Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 386  —  117. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1999.

Frá minni hluta fjárlaganefndar

    Enn á ný undirstrikar ríkisstjórnin vanmátt sinn í fjármálastjórn og algeran skort á yfirsýn í ríkisfjármálunum og skiptir ekki máli hvort um er að ræða gjaldahlið eða tekjuhlið. Fálmkennd vinnubrögð við gerð fjáraukalaga og fjárlaga eru ekki til þess fallin að auka bjartsýni á komandi ári.
    Ríkisstjórnin leggur til enn frekari útgjöld ríkissjóðs milli 2. og 3. umræðu fjáraukalaga fyrir árið 1999. Nú er lagt til að útgjöldin aukist um 2,5 milljarða kr. til viðbótar þeim 7,9 milljörðum kr. sem þegar hefur verið gert ráð fyrir. Útgjöld ríkisins á árinu 1999 stefna því í að verða 10,3 milljörðum kr. umfram áætlun fjárlaga. Ef tekið er tillit til þeirrar viðbótar sem þegar er komin fram í meðferð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2000 nemur aukning ríkisútgjalda 15 milljörðum kr. Þar með er búið að ráðstafa þeim tekjuauka af reglulegri starfsemi ríkisins sem gert er ráð fyrir að verði á árinu 1999.
    Minni hlutinn hefur lagt fram útreikninga sem sýna að á milli áranna 1994 og 1998 hafa útgjöldin aukist um 55 milljarða kr. á verðlagi ársins 1998. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu er enn dulinn vandi í ríkiskerfinu sem hefur ekki enn verið tekið á. Minni hlutinn óttast að ekki hafi allur vandi heilbrigðistofnana verið leystur og enn er mikill vandi í menntamálunum. Þetta fé hefur ekki verið notað til að styrkja stöðu þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu, þ.e. þeirra sem síðast fá bita af góðærinu en fá fyrstir að kenna á samdrættinum. Þá er ekki nema að litlu leyti tekist á við sívaxandi vanda sveitarfélaganna.
    Skuldasöfnun heimilanna hefur verið vaxandi áhyggjuefni. Áætlað er að skuldir heimila í hlutfalli við ráðstöfunartekjur verði 144% á þessu ári en þetta hlutfall var 130% í upphafi uppsveifluskeiðsins í árslok 1995. Þetta þýðir að dragist ráðstöfunartekjur heimilanna verulega saman eykst greiðslubyrði lána hlutfallslega og þar með dregur úr neyslu og fjárfestingu hraðar en æskilegt er. Þessi þróun hefur síðan keðjuverkandi áhrif á tekjur ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu.
    Enn á ný er kveikt á viðvörunarljósum í þjóðfélaginu. Nýleg mæling Hagstofunnar á verðbólgu sýnir að vísitala neysluverðs hækkaði um 0,4% í nóvember og mælist nú 5,6% miðað við síðustu 12 mánuði. Þetta er meira en þreföld sú verðbólga sem er í helstu samkeppnislöndum okkar. Á sama tíma hefur Seðlabankinn upplýst að andstætt spám forustumanna ríkisstjórnarinnar er viðskiptahallinn enn að aukast. Á þriðja ársfjórðungi reyndist hann meiri en á sama tíma í fyrra. Nú bendir því allt til þess að viðskiptahallinn verði ívið meiri en á síðasta ári. Þetta styður líka mikil aukning ríkissjóðstekna, sérstaklega tekna af innflutningi en nú stefnir í að vörugjöld af innfluttum ökutækjum aukist um 35% frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum ársins 1999. Þessi uggvænlega þróun er því líkleg til að grafa undan gengi krónunnar og ýta undir verðbólgu.
    Nú er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 23 milljarða kr. frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum. Þrátt fyrir að í þessari fjárhæð sé gert ráð fyrir söluhagnaði eigna upp á 7,3 milljarða kr. er tekjuaukinn verulegur. Enn á ný hljóta menn að líta til forsendna tekjuspár. Á undanförnum árum hefur tekjuspá nánast aldrei verið nálægt raunveruleikanum og skiptir þá ekki máli hvort um van- eða ofáætlun sé að ræða. Enda gerir ríkisstjórnin ekki tilraun til að útskýra þennan tekjuauka, hvaða aðstæður í þjóðfélaginu hafa skapað hann og hvaða áhrif hann hefur á aðrar efnahagsstærðir til lengri og skemmri tíma.
    Þá hefur fjármálaráðherra lagt til að lántökur verði auknar um 18,3 milljarða kr. og að ekki verði greidd niður lán nema fyrir 14,2 milljarða kr. í stað 23,8 eins og áformað var. Þetta gerist þrátt fyrir verulegan tekjuafgang ríkissjóðs. Hér kemur til sú staðreynd að viðskiptahallinn hefur gert það að verkum að erfitt er að greiða niður erlend lán vegna viðkvæmrar gjaldeyrisstöðu. Innan lands er sú sérkennilega staða komin upp að ríkisstjórnin veigrar sér við að greiða niður lán af ótta við áhrif þess á þensluna.
    Minni hlutinn ítrekar þá skoðun sína að meðferð fjáraukalaganna nú er ekki í samræmi við fjárreiðulögin og telur nauðsynlegt að við framlagningu næstu fjáraukalaga verði ákvæði þeirra laga virt.
    Mörg slys hafa mörg orðið vegna þess að menn hafa ekki tekið mið af þeim aðvörunarmerkjum sem við blasa og oftar en ekki hafa afleiðingarnar verið slíkar að ekki verður úr bætt. Haldi ríkisstjórnin áfram á sömu braut án þess að viðhafa nægjanlega gætni og festu í fjármálastjórninni, sem og pólitíska stefnu og sýn, er hætt við að afleiðingarnar verði svo skelfilegar að það gæti tekið þjóðina mörg ár að vinna sig út úr þeim.

Alþingi, 14. des. 1999.



Einar Már Sigurðarson,


frsm.


Dóra Líndal Hjartardóttir.


Guðmundur Árni Stefánsson.



Jón Bjarnason.