Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 276  —  230. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    Við 6. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er verða 2. og 3. málsl. og orðast svo: Þó er óheimilt að flytja aflamark eða framselja aflahlutdeild til frystiskipa umfram þá aflahlutdeild sem þau höfðu 1. september 1999. Heimilt er að flytja aflaheimild og aflahlut deild milli frystiskipa sé um sambærileg skip að ræða, sbr. 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Um margra ára skeið hefur sú þróun átt sér stað í kvótakerfinu að botnfiskaflakvótinn hef ur safnast til frystiskipa fiskveiðiflotans og jafnframt hefur hefðbundnum fiskibátum fækkað mikið. Aflakvóti bátaflotans hefur einnig minnkað mikið sem hlutfall af úthlutuðum kvóta til fiskiskipa stærri en 6 tonn (krókabáta), þó svo að það hafi í raun verið falið með því að taka fleiri strandveiðifisktegundir, eins og sandkola, skrápflúru og steinbít, inn í kvóta og fjölga þannig þorskígildum bátaflotans.
    Það er svo saga út af fyrir sig hvernig áðurnefndar viðbótartegundir í kvótakerfinu hafa verið notaðar í svokallaða tegundatilfærslu og þannig búið til sjálftökukvóta í karfa og grá lúðu.
    Hér er lagt til að sett verði í lög ákvæði sem kemur í veg fyrir að frystiskipin geti haldið áfram að safna til sín veiðiheimildum bátaflotans, með öðrum orðum að sá floti verði þá að,,hagræða“ aflaheimildum innbyrðis milli frystiskipa ef á að færa á þau meiri afla í almennum botnfisktegundum. Við umfjöllun um frumvarpið er rétt að skoða hvort slík takmörkun eigi ekki að ná til t.d. karfa og grálúðu sem eru tvímælalaust þær fisktegundir sem best nýtast frystiskipum til verðmætasköpunar.
    Fjöldamörg rök má færa fyrir því að setja slíkt ákvæði í lög. Ekki verður á móti mælt að á bak við útgerð frystiskipa eru öll fjárhagslega sterkustu fyrirtækin í sjávarútvegi. Því liggur í augum uppi að ef þennan öfluga flota vantaði kvóta gætu svo fjársterkir aðilar keypt upp veiðirétt eins eða tveggja lítilla útgerðarstaða án þess að þurfa lántöku eða sérstaka fjármögn un til kaupanna. Í þessu liggur viss hætta sem fylgir þeirri einstæðu útfærslu sem við höfum komið okkur upp í kvótaverslunarkerfinu þar sem í því eru engar girðingar svo að koma megi í veg fyrir slys eins og þau að niðurskurður á úthafskarfakvóta verði ekki sjálfkrafa til þess að byggð leggist af á Hólmavík eða Þórshöfn, svo að dæmi séu tekin, vegna þess að þaðan fór kvótinn sem vantaði í úthaldseyðuna hjá frystiskipunum. Þótt hér sé aðeins lagt til að setja slíka takmörkun á framsal til frystiskipa má vafalaust benda á rök í þá átt að almennt sé rétt að setja nokkrar girðingar í núverandi kvótakerfi og skipta þannig flotanum upp í útgerðar flokka. Það mundi örugglega auðvelda meðferð og lagfæringar á miklum göllum kvóta brasksins í kerfinu.