Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 401  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2000.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umræða fór fram 9. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B-hluta stofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins og Íbúðalánasjóðs. Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar og efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem verða á tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum 2–4. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. gr. frumvarpsins en framsögumaður meiri hlutans mun gera grein fyrir helstu breytingum sem lagðar eru til á 7. gr. í ræðu sinni við upphaf 3. umræðu.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 209,9 milljarðar kr. sem er 4,9 milljarða kr. hækkun frá frumvarpi. Þar vegur þyngst hækkun á sköttum á vöru og þjónustu og virðisaukaskatti.
    Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til lækkunar útgjalda um 435,3 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.

SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR

01 Forsætisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um að færa 1 m.kr. sem sértekjur á viðfangsefninu 1.42 Grænlandssjóður undir þessum fjárlagalið. Framlög úr sjóðnum eru fjármögnuð með vaxtatekjum sem í frumvarpinu eru settar fram á tekjuhlið ríkissjóðs en verða eftirleiðis settar fram sem sértekjur á gjaldahlið. Tillagan snýr einungis að breyttri framsetningu á fjármögnun í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins og verða útgjöld óbreytt eftir sem áður.
             Þá er lagt til 11,5 m.kr. tímabundið framlag til byggingar stafkirkju í Vestmannaeyjum.

02 Menntamálaráðuneyti

201     Háskóli Íslands. Lagt er til að viðfangsefnaskiptingu Háskóla Íslands verði breytt í framhaldi af nýgerðum samningi menntamálaráðuneytisins og skólans til þess að greina betur á milli kennslu og rannsókna í skólanum. Á viðfangsefni 1.01 verða færð útgjöld til kennslu í skólanum og stoðþjónustu, húsnæðisreksturs og búnaðarkaupa vegna kennslu. Á viðfangsefni 1.02 verða færð framlög til rannsókna og annarra verkefna skólans, þar með talin föst laun kennara við rannsóknir. Önnur viðfangsefni en framantalin falla niður. Þessar millifærslur hafa ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur er einungis um breytta innbyrðis skiptingu fjárveitinga að ræða.
202     Tilraunastöð Háskólans að Keldum. Gerð er tillaga um 3,8 m.kr. hækkun framlags til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til veirurannsókna.
872     Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lagt er til að framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 100 m.kr. frá áætlun frumvarps og nemi 1.910 m.kr. Lækkunin er í samræmi við nýja útreikninga og þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að framlagið þurfi að nema 52% af almennum útlánum, auk framlags vegna rekstrargjalda, til að eigið fé sjóðsins haldist óbreytt að raunvirði. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun sjóðsins er gert ráð fyrir minni útlánum, aðallega vegna fækkunar lánþega frá fyrri áætlun.
902     Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 12 m.kr. hækkun fjárveitinga til byggða- og minjasafna sem skiptist á þrjá staði. Í fyrsta lagi er lögð til 4 m.kr. hækkun til þess að ráða minjavörð til starfa á Norðurlandi vestra. Með gildistöku þjóðminjalaga í ársbyrjun 1990 var mörkuð sú stefna að starfsemi Þjóðminjasafnsins á landsbyggðinni skyldi efld með stofnun embætta minjavarða. Þá er í öðru lagi gert ráð fyrir 3 m.kr. tímabundnu framlagi til Minjasafns Egils Ólafssonar á Hnjóti sem verði varið til lokafrágangs nýrrar álmu safnsins og uppsetningar muna. Loks er lagt til að veitt verði 5 m.kr. tímabundið framlag til viðgerða á Vatneyrarbúð í Vesturbyggð.
919     Söfn, ýmis framlög. Lagt er til 4 m.kr. tímabundið framlag til uppbyggingar Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík til þess að koma upp sýningaraðstöðu.
974     Sinfóníuhljómsveit Íslands. Lögð er til 5,3 m.kr. hækkun á framlagi til Sinfóníuhljómsveitar Íslands til að fjölga í strengjasveit um fjögur stöðugildi. Á yfirstandandi fjárlagaári fékk hljómsveitin heimild til að fjölga um fjögur stöðugildi og var það hluti af stærri heild því að ljóst var að fjölga þyrfti alls um átta. Mikil verkefni bíða hljómsveitarinnar, m.a. hljóðritanir og tónleikaferð til Bandaríkjanna og Kanada.
979     Húsafriðunarsjóður. Lagt er til að 3 m.kr. tímabundin fjárveiting verði veitt til að styrkja endurbætur á svonefndu Syðstabæjarhúsi í Hrísey en það er elsta hús eyjarinnar, reist af Hákarla-Jörundi árið 1885. Áformað er að nota það sem miðstöð ferðamanna sem til eyjarinnar koma og mun Minjasafnið á Akureyri setja þar upp sýningu um menningarsögu eyjarinnar, einkum hákarlaútgerð.
984     Norræn samvinna. Óskað er eftir 2,5 m.kr. hækkun fjárveitingar vegna endurnýjunar samnings um menningarsamstarf við Færeyinga og Grænlendinga. Viðfangsefnið 1.90 Norræn samvinna hækkar sem því nemur og er sundurliðun sýnd í sérstökum yfirlitum með breytingartillögum meiri hlutans.
989     Ýmis íþróttamál. Gerð er tillaga um 8,5 m.kr. tímabundna hækkun á viðfangsefninu 1.90 Ýmis íþróttamál til endurbyggingar íþróttavallar á Egilsstöðum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir 13,5 m.kr. til íþróttavallarins árið 2000 og sömu upphæð árið 2001. Við þessa hækkun er aftur á móti gert ráð fyrir að áætlað 13,5 m.kr. framlag fyrir árið 2001 lækki um 8,5 m.kr. og verði 5 m.kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti

311     Landgræðsla ríkisins. Lagt er til að veitt verði 7,5 m.kr. framlag til að tryggja öryggi vatnsleiðslu yfir Markarfljót með því að grafa hana undir fljótið.
813     Framleiðsluráð landbúnaðarins. Lagt er til að 51,3 m.kr. framlög Framleiðsluráðs landbúnaðarins færist yfir á aðra fjárlagaliði eða falli niður í samræmi við stjórnarfrumvarp um að leggja ráðið niður sem lagt var fram á haustþingi. Hluti fjárins, verðskerðingarfé að upphæð 12,3 m.kr., færist framvegis á fjárlagaliðinn 04-824 Verðmiðlun landbúnaðarvara.
818     Búnaðarsjóður. Lagt er til að gjald í Búnaðarsjóð verði lækkað í samræmi við endurskoðaða áætlun um innheimtu ríkistekna af búnaðargjöldum en þar er gert ráð fyrir að ríkistekjur og gjöld liðarins lækki alls um 4 m.kr. Samkvæmt stjórnarfrumvarpi um niðurlagningu á Framleiðsluráði landbúnaðarins er gert ráð fyrir að gjald í sjóðinn hækki úr 1,225% í 1,4 % af verðmæti búvöruframleiðslu.
824     Verðmiðlun landbúnaðarvara. Lagt er til að verðskerðingarfé sem áður var innheimt af Framleiðsluráði landbúnaðarins verði framvegis veitt til Bændasamtaka Íslands sem er í samræmi við stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum vegna niðurlagningar Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem lagt var fram á haustþingi.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um 2 m.kr. tímabundið framlag til kaþólska biskupsdæmisins í Reykjavík til viðgerðar á Dómkirkju Krists konungs í Landakoti.
701     Biskup Íslands. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundna hækkun á framlagi til Dómkirkjunnar í Reykjavík til að standa straum af kostnaði við viðgerðir og endurbætur á kirkjunni.

07 Félagsmálaráðuneyti

700     Málefni fatlaðra. Á viðfangsefninu 1.90 Ýmis verkefni er gerð tillaga um 10 m.kr. framlag til Styrktarfélags vangefinna til að styrkja rekstur þess. Greiðsla er háð því að gerður verði þjónustusamningur við félagið.
704     Málefni fatlaðra, Vestfjörðum. Lögð er til 7,1 m.kr. hækkun á fjárveitingum til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vestfjörðum vegna skammtímavistunar í Vesturbyggð, Vestur-Barðastrandarsýslu sem hefur þegar verið opnuð vegna brýnnar þarfar.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Lögbundið framlag ríkissjóðs í sjóðinn tekur mið af innheimtum skatttekjum ríkisins á árinu og útsvarsstofni næstliðins árs. Í ljósi endurskoðunar á áætluðum skatttekjum ríkissjóðs árið 2000 er farið fram á að framlagið verði hækkað um 60 m.kr.
981     Vinnumál. Gerð er tillaga um 7 m.kr. tímabundna hækkun framlags til liðarins á viðfangsefni 1.90 Ýmislegt.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

208     Slysatryggingar. Gerð er tillaga um 135 m.kr. fjárveitingu á nýju viðfangsefni undir þessum lið, 1.16 Kaup og aflahlutur sjómanna. Þessar greiðslur til sjómanna eru fjármagnaðar með slysatryggingagjaldi á laun þeirra en það færist jafnframt sem ríkistekjur og verður afkoma ríkissjóðs því óbreytt eftir sem áður. Við breytingar á framsetningu slysatrygginga sem gerðar voru í fjárlögum ársins 1998 vegna gildistöku nýrra laga um fjárreiður ríkisins láðist að gera ráð fyrir þessum greiðslum.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Lögð er til 32,1 m.kr. hækkun fjárveitingar til leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands en drög að nýjum samningi við félagið liggja fyrir. Í honum er gert ráð fyrir að tveir fyrri samningar, þ.e. verksamningur Krabbameinsfélags Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 30. apríl 1992, og samningur Krabbameinsfélags Íslands við Tryggingastofnun ríkisins, dags. 31. janúar 1995, verði felldir í einn. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir 13,2 m.kr. hækkun til að halda áfram óbreyttri starfsemi í skipulagðri krabbameinsleit hjá konum. Auk þess er gert ráð fyrir að 18,9 m.kr. greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir rannsóknir og sérskoðanir verði hluti af samningnum. Fjárveiting vegna þeirra verka færist af liðnum 08-206 1.11 Sjúkratryggingar, lækniskostnaður eins og samþykkt var við 2. umræðu um frumvarpið.
             Þá er gerð tillaga um 1,1 m.kr. hækkun á viðfangsefninu 1.90 Ýmis framlög og er skiptingin sýnd í sérstöku yfirliti með breytingartillögum meiri hlutans.

09 Fjármálaráðuneyti

262     Tollstjórinn í Reykjavík. Í samræmi við breyttar skilgreiningar samkvæmt lögum um fjárreiður ríkisins færast tollafgreiðslugjöld hjá tollstjóranum í Reykjavík eftirleiðis sem ríkistekjur en þau hafa til þessa verið færð sem sértekjur á gjaldahlið í fjárlögum. Við þá breytingu lækka sértekjur embættisins um 10 m.kr. en í staðinn færist sama fjárhæð á tekjuhlið ríkissjóðs.
381     Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun. Fjármálaráðuneytið hefur endurskoðað lífeyrisskuldbindingar fyrir árin 1999 og 2000 og leiðir sú endurskoðun til 600 m.kr. lækkunar á gjaldfærslu á næsta ári. Greiðslur í sjóðinn hækka aftur á móti um 1.880 m.kr. þar sem nú er ekki gert ráð fyrir að viðbótariðgjöld verði dregin frá lífeyrisuppbótum stofnana. Breytingar á greiðslum til einstakra sjóða verða eftirfarandi:

         Sjóður
M.kr.

         1.01    Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins          -859,0
         1.02    Lífeyrissjóður alþingismanna          -22,0
          1.03    Lífeyrissjóður ráðherra          -24,0
          1.04    Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga          242,0
          1.06    Eftirlaunasjóður fyrrum starfsmanna Útvegsbanka Íslands          58,0
          1.07    Eftirlaun fyrrum bankastjóra Útvegsbanka Íslands          5,0
                         Alls          -600,0

721     Fjármagnstekjuskattur. Gerð er tillaga um 200 m.kr. hækkun á fjárheimild þessa liðar þar sem færa þarf til gjalda 10% fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði eigna. Skatturinn færist samhliða sem ríkistekjur og hefur því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þessi tilhögun skýrist af því að samkvæmt lögum um skatt á fjármagnstekjur er ríkissjóður ekki undanþeginn skattgreiðslum af fjármagnstekjum sínum.
821     Vaxtabætur. Lagt er til að vaxtabætur lækki um 300 m.kr. þar sem fyrirframgreiðslur vaxtabóta á kaupári íbúðar hafa ekki orðið eins miklar og áætlað var við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að vaxtabætur hækki um 500 m.kr. vegna flýtingar á greiðslum til kaupárs eignar og breytinga á húsnæðiskerfinu. Í ljósi greiðslna það sem af er árinu er lagt til að sú áætlun verði lækkuð um 300 m.kr.
999     Ýmislegt. Lagðar eru til tvær breytingar á liðnum sem leiða til 39 m.kr. hækkunar á framlagi úr ríkissjóði. Annars vegar er lögð til 24 m.kr. fjárveiting til áframhaldandi vöktunar á Kötlu og til vöktunar á Eyjafjallajökli. Í ljósi jarðhræringa á svæðinu hafa vísindamenn endurskoðað áætlanir um vöktun á svæðinu. Á grunni tillagna þeirra er lagt til að veittar verði 24 m.kr. til óskipts fjárlagaliðar til verksins og mun nefnd ráðuneytisstjóra sjá um skiptingu framlagsins á stofnanir í ljósi framvindunnar á næsta ári. Framlagið mun renna til Orkustofnunar, Norrænu eldfjallastöðvarinnar, Raunvísindastofnunar Háskólans og Veðurstofu Íslands. Fyrir liggja áætlanir þessara stofnana um nauðsynlegan búnað og mælingar og verður áherslum í starfi þeirra breytt í samræmi við mat á stöðu mála hverju sinni.
             Síðari tillagan er um 15 m.kr. tímabundið framlag til nýs viðfangsefnis, 6.92 Reiknilíkön og hagræðingarverkefni í starfsemi ráðuneyta. Fjárhæðinni skal verja í samvinnu við fagráðuneyti til þess að vinna reiknilíkön sem notuð verði til viðmiðana og samræmingar við ákvörðun fjárveitinga til ríkisstofnana.

10 Samgönguráðuneyti

651     Ferðamálaráð. Gerð er tillaga um 15 m.kr. hækkun á framlagi til Ferðamálaráðs. Hækkunin er annars vegar hugsuð sem 10 m.kr. hækkun á framlagi til almenns rekstrar ráðsins vegna aukinna umsvifa og hins vegar sem 5 m.kr. tímabundið framlag til rannsókna í ferðaþjónustu.

12 Viðskiptaráðuneyti

302     Löggildingarstofa. Gerð er tillaga um breytingar á veltu Löggildingarstofunnar, bæði á gjaldahlið og tekjuhlið. Skýrist það annars vegar af því að sértekjur af eftirlitsgjöldum að fjárhæð 9,5 m.kr. falla brott en þær tekjur verða eftirleiðis færðar sem rekstrartekjur stofnunarinnar á tekjuhlið ríkissjóðs í samræmi við breytta framsetningu vegna ákvæða í lögum um fjárreiður ríkisins. Þá er gert ráð fyrir að Löggildingarstofan hafi 5,5 m.kr. ríkistekjur af eftirlitsgjöldum sem varið verði til að fjármagna samsvarandi útgjöld vegna aukinna umsvifa. Við þessar breytingar hækka útgjöld stofnunarinnar því um 5,5 m.kr. og sértekjur lækka um 9,5 m.kr. Hækkun útgjalda og lækkun sértekna nemur þannig alls 15 m.kr. eða sem svarar til áætlaðrar hækkunar ríkistekna sem renna til Löggildingarstofunnar.
402     Fjármálaeftirlitið. Gerð er tillaga um að gjöld stofnunarinnar umfram sértekjur lækki um 21,7 m.kr. Í fjárlagafrumvarpinu eru gjöld stofnunarinnar umfram sértekjur áætlaðar 234 m.kr. en samkvæmt endurskoðaðri rekstraráætlun eru þau áætluð nálægt 203 m.kr. Í fjárlögum hefur verið gert ráð fyrir 9,6 m.kr. sértekjum hjá stofnuninni sem voru innheimtar hjá Vátryggingaeftirlitinu og bankaeftirlitinu áður en sameining fór fram. Ekki hefur orðið af þeirri sértekjuöflun hjá hinni nýju sameinuðu stofnun og er ekki reiknað með að til þess komi í rekstraráætlun fyrir árið 2000. Gjald það sem fyrirhugað er að innheimta hjá eftirlitsskyldum aðilum lækkar um 39 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Mismunur á útgjöldum og rekstrartekjum er 17,3 m.kr. og verður hann fjármagnaður með rekstrarafgangi ársins 1999 sem gert er ráð fyrir að færist á milli ára. Sá mismunur kemur því fram á fjárlagaliðnum í breytingartillögunni sem viðskiptahreyfing.

13 Hagstofa Íslands

101     Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa. Hækkun framlaga til Hagstofunnar nemur 23 m.kr. Gerð er tillaga um breytingar á fjármálum Hagstofunnar, bæði á gjaldahlið og tekjuhlið. Skýrist það annars vegar af lækkun sértekna um 8 m.kr. en þær tekjur verða eftirleiðis færðar sem rekstrartekjur á tekjuhlið ríkissjóðs í samræmi við breytta framsetningu vegna ákvæða í lögum um fjárreiður ríkisins. Þá er gert ráð fyrir að aðrar ríkistekjur Hagstofunnar hækki um 15 m.kr. og renni framlagið til að fjármagna samsvarandi útgjöld vegna aukinna umsvifa. Við þessar breytingar hækka útgjöld viðfangsefnisins 1.01 Yfirstjórn um 7,5 m.kr. og sértekjur lækka um 4,6 m.kr. en útgjöld viðfangsefnisins 1.50 Þjóðskráin hækka um 7,5 m.kr. og sértekjur lækka um 3,4 m.kr. Hækkun útgjalda og lækkun sértekna nemur þannig alls 23 m.kr. eða sem svarar til áætlaðrar hækkunar ríkistekna sem renna til Hagstofunnar.

14 Umhverfisráðuneyti

190     Ýmis verkefni. Lögð er til 2 m.kr. tímabundin hækkun viðfangsefnisins 1.23 Ýmis umhverfisverkefni. Fjárlaganefnd vísar til ákvörðunar umhverfisráðuneytis umsóknum Náttúruverndarsamtaka Íslands, Sólar í Hvalfirði og Umhverfisverndarsamtaka Íslands.
             Gerð er tillaga um að heiti viðfangsefnisins 1.58 Náttúrugripasöfn verði Náttúrugripasafn í Vestmannaeyjum, fiskasafn.
210     Veiðistjóri. Lögð er til 2 m.kr. hækkun á fjárveitingu veiðistjóraembættisins í kjölfar hækkunar á gjaldi fyrir veiðikort úr 1.600 kr. í 1.900 kr. eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Gert er ráð fyrir að hækkun framlagsins verði varið til rannsókna á rjúpum í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands.
213     Hreindýraráð. Óskað er eftir 9 m.kr. hækkun á framlagi til hreindýraráðs í samræmi við áætlun um auknar tekjur af leyfum fyrir veiðar á hreindýrum. Þessar auknu tekjur stafa aðallega af fjölgun veiddra dýra á milli áranna 1998 og 1999 og gert er ráð fyrir sambærilegri hækkun í fjáraukalagafrumvarpi ársins 1999.
221     Hollustuvernd ríkisins. Gert er ráð fyrir 2 m.kr. lækkun á útgjöldum stofnunarinnar í kjölfar lægri tekna af mengunareftirlitsgjaldi.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ
SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA) OG SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)

    B- og C-hluta áætlanir hafa verið endurmetnar frá því að frumvarp til fjárlaga var lagt fram í október. Í endurskoðuðum áætlunum hefur verið tekið tillit til ýmissa leiðréttinga á fyrri áætlunum, áhrifa af ráðstöfunum í A-hluta fjárlaga, breytinga á lántökum og nýrra upplýsinga um fyrirhugaða starfsemi fyrirtækja og sjóða. Í framhaldi af því gerir meiri hlutinn tillögu um breytingar á fjórum áætlunum í B-hluta og einni í C-hluta.

22 Menntamálaráðuneyti

974    Sinfóníuhljómsveit Íslands. Framlag A-hluta til Sinfóníuhljómsveitar Íslands hækkaði um 4 m.kr. við 2. umræðu fjárlaga vegna samningsbundinna launahækkana sem alls eru áætlaðar 7,1 m.kr. Af þessum sökum hækkar framlag annarra rekstraraðila um 3,1 m.kr.

23 Utanríkisráðuneyti

114    Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Lagt er til að lántökuheimild Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hækki um 1,2 milljarða kr. og nemi 2,4 milljörðum kr. á næsta ári í samræmi við breyttar forsendur um umfang stækkunar flugstöðvarinnar, áætlaðan heildarkostnað við verkefnið og skiptingu hans á milli ára. Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að flatarmál byggingarinnar verði 13.800 fermetrar í stað 10.500 fermetra í forsendum fjárlagafrumvarps. Heildarkostnaður er nú áætlaður 3,6 milljarðar kr. en var áætlaður um eða yfir 3 milljarðar kr. í frumvarpinu. Stækkunin skýrist m.a. af stærra svæði til útleigu og meira rými til að flokka farangur og fyrir sprengjuleitarbúnað.

30 Samgönguráðuneyti

471    Alþjóðaflugþjónustan. Við gerð fjárlagafrumvarps voru tekjur og gjöld vegna yfirflugsgjalda vanreiknuð. Samkvæmt nýrri áætlun eru tekjur af yfirflugsgjöldum áætlaðar 1.439,7 m.kr. og rekstrargjöld 1.515,4 m.kr. Þessi leiðrétting hefur ekki áhrif á framlag A-hluta sem er 75,7 m.kr.

31 Iðnaðarráðuneyti

321    Rafmagnsveitur ríkisins. Farið er fram á 200 m.kr. aukna lántökuheimild til handa Rafmagnsveitum ríkisins til kaupa á Hitaveitu Hveragerðis.

42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna. Áætlun Lánasjóðs íslenskra námsmanna hefur verið endurskoðuð. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir minni útlánum, aðallega vegna fækkunar lánþega í stað fjölgunar. Útlán eru áætluð 3.220 m.kr. í stað 3.490 m.kr. Rekstrargjöld eru áætluð 234 m.kr. sem er 20 m.kr. lækkun. Í áætluninni er gert ráð fyrir að sjóðurinn komi ekki til með að greiða ríkisábyrgðargjald á árinu, en það er áætlað 30 m.kr. í frumvarpinu, og að vaxtastyrkur lækki um 5 m.kr. og nemi 50 m.kr. Á móti kemur að rekstrargjöld hækka um 15 m.kr. vegna fyrirhugaðs flutnings skrifstofu sjóðsins í nýtt húsnæði. Gert er ráð fyrir að framlag A-hluta ríkisins nemi 1.910 m.kr. sem er 100 m.kr. lækkun frá fjárlagafrumvarpi. Lækkunin er í samræmi við nýja útreikninga og þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að framlagið þurfi að nema 52% af almennum útlánum, auk framlags vegna rekstrargjalda, til að eigið fé sjóðsins haldist óbreytt að raunvirði.
             Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verða fjármunatekjur 2.150 m.kr. sem er 905 m.kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Áætlað er að fjármagnsgjöld hækki á móti um 320 m.kr. og nemi 2.250 m.kr. Reiknuð gjöld vegna verðbreytinga hækka um 350 m.kr. og nema 850 m.kr. Framlag í afskriftasjóð útlána, 100 m.kr., er talið óþarft. Áætlað er að rekstrarliðir sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi verði neikvæðir um 150 m.kr. í stað þess að vera jákvæðir um 150 m.kr. Miðað er við að sjóðurinn veiti 90 m.kr. lán á markaðskjörum til skólagjalda. Ekki hefur verið áætlað áður fyrir þessum lánum en þau hafa aukist mjög á síðustu árum. Áætlað er að innheimtar afborganir af veittum lánum aukist um 200 m.kr. og að sjóðurinn greiði 50 m.kr. meira af lánum sínum. Lántökur sjóðsins lækka um 200 m.kr.

SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 5. OG 6. GR.

    Nokkrar breytingar eru gerðar á 2. tölul. 5. gr. fjárlagafrumvarpsins. Farið er fram á í lið 2.1 að lántökur Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 200 m.kr. í ljósi endurskoðunar á áætlunum. Umsóknir eru færri og tekjur námsmanna eru hærri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Farið er fram á í lið 2.2 að lántökur Rafmagnsveitna ríkisins hækki um 200 m.kr. vegna kaupa á Rafveitu Hveragerðis, en þegar hefur verið farið fram á heimild til kaupanna. Loks er í lið 2.4 farið fram á að lán til stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar hækki um 1.200 m.kr. og verði 2.400 m.kr. Er nú miðað við að taka helming fyrsta áfanga í notkun 1. mars árið 2001 og síðari helming þremur mánuðum síðar. Aðstaða fyrir Schengen og aukna umferð farþega á þar með að vera fyrir hendi. Er áætlað að stækkun flugstöðvarinnar kosti 3,6 milljarða kr. Þar af verði framkvæmdum fyrir 600 m.kr. lokið fyrir áramót, árið 2000 verði kostnaður 2.400 m.kr. og 600 m.kr. árið 2001. Af þessum breytingum leiðir hækkun fjárhæðar í inngangslið 2. tölul.
    Gerð er ein breytingartillaga við 6. gr. frumvarpsins. Í samræmi við breytingar á útgjöldum Endurbótasjóðs menningarstofnana við 2. umræðu fjárlaga hækkar óskert framlag um 10 m.kr.

Alþingi, 14. des. 1999.



Jón Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Árni Johnsen.



Ísólfur Gylfi Pálmason.


Hjálmar Jónsson.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Kristján Pálsson.





Fylgiskjal I.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    
    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjallað um 1. gr. fjárlagafrumvarpsins, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs. Nefndin fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason frá fjármálaráðuneyti og Þórð Friðjónsson og Katrínu Ólafsdóttur frá Þjóðhagsstofnun til að skýra málið frekar.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2000 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 205 milljarðar kr. (á rekstrargrunni). Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð í ljósi innheimtuþróunar síðustu mánaða sem hefur áhrif á tekjugrunn næsta árs. Enn fremur hafa þjóðhagsforsendur fyrir árið 2000 breyst nokkuð frá því sem gengið var út frá í fjárlagafrumvarpi. Auk þess gefur álagning tekjuskatta á lögaðila vegna ársins 1998 (en hún lá ekki fyrir þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram) tilefni til þess að breyta fyrri áætlun.
    Að öllu samanlögðu er nú talið að tekjur ríkissjóðs á árinu 2000 geti numið 209,9 milljörðum kr. eða 4,9 milljörðum kr. umfram áætlun fjárlagafrumvarps. Breytingin á sjóðstreymi er heldur minni, eða um 4 milljarðar kr. Meginskýringu á auknum tekjum má rekja til meiri hagvaxtar og umsvifa í efnahagslífinu en áður var spáð.
    Helstu breytingar efnahagsforsendna sem varða tekjuáætlun fyrir árið 2000 eru að einkaneysla er talin aukast um 3% í stað 2,5%, fjárfesting eykst um 2,7% í stað 2,1% og neysluverð hækkar um 4,5% í stað 3,5–4% í forsendum fjárlagafrumvarps. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er hins vegar talinn aukast um 1,4% eða svipað og í fyrri spá.
    Helstu frávik einstakra tekjuliða koma fram í tekjuskatti einstaklinga sem hækkar um tæplega 400 m.kr. Þá hækkar tekjuskattur lögaðila um tæplega 600 m.kr., fyrst og fremst vegna endurskoðunar á áætlun fyrir árið 1999 í ljósi síðustu álagningar. Eignarskattur einstaklinga hækkar um 350 m.kr., einkum vegna hærra fasteignamats en áður var reiknað með. Auk þess er tekið tillit til áhrifa af fyrirhuguðum breytingum á eignarskattsfrelsi ríkisbréfa. Tekjur af stimpilgjöldum hafa hækkað nokkuð á yfirstandandi ári sem endurspeglar hækkandi fasteignaverð og er tekjuáætlun næsta árs því hækkuð samsvarandi, eða um tæplega 400 m.kr. Mesta breytingin kemur fram í virðisaukaskatti, en tekjur af honum eru taldar hækka um 2,8 milljarða kr. Þessi breyting endurspeglar bæði aukna innheimtu árið 1999 og breyttar forsendur árið 2000. Loks má nefna að áætlaður hagnaður af sölu hlutabréfa á árinu 2000 hækkar um 450 m.kr. í takt við þá hækkun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði frá því í haust.
    Í máli fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans komu fram ábendingar um að þensla væri í hagkerfinu og að þeirra mati væri best brugðist við því með því að draga úr ríkisútgjöldum. Þá bentu þeir á að best væri að nýta afgang ríkissjóðs með því að greiða niður erlendar skuldir eða með því að varðveita hluta hans í Seðlabanka þar til dregur úr þenslu. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar benti sérstaklega á mikinn halla á viðskiptum við útlönd sem er spáð 6% árið 1999 og 5,6% árið 2000. Kvað hann þennan halla vera óviðunandi til lengri tíma og við honum þyrfti að bregðast af festu.
    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. des. 1999.

Hjálmar Árnason.
Sigríður A. Þórðardóttir.
Guðmundur Hallvarðsson.
Drífa Hjartardóttir.
Pétur H. Blöndal.



Fylgiskjal II.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkisstjóðs.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fyrsti minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar átelur harðlega vinnubrögð meiri hlutans við afgreiðslu þessa máls. Knúið var á um að álit nefndarinnar lægi fyrir nánast á sömu klukkustundum og nefndin fékk málið til meðferðar. Svo hart var keyrt af meiri hlutanum í nefndinni að nánast enginn tími gafst til að fara yfir og meta efnahagsleg áhrif af breyttri þjóðhagsspá og þeim forsendum sem fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár er nú byggt á.
    Á þeim knappa tíma sem nefndin fékk til að skoða málið varð ljóst að breyttar forsendur í þjóðhagsspá og nýjar upplýsingar um tekjuhlið fjárlaga staðfesta að ríkisstjórnin hefur misst öll tök á ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Viðskiptahallinn, sem í byrjun október var spáð að yrði 29 milljarðar kr., stefnir í að verða 38 milljarðar kr. árið 1999. Fyrstu níu mánuði ársins varð viðskiptahallinn 32 milljarðar kr. Hvergi er að finna annan eins viðskiptahalla í löndunum sem við berum okkur saman við, nema á Nýja-Sjálandi.
    Hreinar erlendar langtímaskuldir aukast, en þær voru 46–47% af vergri landsframleiðslu árið 1996 og stefna í 52,7% á næsta ári. Þjóðhagslegur sparnaður hefur ekki verið minni um langt skeið, eða síðan í lok áttunda áratugarins, og er nú 14% af landsframleiðslu. Þjóðhagslegur sparnaður þyrfti að vera 30 milljörðum kr. meiri, eða 19% af landsframleiðslu, til að standa undir áformaðri fjárfestingu á næsta ári.
    Verðbólguhjólið snýst líka sífellt hraðar, en verðbólgan sl. 12 mánuði hefur verið 5,6% og eru flest lönd OECD með lægri verðbólgu nema Tyrkland, Mexíkó, Ungverjaland og Pólland. Fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir 3,4% verðbólgu en nú er spáð 4,5% verðbólgu á næsta ári.
    Viðvörunarbjöllur klingja um allt þjóðfélagið vegna þenslu í hagkerfinu sem keyrir upp verðbólgu og eykur viðskiptahalla. Það eina sem kemur frá ríkisstjórninni við þessar aðstæður eru aukin útgjöld sem aukast frá fjárlagafrumvarpinu um 3,2 milljarða kr. frá því að það var lagt fram. Þrátt fyrir tekjuauka umfram áætlun árið 1999 um 23 milljarða kr. og tæpa 5 milljarða kr. í viðbótartekjur á næsta ári umfram fyrri áætlun fjárlagafrumvarps, eða samtals um 28 milljarða kr., er fjárlögum yfirstandandi árs lokað með 10,3 milljarða kr. viðbótarútgjöldum í fjáraukalögum og einungis um 15 milljarða kr. tekjuafgangi, en um helmingur af honum skýrist af eignasölu. Af því leiðir að aðhaldsáhrifin verða minni vegna þess að hluti af þessum tekjum fer aftur í umferð, t.d. ef greiddar eru niður innlendar skuldir. Ef tekjunum af sölu eignanna væri hins vegar ráðstafað til greiðslu erlendra skulda eða þær lagðar til hliðar með öðrum hætti gegndi öðru máli og þær hefðu meiri aðhaldsáhrif, en þá gæti hins vegar reynt á gengi krónunnar. Áætlaður tekjuafgangur næsta árs er áætlaður einungis 16,7 milljarðar kr., þar af 4,5 milljarðar kr. vegna sölu á ríkisfyrirtækjum. Hér er einungis um að ræða 1,7 milljarða kr. tekjuafgang umfram forsendur fjárlagafrumvarpsins þrátt fyrir um 5 milljarða kr. viðbótartekjur sem nú eru kynntar við 3. umræðu fjárlaga.
    Fulltrúi Seðlabanka sem kom á fund nefndarinnar telur að til lengri tíma litið vanti um 20 milljarða kr. á þjóðhagslegan sparnað. Í því ljósi hefði þurft um 30 milljarða kr. tekjuafgang á fjárlögum næsta árs eða um helmingi meiri en ríkisstjórnin áformar.
    Fyrsti minni hluti telur að ný þjóðhagsspá og tekjuforsendur fjárlaga, sem sýna vaxandi viðskiptahalla og meiri verðbólgu en áður var spáð, staðfesti fyrst og fremst að ríkisstjórnin hefur misst tökin á fjármálunum. Almennt aðhalds- og fyrirhyggjuleysi einkennir því efnahagsstefnu ríkisstjórninarinnar en hættan er sú að stöðugleikanum sem íslenska þjóðin hefur búið við á undanförnum árum sé alvarlega ógnað. Áframhaldandi viðskiptahalli af þeirri stærðargráðu sem nú er og áfram stefnir í á næsta ári er tímasprengja sem að lokum getur grafið undan gengi krónunnar. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem birtist nú við lokaafgreiðslu fjárlaga sýnir aðhaldsleysi sem mun kynda undir verðbólgunni og rýra lífskjörin í landinu.
    Þetta eru kaldar kveðjur til launafólks sem lagt hefur mikið á sig til að viðhalda stöðugleikanum í landinu.

Alþingi, 14. des. 1999.



Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.



Fylgiskjal III.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Annar minni hluti gagnrýnir þann losarabrag sem verið hefur á mati á þjóðhagslegum forsendum fjárlagafrumvarpsins. Allt of skammur tími hefur gefist til að meta nýjar upplýsingar sem nefndin fékk fyrst í hendur nú í hádeginu. 2. minni hluti telur engu síður að aðeins lausleg skoðun á þeim gögnum sem fyrir liggja nægi til að sjá að ástæða er til að taka hættumerkin úr efnahagslífinu mjög alvarlega.
    Í grófum dráttum má segja að eftirfarandi liggi fyrir:
     1.      Vonir um að boðaðar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum, vaxtahækkanir o.fl. leiddu til hjaðnandi verðlags á haustmánuðum hafa ekki ræst.
     2.      Verðbólga er nú 5,6% á ári (desember 1998 til desember 1999) og endurskoðuð þjóðhagsáætlun gerir nú ráð fyrir rúmlega 1% meiri verðbólgu (hækkun neysluverðs) eða 4,5% í stað 3,4% á næsta ári.
     3.      Vonir um minni viðskiptahalla renna út í sandinn. Endurmetin spá um viðskiptajöfnuð á þessu ári er nú upp á rúma 38 milljarða kr. eða 6% af vergri landsframleiðslu, sem er ískyggilega hátt hlutfall. Horfur fyrir árið 2000 eru svipaðar, viðskiptahalli upp á 38,5 milljarða kr. og 5,6% af vergri landsframleiðslu.
     4.      Endurskoðuð þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að útflutningur aukist minna og innflutningur meira en áður var reiknað með. Þannig er áætlunin nú sú að útflutningur aukist á árinu 1999 um 6,9% í stað 8,3% og spáin fyrir árið 2000 gerir ráð fyrir 1,9% aukningu útflutnings í stað 2,6% í eldri spá. Innflutningur vex hins vegar úr 3,5% í eldri spá í 6% í nýrri spá. Spáin fyrir næsta ár er hins vegar nær óbreytt hvað innflutning varðar eða 1,9% í stað 2%.
     5.      Loks má nefna að þróun viðskiptakjara er heldur niður á við frá því sem spáð var.
    Að sjálfsögðu leiða þessar breyttu forsendur, fyrst og fremst meiri verðbólga og áframhaldandi stórfelldur viðskiptahalli, til þess að tekjur ríkissjóðs verða meiri en áður var áætlað, svo nemur tæpum 5 milljörðum kr. samkvæmt endurskoðaðri spá fyrir árið 2000. Áhrifin á útgjaldahlið eru hins vegar óvissari eins og reyndar þróunin í heild næstu mánuði. Ekki er ljóst hvort tilraunir síðustu mánaða til að halda aftur af verðþenslu reynast haldlausar til frambúðar eða hvort þær skila sér a.m.k. að einhverju leyti þó að síðar verði en vonast hafði verið til.
    Fram undan er svo óvissan sem tengist kjarasamningum, en samningar á almennum vinnumarkaði eru meira og minna lausir frá miðjum febrúarmánuði næstkomandi.
    Hættumerkin í efnahagsmálum eru augljós. Verðbólga og viðskiptahalli eru hér mun meiri en í öðrum löndum OECD, nema ef undanskilið er e.t.v. Nýja-Sjáland. Erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild fara vaxandi og verða um 53% af vergri landsframleiðslu. Fram undan er mikil óvissa, bæði hvað varðar mögulega birtingu innlendra hagstjórnartækja og viðbrögð efnahagslífsins við þeim, og komandi kjarasamninga.
    Annar minni hluti varar við þeim lausatökum sem nú eru á stjórn efnahagsmála, gagnrýnir ónógan tíma til að skoða og meta breyttar forsendur og lýsir allri ábyrgð á þessum vinnubrögðum á hendur ríkisstjórninni.

Alþingi, 14. des. 1999.



Steingrímur J. Sigfússon.