Hægt er að sækja Word Perfect útgáfu af skjalinu, sjá upplýsingar um uppsetningu á Netscape fyrir Word Perfect skjöl.
125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 343  —  5. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eggert J. Hilmarsson, Bergþór Magnússon, Björn R. Guðmundsson, Jón Guðmundsson og Bolla Þór Bollason frá fjármálaráðuneyti, Braga Gunnarsson frá ríkisskattstjóra, Margréti Sigurðardóttur og Oddnýju M. Ragnarsdóttur frá Bandalagi kvenna í Reykjavík, Guðríði Ólafsdóttur og Helga Seljan frá Öryrkjabandalagi Íslands, Rannveigu Sigurðardóttur frá Alþýðusambandi Íslands og Benedikt Davíðsson frá Landssambandi eldri borgara. Umsagnir um málið bárust frá Þroskahjálp, Bandalagi kvenna í Reykjavík, Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi eldri borgara, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Öryrkjabandalagi Íslands, ríkisskattsjóra og Skrifstofu jafnréttismála.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um ráðstöfun persónuafsláttar á milli hjóna og fólks sem býr saman í óvígðri sambúð. Er gert ráð fyrir að breytingin verði í áföngum þannig að persónuafsláttur maka nýtist að fullu við álagningu að fjórum árum liðnum.
    Nefndin leggur til að breytingarnar taki gildi ári síðar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Kom fram við meðferð málsins í nefndinni að þau mistök urðu við samningu frumvarpsins að kveðið var á um að breytingarnar kæmu til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 2000 vegna tekna ársins 1999. Það mun hins vegar aldrei hafa staðið til, enda óeðlilegt að hafa slíkt ákvæði afturvirkt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Ögmundur Jónasson skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við frumvarpið.

Alþingi, 9. des. 1999.


Vilhjálmur Egilsson,

form., frsm.

Kristinn H. Gunnarsson.

Gunnar Birgisson.


Pétur H. Blöndal.

Hjálmar Árnason.

Sigríður A. Þórðardóttir.


Jóhanna Sigurðardóttir,

með fyrirvara.

Margrét Frímannsdóttir,

með fyrirvara.

Ögmundur Jónasson,

með fyrirvara.