Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 246  —  210. mál.




Frumvarp til laga



um starfsréttindi tannsmiða.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Tannsmiðir með meistararéttindi geta á eigin ábyrgð smíðað og gert við tanngóma og tannparta og þá m.a. unnið við töku móta og mátun, enda séu ekki sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar.
    Ákvæði 1. mgr. hagga ekki rétti tannsmiða til annarra starfa í löggiltri iðngrein sinni. Þau hagga heldur ekki rétti tannlækna eða þeirra sem starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tann lækna til að vinna við töku móta og mátun né áunnum réttindum þeirra samkvæmt ákvæðum eldri laga.

2. gr.

    Brot, sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn ákvæðum laga þessara, varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

3. gr.

    Iðnaðarráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Þar skal hann kveða á um það með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli sækja námskeið til að geta öðlast starfsréttindi samkvæmt lögum þessum. Iðnaðarráðherra getur sett reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið hefur verið í iðnaðarráðuneytinu, var lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98 og er endurflutt nú með vissum breytingum. Því er ætlað að tryggja rétt tannsmiða með meistararéttindi til að geta starfað sjálfstætt í grein sinni, sem er löggilt iðngrein, við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum og þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun til að geta sinnt starfi sínu.
    Úr ágreiningi, sem verið hafði uppi um það hvort tannsmiðir hefðu heimild að lögum til að vinna í munnholi viðskiptavina sinna við töku móta og mátun, var leyst með dómi Hæsta réttar Íslands í máli nr. 52/1995 7. desember 1995. Með hliðsjón af atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar taldi rétturinn, sem benti á að sérstök lög um starfsréttindi tannsmiða hefðu ekki verið sett, að 6. gr. laga nr. 38/1985, um tannlækningar, fæli í sér nægilega skýra tak mörkun á atvinnufrelsi tannsmiða til þess að þeir gætu ekki unnið í munnholi manna í því skyni að setja í þá gervitennur eða tanngarða, með öðrum orðum tanngóma og tannparta. Hafði rétturinn við túlkun sína á þessari grein tannlækningalaganna mið af þeirri staðreynd að frá 1929 hefðu tannlæknar með vissum undantekningum samkvæmt tannlækningalöggjöf haft einkarétt á því að taka mót og framkvæma mátun og ekkert í athugasemdum með löggjöf um tannlækningar eða ræðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra þar að lútandi á Alþingi, við meðferð frumvarps til gildandi laga, gæfi tilefni til að álíta að túlka bæri hin takmarkandi lagaákvæði öðruvísi. Taldi Hæstiréttur sig því ekki geta komist að annarri niðurstöðu að óbreyttum lögum. Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-5483/1994 20. desember 1994 hafði hins vegar verið talið að takmörkun á atvinnufrelsi tannsmiðs að þessu leyti byggðist ekki á beinu og ótvíræðu lagaboði. Mismunandi niðurstöður dómstóla sýna að skiptar skoð anir hafa verið um túlkun ákvæða tannlækningalaga er snerta starfssvið tannsmiða.
    Atvinnufrelsi skv. 75. gr. stjórnarskrárinnar má setja skorður með lögum, enda krefjist al mannahagsmunir þess. Eigi verður þó annað séð en að það sé andstætt meginhugsun iðnaðar laga, nr. 42/1978, að þeim sem hafa starfsréttindi í löggiltum iðngreinum á grundvelli þeirra sé í mikilvægum atriðum gert ókleift að sinna iðn sinni en tannsmíði hefur verið löggilt iðn grein frá því að menntamálaráðherra kvað á um það með setningu reglugerðar nr. 323/1972, sbr. nú síðast 2. gr. reglugerðar nr. 648/1999, um löggiltar iðngreinar. Í 8. gr. iðnaðarlaganna kemur fram að m.a. meistarar hafi rétt til iðnaðarstarfa í löggiltum iðngreinum og skv. 10. gr. laganna veitir meistarabréf meistara leyfi til að reka þá iðngrein er meistarabréf hans tekur til. Frumvarpi þessu er ætlað að bæta úr því að tannsmiðir, sem eru ekki heilbrigðisstétt, geti ekki að óbreyttum lögum sinnt mikilvægum þætti í starfi sínu á eigin ábyrgð en þurfi að treysta á aðra stétt, tannlækna, til að starfa samkvæmt iðnréttindum sínum.
    Til að tannsmiðir geti samkvæmt framansögðu sinnt starfi sínu við smíði og viðgerðir á tanngómum og tannpörtum þykir sjálfsagt að þeir geti unnið við töku móta og mátun hjá við skiptavini. Er þá tekið tillit til eðlis þessa starfsþáttar sem tengist heilbrigði manna eins og reyndar aðrir þættir í störfum tannsmiða. Taka móta af munni viðskiptavinar er enda óhjá kvæmilegur þáttur í smíði tanngóma (eða tannparta). Fer mótatakan í stuttu máli þannig fram að svokallaðri skeið með kvoðu (mátefni) er þrýst upp á tannstæði í munnholi og harðnar hún síðan. Tanngómurinn er svo smíðaður og mátaður í samvinnu við viðskiptavininn sem velur útlit og lögun tanna í samráði við tannsmið. Mátefni það sem notað er til mótatökunnar er al gerlega hættulaust og þrautreynt. Mátun á tanngómi er sem mótataka nauðsynlegur þáttur í tannsmíðinni.
    Til stuðnings því að tannsmiðir geti unnið við mótatöku og mátun má benda á að undan þágur hafa tíðkast frá ákvæðum tannlækningalöggjafar um einkarétt tannlækna til að vinna í munnholi manna og tíðkast enn. Í 4. gr. laga nr. 7/1929, um tannlækningar, náðu undan þágurnar til lækna ef þeir sönnuðu fyrir heilbrigðisstjórninni að þeir hefðu aflað sér nægi legrar þekkingar í þessari grein. Með lögum nr. 34/1932 var dómsmálaráðherra síðan heim ilað, með samþykki landlæknis, að veita mönnum, er lokið höfðu tannsmíðanámi, leyfi til að setja gervitennur og tanngarða í menn í samráði við héraðslækni í þeim héruðum sem væru tannlæknislaus. Þessi heimild til handa ráðherra var afnumin með lögum nr. 62/1947, þó þannig að þeir sem fengið höfðu leyfi ráðherra skyldu halda því þar til ákvæði yrðu sett í lög um réttindi þeirra og skyldur en slík löggjöf hefur aldrei verið sett. Skv. 9. gr. gildandi laga nr. 38/1985, um tannlækningar, getur sérhæft aðstoðarfólk undir stjórn tannlækna (nú tanntæknar) sinnt þessum verkefnum. Á það skal og bent að í dönskum lögum um klíníska tann smiði (lov om kliniske tandteknikere), nr. 100/1979, með síðari breytingum, hafa klínískir tannsmiðir svipaðan rétt til að vinna við töku móta og mátun og gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu og er það ekki eina landið þar sem tannsmiðir mega vinna slík störf sjálfstætt.
    Þá skal tekið fram að í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 29/1997 var sú vinna við viðskipta vini, sem ráðið taldi þurfa að fara fram í tengslum við tannsmíðavinnu, talin falla undir sam keppnislög. Í ákvörðuninni var m.a. undirstrikuð sú meginregla samkeppnisréttar að allar hömlur á svigrúm manna í atvinnurekstri væru almennt til þess fallnar að draga úr samkeppni eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni á tilteknum markaði. Þykir eðlilegt með hliðsjón af sam keppnislögum, nr. 8/1993, m.a. 1. gr. um markmið laganna og 17. gr. um skaðleg áhrif á sam keppni, að setja í lög ákvæði er leiði til aukinnar samkeppni á því sviði þjónustu er hér um ræðir, bæði milli tannlækna og tannsmiða og innbyrðis milli tannsmiða en í Tannsmiðafélagi Íslands voru 76 einstaklingar í árslok 1997 og í Sambandi íslenskra tannsmíðaverkstæðiseig enda um 20. Leiða má að því líkur að heimild til handa tannsmiðum, sem flestir eru með meistararéttindi, til að geta tekið mót og framkvæmt mátun muni leiða til lækkunar kostnaðar fyrir neytendur og sparnaðar hjá hinu opinbera. Þetta kemur og fram í framangreindri ákvörð un samkeppnisráðs en þar segir m.a. orðrétt: „Ekki er ástæða til að ætla annað en að sam keppni milli t.d. tannlækna og tannsmiða stuðli að lægra verði, hagkvæmni og betri þjónustu á sama hátt og í annarri atvinnustarfsemi.“
    Frá 122. þingi hefur frumvarpi þessu verið breytt í nokkru. Breyting á 1. mgr. 1. gr. felur í sér að starfsréttindin miðist við meistara í tannsmíði í stað tannsmiða. Jafnframt er nú kveðið á um það í 3. gr. að ráðherra sé skylt, ekki heimilt, að setja nánari ákvæði um fram kvæmd laganna með reglugerð. Þar er honum skylt, ekki heimilt, að kveða á um með hvaða skilyrðum tannsmiðir skuli taka þátt í námskeiði til að geta öðlast starfsréttindi. Þá er bætt við í 3. gr. að iðnaðarráðherra geti sett reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni en slíkt getur leitt til nokkurrar formlegrar takmörk unar á starfsheimild tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. Í fylgiskjali I er gerður samanburður á námi tannsmiða á Íslandi og í Danmörku.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Auk þess sem vísað er til almennra athugasemda hér að framan skal tekið fram að í 1. mgr. þessarar greinar er fjallað um mikilvægan þátt í störfum tannsmiða, þ.e. smíði og viðgerðir á tanngómum (heilum tanngómum eða tannsettum) og tannpörtum (hlutum tanngóma, einni eða fleiri tönnum). Við það starf yrði unnið við töku móta af viðskiptavini og mátun góma eða tanna. Þykir eðlilegt að tannsmiðir, sem hafa meistararéttindi samkvæmt frumvarpi þessu, geti unnið öll þessi störf sjálfstætt, með öðrum orðum á eigin ábyrgð, en ekki undir handleiðslu og á ábyrgð annarra. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands um túlkun á 6. gr. laga nr. 38/1985, um tannlækningar, hefur tannsmiður ekki heimild nú til að starfa sjálfstætt í munnholi, þ.e. við mótatöku og mátun. Úr þeim heimildarskorti er ætlunin að bæta með sér lögum um tannsmiði á grundvelli lagafrumvarps þessa. Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins má þó þrengja starfssviðið með því að áskilja samstarf við tannlækna í ákveðnum tilvikum.
    Þótt störf við mótatöku og mátun tengist heilbrigði manna skal ítrekað að þau þykja þó ekki þess eðlis að tannsmiðir með meistararéttindi geti ekki unnið þau sjálfstætt eins og önnur störf sem þeir vinna á grundvelli iðnaðarlaga í löggiltri starfsgrein sinni. Í þessu sambandi vísast til stuttrar lýsingar á störfunum í almennum athugasemdum. Benda má á þessu til stuðnings að samkvæmt dönskum lögum geta klínískir tannsmiðir þar í landi unnið við móta töku og mátun á eigin ábyrgð. Þá má benda hér á undanþágu þá sem tíðkast hefur hér á landi í áranna rás varðandi sérhæft aðstoðarfólk tannlækna sem telst til heilbrigðisstétta, andstætt tannsmiðum, en skv. 4. gr. laga nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, starfa þær stéttir nú „ýmist á eigin ábyrgð eða undir handleiðslu og á ábyrgð læknis eða annars sérfræðings á viðkomandi sviði“, með öðrum orðum í vissum tilvikum á eigin ábyrgð samkvæmt lögunum, andstætt því sem var samkvæmt eldri lögum. Taka má fram að nám tannsmiða er lengra en nám sérhæfðs aðstoðarfólks tannlækna (tanntækna) og er nú fjögur ár en auk þess þarf meistaraskólanám og eins árs starf að auki undir stjórn meistara til að geta öðlast meistararéttindi í iðngreininni.
    Í 1. mgr. er sleginn sá varnagli, eins og í dönsku lögunum um klíníska tannsmiði, að ekki séu sjúklegar breytingar eða meðfæddir gallar í munni eða kjálka viðskiptavinar. Gera má ráð fyrir að í þessum tilvikum vísi tannsmiðir viðskiptavinum sínum til heimilislækna eða annarra sérfræðinga, m.a. tannlækna, og afli jafnvel heilbrigðisvottorða í vafatilvikum áður en vinna hefst.
    Í 1. mgr. er samkvæmt framangreindu gert ráð fyrir nauðsynlegri breytingu á íslenskri lög gjöf til að tryggja að tannsmiðir með meistararéttindi geti með eðlilegum hætti sinnt mikil vægum störfum í löggiltri iðngrein sinni og atvinnufrelsi þeirra verði þannig tryggt. Sú hugs un kemur reyndar fram í 1. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, þar sem segir að meginmarkmiði laganna um að efla virka samkeppni skuli m.a. ná með því að vinna gegn óhæfilegum hindr unum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ákvæði 1. mgr. haggi ekki rétti tannsmiða til annarra starfa í löggiltri iðngrein sinni. Hér getur m.a. verið um að ræða smíði krónu og brúa en sú vinna tannsmiða hefur farið fram í samvinnu við tannlækna. Þá haggar málsgreinin ekki rétti tann lækna eða þeirra sem starfa undir handleiðslu og á ábyrgð tannlækna til að vinna við töku móta og mátun í munnholi né áunnum réttindum þeirra samkvæmt ákvæðum eldri laga. Sumir tannlæknar hafa jafnvel réttindi í tannsmíði á grundvelli iðnaðarlöggjafarinnar en ákvæða hennar þarf alltaf að gæta við tannsmíði.

Um 2. gr.

    Í greininni eru ákvæði um refsingu við brotum á lögunum, svo og réttarfar.

Um 3. gr.

    Í greininni er kveðið á um skyldu iðnaðarráðherra til að setja nánari ákvæði um fram kvæmd laganna í reglugerð, ekki reglugerðarheimild eins og í frumvarpi á síðasta þingi.
    Þá segir og að iðnaðarráðherra skuli, ekki geti, í reglugerð kveða á um með hvaða skilyrð um tannsmiðir skuli sækja námskeið til að geta öðlast starfsréttindi samkvæmt lögum þessum og er gert ráð fyrir að það sé gert að höfðu samráði við menntamálaráðuneytið. Á slíkum námskeiðum gætu þeir tannsmiðir, sem það kysu, í anda laga um starfsmenntun í atvinnu lífinu, svo og símenntunar, aukið verkkunnáttu sína og hæfni og lært m.a. mótatöku og mátun sem yrði mjög lítill en nauðsynlegur þáttur í störfum þeirra tannsmiða með meistararéttindi er mundu smíða og gera við tanngóma og tannparta. Gert er ráð fyrir að menntun eða starfs reynslu sem aflað hefur verið, t.d. á grundvelli sjálfstæðs starfs samkvæmt samningi við Tryggingastofnun ríkisins, megi meta sem ígildi námskeiðs eða hluta þess. Gert er ráð fyrir að allir tannsmiðir geti sótt námskeiðin þótt meistararéttindi séu skilyrði fyrir veitingu starfs réttinda í kjölfar þeirra.
    Bætt er við frá síðasta frumvarpi að iðnaðarráðherra geti sett reglur um að hluti af starfi tannsmiða skv. 1. mgr. 1. gr. skuli unninn í samstarfi við tannlækni. Eins og segir í lok al mennra athugasemda getur slíkt leitt til nokkurrar formlegrar takmörkunar á starfsréttindum tannsmiða með meistararéttindi. Þetta er byggt á fyrirmynd í heimildarákvæði dönsku laganna um klíníska tannsmiði og varðar fólk sem misst hefur hluta tanna en þó ekki allar. Í reyndinni yrði hins vegar samstarf með tannsmið og tannlækni þegar viðskiptavinur væri með einhverjar tennur þótt ekki yrði mælt fyrir um slíkt samstarf.
    Það yrði ákvörðunaratriði, t.d. að fenginni ráðgjöf danska klíníska tannsmíðaskólans, hversu mikið væri eðlilegt að kenna á viðkomandi námskeiði. Einhvern hluta kennslunnar gætu íslenskir aðilar innt af hendi, t.d. í meinafræði munnhols. Hugsanlega mætti síðar nota meistaraskólann að einhverju leyti og jafnvel fleiri skóla hér á landi, t.d. skóla klínískra að stoðarmanna tannlækna (tanntækna). Að lokum mundi nám í tannsmíðaskólanum hér á landi væntanlega taka einhverjum breytingum og bjóða upp á meira nám í klínískum greinum, þ.e. kröfur yrðu smám saman hertar en námið yrði blandað nám eins og nú er en ekki sundur greint eins og í Danmörku.
    Námskeið virðist duga til að leysa núverandi vanda og ætti að nægja. Hér má hafa í huga að íslenskir meistarar í tannsmíðum með langt nám og góða reynslu að baki eiga auðveldlega að geta á skömmum tíma lært það sem til þarf um mótatöku og mátun, samskipti við við skiptavini og fleira sem skiptir máli, t.d. meinafræði munnhols, þannig að ekki getur talist raunhæft að miða tímafjölda við nám í ákveðnum klínískum námsgreinum í Danmörku og þá nám ungra og lítt þjálfaðra nemenda. Þá má nefna að í lögunum um klíníska tannsmiði í Danmörku 1979 var gert ráð fyrir að tannsmiðir þar í landi gætu með vissum skilyrðum öðlast réttindi til að starfa við klíníska tannsmíði með miklum mun auðveldari hætti en felst í náminu í klíníska tannsmíðaskólanum þar í landi. Jafnframt má nefna að í iðngreinum hér á landi hafa starfandi iðnaðarmenn iðulega mislangt nám að baki þar eð þeir eldri halda áunnum réttindum sínum þegar kröfur eru hertar, t.d. í löggjöf.
    Varðandi starfsréttindanámskeiðið hefur verið haft samband við skóla fyrir klíníska tann smiði í tannlæknaskóla Árósaháskóla. Voru skólanum veittar upplýsingar um samanburð á námi tannsmiða á Íslandi og í Danmörku á grundvelli nefndarstarfs hér á landi ásamt töflu um tímafjölda í einstökum greinum, svo og veittar viðbótarupplýsingar og spurt ýmissa spurninga, m.a. hvort 100 eða 200 tímar dygðu eða jafnvel hvort námskeið dygði alls ekki að mati Dana.
    Í svari danska skólans, sbr. fylgiskjal II, var að finna tillögu um réttindanámskeið fyrir tannsmiði á Íslandi. Tillöguna vann Helga Largren, tannlæknir við skólann, sem sér um kennslu í klínískum tannsmíðum en þær snúa að samskiptum við viðskiptavini.
    Tillagan byggðist á danskri áætlun um námskeið sem samþykkt var 1985 af dönskum stjórnvöldum, m.a. menntamálaráðuneytinu, nánar tiltekið námskeið sem veita átti starfandi tannsmiðum sömu starfsréttindi og nýskólagengnum klínískum tannsmiðum þar í landi.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir námskeiði með alls 133 tímum fyrir íslenska tannsmiði. Námið yrði sem hér segir:
     Fræðilegur hluti:
         bitfræði
  8 tímar

         tannskemmdir
  4 tímar

         meinafræði munnhols
  6 tímar

         tannholdsfræði
   4 tímar

         tannsmíði
44 tímar

68 tímar

    Klínískur hluti (samskipti við viðskiptavini), m.a. verkstæðisvinna:
         1 heilgómur fyrir efri góm og neðri góm
20 tímar

         1 eftirgerðargómur annaðhvort fyrir efri góm eða neðri góm
15 tímar

         1 partgómur fyrir efri góm
15 tímar

         1 partgómur fyrir neðri góm
15 tímar

65 tímar

    Gert er ráð fyrir að námskeið yrði haldið á Íslandi og kæmu þá tveir frá danska skólanum hingað (miðað við sjö eða færri á námskeiðinu) en einnig er gefinn kostur á að íslenskir tann smiðir fari á mánaðarnámskeið í danska skólanum.
    Í gögnum kemur fram að gengið sé út frá fullnægjandi tímasókn í fræðilega hlutanum en fullnægjandi færni í klíníska hlutanum. Reynist einhverju áfátt er jafnvel möguleiki á fram lengingu eða framhaldskennslu.
    Danir leystu starfsréttindavandamál sín 1985 með þessum hætti þannig að segja mætti að við gerðum ekki minni kröfur en Danir, miðað við sambærilegar aðstæður, ef við færum að á sama hátt nú hér á landi, jafnvel meiri kröfur miðað við ákvæði dönsku laganna frá 1979.
    Framangreind tillaga hefur verið borin undir menntamálaráðuneytið og gerir það ekki at hugasemdir við umfang námskeiðsins sem stæði öllum tannsmiðum til boða.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.


Samanburður á námi tannsmiða á Íslandi og í Danmörku.


    
Sumarið 1998 var tekin saman sérstök samanburðartafla þar sem fram kemur hvaða greinar eru kenndar í löndunum tveimur og hversu mikið í hverri grein.
    Fram kemur að miðað við réttindi til að starfa sjálfstætt samkvæmt tannsmiðafrumvarpinu, sem lagt var fram á síðasta þingi, hefði tannsmiður á Íslandi að baki tæpra 5.000 tíma nám í tannsmíði sem sveinn en um 7.200 tíma sem meistari. Síðustu tíu árin hafa tannsmíðanemar á Íslandi verið með stúdentspróf sem undirstöðumenntun og bætir það að vissu leyti við tímafjöldann en er þó ekki tekið inn í tölurnar hér. Klínískur tannsmiður í Danmörku, sem starfar undir stjórn annars, hefur hins vegar að baki samtals í almennri og klínískri tannsmíði þar í landi rösklega 4.700 tíma nám (miðað við tveggja ára nám í almennri tannsmíði og að viðkomandi sé 20 ára eða eldri í upphafi náms). Sjálfstætt starfandi klínískur tannsmiður í Danmörku hefur hins vegar að baki um 6.200 tíma samtals samkvæmt sömu forsendum. Sé miðað við tveggja og hálfs árs nám í almennri tannsmíði í Danmörku, þ.e. ef nám byrjar í kjölfar grunnskóla, hækka tölurnar þar og verða rösklega 5.400 tímar og um 6.900 tímar. Ef nám í tannsmíði er hafið í báðum löndunum við 20 ára aldur er samkvæmt þessu ljóst að tannsmíðameistari á Íslandi hefur talsvert fleiri tíma að baki við tannsmíðanám en meistari í Danmörku, um 7.200 tíma, miðað við rösklega 4.700 tíma nám í Danmörku ef klíníski tann smiðurinn starfar þar undir stjórn annars en um 6.200 tíma ef hann starfar þar sjálfstætt.
    Hins vegar er samsetning kennslugreina nokkuð mismunandi sem stafar fyrst og fremst af því að í Danmörku klofnar námið eftir almenna tannsmíðaskólann í tvo skóla, klíníska tannsmíðaskólann og skóla þar sem krónu- og brúargerð er kennd. Klínískur tannsmiður í Danmörku hefur að baki mun meira nám en íslenskur meistari í klínískum greinum sem snúa að samskiptum við viðskiptavini, m.a. vinnu í munnholi. Þannig er kennslugreinin forvinna vegna tannsmíði á klíník (stofu), svo og sá hluti kennslugreinarinnar tannsmíði á klíník þar sem ekki er sinnt eiginlegri tannsmíði, ekki kennd íslenskum tannsmiðum. Í báðum þessum tilvikum er kennt að annast viðskiptavin og m.a. taka mót og máta þau. Þá er kennt að bóka viðskiptavini og því um líkt. Meinafræði munnhols og nokkrar smærri greinar, t.d. tannholds fræði, eru heldur ekki kenndar íslenskum tannsmiðum. Hins vegar eru íslenskir tannsmiðir með mun meira nám í einni klínískri grein, bitfræði. Í líf- og læknisfræðilegum grunngreinum hafa íslenskir tannsmiðir mun meira nám að baki almennt en klínískir tannsmiðir í Danmörku stunda þó meira nám í ýmsum smærri greinum og sumar þeirra eru jafnvel ekki kenndar í íslenska tannsmíðaskólanum, t.d. lífeðlisfræði, en að einhverju leyti eru slíkar greinar hins vegar kenndar hér á landi í framhaldsnámi. Nokkuð er þó kennt í líffærafræði í tannsmíða skólanum hér og í einni þessara líf- og læknisfræðilegu grunngreina er kennslan miklu meiri á Íslandi, þ.e. í formfræði tanna. Á hinn bóginn hefur tannsmíðameistari á Íslandi að baki mun lengra nám í krónu- og brúargerð en klínískur tannsmiður í Danmörku og hefur einnig lært nokkuð um t.d. tannréttingar.
    Taka má fram að í íslenska meistaraskólanum eru kenndar ýmsar greinar sem eru ekki í danska náminu og má þar nefna greinar sem tengjast stjórnun, reikningsskilum, tölvunotkun og því um líku. Eftir er að bæta við valgreinum í meistaraskólanum hér á landi og faggreinum þannig að meistaraskólanámið á eftir að aukast hér á landi.
    Samanburðurinn leiðir í stuttu máli samkvæmt þessu til þeirrar niðurstöðu að íslenskir tannsmíðameistarar hafa mun fleiri námstíma að baki en klínískir tannsmiðir í Danmörku. Íslensku meistarana skortir kennslu í nokkrum klínískum greinum og jafnvel einhverjum líf- og læknisfræðilegum grunngreinum. Þeir hafi hins vegar að baki meira nám í mikilvægri klínískri grein, bitfræðinni, og miklu meira nám í einni líf- og læknisfræðilegri grunngrein, formfræði tanna, auk þess sem þeir hafa mun meira nám að baki við smíði krónu og brúa, hafa lært meira í ýmsum stjórnunar- og rekstrargreinum í meistaraskólanum og taka verður tillit til þess að þeir hafa lært fyrir stúdentspróf frá menntaskóla eða fjölbrautaskóla ýmislegt sem tengist náminu og ekki er talið með í þessum samanburði. Þá hafa íslenskir tannsmíða meistarar tvö starfsár að baki sem hluta af námi í stað eins hjá klínískum tannsmiðum sem starfa sjálfstætt í Danmörku, annað árið til að geta öðlast sveinspróf og hitt árið til að geta fengið meistararéttindi, og hefur þetta áhrif á tímafjöldann á Íslandi. Þeir hafa einnig oft mikla starfsreynslu að baki að námi loknu. Starfsreynsluna verður að meta þegar metið verð ur hvort þeir fái réttindi til að taka mót í munnholi og máta þau og geti þannig starfað sjálf stætt, án milligöngu tannlækna. Þess má geta að ýmsir tannsmiðir hafa starfað á klíník (stofu) með tannlæknum og öðlast þar reynslu og einhverjir jafnvel starfað sem aðstoðarmenn tannlækna (tanntæknar) og þá m.a. tekið mót.
    Hér að framan er um að ræða samanburð á námi tannsmiða á Íslandi og Danmörku eins og það er nú. Mikilvægt er að hafa í huga, eins og fram kemur í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins, að í lögunum um klíníska tannsmiði í Danmörku 1979 var gert ráð fyrir að starfandi tannsmiðir þar í landi gætu með vissum skilyrðum öðlast réttindi til að starfa við klíníska tannsmíði með miklum mun auðveldari hætti en fólst í náminu í klíníska tannsmíðaskólanum þar í landi. Þeir þurftu með öðrum orðum ekki að bæta við sig námi í öllum þeim umframtímum sem kenndir voru í sumum kennslugreinum í skólanum. Ekki sýnist þörf á að gera strangari kröfur til íslenskra tannsmiða en gerðar voru til dönsku tannsmiðanna á þeim tíma er þeir fengu viðbótarstarfsréttindi að lögum, þ.e. með því að nota annan samanburðargrundvöll og benda eingöngu á það sem vantar á nám í einstökum námsgreinum. Jafnframt má ítreka að í iðngreinum hér á landi hafa starfandi iðnaðarmenn iðulega mislangt nám að baki þar eð þeir eldri halda áunnum réttindum sínum þegar kröfur eru hertar, t.d. í löggjöf.
    Hér má einnig vísa til niðurlags athugasemda við 3. gr. frumvarpsins varðandi tillögu skóla fyrir klíníska tannsmiði í tannlæknaskóla Árósaháskóla um réttindanámskeið fyrir íslenska tannsmiði.



Fylgiskjal II.


Bréf Tannlæknaskólans – Árósaháskóla til iðnaðarráðuneytisins.


(9. október 1998.)



    Hjálagt sendist svar við erindi yðar frá 26. september 1998 varðandi tillögu um réttinda námskeið fyrir tannsmiði á Íslandi. Tillöguna vann Helga Largren, deildartannlæknir í klínískri tannsmíðakennslu.
    Tillagan byggir á námskeiðsáætlun sem heilbrigðisstjórnin og menntamálaráðuneytið í Danmörku samþykktu árið 1985 þar sem fjallað var um var sérstaklega tilsniðið námskeið til að starfandi tannsmiðir gætu staðið jafnfætis nýútskrifuðum klínískum tannsmiðum með tilliti til þess að fá réttindi.
    Það er forsenda fyrir því að fá vottorð um menntun að námskeiðinu sé lokið með full nægjandi hætti.
    Við sendum tillöguna íslenska iðnaðarráðuneytinu til frekari meðferðar. Ef áætlunin verður samþykkt og þess er óskað að hafa kennara frá skólanum í Árósum á námskeiðinu þarf að gera fjárhagsáætlun eftir reglum Árósaháskóla um þá starfsemi sem skilar tekjum.

Virðingarfyllst,



Bodil Birn
skólastjóri.


Fylgiskjal:
Áætlanir og bréfaskriftir
við menntamálaráðuneytið í Danmörku
1984–1985 sendast í bréfi.

Skóli fyrir tanntækna, tannfræðinga og klíníska tannsmiði
Tannlæknaskólanum – Árósaháskóla
9. október 1998


Tillaga um réttindanámskeið fyrir tannsmiði á Íslandi.

Fræðilegur hluti.
Bitfræði
  8 tímar

Tannskemmdir
  4 tímar

Meinafræði munnhols
  6 tímar

Tannholdsfræði
  4 tímar

Tannsmíði
44 tímar

Alls
68 tímar


Klínískur hluti (m.a. verkstæðisvinna).
1 heilgómur fyrir efri góm og neðri góm
20 tímar

1 eftirgerðargómur annaðhvort fyrir efri góm eða neðri góm
15 tímar

1 partgómur fyrir efri góm
15 tímar     

1 partgómur fyrir neðri góm
15 tímar

Alls
65 tímar


    Námskeiðið tekur um fjórar vikur. Annaðhvort getur Lone Nyhuus, deildartannlæknir frá tannsmíða- og bitfræðideild, og undirrituð komið til Íslands og haldið námskeiðið, hugsan lega í samvinnu við Tannlæknaskólann á Íslandi, eða íslensku tannsmiðirnir geta komið til Danmerkur þar sem unnt er að halda námskeiðið í Tannlæknaskólanum í Árósum.

Virðingarfyllst,



Helga Largren,     deildartannlæknir í klínískri tannsmíðakennslu.






Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um starfsréttindi tannsmiða.

    Tilgangur frumvarpsins er að tryggja rétt tannsmiða með meistararéttindi til að geta starfað sjálfstætt að grein sinni, sem er löggilt iðngrein, og þá unnið á eigin ábyrgð við töku móta og mátun þeirra.
    Í 3. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um framkvæmd laganna, þar á meðal um skilyrði um námskeið sem tannsmiðir skulu sækja til að öðlast starfsréttindi sam kvæmt lögunum. Í athugasemd við greinina er gerð grein fyrir tillögu um 133 tíma starfs réttindanámskeið sem halda mætti hér á landi eða í Danmörku. Áætlað er að kostnaður við námskeið geti verið á bilinu 2–4 m.kr. eftir fjölda þátttakenda og námskeiðsstað. Gera verður ráð fyrir að kostnaðurinn skiptist milli ríkisins og þátttakenda. Verði frumvarpið að lögum má ætla að það leiði til sparnaðar hjá almenningi og hjá Tryggingastofnun ríkisins sem greiddi á síðasta ári um 40 m.kr. vegna tannsmíða þótt ekki séu forsendur til að áætla fjár hæðir í því sambandi.