa þessa finnsku skilgreiningu til hliðsjónar við setningu reglugerðarákvæðis hér á landi ef ekki liggur fyrir sameiginleg skilgreining EES-ríkjanna þegar þar að kemur.

Um 11. gr.

    Í greininni er aukið við ákvæði sem mælir fyrir um að andsvör skuli send út innan hæfilegs tíma frá því að rök voru færð fyrir beiðninni og á þeim tíma og með þeim hætti sem hæfir þeirri útsendingu er beiðnin tekur til. Er ákvæði þessu ætlað að styrkja andsvararétt þeirra sem telja útvarpsstöð brjóta gegn lögmætum hagsmunum sínum, einkum orðspori og mannorði, af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í útvarpsdagskrá. Ákvæði þetta á rót sína í aukinni vernd andsvarsréttar í tilskipun 97/36/EB, sem breytti 1. mgr. 23. gr. tilskipunar 89/552/EBE.

Um 12. gr.

    Í greininni er tekið upp meginefni 3. mgr. 3. tölul. b í 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga um kæru til útvarpsréttarnefndar vegna þeirra atriða sem greinir í 9. og 11. gr. frumvarpsins. Þó að úrskurður útvarpsréttarnefndar sé endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi eiga þeir sem telja að útvarpsréttarnefnd hafi ekki rétt hlut þeirra kost á því að leggja mál sín fyrir umboðsmann Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997, sem og að höfða mál fyrir dómstólum til þess að leita réttar síns, sbr. athugasemdir við 6. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.

    Í greininni er tekið upp óbreytt ákvæði 4. tölul. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga um skyldu útvarpsstöðva til þess að birta tilkynningar frá almannavörnum o.fl. og gera hlé á dagskrá ef almannaheill krefst. Þó er því bætt við að tilkynningar þessar skuli birtar endurgjaldslaust. Mun þetta vera í samræmi við framkvæmd mála hjá öllum útvarpsstöðvum, en rétt þykir að orða skilyrðið í lögum.

Um 14. gr.

    Í greininni er bætt við strangari skilyrðum en áður hafa verið í útvarpslögum til verndar börnum, en ákvæði um þetta efni eru nú í 5. tölul. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga. Eru hin nýju skilyrði í samræmi við 22. gr., 22. gr. a og 22. gr. b í tilskipun 89/552/EBE eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 97/36/EB. Sum atriði tilskipunar 97/36/EB eru þess eðlis að þeim er þegar fullnægt í íslenskri löggjöf, t.d. í almennum hegningarlögum. Þeim ákvæðum til viðbótar er mælt fyrir um það í 1. mgr. 14. gr. að sjónvarpsstöðvum skuli vera óheimilt að senda út efni um tilefnislaust ofbeldi með trúverðugum blæ eða með klámfengnum myndum á þeim dagskrártíma og á þann hátt að öðru leyti að á því sé veruleg hætta að börn sjái viðkomandi efni. Þá er gert ráð fyrir því í 2. mgr. að reglur í samræmi við önnur ákvæði tilskipunarinnar verði settar með reglugerð. Enn önnur ákvæði tilskipunarinnar eru fyrst og fremst stefnumarkandi til athugunar á næstu árum og ekki ætlast til reglusetningar um þau á þessu stigi málsins, sbr. sérstaklega 22. gr. b og 42. skýringargrein í inngangi tilskipunarinnar.
    Til frekari skýringar á ákvæðum 14. gr. þykir rétt að gera hér nánari grein fyrir helstu ákvæðum tilskipunar 97/36/EB í þeim kafla hennar (V. kafla) sem varðar vernd barna og allsherjarreglu („Protection of minors and public order“).
    Í 1. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar er svo fyrir mælt að aðildarríkin, þ.e. aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins, skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að útsendingar sjónvarpsstöðva, sem heyra undir lögsögu þeirra, innihaldi ekkert dagskrárefni sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni, sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Telja verður að nú þegar sé þessu ákvæði fullnægt í íslenskum lögum, sbr. t.d. refsiákvæði 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 126/1996, um klám og barnaklám, og 1. gr. laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 47/1995. Í 41. skýringargrein tilskipunar 97/36/EB er tekið fram að ekki sé sérstaklega ætlast til fyrirframskoðunar („prior control“) sjónvarpsútsendinga til þess að framfylgja ákvæðum tilskipunarinnar um vernd barna og allsherjarreglu. Hins vegar er á vettvangi Evrópusambandsins mikil áhersla á það lögð að auk annarra ráðstafana, svo sem fræðslu fyrir foreldra og tæknilegra ráðstafana, beiti stjórnvöld í aðildarríkjunum sér fyrir eftirlitskerfi til verndar börnum á vegum þeirra aðila sjálfra sem hafa hljóð- og myndefni á boðstólum, hvort sem það er í sjónvarpi, á alnetinu eða öðrum þess háttar miðlum („self-regulation“). Má hér sérstaklega benda á „Communication from the Commission to the Council, the European Parliament, the Economic and Social Committee and the Committee of the Regions on the follow- up to the Green paper on the protection of minors and human dignity in audiovisual and information services including a Proposal for a Council Recommendation concerning the protection of minors and human dignity in audiovisual and information services.“ (Brussel, 18.11. 1997. COM (97) 570.)
    Í 2. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar er tekið fram að þær ráðstafanir, sem kveðið er á um í 1. mgr. 22. gr., skuli einnig ná til annars dagskrárefnis sem hætta er á að skaði líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska barna, nema þegar tryggt er með vali á útsendingartíma eða með einhverjum tæknilegum ráðstöfunum að börn á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar. Er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þessu ákvæði verði fullnægt með því að menntamálaráðherra mæli í reglugerð fyrir um útsendingartíma eða tæknilegar ráðstafanir er stuðli að því að börn muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá sjónvarpsútsendingar sem ekki eru taldar við þeirra hæfi.
    Í 3. mgr. 22. gr. tilskipunarinnar er mælt svo fyrir að aðildarríkin skuli sjá til þess, þegar dagskrárefni sem ekki er talið við hæfi barna samkvæmt greininni er sent út ólæst, að á undan því fari hljóðræn viðvörun eða það sé auðkennt með sjónrænu merki allan tímann sem útsending stendur yfir. Er fyrirmæli þessu fullnægt með lokaákvæði 14. gr.
    Í 22. gr. a í tilskipuninni er mælt fyrir um það að aðildarríkin skuli sjá til þess að sjónvarpsútsendingar kyndi ekki undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, trúarskoðana eða þjóðernis. Ekki verður talið að Íslendingar þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til viðbótar þeim sem þegar hafa verið gerðar til þess að fullnægja þessu ákvæði. Lagaskyldur í þessu efni eru uppfylltar með ákvæði 233. gr. a í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 96/1973 og 2. gr. laga nr. 135/1996. Í þessu tilvitnaða ákvæði segir að sá skuli sæta nánar tiltekinni refsingu sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á mann eða hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar.
    Í 1. mgr. 22. gr. b í tilskipuninni eru fyrirmæli um það að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli gefa beitingu kaflans um vernd barna og allsherjarreglu sérstakan gaum í skýrslu, sem framkvæmdastjórnin á að leggja fram eigi síðar en 31. desember árið 2000, og á tveggja ára fresti eftir það, um beitingu tilskipunarinnar í heild og, ef nauðsyn ber til, gera frekari tillögur um aðlögun hennar að þróun mála á sviði sjónvarpsreksturs, einkum í ljósi nýlegrar tækniþróunar.
    Í 2. mgr. 22. gr. b segir að framkvæmdastjórnin skuli innan eins árs frá birtingardegi tilskipunarinnar, í samráði við lögbær yfirvöld aðildarríkjanna, láta fara fram rannsókn á hugsanlegum kostum og göllum þess að gerðar verði frekari ráðstafanir með það í huga að auðvelda foreldrum og forráðamönnum að hafa eftirlit með því sjónvarpsefni sem börn kunna að horfa á. Athugunin á m.a. að taka til þess hversu æskilegt sé að krefjast þess að ný sjónvarpstæki hafi búnað sem geri foreldrum eða forráðamönnum kleift að loka fyrir tiltekið dagskrárefni, að koma upp viðeigandi matskerfum, að hvetja til fjölskyldustefnu um áhorf auk annarra ráðstafana sem miða að því að fræða fólk og efla vitund þess og að taka tillit til reynslu sem hefur verið aflað á þessu sviði í Evrópu og víðar og viðhorfa hagsmunaaðila eins og sjónvarpsstöðva, framleiðenda, skólamanna, sérfræðinga um fjölmiðlun og þeirra samtaka sem máli skipta.
    Í ákvæðum 22. gr. b í heild felast ýmist fyrirmæli til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eða vilja- og stefnuyfirlýsingar aðildarríkjanna. Meðal annars er ljóst af ákvæðum greinarinnar að fyrirsvarsmenn Evrópuríkja vilja fylgjast náið með þróun tæknibúnaðar (t.d. hinnar svonefndu v-flögu) sem gerir það mögulegt fyrir foreldra og aðra forráðamenn barna að hafa áhrif á það hvaða sjónvarpsefni börn horfa á þó að magn sjónvarpsefnis og fjöldi sjónvarpsrása hafi til þessa dregið mjög úr möguleikunum í þessu efni. Það er sömuleiðis greinilegt að fyrirsvarsmenn Evrópuríkja telja mikilvægt að ábyrgð foreldra á aðgangi barna þeirra að sjónvarpsefni verði aukin, bæði með fyrrnefndum tækniráðstöfunum og virku eftirliti foreldra með sjónvarpsnotkun barna sinna. Eins og sakir standa eru engin þessara atriða fallin til löggjafar hér á landi frekar en í öðrum Evrópuríkjum, en mál þessi verða í stöðugri endurskoðun eins og beinlínis kemur fram í tilskipuninni.

Um 15. gr.

    Í grein þessari eru taldir upp tekjustofnar útvarpsstöðva af reglulegum rekstri sínum. Er greinin að verulegu leyti sama efnis og 1. mgr. 4. gr. gildandi útvarpslaga, þó þannig að bætt er við tekjum af fjarsöluinnskotum og kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni útvarpsstöðva, svokallaðri stoðframleiðslu, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 19. gr. Hins vegar er fellt brott ákvæði 1. mgr. 4. gr. útvarpslaga um tekjur útvarpsstöðva af „sérstöku gjaldi vegna framleiðslu fræðslu- og skýringarefnis“. Er ekki vitað til að þetta hafi verið raunverulegur tekjustofn hjá útvarpsstöðvum.

Um VI. kafla

    Í stórum dráttum eru ákvæði 16.–18. gr. frumvarpsins sama efnis og 2.–7. mgr. 4. gr. gildandi útvarpslaga. Ákvæði þessara greina skulu eftirleiðis gilda um svokölluð fjarsöluinnskot („teleshopping spots“) auk hefðbundinna auglýsinga, og er orðalagi breytt því til samræmis. Til gleggra yfirlits um efni ákvæðanna hefur 4. gr. útvarpslaga verið skipt í fleiri greinar í frumvarpinu. Ákvæði 19. og 20. gr. frumvarpsins eru nýmæli í útvarpslögum.

Um 16. gr.


    Í þessari grein eru orðaðar nokkrar meginreglur um gerð og birtingu auglýsinga og fjarsöluinnskota. Er hér um að ræða fyrirmæli um að auglýsingar eigi að vera auðgreinanlegar frá dagskrárefni, bann við duldum auglýsingum og bann við beitingu þeirrar tækni í auglýsingum að hafa áhrif á fólk neðan marka meðvitaðrar skynjunar. Nú er þessar reglur að finna í 2. mgr., 6. mgr. og 7. mgr. 4. gr. útvarpslaga að því er auglýsingar varðar, en samkvæmt frumvarpsgreininni eru þær einnig látnar ná til fjarsöluinnskota.

Um 17. gr.

    Í greininni eru teknar upp reglur um auglýsingatíma og heimildir til rofs á dagskrárliðum til flutnings á auglýsingum og fjarsöluinnskotum. Aðalreglan verður áfram sú að auglýsingar verði fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum á milli dagskrárliða, sbr. 1. mgr. greinarinnar og 2. mgr. 4. gr. útvarpslaga.
    Af framangreindri meginreglu leiðir meðal annars að flutningur einstakra auglýsinga milli dagskrárliða er óheimill, auglýsingar á að flytja fleiri saman í heild. Lagt er til að í 2. mgr. verði tekin upp heimild til undantekningar frá reglu 1. mgr. þannig að einstök auglýsinga- og fjarsöluinnskot verði heimil í undantekningartilvikum. Er fyrst og fremst ætlast til að undanþágunni verði beitt, ef um er að ræða óvenjulega langar auglýsingar, t.d. 10–15 mínútna langar. Þessi undantekningarregla er í samræmi við 2. mgr. 10. gr. í sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins.
    3. og 4. mgr. greinarinnar eru í samræmi við 3. og 4. mgr. 4. gr. útvarpslaga með einni undantekningu. Er lagt til að í lok 4. mgr. verði bætt við ákvæði um að heimilt sé að rjúfa fréttatengda dagskrárliði, ef þeir eru lengri en 30 mínútur. Er þessi breyting í samræmi við 5. mgr. 11. gr. tilskipunar 89/552/EBE, en ákvæði um þetta efni var ekki tekið í útvarpslögin við endurskoðun þeirra árið 1993. Í reynd eru mikil brögð að því að fréttatengdir þættir í sjónvarpi séu rofnir með auglýsingum, og þykir rétt að heimila það í lögum, þó með framangreindri takmörkun. Af ákvæðinu leiðir að ekki er heimilt að rjúfa fréttatíma með auglýsingum en það er nú gert í framkvæmd.

Um 18. gr.


    Grein þessi um takmarkanir á auglýsingatíma í sjónvarpi svarar til 5. mgr. 4. gr. útvarpslaga með nokkrum breytingum. Í fyrsta lagi er ákvæðinu breytt þannig að það taki jafnt til fjarsöluinnskota sem auglýsinga, svo sem gert er endranær í frumvarpinu. Í öðru lagi eru tekin upp í greinina tvö sérákvæði um tilkynningar sem ekki skuli teljast til auglýsinga í sjónvarpi og að sá tími, sem til þessara tilkynninga er varið, skuli þar með ekki dragast frá heimilum auglýsingatíma sjónvarpsstöðva. Er hér annars vegar um að ræða tilkynningar frá sjónvarpsstöðvunum sjálfum í tengslum við dagskrárefni þeirra og stoðframleiðslu sem leiðir beint af því efni (a-liður). Með stoðframleiðslu („ancillary products“) er átt við framleiðslu eða vörur sem beinlínis tengjast dagskrárefni, svo sem myndbönd, sem gerð eru eftir sjónvarpsþáttum, og bækur er tengjast tungumálakennslu í sjónvarpi. Hins vegar er svo um að ræða tilkynningar sem birtar eru endurgjaldslaust um opinbera þjónustu og hjálparbeiðnir líknarstofnana (b-liður). Breyting þessi samrýmist 3. mgr. 18. tilskipunar 89/552/EBE eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 97/36/EB.

Um 19. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru nýmæli. Fyrirmæli 1. mgr. varða fjarsöluþætti í dagskrám sem ekki eru eingöngu helgaðar fjarsölu, þ.e. fjarsöluþætti í venjulegum sjónvarpsdagskrám. Er tilgangur ákvæðisins tvíþættur, annars vegar að tryggja það að ekki fari á milli mála að um slíka þætti sé að ræða og hins vegar að setja fyrirferð slíkra þátta nokkrar skorður í sjónvarpsdagskrám. Fyrirmæli 2. mgr. varða sjónvarpsdagskrár sem eingöngu eru helgaðar fjarkaupum, en slíkar dagskrár hafa ekki tíðkast hingað til hér á landi. Gilda almenn ákvæði laganna um slíkar dagskrár eftir því sem við á, þó þannig að örlítið þrengri mörk eru sett á daglega auglýsingatíma en gilda um aðrar sjónvarpsdagskrár. Ákvæði þessarar greinar eiga fyrirmynd sína í 18. gr. a og 19. gr. tilskipunar 89/552/EBE, svo sem henni hefur verið breytt með tilskipun 97/36/EB.
    Í 3. mgr. er ákveðið að ákvæði 4.–8. gr. laga nr. 96/1992 um húsgöngu- og fjarsölu skuli gilda um fjarsölu, sem hér um ræðir, eftir því sem við á. Er hér um að ræða neytendaverndarákvæði, og þykir rétt að taka af öll tvímæli um að þau gildi um fjarsölu þá sem um ræðir í frumvarpi þessu.

Um 20. gr.

    Með grein þessari er ætlunin að leiða í lög reglur um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum í útvarpi. Reglur greinarinnar eru efnislega í samræmi við 16. gr. sjónvarpstilskipunarinnar, en eru hér látnar taka til auglýsinga bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi. Efnislega skarast frumvarpsgreinin og 3.–5. mgr. 22. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, sem ætlað er að vernda börn gegn óeðlilegum ágangi af hvers konar auglýsingum.
    Rík ástæða er til þess að setja nokkrar skorður við markaðssetningu sem ætlað er að hafa áhrif á börn. Börnum hættir til trúgirni vegna reynsluleysis síns og þekkingarskorts. Jafnframt eru börn áhugaverður markhópur margra auglýsenda þar sem þau eru framtíðarneytendur. Óskir barnanna hafa ekki einungis áhrif á kaup fyrir þau sjálf, heldur einnig á innkaupamynstur allrar fjölskyldunnar. Verður að gæta þess svo sem kostur er að með auglýsingum sé forráðamönnum barna ekki gert erfitt fyrir við ákvarðanir um kaup á vörum og þjónustu í þágu barnanna og fjölskyldunnar allrar eða að láta kaup hjá líða.
    Efni greinarinnar er skýrt og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 21. gr.

    Grein þessi fjallar um kostun dagskrárefnis í útvarpi. Ákvæði greinarinnar er að mestu í samræmi við 4. gr. a útvarpslaga, en greininni er skipt í fleiri málsgreinar, og er það gert til þess að auðvelda yfirlit um efnið. 1. og 2. mgr. greinarinnar er efnislega samhljóða upphafsákvæði 1. mgr. 4. gr. a útvarpslaga.
    Í 2. mgr. er tekin upp sú regla sem nú er í 1. mgr. 4. gr. a útvarpslaga, um bann við kostun fréttaútsendinga og fréttatengds efnis.
    Í 3. mgr. er hnykkt nokkuð á orðalagi 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. a útvarpslaga þar sem nú segir á þessa leið: „Nú er dagskrárliður kostaður og má þá efni hans ekki fela í sér hvatningu til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu kostunaraðila.“ Er lagt til að við bætist orðin „eða annars aðila, t.d. með því að auglýsa líka vöru eða þjónustu sérstaklega“. Er þetta orðalag í samræmi við c-lið 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 89/552/EBE. Of mikið er um það að kostunarauglýsingar hér á landi séu jafnframt auglýsingar um vöru eða þjónustu kostanda, sem er andstætt tilgangi kostunarheimildarinnar, þ.e. að gefa fyrirtækjum færi á að kynna ímynd sína um leið og þau leggja fé af mörkum til dagskrárgerðar. Þykir verða að fylgja reglum þessum betur eftir en gert hefur verið.
    Ákvæði 4. mgr. er samhljóða 2. mgr. 4. gr. a í útvarpslögum, þó þannig að breytt er orðun ákvæðisins í þá átt að fyrirmæli um auðkenningu kostaðrar dagskrár er látið ná til hvers konar útvarpsdagskrár, en ekki einungis til sjónvarpsdagskrár.
    Ákvæði 5. mgr. er samhljóða 7. tölul. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga.
    Í 6. mgr. er nýmæli, og er það í samræmi við 3. mgr. 17. gr. tilskipunar 89/552/EBE eftir breytingu með tilskipun 97/36/EB. Hið raunverulega nýmæli ákvæðisins er það að framleiðendum og söluaðilum lyfja skuli vera heimilt að kynna nafn eða ímynd fyrirtækis síns með kostun útvarpsdagskrár, þó þannig að ekki sé um að ræða kynningu á einstökum lyfjategundum eða læknisfræðilegri meðferð. Aðalreglan skv. VI. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994, er sú að bannaðar eru hvers konar lyfjaauglýsingar (13. gr.). Frá þessu banni eru þó ýmsar undantekningar, og þykir sú heimild til kostunar, sem hér er gert ráð fyrir, vera í góðu samræmi við þær undantekningar, sbr. einkum 16. gr. laganna.

Um VII. kafla.

    Svo sem kunnugt er færast fjarskipti, útvarp og jafnvel tölvunotkun nær hvert öðru í nútímaupplýsingatækni svo að margir telja að á endanum muni þessi svið jafnvel renna saman. Við þessa endurskoðun útvarpslaga er ekki tilefni til þess að horfa til þess tíma, enda má gera ráð fyrir að hin hraða tækniþróun geri það nauðsynlegt að endurskoða útvarpslög og fjarskiptalög oftar en gert hefur verið til þessa. Í ákvæðum þessa kafla er aðeins litið til þeirrar þróunar sem nokkuð fyrirsjáanleg virðist vera. Í hinni nýju sjónvarpstilskipun 97/36/EB eru engin bein ákvæði, sem varða hin nýju svið upplýsingatækninnar. Í 7. skýringargrein í inngangi tilskipunarinnar er hins vegar að því vikið að hvers konar lagasetning um nýja þjónustu á sviði hljóð- og myndmiðlunar („audiovisual services“) verði að samrýmast því meginmarkmiði tilskipunarinnar að skapa lagalegan ramma fyrir frjálsa þjónustustarfsemi („free movement of services“). Í 8. skýringargrein er því enn fremur lýst yfir að aðildarríkin skuli gera ráðstafanir varðandi þjónustustarfsemi er svipi til ráðstafana um sjónvarpssendingar, í því skyni að koma í veg fyrir brot á þeim grundvallarreglum sem gilda beri um upplýsingar og sporna við því að til meiri háttar ósamræmis komi innan sviða frjálsra flutninga og samkeppni. Á vegum Evrópusambandsins er nú mikið fjallað um samruna fjölmiðlunar, fjarskipta og upplýsingatækni og áhrif þessa samruna á setningu reglna um þessi svið með hliðsjón af þróun upplýsingasamfélagsins. Svokölluð Grænbók Evrópusambandsins um samruna kom út 3. desember 1997. Nefnist skýrsla þessi „Green Paper on the Convergence of the Telecommunications, Media and Information Technology Sectors, and the Implications for Regulation — Towards an Information Society Approach“. Þær hugmyndir, sem settar eru fram í Grænbókinni, verða til meðferðar hjá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins á næstu missirum.

Um 22. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er mælt fyrir um atriði er varðar raunhæf tengsl milli útvarpslaga og fjarskiptalaga, aðgang útvarpsstöðva að almennum fjarskiptanetum fyrir starfsemi sína. Í núgildandi útvarpslögum er ekki að finna nein ákvæði um rétt útvarpsstöðva til aðgangs að kapalkerfum eða almennum fjarskiptanetum sem hagnýta má til útvarpssendinga, aðeins ákvæði 5. gr. laganna, um heimild útvarpsstöðva til lagningar þráðar samkvæmt heimild sveitarstjórna og um lagningu og not þráðar í því skyni eingöngu að dreifa viðstöðulaust dagskrárefni útvarpsstöðva óbreyttu og óstyttu.
    Með hliðsjón af fyrirhugaðri útbreiðslu á breiðbandi Landssímans um landið verður að telja tímabært að kveða skýrt á um rétt útvarpsstöðva til þess að nýta sér breiðbandið og önnur almenn fjarskiptanet og eftir hvaða reglum farið skuli við tengingu útvarpsstöðva við almenn fjarskiptanet. Breiðbandið mun ásamt stafrænum útvarpssendingum hafa mikla þýðingu fyrir þróun og möguleika útvarpsstöðva í landinu á komandi árum.
    Breiðband er þjónusta eða tenging sem gerir mögulegt að flytja umtalsvert magn upplýsinga, svo sem sjónvarpsmyndir. Breiðbandsnet hafa flutningsgetu sem svarar til a.m.k. 2 Mb/s.
    Breiðband Landssímans er ljósleiðaranet sem lagt er neðan jarðar. Er nú þegar búið að leggja ljósleiðara í kringum landið svo að nær allar símstöðvar landsins eru í ljósleiðarasambandi. Frá símstöðvunum er ætlunin að lagt verði ljósleiðaranet til notenda víðs vegar um landið.
    Flutningsgeta breiðbandsins verður gríðarlega mikil. Eru tæknilegir eiginleikar þess þannig að það má nýta jafnt til almennrar fjarskiptaþjónustu, svo sem hvers konar símaþjónustu, sem til sendingar útvarpsefnis, hvort sem er í sjónvarpi eða hljóðvarpi, og einnig fyrir ýmiss konar tölvuþjónustu. Með tilkomu breiðbandsins má því segja að möguleikar skapist hér á landi til sameiginlegrar boðleiðar fyrir hvers konar fjarskipti. Fyrir útvarpsmiðla mun aðgangur að breiðbandinu geta haft mikla þýðingu í framtíðinni, sparað hverjum og einum fjárfestingu í dreifikerfi og leitt til rekstrarsparnaðar með þátttöku í sameiginlegu dreifikerfi með mörgum aðilum. Með skynsamlegri nýtingu breiðbandsins verður auðveldaður aðgangur nýrra útvarpsmiðla að markaðnum. Með nýtingu breiðbandsins fyrir útvarpsmiðla og fjarskipti, þar á meðal hraðvirkt alnetssamband, er stuðlað að útbreiðslu hvers konar upplýsinga í landinu og þannig unnið að markmiðum upplýsingaþjóðfélags nútímans.
    Landssíminn hefur þegar hafið útsendingar á sjónvarps- og hljóðvarpsefni á breiðbandinu. Samkvæmt upplýsingum frá Landssímanum eiga nú 23 þúsund heimili í landinu möguleika á að nýta sér sjónvarps- og hljóðvarpsútsendingar á breiðbandinu. Er gert ráð fyrir að innan 3–5 ára eigi 50–60% landsmanna þess kost að tengjast breiðbandinu og stefnt er að því að innan 10 ára verði þetta hlutfall komið upp í u.þ.b. 90%.
    Vegna kostnaðar er þess naumast að vænta að annað breiðbandskerfi verði lagt um landið, a.m.k. ekki á næstu árum.
    Setning núgildandi fjarskiptalaga, nr. 143/1996, markaði þáttaskil í fjarskiptamálum hér á landi. Var í lögunum m.a. ákveðið að frá og með 1. janúar 1998 félli niður að öllu leyti lögbundinn einkaréttur ríkisins til fjarskipta og jafnframt gert ráð fyrir að þeir sem uppfylla skilyrði laganna geti fengið leyfi ríkisvaldsins til fjarskiptaþjónustu á öllum sviðum fjarskipta og til að eiga og reka grunnnet. Í fjarskiptalögunum er að finna ítarlegar reglur um frelsi í fjarskiptum og samkeppni á þessu sviði. Þessi skipan fjarskiptamála er í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins um samkeppni á sviði fjarskipta og afnám einkaréttar einstakra aðila, ríkisins sjálfs eða tiltekinna fjarskiptafyrirtækja, til þess að annast fjarskiptaþjónustu. Gilda þessar tilskipanir fyrir Evrópska efnahagssvæðið og eru þar með bindandi fyrir Íslendinga. Eru hér tvær tilskipanir þýðingarmestar, tilskipun ráðherraráðsins 90/387/ EBE um frjálsan aðgang þjónustuveitenda að almennum fjarskiptanetum („Open Network Provision“) og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 90/388/EBE, þar sem kveðið er á um skyldu ríkjanna til þess að koma á samkeppni í fjarskiptaþjónustu innan hins sameiginlega markaðar. Framangreindar tilskipanir eru gefnar út með hliðsjón af ákvæðum Rómarsáttmálans, einkum 49., 82. og 86. gr. sáttmálans (fyrir gildistöku Amsterdamsáttmálans 59., 86. og 90. gr.), en ákvæði 36., 54. og 59. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið svara til framantaldra ákvæða Rómarsáttmálans. Með aðild sinni að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið skuldbatt íslenska ríkið sig til þess að taka upp í löggjöf sína ýmsar samþykktir Evrópusambandsins um fjarskiptamál. Segir í 7. gr. samningsins að gerðir, sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar, skuldbindi samningsaðila, og skuli þær teknar upp í landsrétt með nánar tilteknum hætti. Viðauki nr. XI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fjallar um fjarskiptamál, og meðal ákvæða þessa viðauka eru framangreindar tilskipanir, 90/387/EBE og 90/388/EBE.
    Þau grundvallarsjónarmið um frjálsan aðgang þjónustuveitenda að almennum fjarskiptakerfum, sem á er byggt í núgildandi fjarskiptalögum í samræmi við Evrópureglur á þessu sviði, verða að teljast eiga við með sömu rökum um útvarp, þ.e. sjónvarp og hljóðvarp, ekki síst í ljósi þess hversu náin tengsl eru orðin milli þessara tveggja sviða, fjarskipta og útvarps, og skilin milli þeirra verða sífellt óljósari. Að því er útvarp varðar styðst frjáls aðgangur að almennum fjarskiptanetum einnig við grundvallarreglur lýðræðisþjóðfélags, sérstaklega skoðana- og tjáningarfrelsi, sem m.a. gerir ráð fyrir víðtækum aðgangi almennings að upplýsingum, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
    Útvarpsrekstur um þráð og fjarskiptalög tengjast með vissum hætti í núgildandi fjarskiptalögum, nr. 143/1996. Í 2. gr. laganna er fjarskiptaþjónusta skilgreind svo að þar sé um að ræða þjónustu sem að nokkru eða öllu leyti felist í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en sjónvarpi eða hljóðvarpi. Í sömu grein laganna er kapalkerfi skilgreint svo að það sé þráðbundið kerfi sem ætlað sé til dreifingar á útvarpsmerkjum til almennings. Í 5. gr. laganna er svo fyrir mælt að Póst- og fjarskiptastofnun veiti leyfi til fjarskiptaþjónustu og til þess að reka almennt fjarskiptanet samkvæmt lögunum, þar með talið kapalkerfi. Er af þessum sökum líklegt að VII. kafli fjarskiptalaga, um samtengingu neta, gildi um kapalkerfi, en þetta er sá kafli fjarskiptalaganna er mestu máli skiptir í því sambandi sem hér um ræðir. Hins vegar telst breiðbandið ekki kapalkerfi í skilningi fjarskiptalaga, heldur almennt fjarskiptanet, svo sem merking þess er skilgreind í 2. gr. þeirra.
    Sáralítið er um hefðbundin kapalkerfi hér á landi. Kostnaður við lagningu þeirra hefur verið mikill og staðið útbreiðslu þeirra fyrir þrifum, en sá kostnaður fer að öllum líkindum lækkandi. Hvað sem því líður er óvíst um þróun þeirra og útbreiðslu hefðbundinna kapalkerfa hér á landi í framtíðinni. Hins vegar þykir víst að dreifing útvarpsefnis um breiðband muni hafa mikla þýðingu hér á næstu árum. Er af þeim sökum nauðsynlegt að tekin séu upp í lög ákvæði er tryggja möguleika útvarpsstöðva til dreifingar á efni sínu um breiðbandið, enda er einn megintilgangurinn með rekstri þess dreifing útvarpsefnis í sjónvarpi og hljóðvarpi. Í stað þess að koma upp sérstöku kerfi samkvæmt útvarpslögum um aðgang að breiðbandinu þykir eðlilegast að um þetta efni gildi hið almenna fyrirkomulag skv. VII. kafla fjarskiptalaga um samtengingu neta (12. og 13. gr. laganna) ásamt öðrum ákvæðum laganna eftir því sem við á og ákvæðum laga nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun. Er því í frumvarpi þessu lögð til lögfesting þeirrar reglu að óski útvarpsstöð að fá aðgang að kapalkerfi eða öðru almennu fjarskiptaneti sem hagnýtt er til útvarpssendinga, þar á meðal breiðbandi, skuli fara með málið svo sem fyrir er mælt í fjarskiptalögum og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eftir því sem þau eiga hér við. Þykir eðlilegt að málsmeðferðarreglur um aðgang að fjarskiptanetum séu í þeim lögum eins og aðrar málsmeðferðarreglur varðandi fjarskiptamál.
    Miklu varðar að reglur um málsmeðferð varðandi aðgang að almennum fjarskiptanetum tryggi vandaða og greiða málsmeðferð. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þá sem óska slíks aðgangs, tíminn er dýrmætur og því meðal annars nauðsynlegt að hæfilegir tímafrestir séu settir til afgreiðslu mála. Engar reglur eru nú í lögum sem fjalla sérstaklega um meðferð mála út af aðgangi að almennum fjarskiptanetum. Hins vegar eru í VII. kafla fjarskiptalaga (12. og 13. gr.), nr. 143/1996, ítarlegar reglur um meðferð mála út af samtengingu neta. Er þar kveðið á um vandaða og eftir atvikum greiða málsmeðferð. Þykir eðlilegast að beita svipuðum reglum, að því er málsmeðferð varðar, um mál varðandi aðgang að fjarskiptanetum. Ætlunin er að á þessu þingi verði lagt fram frumvarp til nýrra fjarskiptalaga og verði þar meðal annars ákvæði sem tryggja rétt útvarpsstöðva og annarra sem óska aðgangs að fjarskiptanetum fjarskiptafyrirtækja, þar á meðal kapalkerfum og breiðbandi, sem og nýjar reglur um málsmeðferð.
    Í 2. mgr. greinarinnar er heimild til þess að sett verði fyrirmæli í reglugerð, ef til þess þykir þörf, um takmörkun á fjölda rása sem útvarpsstöðvar í eigu sömu eða tengdra aðila fá til afnota í framangreindum fjarskiptavirkjum. Á þessu stigi þykir ekki ástæða til þess að mæla nánar fyrir um þetta atriði í lögum. Ýmsir telja að nú þegar sé æskilegt að setja almennar reglur sem ætlað sé að girða fyrir óhæfilega samþjöppun valds yfir fjölmiðlum. Má vel á það fallast að meginstefnu til. Vandinn er hins vegar mikill þegar kemur að mótun slíkra reglna. Á vegum Evrópuráðsins hefur lengi verið unnið að þessu verkefni og stendur sú vinna enn yfir, og einnig er nú að því unnið á vettvangi Evrópusambandsins. Þykir rétt, að minnsta kosti að svo stöddu, að bíða þess hver niðurstaða verður af þessu fjölþjóðlega undirbúningsstarfi, enda er það ekki svo að engar lagareglur taki nú til þessa efnis. Gilda hér á landi um þetta svið, eins og önnur svið viðskipta, ákvæði samkeppnislaga, nr. 8/1993, sbr. einkum V. kafla (17.–19. gr.) þeirra laga. Samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga er til dæmis mögulegt að samkeppnisyfirvöld ógildi samruna útvarpsstöðva eða ráðstafanir sem gera það að verkum að eigendur með virk yfirráð yfir einni útvarpsstöð (eða öðru fjölmiðlafyrirtæki) nái virkum yfirráðum yfir annarri útvarpsstöð eða öðru fjölmiðlafyrirtæki.

Um 23. gr.

    Reglur þær, sem heimilað er að setja í 23. gr., eiga rætur sínar í hugmyndinni um upplýsingasamfélagið, sem nú má heita viðurkennd hugmynd í aðildarríkjum Evrópuráðsins og Evrópska efnahagssvæðisins, sem og í ríkjum Norður-Ameríku. Í þessum ríkjum er það talin skylda yfirvalda, löggjafarvalds og stjórnvalda, að tryggja sem víðtækastan aðgang almennings að hvers konar upplýsingum sem almenning varða og almenningur hefur áhuga á. Ákvæði 24. gr., sem varðar gagnkvæma viðurkenningu aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins hvers á ákvörðunum annars á þessu sviði sjónvarpsreksturs, er sprottið af sama meiði.
    Ákvæði 23. og 24. gr., að undanskilinni 4. mgr. 23. gr., leiðir af tilskipun Evrópuþingsins og ráðherraráðsins 97/36/EB frá 30. júní 1997 um breytingu á tilskipun ráðherraráðsins 89/552/EBE um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur frá 3. október 1989. Þær greinar, sem hér um ræðir, eru í 3. gr. a, 1.–3. mgr., tilskipunarinnar, eins og hún verður eftir breytinguna með tilskipun 97/36/EB. Fyrirmynd þeirra er að finna í 9. gr. Evrópusamningsins um sjónvarp milli landa, sem gerður var á vegum Evrópuráðsins hinn 5. maí 1989 („European Convention on Transfrontier Television“).
    23. gr. er frábrugðin 24. gr. að því leyti að efni 24. gr. ber að lögbinda skv. 3. mgr. 3. gr. a tilskipunarinnar, en það er hverju ríki í sjálfsvald sett hvort það nýtir heimildarákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni, eins og henni hefur verið breytt, en 23. gr. er reist á grundvelli þessa ákvæðis.
    Skal nú nánar vikið að efni 23. gr., en til skýringar á greininni er nauðsynlegt að gera grein fyrir ákvæðum 1. mgr. 3. gr. a í sjónvarpstilskipun Evrópusambandsins og þeim sjónarmiðum sem að baki búa.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. a er hverju aðildarríki heimilað að gera ráðstafanir, sem að öðru leyti séu í samræmi við löggjöf sambandsins, er tryggi það að sjónvarpsstöð, sem heyrir undir lögsögu ríkisins, beiti ekki einkarétti, er hún hefur aflað sér til sjónvarps frá viðburðum, sem ríkið telur hafa mikilsverða þýðingu („major importance“) fyrir borgarana, með þeim hætti að verulegur hluti almennings („a substantial proportion of the public“) í því ríki sé sviptur möguleika á því að fylgjast með slíkum viðburðum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds, annað hvort í beinni eða seinkaðri útsendingu. Fari aðildarríki þessa leið skal það gera skrá um tiltekna viðburði, innlenda sem erlenda, er það telur hafa mikilsverða þýðingu fyrir almenning. Þetta skal gert með skýrum og gagnsæjum hætti og með góðum fyrirvara. Við gerð skrárinnar skal aðildarríkið jafnframt ákveða hvort þessir viðburðir skuli sýndir að öllu leyti eða að hluta í beinni útsendingu, eða að öllu leyti eða nokkru í seinkaðri útsendingu, ef það af málefnalegum ástæðum telst vera nauðsynlegt eða heppilegt fyrir almenning. Þar sem í 1. mgr. 3. gr. a eru heimilaðar ráðstafanir með þeim fyrirvara að þær séu að öðru leyti í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins (og ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið) er fyrst og fremst við það átt að ráðstafanirnar séu í samræmi við samkeppnisreglur Evrópuréttarins.
    Fyrsta spurningin, sem taka þarf afstöðu til, er hvort Ísland eigi að nýta sér heimild til ákvarðana skv. 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni eða láta það hjá líða, a.m.k. að svo stöddu. Millileið er að halda möguleikanum opnum með því að heimila ráðherra að nýta heimildina með setningu reglugerðar um efnið.
    Við fyrstu sýn er það engan veginn augljóst að heimild þessa beri að nota. Það verður að viðurkenna að hún er að sumu leyti varhugaverð og nokkuð vandmeðfarin þó að því séu vissulega verulega þröngar skorður settar um hvers konar viðburði heimildinni verður beitt. Með ráðstöfunum samkvæmt heimild málsgreinarinnar væri gripið inn í samkeppni aðila á sjónvarpsmarkaði og einnig höfð afskipti af hagsmunum rétthafa sjónvarpsréttindanna. En þetta eru ekki einu sjónarmiðin sem taka þarf tillit til. Að baki heimildinni býr fyrst og fremst hugmyndin um sem víðtækastan aðgang almennings að upplýsingum sem vissulega er í anda nútímasjónarmiða. Í 18. skýringargrein inngangsorða tilskipunar 97/36/EB er lögð á það áhersla að afar þýðingarmikið sé að aðildarríkin geti gert ráðstafanir til þess að vernda rétt borgaranna til upplýsinga og tryggja þeim víðtækan aðgang að sjónvarpssendingum frá innlendum og erlendum viðburðum sem hafi mikilsverða þýðingu fyrir viðkomandi þjóðfélag. Sem dæmi um slíka viðburði eru í skýringargreininni nefndir Ólympíuleikar og heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni landsliða í knattspyrnu. Segir síðan að í þessu skyni áskilji ríkin sér rétt til þess að gera ráðstafanir til þess að takmarka beitingu sjónvarpsstöðva undir lögsögu þeirra á einkarétti til sjónvarps frá slíkum viðburðum, enda samrýmist ráðstafanir þessar að öðru leyti löggjöf Evrópusambandsins. Auk hinna almennu sjónarmiða, sem byggt er á í 18. skýringargrein, hefur það mikla þýðingu í þessu efni að viðskipti með sjónvarpsréttindi eru að miklu leyti orðin alþjóðleg, verðlag á slíkum réttindum hefur hækkað mjög mikið á síðustu árum og víða erlendis er aðgangur að sumum íþróttaviðburðum eingöngu fáanlegur í þáttasölusjónvarpi („pay-per-view“). Íslendingar hafa nú þegar dæmi um að erlend fyrirtæki hafa boðið betur en íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa treyst sér til að bjóða í rétt til sýningar frá íslenskum íþróttaviðburðum, og er þar átt við kaup erlends fyrirtækis á sjónvarpsrétti á leikjum Íslandsmótsins í knattspyrnu. Ekkert er því til fyrirstöðu að erlendar sjónvarpsstöðvar kaupi sjónvarpsrétt fyrir Ísland t.d. um leið og þær kaupa sjónvarpsrétt fyrir önnur ríki. Ef Íslendingar nýta sér ekki heimild þá sem felst í 1. mgr. 3. gr. a í sjónvarpstilskipuninni er raunhæf hætta á því að þeir fari á mis við sjónvarp frá mikilvægum innlendum og erlendum íþróttaviðburðum. Gæti það stafað af því að hinar erlendu sjónvarpsstöðvar gæfu íslenskum sjónvarpsstöðvum ekki kost á sjónvarpsrétti nema á afarkjörum, sem íslensku fyrirtækin treystu sér ekki til að samþykkja, eða erlendu fyrirtækin hreinlega ákvæðu að nýta ekki sjónvarpsréttinn fyrir Ísland þó að þau hefðu keypt hann. Af þessum ástæðum öllum þykir ekki annað verjandi en að leggja til að fest verði í íslensk lög ákvæði er gera kleift að tryggja Íslendingum aðgang að sjónvarpssendingum sem sjónvarpsstöðvar í EES-ríkjum hafa keypt rétt á og að öðru leyti falla undir ákvæði 1. mgr. 3. gr. a í sjónvarpstilskipuninni. Er því gert ráð fyrir því í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins að ákvörðun um þetta efni verði tekin með setningu reglugerðar um efnið, ef heimildin verður á annað borð notuð.
    Þar sem niðurstaðan um nýtingu heimildar skv. 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni er sú sem nú hefur verið greint frá er rétt að víkja að einstökum atriðum til skýringar á tilskipunargreininni og 23. gr. frumvarpsins.
    Hvaða viðburðir eru það sem teljast hafa verulega þýðingu fyrir almenning? Hvað felst í því að íslenska ríkið þurfi að gera skrá yfir slíka viðburði? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að útsendingar sjónvarpsstöðvar teljist ná til meginhluta þjóðarinnar? Hvað eru einkaréttindi í skilningi tilskipunarinnar og 23. gr. frumvarpsins? Hvað telst vera sjónvarp án sérstaks endurgjalds? Um fleiri slíkar spurningar má fjalla auk þess sem ýmis atriði eru enn óljós varðandi framkvæmd þess réttar sem hér um ræðir.
    Það er helsta skilyrði þess að skert verði einkaréttindi þeirra sem keypt hafa slíkan rétt til sjónvarps frá tilteknum viðburðum að um sé að ræða viðburði sem „hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu“ eins og það er orðað í 23. gr. frumvarpsins, eða þeir séu „of major importance for society“ eins og skilyrðið er orðað í hinum enska texta 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni. Í 21. skýringargrein tilskipunarinnar er þetta atriði skýrt frekar: Viðburðir, sem hafa verulega þýðingu í þjóðfélaginu samkvæmt skilgreiningu þessarar tilskipunar, verða að fullnægja tilteknum skilyrðum, þar eð þetta skulu vera sérstakir viðburðir („outstanding events“), sem þýðingu hafa fyrir almenning í Evrópusambandinu (innan Evrópska efnahagssvæðisins) eða í einhverju aðildarríkjanna eða í þýðingarmiklum hluta aðildarríkis, og vera fyrir fram skipulagðir af skipuleggjendum viðburða („event organisers“), sem að lögum hafa rétt til þess að selja réttindi, sem viðburðunum tengjast. Af þessu er ljóst að því eru þröng takmörk sett hvaða viðburðum ætlunin er að tryggja almenningi aðgang að í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds, og dæmin sem vitnað var til að framan úr 18. skýringargrein tilskipunarinnar staðfesta það enn frekar. Það er því meginhluti allra viðburða sem sjónvarpsstöðvar hafa keypt einkarétt á sem einkaréttur þeirra mun áfram gilda um óskertur.
    Á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er unnið að því í samvinnu við samstarfsnefndina skv. 23. gr. a í sjónvarpstilskipuninni að setja frekari leiðbeiningarreglur um þetta efni. Í vinnuskjali, sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að minnst tveimur skilyrðum af eftirfarandi fjórum skilyrðum verði fullnægt til þess að viðburður verði talinn hafa svo mikla þýðingu fyrir almenning að framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, samþykki hann:
    1. Viðburðurinn og úrslit hans eigi sérstakan og almennan hljómgrunn í því ríki sem í hlut á en ekki einungis meðal þeirra sem að öllu jöfnu fylgjast með þeirri íþróttagrein eða athöfn, sem um er að ræða.
    2. Almennt sé viðurkennt að viðburðurinn hafi sérstaka menningarlega þýðingu („distinct cultural importance“) fyrir íbúa þess ríkis sem í hlut á, sérstaklega sem hvati („catalyst“) fyrir sjálfsvitund íbúanna.
    3. Landslið þjóðarinnar sé þátttakandi í þýðingarmiklu („major“) íþróttamóti.
    4. Hefð sé fyrir því að sjónvarpað hafi verið frá viðburðinum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds og sjónvarpssendingin hafi laðað að sér mikinn fjölda áhorfenda í því ríki sem í hlut á.
    Þó að samþykktar verði reglur með hliðsjón af framangreindum skilyrðum eða einhverjar reglur í þessa átt er ekki talið að á þær verði litið sem bindandi og ófrávíkjanlegar, heldur sem leiðbeiningarreglur. Framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA geti því metið einstök tilvik sem upp kunna að verða borin af aðildarríkjunum með hliðsjón af þeim sérstöku rökum sem ríkin kunna að hafa fram að færa.
    Nefna má hér að Danir hafa þegar ákveðið að setja reglur á grundvelli 1. mgr. 3. gr. a tilskipunarinnar. Í þeirri skrá um viðburði til sýningar í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds sem þeir hafa nú sent framkvæmdastjórninni eru taldir upp eftirgreindir íþróttaviðburðir:
     a.      Ólympíuleikar, sumar- og vetrarleikar.
     b.      Heimsmeistarkeppni og Evrópumeistarkeppni í knattspyrnu karla. Allir leikir danska landsliðsins og auk þess undanúrslitaleikir og úrslitaleikir.
     c.      Heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni í handknattleik karla og kvenna. Allir leikir danska landsliðsins og auk þess undanúrslitaleikir og úrslitaleikir.
     d.      Leikir danska landsliðsins í undankeppni heimsmeistaramótsins og Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu karla.
     e.      Leikir danska landsliðsins í undankeppni heimsmeistaramótsins og Evrópumeistaramótsins í handknattleik kvenna.
    Í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild til þess að ákveða í reglugerð að gefa út skrá um þá viðburði sem Íslendingar vilja undanþiggja einkarétti sjónvarpsstöðva. Er það eðlileg aðferð, þar sem skráin getur verið breytileg frá einum tíma til annars eftir því sem áhugi almennings í landinu kann að breytast á tilteknum íþróttaviðburðum. Ef ákveðið verður hér á landi að nota heimildina til að setja reglugerð með skrá um þýðingarmikla viðburði virðist ekki ólíklegt að Íslendingar mundu setja saman skrá af sinni hálfu svipaðs efnis og danska skráin sem að framan var greint frá. Trúlegt er þó að hún yrði ekki alveg sama efnis því að íþróttahefðirnar eru ekki alveg hinar sömu í þessum tveimur löndum. Af ákvæði 1. mgr. leiðir að í skrá um viðburðina þyrfti nákvæmlega að greina heiti þeirra, svo og að tiltaka hvort þeir skuli vera sýndir í heild eða aðeins að hluta til. Þetta atriði getur t.d. skipt máli, þegar um er að ræða útsendingar frá mjög umfangsmiklum viðburðum, svo sem Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppni og Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu. Enn fremur á að koma fram í skránni hvort viðburði skuli sjónvarpað beint eða með seinkun. Sjálfsagt verður að telja að vissir viðburðir séu sendir í beinni útsendingu, t.d. landsleikur í knattspyrnu sem leikinn er hér á landi. Á hinn bóginn getur verið eðlilegra að öðrum viðburðum, sem t.d. fara fram í öðrum heimshluta, verði sjónvarpað með seinkun þar sem þeir fara fram að næturlagi að íslenskum tíma. Eðli málsins samkvæmt hlýtur skráin að verða stutt og hún verður að vera tæmandi og nákvæm. Skrána skal kynna með góðum fyrirvara. Fer það eftir atvikum hverju sinni hvað telst vera góður fyrirvari, en við það verður fyrst og fremst að miða að fyrirvari sé nægilega langur til þess að þeir aðilar, sem skipuleggja íþróttaviðburði og sjónvarpsstöðvar í Evrópu, geti tekið tillit til þess í markaðsvinnu sinni og samningum að viðburður hefur verið settur á skrá samkvæmt lagaheimildinni.
    Með notkun á heimild skv. 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins væri stefnt að því að vernda rétt „meginhluta þjóðarinnar“ til þess að eiga þess kost að sjá í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds þá viðburði sem greinin nær til. „Meginhluti þjóðarinnar“ er hér notað til þess að ná þeirri túlkun, sem fram kemur í fyrrnefndu vinnuskjali framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að með vísun til þeirra ástæðna, sem búa að baki tilskipun 97/36/EB, sé miðað við „near universal coverage“, „(or relevant part of the population)“ í aðildarríki, sem þýðir að sjónvarpssending verði að ná til svo til allra íbúanna í því ríki sem við á. Þykir því heppilegast að taka nú þegar af allan vafa um hvað við er átt og tala um „meginhluta þjóðarinnar“ í þeirri merkingu að átt sé við nær alla íbúa landsins. Í vinnuskjali framkvæmdastjórnarinnar er mælt með að sjónvarpssending verði talin ná til nær allra íbúa ef hún nær til 95–100% íbúanna. Ljóst er þó að ríkin hafa nokkurt svigrúm til mats í þessu efni. Í Svíþjóð hefur verið talað um að verði heimildin notuð verði miðað við að útsending þurfi að ná til a.m.k. 95% þjóðarinnar. Í Danmörku hefur verið ákveðið að miða við a.m.k. 90% þjóðarinnar sem talið er í minna lagi en ekki eru þó gerðar athugasemdir við. Í Noregi er einnig gert ráð fyrir að miðað verði við 90% þjóðarinnar. Verði sett reglugerð um þetta efni hér á landi má vel hugsa sér að miðað yrði við að a.m.k. 90% þjóðarinnar ættu að geta náð útsendingu í opinni dagskrá. Væri það í samræmi við fordæmi annars staðar frá, og með því væri væntanlega einnig tryggt að allar helstu sjónvarpsstöðvar hér á landi gætu uppfyllt skilyrðið og þar með væru afskiptin af samningsfrelsi þeirra í lágmarki. Sjónvarp Ríkisútvarpsins, Stöð 2 og Sýn ná allar til 90% þjóðarinnar, Stöð 2 og Sýn þó með þeim fyrirvara að útsendingar þeirra séu opnar.
    Í sjónvarpstilskipuninni er ekki skilgreint hvað við er átt með hugtakinu „einkaréttindi“ eða „exclusive rights“. Einnig er fjallað um skilgreiningu á þessu hugtaki í fyrrnefndu vinnuskjali framkvæmdastjórnarinnar. Þar segir að með hliðsjón af tilgangi 3. gr. a, eins og honum er lýst í 18. skýringargrein tilskipunar 97/36/EB (sbr. að framan), sé mælt með þeim skilningi að sjónvarpsstöð verði talin ráða yfir einkarétti til sjónvarps frá tilteknum viðburði á tilteknu landsvæði ef engri annarri sjónvarpsstöð er heimilt að sjá íbúum svæðisins fyrir heildarsjónvarpssendingu („full television coverage“) frá þeim viðburði. Ekki verður annað sagt en að þessi skilgreining sé rökrétt og liggi nokkuð í augum uppi. Í vinnuskjali framkvæmdastjórnarinnar er einnig skýrt hvað í því sé talið felast að einkaréttarhafi „nýti“ („exercises“) rétt sinn með þeim hætti sem í tilskipuninni greinir, en þetta atriði er heldur ekki skilgreint í tilskipuninni sjálfri eða skýringargreinum í inngangsorðum hennar. Í vinnuskjalinu segir að í því sambandi sem um er fjallað í 3. gr. a sé sjónvarpsstöð talin „nýta“ einkaréttindi sín á viðburði fyrir tiltekið landsvæði þegar sjónvarpsdagskrá ætluð almenningi, sem gerir þessum viðburði skil, er send út á ábyrgð þeirrar sömu sjónvarpsstöðvar. Af þessari skýringu hefur svo verið dregin sú ályktun að sjónvarpsstöð brjóti ekki gegn skyldu sinni þó að hún ákveði að senda alls ekki út frá viðburðinum, þ.e. að nýta hann ekki.
    Skilgreining á hugtakinu „free television“ í 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni liggur síður en svo í augum uppi eftir orðanna hljóðan. En með hliðsjón af skilgreiningu í 22. skýringargrein í inngangsorðum tilskipunar 97/36/EB er það í 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins þýtt með orðunum „án sérstaks endurgjalds“, en mætti alveg eins þýða með orðunum „án aukagjalds“. Í fyrrnefndri skýringargrein er hugtakið „free television“ skýrt á þá leið að með því sé átt við sjónvarp á opnum („public“) eða læstum („commercial“) sjónvarpsrásum sem eru aðgengilegar fyrir almenning án greiðslu umfram þá gjaldtöku fyrir sjónvarp sem almennt er beitt í sérhverju aðildarríki (svo sem afnotagjald og/eða áskriftargjald fyrir kapalsjónvarp). Þær sjónvarpsstöðvar, sem nú eru reknar hér á landi, falla undir þessa skilgreiningu.
    Þó að ýmis ákvæði og hugtök í 3. gr. a sjónvarpstilskipunarinnar hafi þegar verið skýrð og skilgreind er enn talsvert starf óunnið í því efni. Er áfram unnið að þessum málum á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og samstarfsnefndarinnar skv. 23. gr. a. Ekkert er t.d. um það að finna hvað sjónvarpsstöð, sem aflað hefur sér einkaréttar, beri að gera til þess að hún verði ekki talin brjóta gegn skyldum sínum skv. 1. mgr. 3. gr. a (1. mgr. 23. gr. frumvarpsins) gagnvart þeim EES-ríkjum sem hafa fengið samþykkta skrá um mikilvæga viðburði samkvæmt greininni. Viðurlagaákvæði eru engin í tilskipuninni, aðeins lögð skylda á aðildarríkin til þess að sjá um að sjónvarpsstöðvar, sem heyra undir lögsögu þeirra, fari að ákvæðum tilskipunarinnar. Ekkert er heldur um ákveðið endurgjald til þeirra sjónvarpsstöðva sem verða að þola skerðingu á einkarétti til sjónvarpssendinga sem þau hafa fest kaup á. Má e.t.v. gera því skóna að ekki sé nauðsynlegt að greiða fyrir skerðinguna þar sem sjónvarpsstöðvarnar hafi við ákvörðun kaupverðs síns mátt reikna með skerðingunni. Ekki virðist það þó eðlileg regla að einkaréttarhafi þurfi bótalaust að þola takmörkun á rétti sínum, og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hann fái sanngjarnt endurgjald úr hendi þess sem réttinn fær. Verður nánar vikið að þessu atriði þegar fjallað verður um 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins.
    Ekki þykir annað fært en kveða nú á um a.m.k. einhver þeirra atriða í íslenskum lögum eða reglugerð sem ekki er kveðið á um í sjónvarpstilskipuninni eða skýringum við hana. Getur þurft að breyta slíkum ákvæðum síðar til samræmis við nýjar reglur eða skýringar sem samþykktar kunna að verða og bindandi verða taldar fyrir Ísland vegna aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ýmsar spurningar rísa um framkvæmd þess ákvæðis 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins (og 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni) er heimilar að banna sjónvarpsstöðvum, sem hafa aflað sér einkaréttinda til sjónvarps frá viðburðum er undir ákvæðið eiga, að nýta réttindin á þann hátt að meginhluti þjóðarinnar eigi þess ekki kost að fylgjast með viðburðunum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds. Ljóst er að sjónvarpsstöð sem réttinn á getur sjálf sent út frá viðburðinum í opinni útsendingu án þess að þurfa að bjóða annarri sjónvarpsstöð réttinn, enda fullnægi útsending hennar kröfum greinarinnar að öðru leyti, sérstaklega skilyrðinu um að útsending hennar nái til meginhluta þjóðarinnar. Einnig getur stöðin framselt réttinn til annarrar sjónvarpsstöðvar sem fullnægir skilyrðum greinarinnar. Annar möguleiki er sá að stöðin afsali sér einkarétti sínum, þannig að öðrum sjónvarpsstöðvum sé einnig heimilað að sjónvarpa frá viðburðinum. Velji einkaréttarhafinn enga framangreindra leiða en láti hins vegar hjá líða að sjónvarpa frá viðburðinum, þ.e. nýti sér ekki einkarétt sinn, er litið svo á að einkaréttarhafinn brjóti ekki gegn skyldum sínum og verði þar með ekki látinn sæta ábyrgð þó að meginhluti þjóðarinnar sé með þessu móti sviptur möguleikanum á að fylgjast með viðburðinum í sjónvarpi.
    Ljóst er af ákvæði 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins (og 1. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni) að til þess er ætlast að einkaréttarhafi, sem hyggst sýna frá viðburði en uppfyllir ekki sjálfur útbreiðsluskilyrðið, bjóði sjónvarpsréttinn sjónvarpsstöð sem fullnægir skilyrði ákvæðanna um útbreiðslu, enda verður það að teljast nauðsynlegt til þess að einkaréttarhafinn teljist hafa fullnægt skyldu sinni. Ekki er þó til þess ætlast að síðarnefnda sjónvarpsstöðin fái einkaréttinn í stað einkaréttarhafans. Einkaréttarhafanum sjálfum verður að sjálfsögðu einnig heimilt að sjónvarpa frá viðburðinum þó að sjónvarpsstöð, sem nær til meginhluta þjóðarinnar, sendi út frá hinum tiltekna viðburði.
    Af ákvæðunum leiðir heldur enga skyldu fyrir sjónvarpsstöð, sem fullnægir útbreiðsluskilyrðinu, að sjónvarpa frá viðburðum sem ákvæðin eiga við um og sett hafa verið á skrá um slíka viðburði með reglugerð. Eins og endranær er það í valdi sjónvarpsstöðvarinnar sjálfrar að taka ákvörðun um það frá hvaða viðburðum hún sjónvarpar. Tilgangurinn með ákvæðunum er ekki að þvinga sjónvarpsstöð, sem útbreiðsluskilyrðið á við, til að sjónvarpa frá þeim viðburðum sem um ræðir.
    Ætlunin er að um framkvæmd þeirra atriða, sem varða samskipti einkaréttarhafa og þeirra sjónvarpsstöðva sem fullnægja útbreiðsluskilyrðinu, verði settar sérstakar reglur, a.m.k. leiðbeiningarreglur, og stendur sú vinna yfir. Þar á meðal er ætlunin að taka á því vandamáli, hvernig hagað verði fjárhagslegum samskiptum þessara sjónvarpsstöðva. Eins og staðan er nú í þeim efnum geta komið upp erfið vandamál bæði fyrir þær sjónvarpsstöðvar sem verða fyrir réttindaskerðingu og eins fyrir þau stjórnvöld sem eiga að fylgja eftir framkvæmd ákvæðanna og hafa eftirlit með þeim. Í 3. mgr. 23. gr. frumvarpsins er sett inn ákvæði þar sem gert er ráð fyrir að einkaréttarhafinn fái sanngjarnt endurgjald fyrir þann rétt sem hann lætur af hendi. Svo langt sem það ákvæði nær er það í samræmi við það sem rætt hefur verið um á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og samstarfsnefndarinnar skv. 23. gr. a í sjónvarpstilskipuninni, en þar er gert ráð fyrir að einkaréttarhafinn bjóði réttinn sjónvarpsstöðvum, sem uppfylla útbreiðsluskilyrðið, gegn sanngjörnu endurgjaldi („fair remuneration“). Hins vegar er gert ráð fyrir að það komi í hlut hvers aðildarríkis að ákveða hvernig endurgjaldið verður ákvarðað. Eru sett um þetta ákvæði í 4. og 5. mgr. greinarinnar. Er gert ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd úrskurði um ágreining um endurgjaldið, og segir að nefndin skuli meta endurgjaldið með hliðsjón af því hvað telst vera eðlilegt markaðsverð á samkeppnismarkaði fyrir réttindi þau sem um ræðir. Með því á sanngjarnt endurgjald að vera tryggt. Skv. 5. mgr. má skjóta úrskurði útvarpsréttarnefndar til dómstóla sem eiga þá fullnaðardóm um bótaupphæð.
    Ákvæði 6. mgr. greinarinnar á sér ekki sérstaklega stoð í ákvæðum tilskipana 89/552/ EBE eða 97/36/EB. Fyrirmynd þess er að finna í dönsku útvarpslögunum eins og þau voru fyrir aðlögun þeirra að tilskipun 97/36/EB, en þetta ákvæði var látið halda sér í dönsku lögunum eftir aðlögunina. Ákvæðið er sett í sama anda og ákvæði 1. mgr., þ.e. að greiða fyrir því að meginatriði sjónvarpsfrétta frá mikilvægum viðburðum fari ekki fram hjá stórum hluta sjónvarpsáhorfenda vegna beitingar sjónvarpsstöðva á einkaréttindum sínum til dreifingar á sjónvarpsefni. Er þá gert ráð fyrir að stjórnvöld geti mælt fyrir um rétt annarra sjónvarpsstöðva til þess að flytja stuttar fréttir af þess háttar viðburðum. Er hér í rauninni um að ræða tilvitnunarheimildir í þágu almennrar upplýsingar í þjóðfélaginu. Það er nokkuð algengt hér á landi og erlendis að sjónvarpsstöðvar heimili hver annarri að sýna stutta hluta úr efni sem þær hafa keypt einkarétt á og verða þess háttar viðskiptahættir að teljast til fyrirmyndar.
    Verulegir hagsmunir geta verið því tengdir að farið verði eftir fyrirmælum sem kunna að verða gefin í reglugerð með stoð í 23. gr. frumvarpsins og byggð eru á 3. gr. a í sjónvarpstilskipuninni, og er því óhjákvæmilegt að beita viðurlögum ef brotið er gegn fyrirmælum greinarinnar, sbr. 28. gr. frumvarpsins og athugasemdir við hana.
    Í lok athugasemda við þessa grein frumvarpsins þykir rétt að geta þess að skv. 2. mgr. 3. gr. a í tilskipuninni eins og henni hefur verið breytt skulu aðildarríki Evrópusambandsins tilkynna framkvæmdastjórn sambandsins um þær ráðstafanir sem þau hafa gert eða hyggjast gera í því efni sem um ræðir í 23. gr. frumvarpsins. Innan þriggja mánaða frá slíkri tilkynningu skal framkvæmdastjórnin ganga úr skugga um lögmæti slíkra ráðstafana og tilkynna hinum aðildarríkjunum um þær. Hún skal leita álits samstarfsnefndarinnar sem komið er á fót skv. 23. gr. a. Framkvæmdastjórnin skal tafarlaust birta í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna upplýsingar um þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar, og eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal birtur heildarlisti yfir þær ráðstafanir sem aðildarríkin hafa gert. Allt framangreint um tilkynningar og birtingu gildir að breyttu breytanda um aðildarríki EFTA, en að því er þau varðar kemur Eftirlitsstofnun EFTA í stað framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eftirlitsstofnun EFTA birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB upplýsingar um þær ráðstafanir sem EFTA-ríkin gera í þessum efnum. Ákvæðin um tilkynningu til framkvæmdastjórnarinnar og Eftirlitsstofnunar EFTA og birtingu upplýsinga um þær eru sett í því skyni að öll framkvæmd þessara mála verði svo sýnileg sem mögulegt er fyrir rétthafa, sjónvarpsstöðvar og aðra sem málið varðar og til þess að tryggja að ráðstafanir ríkjanna verði ekki víðtækari en nauðsyn krefur. Ekki þykir ástæða til þess að framangreind ákvæði verði tekin upp í lög, enda varða þau fyrst og fremst samskipti ríkisstjórna aðildarríkjanna og samskipti ríkisstjórnanna við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnun EFTA.
    Í 20. skýringargrein við tilskipun 97/36/EB er fjallað um gildistöku ákvæðanna um þýðingarmikla viðburði. Þar segir: „Það verður að teljast sérstaklega við hæfi að setja í tilskipun þessa ákvæði um það hvernig sjónvarpsstöðvar hagnýta einkarétt, sem þær kunna að hafa keypt til útsendinga frá viðburðum sem taldir eru hafa verulega þýðingu fyrir borgarana í öðru aðildarríki en því sem lögsögu hefur yfir þeim. Til þess að koma í veg fyrir spákaupmennsku í því skyni að sniðganga ráðstafanir einstakra ríkja er nauðsynlegt að þessi ákvæði gildi um samninga sem gerðir verða eftir birtingu þessarar tilskipunar og varða viðburði sem eiga sér stað eftir að hún kemur til framkvæmda. Þegar samningar, sem gerðir hafa verið fyrir birtingu tilskipunarinnar eru endurnýjaðir, ber að fara með þá sem nýja samninga.“
    Tilskipunin var birt 30. júlí 1997 og hún á að koma til framkvæmda 30. desember 1998. Er ákvæðunum um þýðingarmikla viðburði ætlað að gilda um samninga sem gerðir eru eftir 30. júlí 1997 og varða viðburði sem verða eftir 30. desember 1998.

Um 24. gr.

    Í 3. mgr. 3. gr. a Evrópusambandstilskipunarinnar um „sjónvarp án landamæra“, eins og henni var breytt með tilskipun 97/36/EB, er lögð sú skylda á þau ríki sem bundin eru af tilskipuninni að þau virði hvert annars skrár um þýðingarmikla viðburði og aðrar ákvarðanir í tengslum við skrárnar, svo sem um beinar eða seinkaðar útsendingar. Viðskipti með sjónvarpsréttindi að þýðingarmiklum viðburðum eru orðin alþjóðleg, og gagnkvæm viðurkenning ríkjanna á ákvörðunum hvers annars í þessu efni er nauðsynleg til þess að tryggja öllum sjónvarpsáhorfendum möguleika á því að fylgjast með viðburðunum í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds.
    Tekið skal fram að þó að ríki ákveði að nýta ekki heimild skv. 1. mgr. 3. gr. a í sjónvarpstilskipuninni (sbr.1. mgr. 23. gr. frumvarpsins) til þess að gera sjálft skrá ber því engu að síður að virða þær skrár sem önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu kunna að gera.
    Í því ákvæði sjónvarpstilskipunarinnar, sem hér að framan var vitnað til, hvílir sú skylda á aðildarríkjunum, þar á meðal Íslandi, að tryggja það á viðeigandi hátt og innan ramma eigin löggjafar að sjónvarpsstöðvar, sem heyra undir lögsögu þeirra, neyti ekki einkaréttar, sem þau hafa keypt, með þeim hætti að það leiði til þess að umtalsverðum hluta almennings í öðru aðildarríki sé ekki gefinn kostur á að fylgjast í sjónvarpi án sérstaks endurgjalds með viðburðum sem settir hafa verið á skrá yfir þýðingarmikla viðburði af öðrum aðildarríkjum og á þann hátt sem þau hafa ákveðið. Byggjast ákvæði 24. gr. frumvarpsins í heild á þessu samningsbundna tilliti til ákvarðana hvers heimaríkis. Af þessum sökum verður íslenska ríkið m.a. að gera ráðstafanir til þess að fylgst verði með því af þess hálfu að íslenskar sjónvarpsstöðvar fullnægi skyldum sínum í þessu efni, og er í frumvarpinu lagt til að þetta eftirlitshlutverk verði falið útvarpsréttarnefnd, sbr. 3. mgr. 24. gr. þess. Til að tryggja virka framkvæmd á skyldu íslenska ríkisins í þessum efnum er einnig óhjákvæmilegt að mæla fyrir um beitingu viðurlaga gegn íslenskum sjónvarpsstöðvum sem brjóta gegn skyldum sínum samkvæmt grein þessari, og eru sett ákvæði um það í 28. gr. frumvarpsins.

Um IX. kafla

    Ákvæði þessa kafla frumvarpsins eru að verulegu leyti samhljóða VI. kafla um ábyrgð á útvarpsefni í núgildandi útvarpslögum. Ekki hefur orðið vart sérstakra annmarka á þessum ákvæðum útvarpslaga og eru því ekki lagðar til nema fáeinar breytingar á þeim.

Um 25. gr.

    Lagt er til að greinin verði samþykkt óbreytt frá gildandi útvarpslögum nema í eftirgreindum tveimur atriðum:
     1.      Þar sem í greininni er talað um „hljóðupptöku“ komi „upptöku“. Er þá við það miðað að hljóðvarpsstöðvar varðveiti hljóðupptöku af frumsömdu efni og beri skylda til að láta í té afrit af henni en sjónvarpsstöðvar aftur á móti myndbandsupptöku.
     2.      Við greinina verði bætt ákvæði um skyldu útvarpsstöðvar til þess að láta útvarpsréttarnefnd í té afrit af upptöku útsendingar samkvæmt ósk nefndarinnar. Ákvæði þessa efnis er nú í 3. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 610/1989.

Um 26. gr.

    Greinin svarar til 35. gr. útvarpslaga en lagðar eru til tvær breytingar frá þeirri grein:
     1.      Niður falli ákvæði 4. mgr. 35. gr. útvarpslaga þar sem segir að á samsettu dagskrárefni beri sá ábyrgð sem útsendingu stjórnar hverju sinni, enda sé ekki um að ræða flutning eða samtal sem ábyrgðarreglur 2. og 3. mgr. taka til (a- og b-liðir 26. gr. frumvarpsins). Rökin fyrir þessari breytingu eru þau að stjórnandi útsendingar hefur ekkert um efni eða efnistök í einstökum dagskrárliðum að segja þar sem starf hans lýtur fyrst og fremst að tæknihlið útsendingar. Af brottfellingu þessa ákvæðis leiðir að útvarpsstjóri ber ábyrgð á því efni sem hér um ræðir ef ábyrgðarreglur a- og b-liða 26. gr. frumvarpsins eiga ekki við, sbr. d-lið um ábyrgð útvarpsstjóra.
     2.      Með e-lið 26. gr. er gerð breyting á ákvæði 7. mgr. 35. gr. útvarpslaga um ábyrgð útvarpsstöðva á bótaskyldu starfsmanna. Ábyrgðin er einnig látin ná til greiðslu fésekta og því ákvæði einnig bætt við að innheimta megi fésektir og skaðabætur hjá útvarpsstöð með fjárnámi. Sjálfsagt er að einnig er heimilt að innheimta fésekt og skaðabætur hjá hinum brotlega starfsmanni. Heimildinni til innheimtu hjá útvarpsstöðinni er ætlað að bæta stöðu brotaþola. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í svipuðu ákvæði í 17. gr. laga nr. 57/1956, um prentrétt.

Um 27. gr.

    Greinin svarar til 36. gr. útvarpslaga. Lagt er til að tvær breytingar verði gerðar á greininni:
     1.      Fellt verði brott ákvæði 1. mgr. 36. gr. útvarpslaga þar sem segir að engan skuli dæma til ábyrgðar vegna útsendingar á útvarpsefni eða fyrir hlutdeild í útsendingu annan en þann sem ábyrgð ber eftir ákvæðum 35. gr. (26. gr. frumvarpsins). Þar sem ábyrgðarreglur 26. gr. eru tæmandi verður að telja ákvæðið óþarft.
     2.      Í 3. mgr. 35. gr. útvarpslaga er m.a. gert ráð fyrir að fébótaskylda (ásamt refsiábyrgð) falli niður ef sex mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber rannsókn út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn. Er hér um að ræða verulegt frávik frá almennum fyrningarreglum skaðabóta, en skaðabætur sem ekki byggjast á samningum fyrnast almennt á tíu árum. Verða ekki talin vera nein efnisrök til þess að víkja frá almennum reglum í útvarpslögum. Öðru máli gegnir um málshöfðunarfrestinn vegna refsingar. Hann er í samræmi við ákvæði 29. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem hér ætti oftast við.

Um X. kafla.

    Í kaflanum eru tekin saman ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum og þau gerð nokkru ítarlegri en nú er í útvarpslögum. Er í 37. gr. og 37. gr. a í útvarpslögum mælt fyrir um sektir eða varðhald fyrir brot gegn nokkrum greinum laganna, en aðalreglan er þó nú sú að um brot gegn ákvæðum laganna fer eftir ákvæðum almennra hegningarlaga. Þá eru upptökuákvæði vegna óheimillar hagnýtingar á útvarpsefni í fjárgróðaskyni í 37. gr. og vegna myndlyklabrota í 4. mgr. 37. gr. a. Ákvæði um afturköllun útvarpsleyfis vegna alvarlegra og ítrekaðra brota gegn útvarpslögum er í 2. mgr. 8. gr. laganna.
    Við endurskoðun útvarpslaga þykir rétt að skipa öllum viðurlagaákvæðum saman og gera þau skýrari. Brot gegn framkvæmd flestra ákvæða útvarpslaga verða naumast talin heyra undir ákvæði almennra hegningarlaga þó að öðru máli kunni að gegna um það efni sem flutt er í útvarp. Er því talið rétt að mæla fyrir í lögunum sjálfum um viðurlög við brotum gegn þeim eins og tíðkanlegt er um sérlög. Er óhjákvæmilegt að mæla fyrir um viðurlög við brotum á ýmsum ákvæðum laganna til þess að haldið verði uppi eðlilegum aga á sviði útvarpsmála þó að einnig verði að ætlast til þess að útvarpsréttarnefnd sem eftirlitsaðili með framkvæmd laganna beiti leiðbeiningum og áminningum í eftirlitsstarfi sínu auk stjórnvaldssekta þar sem það á við. Skal nú vikið nánar að einstökum ákvæðum þessa kafla.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar eru talin upp þau brot á lögunum sem refsingu geta sætt í skilningi refsilaga. Aðalreglan er sú að brot sæta fésektum, en skv. 2. mgr. geta alvarleg eða ítrekuð brot varðað fangelsisrefsingu. Um brot gildir refsirammi samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.
    Um einstök brot samkvæmt greininni þarf ekki að fjölyrða heldur má í meginatriðum láta nægja að vísa til upptalningarinnar í a–j-lið 1. mgr.
    Um heimildarlausa útvarpsstarfsemi, sem mælir um í a-lið 1. mgr. greinarinnar, skal þess getið að fyrir gildistöku útvarpslaga, nr. 68/1985, varðaði slíkt brot við 1. mgr. 24. gr. útvarpslaga, nr. 19/1971, en samsvarandi ákvæði var ekki tekið upp í lög nr. 68/1985. Hafa dómstólar talið að brot þetta ætti nú undir 1. mgr. 186. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. dóma Hæstaréttar í H 1987.748 og H 1987.757. Verður að telja eðlilegra að útvarp án leyfis teljist vera brot gegn útvarpslögum, eins og áður var, og mælt verði fyrir um viðurlög við slíku broti í útvarpslögum.
    Ákvæði um refsingu fyrir óheimila hagnýtingu útvarpsefnis skv. i-lið 1. mgr., sbr. 32. gr., eru nú í 37. gr., sbr. 33. gr., útvarpslaga.
    Ákvæði um refsingu fyrir myndlyklabrot skv. j-lið 1. mgr., sbr. 33. gr., eru nú í 3. mgr. 37. gr. a í útvarpslögum.
    Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir að alvarleg eða ítrekuð brot skv. 1. mgr. geti varðað fangelsi. Stórfelld brot gegn ákvæðum útvarpslaga hafa varðað varðhaldsrefsingu, sbr. 1. mgr. 37. gr. og 3. mgr. 37. gr. a útvarpslaga, nr. 68/1985. Með lögum nr. 82/1998, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum, og um breytingar á öðrum lögum (afnám varðhaldsrefsingar), sem tóku gildi 1. október 1998, hefur varðhald verið fellt niður sem refsing fyrir afbrot og fangelsi lögleitt sem eina tegund refsivistar hér á landi. Var ákvæðum almennra hegningarlaga og sérrefsilagaákvæðum breytt í þessa veru með nefndum lögum. Meðal annars var gerð breyting á útvarpslögum, nr. 68/1985, með lögunum, sbr. 178. gr. þeirra. Af þessum sökum er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir fangelsisrefsingu, en ekki varðhaldsrefsingu, vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota gegn refsinæmum ákvæðum frumvarpsins.

Um 29. gr.

    Ákvæði 1. mgr. um upptöku vegna myndlyklabrota skv. 33. gr. eru sama efnis og 4. og 5. mgr. 37. gr. a í útvarpslögum, nr. 68/1985.
    Ákvæði 2. mgr. um upptöku viðtækja, sem notuð hafa verið til óheimillar hagnýtingar á útvarpsefni skv. 32. gr., er sama efnis og samsvarandi ákvæði í 1. mgr. 37. gr. útvarpslaga.

Um 30. gr.

    Ákvæði þessarar greinar er nýmæli. Er lagt til að fyrir brot á nokkrum ákvæðum laganna verði eftirleiðis beitt stjórnvaldssektum samkvæmt úrskurðum útvarpsréttarnefndar. Þykja brot þessi almennt vera þess eðlis að ekki sé ástæða til þess að vísa þeim til dómstóla nema sá aðili, sem talinn er brotlegur, kjósi svo, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Þau brot, sem hér um ræðir, eru í fyrsta lagi brot sem hingað til hafa verið kæranleg til útvarpsréttarnefndar skv. 3. tölul. b 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga, þ.e. brot gegn lýðræðislegum grundvallarreglum í útvarpi (9. gr. frumvarpsins) og brot gegn andsvarsrétti (11. gr. frumvarpsins). Í öðru lagi er svo um að ræða brot gegn ákvæðum VI. kafla um auglýsingar, fjarsölu og kostun. Má vænta þess að viðbrögð við þeim brotum sem um ræðir í þessari grein verði skjótari hjá stjórnvaldi en vera mundi ef þau væru látin sæta dómstólameðferð. Oft og tíðum ætti það líka að duga, a.m.k. í fyrstu, að beita áminningu ef brot telst ekki alvarlegt eða er ekki ítrekað. Þá verður að telja það virkt úrræði, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. greinarinnar, að stjórnvaldssekt skuli ákveðin sem margfeldi af þeim tekjum sem útvarpsstöð hefur aflað sér með broti gegn VI. kafla laganna.
    Rétt þykir að kveða á um það að sektarúrskurðir útvarpsréttarnefndar séu aðfararhæfir, sbr. 3. mgr. frumvarpsgreinarinnar og 5. og 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/ 1989.
    Loks er kveðið á um það í greininni að útvarpsstöð geti skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og að málskot fresti aðför, sbr. 4. mgr. greinarinnar.
    Þó að meginreglan um brot gegn ákvæðum VI. kafla sé sú að þau varði stjórnvaldssektum geta sérákvæði leitt til þess að þau valdi refsingu samkvæmt ákvörðun dómstóla. Er gert ráð fyrir þessum möguleika í 2. málsl. 1. mgr. greinarinnar. Þetta á t.d. við eftir ákvæði 3. mgr. 19. gr. þar sem segir að ákvæði 4.–8. gr. laga nr. 96/1992, um húsgöngu- og fjarsölu, skuli gilda um fjarsölu samkvæmt lögum þessum eftir því sem við á, sbr. sérstaklega 8. gr. nefndra laga þar sem segir að brot á lögunum fari að hætti opinberra mála og varði brot sektum. Enn fremur er hugsanlegt að brot gegn 20. gr. um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum þætti vera refsivert samkvæmt ákvæðum samkeppnislaga, nr. 8/1993, sbr. 3.–5. mgr. 22. gr. og 57. gr. þeirra laga.

Um 31. gr.

    Hér er tekið upp óbreytt ákvæði 2. mgr. 8. gr. útvarpslaga, en þar segir að útvarpsréttarnefnd geti afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar, enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða. Er þetta í flestu tilliti þyngsta viðurlagaákvæði laganna og verður örugglega ekki til þess gripið nema í undantekningartilvikum og aðrar leiðir þyki ekki færar. Áður en til þess yrði gripið væri sjálfsagt búið að áminna stjórnendur útvarpsstöðvar og jafnvel beita öðrum viðurlögum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Engin leið er að leiða getum að því í hvaða tilvikum helst yrði gripið til þess úrræðis að svipta útvarpsleyfishafa leyfi sínu. Sú ákvörðun væri í hendi útvarpsréttarnefndar og yrði við hana að gæta ákvæða laga þessara og sjónarmiða um góða stjórnsýslu, sbr. sérstaklega ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Eins og endranær er ákvörðun útvarpsréttarnefndar endanleg á stjórnsýslustigi, en útvarpsleyfishafi gæti skotið málinu til úrlausnar dómstóla. Málskot til dómstóla mundi ekki fresta leyfissviptingu.


Um 32. gr.

    Ákvæði greinarinnar er sama efnis og 33. gr. núgildandi útvarpslaga. Tengist það ýmsum ákvæðum V. kafla höfundalaga, nr. 73/1972, einkum 48. gr.

Um 33. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru samhljóða 1. og 2. mgr. 37. gr. a í útvarpslögum, en 37. gr. a var tekin upp í útvarpslög með 2. gr. laga nr. 98/1995. Ákvæði 3.–5. mgr. 37. gr. a um refsingar og upptöku eigna eru færð í j-lið 1. mgr. 1. gr. 28. gr. frumvarpsins og 1. mgr. 29. gr.

Um 34. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra verði heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi. Er þar átt bæði við stafrænt sjónvarp og stafrænt hljóðvarp. Samkvæmt 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 95/47/EB frá 24. október 1995 um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp, sem gildir meðal annars fyrir Ísland, skulu ríkin gera allar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að háþróuð sjónvarpsþjónusta verði innleidd sem fyrst, þar með talið sjónvarpsútsendingar fyrir breiðskjái, háskerpusjónvarp og sjónvarpsútsendingar sem eru að öllu leyti stafrænar.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um það að samráð verði haft við útvarpsstöðvar um undirbúning málsins. Slíkt samráð er nauðsynlegt og eðlilegt þar sem þær munu verða bundnar af þeim ákvörðunum sem teknar verða í þessum efnum. Einnig verður nauðsynlegt að kalla til samráðs fleiri aðila, svo sem yfirvöld á sviði fjarskiptamála og aðra sérfróða aðila.
    Þá er í 3. mgr. ákvæði um það að við útgáfu allra nýrra útvarpsleyfa og við endurnýjun þegar útgefinna útvarpsleyfa skuli sett að skilyrði að með reglugerð megi mæla fyrir um breytingu á merkjum útvarpsstöðvar í stafrænt form, enda verði slík breyting ákveðin með eðlilegum fyrirvara að teknu tilliti til tæknilegra og fjárhagslegra ástæðna. Ákvæði þessu er einnig ætlað að gilda um útvarpsleyfi Ríkisútvarpsins.
    Stafrænt („digital“) útvarp er nú þegar hafið víða um heim, og breiðist útvarp með stafrænni tækni ört út. Stafræn tækni er notuð við vinnslu og framleiðslu útvarpsefnis og hefur einnig hlotið skjóta útbreiðslu við flutning útvarps um gervitungl, einkum sjónvarp, en einnig við flutning útvarps um þráð og í jarðbundnum sendingum, þ.e. hinum hefðbundnu útvarpssendingum í lofti.
    Flestir sem grannt fylgjast með þróun útvarps-, fjarskipta- og tölvumála eru þeirrar skoðunar að stafrænt útvarp muni á komandi árum að verulegu leyti leysa af hólmi þær útvarpssendingar sem lengstum hafa tíðkast, svokallað hliðrænt („analogt“) útvarp. Fáir virðast þó treysta sér til þess að segja til um hversu langan tíma það muni taka að breyta alveg úr hliðrænu útvarpi í stafrænt og margir eru þeirrar skoðunar að þessi þróun muni taka alllangan tíma. Í sumum nágrannalöndum okkar er við það miðað að algjör skipti gerist á 10 árum eða jafnvel eitthvað lengri tíma, og er þá m.a. höfð hliðsjón af endingartíma núverandi notendabúnaðar, sérstaklega sjónvarpsviðtækja, sem nú er nær eingöngu gerður fyrir móttöku hliðræns útvarps.
    Hin stafræna tækni þarfnast miklu minna rýmis, eins og menn þekkja af geisladiskum, og hið sama gildir um nýtingu útvarpsrása. Sést oft miðað við að 3–4 stafrænar sjónvarpsrásir taki svipað rými á tíðnisviðinu og ein hliðræn sjónvarpsrás. Með því að nota stafræna tækni í stað hliðrænnar má því nýta ákveðið tíðnisvið miklu betur. Væri þess vegna unnt að koma fleiri sjónvarpsrásum fyrir með því að taka upp stafræna senditækni.
    Það er viðurkennt í nútímasamfélagi að ein af skyldum ríkisvaldsins er að stuðla að því að tíðnisviðið sé notað á hagkvæmasta hátt sem mögulegt er, enda er hér um að ræða takmörkuð gæði sem úthlutað hefur verið til fárra aðila, og á það hér á landi einkum við um sjónvarpsrásir. Með því að sjá til þess að tíðnisviðið verði nýtt svo vel sem nútímatækni best leyfir auðveldar ríkisvaldið fleiri aðilum aðgang að útvarpsrekstri og gegnir þar með meginskyldum sínum í afskiptum af rekstri fjölmiðla sem eru að treysta tjáningarfrelsi, fjölbreytni í upplýsingum og skoðunum og menningu samfélagsins.
    Mikið af efni er nú framleitt með stafrænni tækni þótt það sé síðan sent út hliðrænt. Við þjöppun stafrænna merkja er notaður alþjóðlegur staðall, svokallaður MPEG-2 staðall. Þjöppun gerir kleift að nota færri bita í vinnslu og flutningi útvarpsmerkja en áður þurfti. Fjarskiptastofnun Evrópu hefur gefið út staðla fyrir stafrænar sendingar, bæði fyrir sendingar um gervitungl, um þráð og nú síðast fyrir jarðbundnar útsendingar. Er hér um þrjá staðla að ræða sem þó verða samhæfðir fyrir móttöku allra stafrænna sjónvarpsmerkja. Við undirbúning að stafrænu sjónvarpi hér á landi verður tekið mið af ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 95/47/EB frá 24. október 1995 um notkun staðla um merkjasendingar fyrir sjónvarp.
    Tæki til móttöku á útvarpssendingum eru enn aðallega miðuð við móttöku hliðrænna útvarpsmerkja. Á næstu árum mun framboð viðtækja til móttöku á stafrænum merkjum þó fara vaxandi. Í því millibilsástandi, sem skapast eftir að stafrænar útvarpssendingar hefjast og viðtæki fyrir hliðræna móttöku verða í notkun, munu notendur hliðrænna viðtækja þurfa að nota eins konar myndlykla sem breyta hinum stafrænu merkjum fyrir hliðræna móttöku. Í Bandaríkjunum er talið að í fyrstu verði sjónvarpstæki fyrir stafræna móttöku 1.000–1.500 dollurum dýrari en sambærileg tæki fyrir hliðræna móttöku.
    Að því er sjónvarp varðar hafa stafrænar sjónvarpssendingar margvíslega kosti fleiri en þann að nýta betur tíðnisviðið en nú er gert. Má nefna að hægt er að auka gæði myndar og hljóðs og fá fram betri myndir og t.d. geta hljómgæði tónlistar verið sambærileg við hljómgæði geisladisks. Þessir kostir munu þó ekki koma fram nema að hluta fyrr en móttakan verður einnig orðin stafræn. Þá gætir minni truflana í stafrænum sendingum. Þegar á líður verður það og ein meginbreytingin að hin stafræna tækni gefur möguleika á því að bjóða ýmiss konar nýja þjónustu þar sem um gagnvirkni verður að ræða. Af þessu má nefna svonefnt þáttasölusjónvarp („pay-per-view“) og kvikmyndapöntun („video on demand“).
    Það verður ekki aðeins á hinu hefðbundna sjónvarpssviði og náskyldum sviðum sem hin nýja tækni mun leiða til breytinga. Hinn svokallaði samruni („convergence“) sjónvarps, fjarskipta og tölvutækni í eitt svið með óljósum landamærum eða án nokkurra landamæra þeirra í milli mun að verulegu leyti byggjast á notkun stafrænnar tækni. Er því m.a. haldið fram að öll not sem fólk getur haft af sjónvarpstæki sínu muni það í framtíðinni geta haft af heimilistölvunni, og allt sem heimilistölvuna megi nota til að gera verði hægt að gera með sjónvarpstækinu.
    Stafrænar sendingar hljóðvarpsmerkja munu valda svipuðum breytingum og stafrænar sendingar sjónvarpsmerkja. Betri nýting verður á rásum. Hljómgæði aukast þannig að hljómlist á t.d. að hljóma eins og af geisladiski. Stöðvaval verður auðveldara. Unnt verður að hljóðvarpa upplýsingum sem læsilegar verða á skjám, svo sem textavarpi og söngtextum. Möguleikar opnast til hljóðvarps á sérrásum sem greitt yrði sérstaklega fyrir hlustun á. Útsendingar verða ódýrari í rekstri þar sem minna afl þarf til útsendinga en á þeim rásum sem nú eru notaðar.
    Eins og flestum öðrum tækniframförum mun verulegur kostnaður fylgja breytingu í stafrænt útvarp. Umtalsverður fjárfestingarkostnaður verður af því að koma upp sendibúnaði fyrir stafrænt útvarp. Og notendabúnaður mun, a.m.k. í fyrstu, verða dýrari en nú, alveg eins og litasjónvarpstæki voru í upphafi dýrari en sjónvarpstæki fyrir svarthvíta móttöku.
    Hér á landi hafa enn ekki verið gerðar neinar áætlanir um þann kostnað sem af þessari tæknibreytingu leiðir. Hlýtur kostnaðarathugun að verða eitt af fyrstu verkefnum í undirbúningi að stafrænu útvarpi hér á landi. Engum getum skal heldur að því leitt hvenær stafrænar útvarpssendingar geta hafist hér eða í hvers konar áföngum. Áætlanir þar að lútandi verða einnig liður í þeim undirbúningi sem lagt er til að heimilaður verði í þessari grein frumvarpsins. Víst er hins vegar að það er fyllilega tímabært fyrir Íslendinga að hefja nú athugun og undirbúning að stafrænu útvarpi svo að ekkert verði því til fyrirstöðu að hefja stafræna útvarpsstarfsemi þegar það verður metið hagkvæmt.

Um 35. gr.

    Í þessu ákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra setji nánari ákvæði um framkvæmd laganna með reglugerð.

Um 36. gr.

    Lagt er til að lög sem sett verða samkvæmt frumvarpi þessu öðlist þegar gildi og jafnframt falli þá úr gildi ákvæði útvarpslaga, nr. 68/1985, með síðari breytingum, þó þannig að ekki verði með gildistöku laga samkvæmt frumvarpi þessu felld úr gildi ákvæði útvarpslaga er sérstaklega varða Ríkisútvarpið. Er gert ráð fyrir að ákvæðin um Ríkisútvarpið í útvarpslögum verði sérstök lög, lög um Ríkisútvarpið, og verði þau gefin út svo breytt.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins er efnislega samhljóða bráðabirgðaákvæði núgildandi útvarpslaga. Aðeins er breytt tilvísunum til greina og kafla í frumvarpinu í samræmi við breytingu frá gildandi lögum.
    Ákvæði 2. mgr. þjónar þeim tilgangi að tryggja eðlileg starfslok Menningarsjóðs útvarpsstöðva. Ýmsum málum, sem sjóðurinn hefur haft með höndum, er ólokið, og þykir eðlilegast að núverandi stjórn sjóðsins ljúki þeim. Felst í ákvæðinu umboð til handa sjóðstjórninni til þess að ljúka verkefnum sínum, þar á meðal til að hafa eftirlit með þegar styrktum verkefnum og innheimta ógreidd gjöld til sjóðsins.
    Ákvæði 3. og 4. mgr. þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til útvarpslaga.

    Í frumvarpinu eru almenn ákvæði um útvarpsrekstur í landinu sem löguð eru að nýrri tilskipun Evrópuþingsins og ráðherraráðs Evrópusambandsins um sjónvarp án landamæra. Gert er ráð fyrir að ákvæði núverandi útvarpslaga er varða Ríkisútvarpið sérstaklega gildi áfram og verði gefin út sem sérstök lög.
    Tvö ákvæði frumvarpsins hafa helst áhrif á kostnað ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður, en hann veitir fjárframlög til innlendrar dagskrárgerðar. Sjóðurinn hefur tekjur af 10% gjaldi sem leggst á allar auglýsingar í útvarpi. Gjöld sjóðsins námu 93 m.kr. árið 1998 og þar af voru um 72 m.kr. fjármagnaðar með greiðslum frá Ríkisútvarpinu. Áætlað er að tekjurnar nemi um 120 m.kr. árið 2000, þar af 80–90 m.kr. frá Ríkisútvarpinu. Samkvæmt gildandi útvarpslögum greiðir sjóðurinn 25% hlut Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er greiðslan áætluð 70 m.kr. árið 2000. Ríkisútvarpið fékk ekki framlag til dagskrárgerðar úr sjóðnum árið 1998, en árið 1997 fékk Ríkisútvarpið 5,7 m.kr. framlag. Verði frumvarpið að lögum fellur það í hlut Ríkisútvarpsins að greiða lögbundinn hlut sinn í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar. Standist þessar áætlanir munu framangreindar breytingar hafa óveruleg áhrif á afkomu Ríkisútvarpsins. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir að huga þurfi sérstaklega að fjáröflun til rekstrar hljómsveitarinnar í tengslum við rekstur Ríkisútvarpsins.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd verði falið að hafa eftirlit með starfsemi allra útvarpsstöðva hér á landi, en til þessa hefur verið litið svo á að menntamálaráðuneytið hefði eftirlit með Ríkisútvarpinu. Gert er ráð fyrir að kostnaður nefndarinnar aukist um 1–1,5 m.kr. á ári, en ætla má að eftirlitskostnaður menntamálaráðuneytisins lækki eitthvað á móti.