Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 350  —  267. mál.




Frumvarp til laga



um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.
Efnavopn.

    Í lögum þessum merkir efnavopn:
     a.      eiturefni og forstigsefni þeirra, nema þau séu ætluð til nota sem ekki eru bönnuð samkvæmt samningi um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra frá 13. janúar 1993, enda samræmist gerð og magn efnanna slíkum notum;
     b.      skotfæri og tæki sem sérstaklega eru gerð til að valda bana eða öðrum skaða með eituráhrifum eiturefna skv. a-lið er leysast mundu úr læðingi við beitingu slíkra skotfæra eða tækja;
     c.      hvern þann búnað sem sérstaklega er gerður til að nota í beinum tengslum við beitingu skotfæra eða tækja skv. b-lið.

2. gr.
Bann við meðferð efnavopna.

    Enginn má þróa, framleiða, afla, safna, nota eða hafa í vörslu sinni efnavopn né afhenda slík vopn þannig að það stríði gegn samningnum um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.

3. gr.
Innlent eftirlit.

    Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.
    Hollustuvernd getur krafist allra upplýsinga og annarra gagna sem nauðsynleg þykja við athugun einstakra mála.
    Hollustuvernd getur að undangengnum dómsúrskurði gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum. Við framkvæmd athugunar skal lögregla veita Hollustuvernd nauðsynlega aðstoð.
    Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum um yfirstjórn mála á varnarsvæðum. Getur hann samið við hæfa aðila að mati Hollustuverndar um framkvæmd eftirlitsins, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

4. gr.
Alþjóðlegt eftirlit.

    Eftirlitsmönnum sem starfa á grundvelli samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra er heimilt að framkvæma hérlendis skoðanir sem kveðið er á um í samningnum í þeim tilgangi að fylgjast með því hvort Ísland framfylgir skyldum sínum samkvæmt samningnum. Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Hollustuverndar ríkisins skulu vera viðstaddir slíkar skoðanir.
    Eftirlitsmenn sem starfa á grundvelli samningsins um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra skulu njóta friðhelgi og forréttinda hér á landi eins og kveðið er á um í samningnum.

5. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra sem í hlut á getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

6. gr.
Refsiákvæði.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Nú er brotið ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið fangelsi allt að sex árum.
    Tilraun eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningi um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra frá 13. janúar 1993 (hér eftir nefndur samningurinn). Um er að ræða viðamikinn alþjóðasamning sem hefur að geyma ákvæði um bann við notkun og annarri meðhöndlun á efnavopnum, sem og ákvæði um eftirlit með framleiðslu og annarri meðferð efnavopna og vettvangskannanir í aðildarríkjunum. Með þingsályktun 28. apríl 1997 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Samningurinn er birtur í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsing nr. 12/1997. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu sama dag og öðlaðist hann gildi 29. apríl 1997.
    Árið 1925 var gerður Genfarsamningur um bann við notkun eiturefna, gass og sýkla í hernaði og nýr alþjóðasamningur um bann við sýkla- og eiturvopnum var gerður árið 1972. Frá 1968 höfðu þá staðið yfir samningaviðræður á afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf um nýjan alþjóðasamning er bannaði ekki aðeins framleiðslu efnavopna heldur kvæði einnig á um eyðingu þeirra efnavopna sem til voru. Þá þegar áttu nokkur ríki miklar birgðir slíkra vopna, einkum risaveldin tvö. Haustið 1992 lauk Genfarviðræðunum þegar afvopnunarráðstefnan kom sér saman um eftirlitsákvæðin, einkum svonefndar vefengingarkannanir á vettvangi.
    Samningurinn, sem hefur að geyma 24 greinar og þrjá viðauka, var lagður fyrir 47. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna er hvatti öll ríki heims með samhljóða ályktun til að gerast aðilar að samningnum. Hann var undirritaður af fulltrúum 128 ríkja, þar á meðal Íslands, í París 13. janúar 1993. Síðan hefur 41 ríki til viðbótar undirritað samninginn miðað við 12. ágúst 1999. Þá voru aðildarríki samningsins 126 talsins.
    Samningurinn skuldbindur aðildarríkin á alþjóðavettvangi til að virða bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og að eyða þeim vopnum sem til eru. Aðildarríki samningsins skuldbinda sig til að nota aldrei efnavopn í hernaði og undirgangast einnig þá skyldu að eyða efnavopnum á eigin landsvæði, sbr. 1. og 4. gr. samningsins. Þó er mjög takmörkuð meðhöndlun eiturefna heimiluð í þágu framfara í vísindum, þ.e. ef slíkt brýtur ekki í bága við ákvæði samningsins, sbr. 6. gr. hans. Skv. 3. gr. samningsins skulu aðildarríkin gefa yfirlýsingu um það hvort efnavopn séu geymd á landsvæði þeirra, svo og hvort þar séu framleiðslustöðvar efnavopna. Þá hefur samningurinn að geyma ákvæði um alþjóðlegt eftirlit með framkvæmd hans og eru þau hin ítarlegustu í afvopnunarsamningi til þessa. Þannig er gert ráð fyrir sannprófunum og öðru eftirliti á vettvangi í hverju aðildarríki, hvort heldur er vegna meintrar framleiðslu efnavopna eða eyðingar þeirra, sbr. 5. gr. samningsins og viðauka um sannprófanir.
    Með samningnum er sett á laggirnar sérstök alþjóðastofnun með ráðstefnu aðildarríkjanna, framkvæmdaráði og tækniskrifstofu, sbr. 8. gr. samningsins. Stofnunin, sem þegar hefur tekið til starfa í Haag, hefur umsjón með framkvæmd samningsins, m.a. með því að senda eftirlitsmenn á vettvang til að sannreyna hvort efnavopnum hafi verið eytt og framleiðslu þeirra hætt. Aðildarríkin bera allan kostnað af slíkum sannprófunum en þeim er heimilt að láta fulltrúa sína vera viðstadda.
    Með samþykkt þessa lagafrumvarps hefur Ísland komið í framkvæmd ákvæðum samningsins hérlendis eins og krafist er af aðildarríkjunum skv. 7. gr. samningsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 2. gr. samningsins er gildissvið hans afmarkað með skilgreiningu á því hvað telst til efnavopna. Skilgreining þessarar greinar er samhljóða því ákvæði.

Um 2. gr.


    Meginmarkmið samningsins er að banna þróun og framleiðslu efnavopna sem og alla aðra meðhöndlun þeirra. Í þessari grein er sett fram slíkt bann og er þar vísað beint til samningsins hvað varðar umfang þess.

Um 3. gr.


    Lagt er til að Hollustuvernd ríkisins hafi eftirlit með því að bann við meðhöndlun efnavopna sé virt hér á landi. Gert er ráð fyrir að eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins hafi þetta verkefni með höndum, en það starfar samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988. Til að framfylgja banni við meðhöndlun efnavopna hefur Hollustuvernd víðtækar heimildir til að krefjast upplýsinga og annarra gagna, sem og að gera vettvangskannanir að undangengnum dómsúrskurði í samræmi við almennar reglur. Við slíkt eftirlit skal lögregla veita Hollustuvernd nauðsynlega aðstoð.
    Samkvæmt 4. mgr. er lagt til að utanríkisráðherra fari með lögsögu á varnarsvæðum og er þar um að ræða hliðstæða skipan mála og kveðið er á um í 1. mgr. 9. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.

Um 4. gr.


    Eins og að framan greinir hefur samningurinn að geyma víðtækar heimildir til alþjóðlegs eftirlits með efnavopnum. Tækniskrifstofa Stofnunar um bann við efnavopnum gerir sannprófanir samkvæmt samningnum í aðildarríkjunum. Hvert aðildarríki þarf fyrir fram að samþykkja lista tækniskrifstofunnar yfir skoðunarmenn. Ef framkvæma á skoðun í aðildarríki skal tækniskrifstofan gefa viðkomandi ríki tilkynningu þar að lútandi. Fulltrúar viðkomandi ríkis hafa rétt á að vera viðstaddir skoðunina og skulu aðstoða ef með þarf. Skoðunarmenn mega samkvæmt samningnum skoða alla þætti er lúta að starfsemi þar sem hugsanlegt er að efnavopn séu meðhöndluð eða geymd, svo sem að leggja hald á gögn og taka ljósmyndir.
Með greininni er lagt til að lögfest verði heimild fyrir alþjóðlegu eftirliti hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins. Gert er ráð fyrir að fulltrúar utanríkisráðuneytisins og Hollustuverndar ríkisins skuli vera viðstaddir skoðanir samkvæmt greininni.

Um 5. gr.


    Í greininni er að finna heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Það veltur á efni slíkra ákvæða í hlut hvaða ráðherra kemur að setja reglugerð.

Um 6. gr.


    Í 7. gr. samningsins eru gerðar kröfur um að aðildarríkin geri nauðsynlegar ráðstafanir til að koma skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum til framkvæmda. Þannig er hverju aðildarríki gert skylt að sjá til þess að bannákvæði hvað varðar framleiðslu, þróun og aðra meðhöndlun efnavopna séu í lögum, sem og refsiákvæði ef fyrrgreint bann er virt að vettugi. Hér er lagt til að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Ef brot er ítrekað eða stórfellt er lagt til að refsing geti orðið fangelsi allt að sex árum. Þá er lagt til að tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögunum verði refsiverð.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um framkvæmd samnings um bann við
þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra.

    Í frumvarpinu eru lögð til nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum í alþjóðasamningi en með þingsályktun árið 1997 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samninginn fyrir Íslands hönd. Gert er ráð fyrir að Hollustuvernd ríkisins fari með eftirlit með framkvæmd laganna og samningsins. Ætla má að lítið reyni á slíkt eftirlit hér á landi og er því talið að kostnaðaráhrif af setningu laganna verði óveruleg.