Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 345  —  188. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um skort á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig hyggjast stjórnvöld bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til starfa á heilbrigðisstofnunum?

    Sl. vor var rætt á Alþingi um vanda heilbrigðiskerfisins vegna skorts á fólki til starfa. Frá því að sú umræða átti sér stað hefur Háskólinn á Akureyri fellt niður fjöldatakmarkanir í hjúkrunarfræðinámi. Í haust hófst fjarnám í hjúkrunarfræði á Egilstöðum í tengslum við sama skóla en árið 1998 hófst slíkt nám á Ísafirði, einnig í tengslum Háskólann á Akureyri. Starfandi er vinnuhópur til að undirbúa fjarnám í Keflavík en stefnt er að því að nám í hjúkrunarfræði hefjist þar næsta haust. Þarna er mikill vaxtarbroddur og möguleiki á menntun í dreifbýlinu. Í Háskóla Íslands eru nú skráðir um 140 nemendur á fyrsta ári í hjúkrunarfræði. Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að vegna fjöldatakmarkana komast 60 þeirra áfram í námi. Skoða þarf leiðir til að gera námsbraut í hjúkrunarfræði kleift að útskrifa fleiri nemendur. Í tengslum við einstaka fjölbrautarskóla úti á landi hefur starfað farskóli þar sem boðið er upp á námskeið fyrir sjúkraliða og gerð hefur verið tilraun með fjarnám til sjúkraliðaréttinda. Hugsanlegt er að bjóða ófaglærðu starfsfólki í umönnunarstörfum aukna menntun með fjarnámi. Í könnun á skorti á sjúkraliðum sem landlæknisembættið gerði í vor kom fram að fjöldi ófaglærðra starfsmanna er í stöðum sjúkraliða. Þeir hafa margir hverjir unnið lengi við umönnun og æskilegt er að skapa þeim skilyrði til þess að mennta sig og öðlast þannig sjúkraliðaréttindi. Einnig er mikilvægt að auka námsframboð fyrir starfandi sjúkraliða og skapa þeim skilyrði til að þróast í starfi. Þannig eykst þekking og færni sem jafnframt leiðir oft til aukinnar festu og ánægju í starfi.
    Ljóst er að með bættri upplýsingatækni skapast miklir möguleikar til að auka framboð í fjarnámi og þurfa bæði menntamálayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld að styðja þá þróun.
    Ráðuneytið hefur leitast við að fá heildarmynd af skorti á starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lét kanna skort á hjúkrunarfræðingum og voru niðurstöður birtar í skýrslu, Mannekla í hjúkrun, sem kom út í mars 1999. Skýrslan hefur verið kynnt og rædd víða. Niðurstöðurnar hafa m.a. verið til athugunar í heilbrigðisráðuneytinu. Í skýrslunni koma fram ítarlegar upplýsingar um hjúkrunarfræðinga á vinnumarkaði, niðurstöður fyrri kannana um skort á hjúkrunarfræðingum til starfa, spá um þörf fyrir hjúkrunarfræðinga, tillögur til úrbóta o.fl. Ef skoðuð eru árin 1998 og 1999 kemur í ljós að skortur á hjúkrunarfræðingum á landinu öllu er um 14% bæði árin sem er hátt í 300 stöðugildi miðað við heimilaðar stöður. Miðað við mat á þörf er talan mun hærri. Minnstur er skorturinn í heilsugæslunni eða um 7%. Árið 1998 vantaði í um 31 stöðugildi hjúkrunarfræðinga á öldrunarstofnunum en árið 1999 í 34,5 stöðugildi. Á sjúkrahúsum vantaði hjúkrunarfræðinga í 185 stöðugildi árið 1998 en 1999 var um að ræða 179 stöðugildi miðað við heimildir. Samkvæmt könnuninni voru íslenskir hjúkrunarfræðingar alls 3.129, 1. október 1998. Um 2.250 hjúkrunarfræðingar á vinnualdri eru í starfi en það samsvarar því að um 85% hjúkrunarfræðinga á vinnualdri séu starfandi við hjúkrun. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur að útskrifa þurfi 120–130 hjúkrunarfræðinga á ári næstu 15 árin til þess að uppfylla þörf.
    Samkvæmt upplýsingum frá nemendaskrá Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands útskrifuðust 23 hjúkrunarfræðingar frá Háskólanum á Akureyri árið 1998 og 90 frá Háskóla Íslands (þar af 13 sem voru í sérskipulögðu námi og voru hjúkrunarfræðingar fyrir). Árið 1999 útskrifaðist 21 hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og 91 frá Háskóla Íslands (þar af 38 sem voru hjúkrunarfræðingar fyrir).
    Í því skyni að fá heildarsýn yfir skort á starfsfólki í heilbrigðiskerfinu var sl. vor gerð könnun á vegum landlæknisembættisins á skorti á sjúkraliðum til starfa, eins og fyrr er getið. Fram kom að á sjúkrasviði, sem tekur bæði til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana með sjúkrasvið, vantar í um 110 heimiluð stöðugildi sjúkraliða. Taka skal fram að sums staðar eru stöðugildi ekki lengur fastskilgreind. Hins vegar er talan hærri ef skoðað er „mat á þörf“ fyrir sjúkraliða í aðhlynningu samkvæmt stjórnendum. Í stöðugildum sjúkraliða á sjúkrasviði eru 166 ófaglærðir starfsmenn miðað við fullt starf.
    Á heilsugæslustöðvum vantar í örfá stöðugildi. Á hjúkrunar- og dvalarheimilum vantar í tæplega 200 heimiluð stöðugildi. Þar eru hins vegar rúmlega 200 ófaglærðir í stöðunum. Samkvæmt „mati á þörf“ fyrir aðhlynningu vantar mun fleiri til þannig starfa á hjúkrunar- og dvalarheimilum.
    Svarhlutfall í könnuninni á skorti á sjúkraliðum var 74% og vantar svör frá nokkrum stórum stofnunum, t.d. Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Grund o.fl. Enn er unnið að því að fá svör frá þeim.
    Meginniðurstöður könnunar landlæknisembættisins eru að sjúkraliða vantar í aðhlynningu í 320 stöðugildi á landinu miðað við heimildir en mun fleiri ef uppfylla ætti „þörf“ fyrir sjúkraliða í aðhlynningu samkvæmt mati stjórnenda. Mesti skorturinn er á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Yfir 400 stöðugildi eru mönnuð með ófaglærðum starfsmönnum. Niðurstöður eru ekki endanlegar en þær gefa vísbendingu um hvar vandinn liggur.
    Árlega útskrifast 80–90 sjúkraliðar. Menntaðir sjúkraliðar á Íslandi eru alls yfir 3.000. Samkvæmt niðurstöðum könnunar landlæknisembættisins eru um 900 stöðugildi sjúkraliða í aðhlynningu mönnuð. Könnunin tók ekki til sjúkraliða sem ekki starfa við aðhlynningu. Ætla má að um töluvert fleiri einstaklinga sé að ræða en fjöldi stöðugilda segir til um. Einnig er nokkur hópur komin á eftilaun en menntun sjúkraliða hófst á sjöunda áratugnum. Engu að síður er ljóst að nokkur fjöldi þeirra sem hefur menntað sig til sjúkraliðastarfa er ekki í umönnunarstörfum.
    Ljóst er að miklu máli skiptir að mennta nægilega marga hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Launin skipta einnig máli til þess að auka festu og ánægju í starfi og til að laða fólk að námi. Loks má nefna mikilvægi þess að vinnuaðstæður, starfsandi o.þ.h. séu viðunandi. Allir þessir þættir þurfa að haldast í hendur ef vel á að vera.     Þegar skoðaðar eru tölur um fjölda heilbrigðisstarfsmanna á Norðurlöndum úr nýjustu skýrslu NOMESCO, Health Statistics in the Nordic Countries 1997, kemur fram eftirfarandi:


    Fjöldi starfandi heilbrigðisstarfsmanna á sjúkrahúsum
á 100 þús. íbúa, reiknaður í mannárum.


Danmörk Noregur Færeyjar Ísland
Hjúkrunarfræðingar
500 509 500 380
Sjúkraliðar
266 157 100 228
Læknar
178 158 119 194

     Fjöldi starfandi heilbrigðisstarfsmanna í landinu
á 100 þús. íbúa, reiknaður í mannárum.


Danmörk Noregur Finnland Svíþjóð Ísland
Hjúkrunarfræðingar
706 915 1.275 862 591
Sjúkraliðar
706 823 653 739 587
Læknar
290 252 295 274 299

    Ísland er vel sett með lækna miðað við þessi lönd en fer halloka í samanburði varðandi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Flest bendir til að þörfin fyrir þessar starfsstéttir muni aukast á komandi árum.
    Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er nú unnið að langtímaspá varðandi þörf á starfsfólki. Um er að ræða verkefni þar sem taka þarf mið af fjölmörgum breytum, svo sem aldurssamsetningu þjóðarinnar, tíðni einstakra sjúkdóma og faraldsfræði þeirra, fjölda útskrifaðra í heilbrigðisstéttum, fjölda einstaklinga í árgöngum o.fl. Stefnt er að því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hafi árlega endurskoðaða spá um þörf fyrir starfsfólk í heilbrigðiskerfinu.
    Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er einnig starfandi vinnuhópur sem vinnur að því að kynna betur starfssvið sjúkraliða og á næstu mánuðum er fyrirhuguð kynning fyrir stjórnendur á stofnunum í samstarfi Sjúkraliðafélags Íslands og heilbrigðisráðuneytisins. Jafnframt þarf að huga að kynningu fyrir almenning og grunnskólanemendur, t.d. með bæklingi um nám og störf sjúkraliða. Hugsanlegt er einnig að stuðla að svipuðu átaki varðandi nám og störf hjúkrunarfræðinga og gert var fyrir u.þ.b. áratug.
    Heilbrigðisráðherra ritaði menntamálaráðherra bréf 7. maí sl. þar sem bent er á mikilvægi þess að fjármagn fáist svo að fjölga megi nemendum í námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Páll Skúlason háskólarektor hefur ritað menntamálaráðherra bréf um sama efni.
    Að mati menntamálaráðuneytis er það á valdi stjórnenda Háskólans að beina fé til námsbrautar í hjúkrunarfræði innan ramma heildarfjárveitinga til skólans.
    Miklir möguleikar hafa skapast á uppbyggingu á fjarnámi fyrir heilbrigðisstéttir á síðustu árum. Mikilvægt er að bæði menntamálayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld styðji þá uppbyggingu.
    Á síðustu árum hafa laun hjúkrunarfræðinga hækkað og væntanlega leiðir það til þess að fleiri haldist í starfinu og verði ánægðari og jafnframt að fleiri muni hefja nám í hjúkrunarfræði. Í könnun Félags íslenskra húkrunarfræðinga kemur fram að um 400 hjúkrunarfræðingar á vinnualdri eru ekki starfandi við hjúkrun. Bætt launakjör ættu að auka líkur á því að einhverjir úr þeim hópi komi til starfa.
    Ýmislegt fleira þarf að skoða fyrir sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga, t.d. vinnutíma, vinnuaðstæður o.fl. Það er einkum mál einstakra stofnunana að útfæra slíkt miðað við þörf fyrir þjónustu á hverjum stað.

     Samantekt.
    Það sem snýr að hjúkrunarfræðingum er eftirfarandi: Búið er að afnema fjöldatakmarkanir við Háskólann á Akureyri og fjarnám er hafið á Ísafirði og á Egilsstöðum í tengslum við þann skóla. Enn frekari uppbygging á fjarnámi er æskileg. Skoða þarf leiðir til að gera námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands kleift að fjölga nemendum. Launakjör hafa batnað.
    Varðandi sjúkraliða er þörf fyrir aukið námsframboð og möguleika á aukinni fjölbreytni í starfi. Í undirbúningi er kynning á námi þeirra og starfi.
    Fyrir ófaglærða starfsmenn þarf að huga að möguleikum á námi sem leiðir til sjúkraliðaréttinda.
    Það sem snýr að ófaglærðum starfsmönnum og sjúkraliðum er fjarnám og uppbygging þess. Þar koma fjölbrautarskólar að málinu í samvinnu við heilbrigðisstofnanir.
    Lögð er áhersla á mikilvægi samvinnu menntakerfis og heilbrigðiskerfis.
    Laun er samið um í kjarasamningum og ýmsir innri þættir, svo sem vinnutími, starfsandi, vinnuaðstæður o.fl., er á hendi einstakra stofnana.