Ferill 386. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 644  —  386. mál.




Frumvarp til laga



um mat á umhverfisáhrifum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



I. KAFLI
Markmið, gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er:
     a.      að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar,
     b.      að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta til þess að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdar á umhverfið,
     c.      að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um allar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvort heldur er á landi, í landhelgi eða í mengunarlögsögu Íslands.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
     a.      Athugun Skipulagsstofnunar: Formleg kynning matsskýrslu, umfjöllun stofnunarinnar og álitsumleitan. Athugun lýkur með úrskurði Skipulagsstofnunar.
     b.      Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun og aðrir lögaðilar eða einstaklingar er hyggjast hefja framkvæmd sem lög þessi taka til.
     c.      Framkvæmd: Hvers konar nýframkvæmd eða veruleg breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir.
     d.      Leyfi til framkvæmda: Endanlegt leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir.
     e.      Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir leyfi til framkvæmda.
     f.      Matsáætlun: Áætlun Skipulagsstofnunar byggð á tillögu framkvæmdaraðila um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í matsskýrslu, um kynningu og samráð við gerð matsskýrslu og kröfur um lágmarksgögn.
     g.      Matsskyld framkvæmd: Framkvæmd sem háð er ákvæðum laga þessara ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir.
     h.      Matsskýrsla: Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á gerð matsskýrslu.
     i.      Mótvægisaðgerðir: Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif.
     j.      Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
     k.      Umhverfisáhrif: Áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á náttúrulegt umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.
     l.      Umtalsverð umhverfisáhrif: Veruleg óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
4. gr.
Yfirstjórn og framkvæmd.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.
    Skipulagsstofnun er ráðherra til ráðgjafar og annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og veitir leiðbeiningar og ráðgjöf samkvæmt þeim. Skipulagsstofnun úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, og starfsemi sem henni fylgir, sem háð er mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Matsskylda.
5. gr.
Matsskyldar framkvæmdir.

    Þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka við lög þessi skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum.
    Í þeim tilvikum er fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði getur ráðherra að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.
    Heimilt er ráðherra, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, að ákveða að tilteknar framkvæmdir séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum. Í slíkum tilvikum skal ráðherra ákveða hvort fara skuli fram annars konar mat á umhverfisáhrifum og hvaða aðgang almenningur skuli hafa að þeim upplýsingum sem safnað er. Einnig getur ráðherra heimilað að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt þessari grein og 6. gr. fari fram með öðrum hætti en fyrirskipað er í lögum þessum. Málsmeðferð slíks mats skal vera jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í IV. kafla. Ráðherra ber að tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni á hvaða forsendu undanþága er veitt samkvæmt þessari málsgrein og það áður en hún er veitt og einnig að láta sameiginlegu EES-nefndinni í té þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að.
    Ekki ber að tilkynna forsendu fyrir undanþágu vegna framkvæmdar skv. 3. mgr. til sameiginlegu EES-nefndarinnar ef framkvæmdin er umfram þær kröfur sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

6. gr.
Framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

    Framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lög þessi skulu háðar mati á umhverfis áhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar.
    Nú er fyrirhuguð framkvæmd meðal þeirra sem taldar eru í 2. viðauka við lög þessi og ber framkvæmdaraðila þá að að tilkynna Skipulagsstofnun um hana. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um hvaða gögn skuli lögð fram til Skipulagsstofnunar. Innan fjögurra vikna frá því að gögn um framkvæmdina berast skal stofnunin tilkynna hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögum þessum. Við ákvörðun um matsskyldu skal Skipulagsstofnun fara eftir við miðum í 3. viðauka við lög þessi. Áður skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, fram kvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeig andi grein fyrir niðurstöðu sinni.
    Almenningi skal heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmda sem taldar eru upp í 2. viðauka til Skipulagsstofnunar og skal stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda.
    Ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. og 3. mgr. má kæra til umhverfisráðherra. Kæru frestur er fjórar vikur frá því að niðurstaða stofnunarinnar er kynnt hlutaðeigandi.

7. gr.
Aðrar framkvæmdir sem hugsanlega eru matsskyldar.

    Umhverfisráðherra getur ákveðið að framkvæmd sem ekki er talin upp í 1. og 2. viðauka við lög þessi skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum ef sýnt þykir að hún kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Sama gildir um framkvæmdir sem getið er í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Við ákvörðunina skal ráðherra fylgja viðmiðunum í 3. viðauka við lög þessi og leita álits Skipulagsstofnunar, leyfisveitenda og framkvæmdaraðila.

IV. KAFLI
Málsmeðferð vegna matsskyldra framkvæmda.
8. gr.
Matsáætlun.

    Nú er fyrirhuguð framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum og skal framkvæmdaraðili þá gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Í tillögu framkvæmdaraðila skal lýsa fram kvæmdinni, framkvæmdasvæði og öðrum möguleikum sem til greina koma og gefa upplýs ingar um skipulag á framkvæmdasvæði og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlun um. Þar skal og vera áætlun um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis lögð verði áhersla, hvaða gögn liggi fyrir og áætlun um kynningu og samráð. Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulags stofnun.
    Skipulagsstofnun skal taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna frá því að tillaga barst, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila, um tillögu framkvæmdaraðila. Fallist Skipulagsstofnun ekki á tillögu að matsáætlun skal stofn unin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telur ábótavant og í samráði við framkvæmdaraðila leiðbeina honum um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun.
    Matsáætlun skal kynnt leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum.
    Ef sérstakar ástæður mæla með getur Skipulagsstofnun á síðari stigum farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn, enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.

9. gr.
Matsskýrsla.

    Nú hyggur framkvæmdaraðili á framkvæmd eða starfsemi sem háð er mati á umhverfis áhrifum og ber honum þá að lokinni málsmeðferð skv. 8. gr. að gera skýrslu um mat á um hverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar. Skal gerð og efni matsskýrslu vera í sam ræmi við matsáætlun, sbr. 8. gr.
    Í matsskýrslu skal tilgreina þau áhrif, bein og óbein, sem hin fyrirhugaða framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á menn, samfélag, menningu og menningararf, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, jarðmyndanir og landslag, efnisleg verðmæti og samverkun þessara þátta. Þá skal gera grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu. Lýsa skal þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á umhverfið, þar á meðal umfangi, hönnun og staðsetningu, samræmi við skipulagsáætlanir og fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Ávallt skal gera grein fyrir helstu möguleikum sem til greina koma og umhverfisáhrifum þeirra og bera þá saman. Loks skal gera stutta og skýra samantekt um matsskýrsluna og niðurstöðu hennar.

10. gr.
Athugun Skipulagsstofnunar.

    Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun matsskýrslu skal stofnunin innan tveggja vikna meta hvort skýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr.
    Skipulagsstofnun kynnir hina fyrirhuguðu framkvæmd og matsskýrslu. Skal það gert með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, dagblaði sem gefið er út á landsvísu og eftir því sem við á í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði.
    Framkvæmdaraðili skal kynna framkvæmd og matsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun eftir að skýrslan hefur verið auglýst. Skipulagsstofnun getur vikið frá þeirri kröfu ef sýnt þykir að framkvæmd og matsskýrsla hafi hlotið fullnægjandi kynningu.
    Matsskýrslan skal liggja frammi á aðgengilegum stað nærri framkvæmdasvæði og hjá Skipulagsstofnun í sex vikur sem jafnframt er sá frestur sem gefst til að koma skriflegum at hugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun. Öllum er heimilt að gera athugasemdir við framlagða matsskýrslu.
    Skipulagsstofnun skal leita umsagnar leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á. Umsagnaraðilar skulu gefa álit á því hvort fjallað sé á fullnægjandi hátt í matsskýrslu um það sem er á starfssviði þeirra og jafnframt hvort fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir séu fullnægj andi. Þeir skulu, ef tilefni er til, tilgreina hvað þarf að kanna frekar og benda á mögulegar mótvægisaðgerðir.
    Umsagnir og athugasemdir sem Skipulagsstofnun berast við athugun stofnunarinnar skulu kynntar framkvæmdaraðila og honum gefinn kostur á að svara þeim eða skýra þau atriði sem þar eru tilgreind. Framkvæmdaraðila skal gefinn a.m.k. viku frestur til að fara yfir fram komnar umsagnir og athugasemdir.

11. gr.
Úrskurður Skipulagsstofnunar.

    Innan fjögurra vikna frá því að frestur til athugasemda skv. 4. mgr. 10. gr. rennur út skal Skipulagsstofnun kveða upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
    Í úrskurði Skipulagsstofnunar skal taka ákvörðun um hvort:
     a.      fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða,
     b.      krafist er ítarlegra mats á framkvæmdinni í heild eða einstökum hlutum hennar eða
     c.      lagst er gegn viðkomandi framkvæmd vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.
    Þegar krafist er ítarlegra mats skv. b-lið 2. mgr. skal auglýsa það á sama hátt og mats skýrslu, sbr. 2. mgr. 10. gr., og skal auglýsingin eingöngu taka til þess sem krafist er ítarlegra mats á. Ekki þarf að gera matsáætlun skv. 8. gr. fyrir ítarlegra mat. Frestur Skipulagsstofn unar til að úrskurða er sá sami og skv. 1. mgr. þessarar greinar.
    Í úrskurði Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum, niðurstöðu og hvaða skilyrðum hún er bundin ásamt lýsingu á helstu mótvægisaðgerðum þegar það á við.
    Skipulagsstofnun er heimilt að setja skilyrði um að framkvæmdaraðili gangist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin hafi í för með sér.
    Þegar úrskurður Skipulagsstofnunar liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila, leyfisveitendum, umsagnaraðilum og þeim sem gert hafa athugasemdir við matsskýrslu á kynningartíma. Úrskurðurinn skal kynntur á sama hátt og matsskýrsla skv. 2. mgr. 10. gr. innan tveggja vikna frá því að hann var kveðinn upp. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að úrskurði Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun skal í úrskurði sínum sérstaklega geta um málskotsrétt hlutaðeigandi og almennings, sbr. 12. gr.
    Hafi forsendur breyst vegna nýrra upplýsinga er Skipulagsstofnun heimilt að gera minni háttar breytingar á úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum eftir birtingu hans hafi þær breytingar ekki verið fyrirsjáanlegar þegar úrskurður var birtur eða þær séu taldar til bóta og í samræmi við tilgang laganna. Skal breyting kynnt á sama hátt og úrskurður skv. 6. mgr. Ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt þessari málsgrein er kæranleg til ráðherra. Hefjist framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði Skipulagsstofnunar skal stofnunin ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar skuli fara fram að nýju samkvæmt lögunum.

12. gr.
Málskot.

    Ágreiningi um framkvæmd laga þessara má skjóta til úrskurðar umhverfisráðherra.
    Ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd, sem tilgreind er í 2. viðauka, sbr. 6. gr. laganna, sé matsskyld má kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá tilkynningu um ákvörðun stofnunarinnar.
    Úrskurð Skipulagsstofnunar skv. 11. gr. má kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að hann var birtur og fer um kæruna samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, og skal hún vera skrifleg.
    Öllum er heimilt að kæra til ráðherra ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. og úr skurð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr.

13. gr.
Úrskurður ráðherra.

    Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð vegna kæru skv. 2. mgr. 12. gr. innan fjögurra vikna frá því að kærufrestur rann út.
    Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð vegna kæru skv. 3. mgr. 12. gr. innan átta vikna frá því að kærufrestur rann út. Um úrskurð ráðherra gilda ákvæði 11. gr. eftir því sem við á. Áður en ráðherra kveður upp úrskurð vegna kæru skv. 3. mgr. 12. gr. skal hann leita umsagnar Skipulagsstofnunar, framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á.
    Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Ábyrgð framkvæmdaraðila og kostnaður við mat á umhverfisáhrifum.

    Framkvæmdaraðili er ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum. Framkvæmdaraðili ber kostnað af mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og af auglýsingum og kynningu á henni.
    Umhverfisráðherra setur að fenginni tillögu Skipulagsstofnunar gjaldskrá vegna kostnaðar stofnunarinnar við framkvæmd laganna varðandi mat á umhverfisáhrifum einstakra fram kvæmda.

15. gr.

Skipulagsáætlanir og starfsleyfi.


    Um umfjöllun í skipulagsáætlun um mat á umhverfisáhrifum og matsskyldar framkvæmdir samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og skipulagsreglu gerð.
    Þegar um starfsleyfisskylda framkvæmd er að ræða samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem jafnframt er matsskyld samkvæmt lögum þessum er framkvæmdarað ila heimilt að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar að vinna matsáætlun í samráði við starfs leyfisveitanda þannig að á sama tíma verði unnið að matsskýrslu og starfsleyfi.

16. gr.
Leyfi til framkvæmda.

    Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir matskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og skal leyfisveitandi taka tillit til hans.

17. gr.
Eftirlit með framkvæmd.

    Leyfisveitendur hafa eftirlit með því að framkvæmd sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum og fer um eftirlitið samkvæmt hlutaðeig andi lögum.

18. gr.
Mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri.

    Ef líklegt þykir að framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í öðru ríki innan Evr ópska efnahagssvæðisins ber Skipulagsstofnun að senda því ríki lýsingu á framkvæmdinni ásamt tiltækum upplýsingum um hugsanleg áhrif hennar yfir landamæri. Skipulagsstofnun getur krafist þess að framkvæmdaraðili taki saman upplýsingar um hugsanleg áhrif í viðkom andi ríki á tungumáli þess.
    Þegar líklegt þykir að framkvæmd hér á landi muni hafa umtalsverð áhrif á umhverfi ann ars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins skal gefa því tækifæri til að fjalla um málið.

19. gr.
Reglugerð um mat á umhverfisáhrifum.

    Umhverfisráðherra setur, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, reglugerð á grundvelli laga þessara.

20. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63 21. maí 1993, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þrátt fyrir ákvæði III. kafla laga þessara eru framkvæmdir samkvæmt leyfum útgefnum fyrir 1. maí 1994 ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum séu þær hafnar fyrir árslok 2002.
    Ágreiningur um hvort framkvæmd sé hafin samkvæmt þessu ákvæði til bráðabirgða á und ir úrskurð umhverfisráðherra.

II.


    Mati á umhverfisáhrifum sem hafið er við gildistöku laga þessara skal lokið samkvæmt eldri lögum.

III.


    Umhverfisráðherra skal skipa nefnd sem kannar hvort ástæða sé til að sameina og sam ræma ákvörðunarferli mats, sbr. 11.–13. gr. laganna, við leyfisveitingar fyrir einstakar fram kvæmdir. Skal athugun þessari lokið innan tveggja ára frá gildistöku laganna.

1. viðauki.

    Framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum.
     1.      Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiks leir á dag.
     2.      i.        Jarðvarmavirkjanir með varmaafl 25 MW eða meira að hráorku, þar með taldar vinnsluholur á háhitasvæðum og rannsóknarholur á háhitasvæðum sem hannaðar eru eins og vinnsluholur, eða 10 MW uppsett varmaafl eða meira.
        ii.     Önnur varmaorkuver með 10 MW uppsett rafafl eða meira.
         iii.    Vatnsorkuvirkjanir með uppsett rafafl 10 MW eða meira.
     3.      Kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, einnig þegar slík orkuver eða kjarnakljúfar (kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar teljast ekki lengur til slíkra stöðva þegar öll kjarnakleyf efni og önnur geislamenguð efni hafa verið endanlega fjarlægð af staðnum) eru rifin niður eða tekin úr notkun (nema rannsóknarstöðvar með yfir 1 kW heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum).
     4.      Stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin. Stöðvar til framleiðslu eða auðgunar kjarnakleyfra efna, til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geisla virks úrgangs, til endanlegrar geymslu á geisluðum kjarnakleyfum efnum, eingöngu til endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi eða eingöngu til geymslu (til meira en tíu ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað.
     5.      Verksmiðjur þar sem fram fer frumframleiðsla eða endurbræðsla á málmum.
     6.      Mannvirki fyrir asbestnám og vinnslu og úrvinnslu úr asbesti og vörum sem innihalda asbest: fyrir vörur úr asbestsementi, með ársframleiðslu sem er yfir 20.000 tonn af full unnum vörum, fyrir núningsþolin efni, með ársframleiðslu sem er yfir 50 tonn af full unnum vörum, og fyrir aðra notkun asbests, ef notkun er meiri en sem nemur 200 tonnum á ári.
     7.      Efnaverksmiðjur sem framleiða:
         i.        lífrænt hráefni,
         ii.    ólífrænt hráefni,
         iii.    áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),
         iv.    grunnvörur fyrir plöntuvarnarefni og lífeyða,
         v.    grunnlyfjavörur með efnafræðilegum og líffræðilegum aðferðum,
        vi.    sprengiefni.
     8.      Lagning járnbrauta.
     9.      Flugvellir með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.
     10.      i.        Stofnbrautir í þéttbýli.
        ii.    Nýir vegir utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlunum nær yfir a.m.k. 10 km svæði.
     11.      Hafnir (viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir) sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
     12.      Förgunarstöðvar þar sem úrgangur er brenndur, meðhöndlaður með efnum eða urðaður.
     13.      Kerfi til að vinna grunnvatn ef árlegt magn vatns sem unnið er eða veitt á er 10 milljónir m 3 eða meira.
     14.      Veita vatnsforða milli vatnasvæða ef flutningurinn er yfir 30 milljónir m 3 á ári. Flutningur á drykkjarvatni í leiðslum er undanskilinn.
     15.      Skolphreinsistöðvar með afkastagetu sem svarar til 50.000 persónueininga eða meira.
     16.      Vinnsla í viðskiptaskyni á meira en 500 tonnum á dag af jarðolíu og meira en 500.000 m 3 af jarðgasi á dag.
     17.      Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km 2 lands eða meira fara undir vatn.
     18.      Leiðslur sem eru 1 km eða lengri til flutnings á gasi eða vökvum sem eru eldfimir eða hættulegir umhverfi.
     19.      Stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla og svína með:
        i.         85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 fyrir hænur,
        ii.     3.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg) eða fleiri eða
        iii.     900 stæði fyrir gyltur eða fleiri.
     20.      Verksmiðjur:
        i.        sem framleiða pappírsdeig úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,
        ii.    sem framleiða pappír og pappa og geta framleitt meira en 200 tonn á dag.
     21.      Efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 50.000 m 2 svæði eða stærra eða er 150.000 m 3 eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður ná til samans yfir 50.000 m 2 svæði eða stærra eða þar sem vinnslutími er áætlaður tíu ár eða lengri.
     22.      Loftlínur utan þéttbýlis til flutnings á raforku með 66 kV spennu eða hærri. Sæstrengir til flutnings á raforku með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri.
     23.      Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 50.000 m 3 geymslugetu eða meira.
     24.      Fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri.

2. viðauki.


    Framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverf isáhrifum samkvæmt lögum þessum, sbr. einnig 3. viðauka.
     1.      Landbúnaður, skógrækt og fiskeldi:
                  a.      Framkvæmdir til endurskipulagningar á landareignum í dreifbýli sem taka til stærra landsvæðis en 10 ha.
                  b.      Framkvæmdir til að leggja óræktað land eða lítt snortið svæði undir þaulnýtinn landbúnað.
                  c.      Vatnsstjórnunarframkvæmdir vegna landbúnaðar, þar með taldar áveitu- og framræsluframkvæmdir, á 10 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum.
                  d.      Nýræktun skóga á 40 ha svæði eða stærra eða á verndarsvæðum og ruðningur á náttúrulegum skógi sem til samans nær yfir 10 ha svæði eða stærra eða er á verndarsvæð um.
                  e.      Uppgræðsla lands á verndarsvæðum.
                  f.      Stöðvar þar sem fram fer þauleldi búfjár á verndarsvæðum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  g.      Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita í ferskvatn.
                  h.      Endurheimt lands frá hafi.
     2.      Námuiðnaður:
                  a.      Efnistaka þar sem áætluð efnistaka raskar 25.000 m 2 svæði eða stærra eða er 50.000 m 3 eða meiri. Efnistaka þar sem fleiri en einn efnistökustaður ná til samans yfir 25.000 m 2 svæði eða stærra eða þar sem vinnslutími er tíu ár eða lengri. Efnistaka á verndarsvæðum. (Framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka.)
                  b.      Neðanjarðarnámur.
                  c.      Djúpborun, einkum:
                i.    borun eftir jarðhita á lághitasvæðum þar sem ölkeldur, laugar eða hverir eru á yfirborði,
                ii.    borun fyrir geymslu kjarnorkuúrgangs,
                iii.    borun eftir neysluvatni miðað við 5 milljóna m 3 ársnotkun eða meiri (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka),
                iv.    að frátalinni borun til að kanna stöðugleika jarðvegs.
                  d.      Iðjuver ofan jarðar til að nema kol, jarðolíu, jarðgas og málmgrýti, svo og jarðbiksleir.
     3.      Orkuiðnaður:
                  a.      Iðjuver til framleiðslu á rafmagni, gufu og heitu vatni, vatnsorkuver með uppsett rafafl 100 kW eða meira og varmavinnsla úr jarðhitasvæðum sem nemur 2.500 kW hrá orku eða meira (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  b.      Flutningskerfi gass, gufu eða heits vatns; flutningur á raforku með jarðstrengjum utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og eru grafnir niður eða lagðir í stokk; flutningur á raforku með loftlínum á verndarsvæðum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. við auka).
                  c.      Geymsla jarðgass ofan jarðar á verndarsvæðum.
                  d.      Neðanjarðargeymsla á eldfimu gasi á verndarsvæðum.
                  e.      Geymsla jarðefnaeldsneytis ofan jarðar á verndarsvæðum.
                  f.      Gerð taflna úr kolum og brúnkolum.
                  g.      Stöðvar til vinnslu og geymslu á geislavirkum úrgangi (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  h.      Stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu (vindbú) með 500 kW uppsett rafafl eða meira.
     4.      Framleiðsla og vinnsla málma (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka):
                  a.      Stöðvar til framleiðslu á steypujárni og stáli (fyrsta og önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu.
                  b.      Stöðvar til vinnslu á járnkenndum málmum:
                   i.    heitvölsunarstöðvar,
                ii.    smiðjur með hömrun,
                iii.    varnarhúðun með bræddum málmum.
                  c.      Málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma.
                  d.      Stöðvar til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum öðrum en góðmálmum, einnig endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.).
                  e.      Stöðvar til vinnslu málma og plastefna ofan jarðar með rafgreiningar- og efnaaðferð.
                  f.      Framleiðsla og samsetning vélknúinna ökutækja og framleiðsla á hreyflum í slík ökutæki.
                  g.      Stálskipasmíðastöðvar.
                  h.      Stöðvar sem eru 1 ha að stærð eða meira til smíða og viðgerða á loftförum.
                  i.      Framleiðsla á járnbrautabúnaði.
                  j.      Málmmótun með sprengiefnum.
                  k.      Stöðvar til að brenna og glæða málmgrýti.
     5.      Steinefnaiðnaður:
                  a.      Koxofnar (þurreiming kola).
                  b.      Sementsverksmiðjur.
                  c.      Stöðvar til framleiðslu á asbesti og asbestvörum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  d.      Stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni.
                  e.      Stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar.
                  f.      Framleiðsla á keramikvörum með brennslu, einkum þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum eða postulíni.
     6.      Efnaiðnaður (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka):
                  a.      Meðferð á hálfunnum vörum og framleiðsla kemískra efna.
                  b.      Framleiðsla á varnarefnum og lyfjum, málningu og lakki, gúmmílíki og peroxíðum.
                  c.      Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu og önnur kemísk efni á verndarsvæðum.
     7.      Matvælaiðnaður:
                  a.      Vinnsla á olíu og fitu úr jurtum og dýrum.
                  b.      Pökkun og niðursuða á jurta- og dýraafurðum.
                  c.      Framleiðsla á mjólkurvörum.
                  d.      Öl- og maltgerð.
                  e.      Framleiðsla á sætindum og sírópi.
                  f.      Sláturhús.
                  g.      Stöðvar til sterkjuframleiðslu.
                  h.      Fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur á verndarsvæðum; fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 500 tonn á sólarhring eða meiri (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  i.      Sykurverksmiðjur.
     8.      Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður:
                  a.      Iðnver til framleiðslu á pappír og pappa (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  b.      Stöðvar þar sem fram fer formeðferð (t.d. þvottur, bleiking, mersivinna) eða litun trefja eða textílefna.
                  c.      Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum.
                  d.      Stöðvar þar sem fram fer vinnsla og framleiðsla á beðmi.
     9.      Gúmmíiðnaður, framleiðsla og meðferð á vörum úr gúmmílíki.
     10.      Framkvæmdir á grunnvirkjum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka):
                  a.      Flugvellir á verndarsvæðum.
                  b.      Tengibrautir í þéttbýli. Allir nýir vegir utan þéttbýlis á verndarsvæðum og á svæðum sem eru á náttúruminjaskrá. Enduruppbygging vega utan þéttbýlis á verndarsvæðum. Hafnir utan þéttbýlis á verndarsvæðum.
                  c.      Byggingarframkvæmdir við skipgengar vatnaleiðir og gerð skipaskurða og fráveituskurða.
                  d.      Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni á verndarsvæðum.
                  e.      Sporvagnar, lestir í lofti og neðan jarðar, svifbrautir og ámóta brautir af sérstakri gerð sem notaðar eru eingöngu eða aðallega til fólksflutninga.
                  f.      Leiðslur til flutnings á olíu og gasi á verndarsvæðum.
                  g.      Vatnsleiðslur utan þéttbýlis á verndarsvæðum.
                  h.      Mannvirki til að verjast rofi á strandlengjum, til dæmis með stíflugörðum, brimbrjótum, hafnargörðum og öðrum varnarmannvirkjum gegn ágangi sjávar. Landfyllingar þar sem áætluð uppfylling er 5 ha eða stærri.
                  i.      Vinnsla grunnvatns og tilflutningur grunnvatns á verndarsvæðum.
                  j.      Mannvirki á verndarsvæðum til að færa vatnslindir milli vatnasvæða.
     11.      Aðrar framkvæmdir:
                  a.      Varanlegar kappaksturs- og reynsluakstursbrautir fyrir vélknúin ökutæki.
                  b.      Stöðvar til úrgangslosunar á verndarsvæðum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  c.      Skolphreinsistöðvar á verndarsvæðum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  d.      Förgunarstöðvar fyrir seyru á verndarsvæðum (framkvæmdir ekki tilgreindar í 1. viðauka).
                  e.      Geymsla brotajárns, þar með taldir bílar, sem er að magni 1.500 tonn á ári eða meira.
                  f.      Prófunarbekkir fyrir vélar, hverfla eða hvarfrými.
                  g.      Stöðvar sem framleiða steinullartrefjar.
                  h.      Stöðvar til að endurvinna sprengiefni eða eyða því.
                  i.      Förgun sláturúrgangs.
                  j.      Endurvinnslustöðvar.
                  k.      Snjóflóðavarnargarðar.
     12.      Ferðalög og tómstundir:
                  a.      Skíðasvæði, skíðalyftur og kláfar á skíðasvæðum á verndarsvæðum og jöklum.
                  b.      Smábátahafnir sem hafa 150 bátalægi eða fleiri.
                  c.      Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan þéttbýlis á verndarsvæðum á láglendi.
                  d.      Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á hálendi.
                  e.      Varanleg tjaldsvæði og hjólhýsasvæði sem eru 10 ha eða stærri.
                  f.      Skemmtigarðar.
     13.      Breytingar og viðbætur við framkvæmdir, sbr. 1. og 2. viðauka.
                  a.      Allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir skv. 1. eða 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
                  b.      Framkvæmdir skv. 1. viðauka sem ráðist er í eingöngu eða aðallega til að þróa og prófa nýjar aðferðir eða vörur en eru ekki notaðar lengur en í tvö ár.

3. viðauki.


    Viðmiðanir við mat á framkvæmdum tilgreindum í 2. viðauka.
     1.      Eðli framkvæmdar.
         Athuga þarf eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til:
         i.        stærðar og umfangs framkvæmdar,
         ii.    sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum,
         iii.    nýtingar náttúruauðlinda,
         iv.    úrgangsmyndunar,
         v.    mengunar og ónæðis,
         vi.    slysahættu, einkum með tilliti til efna eða aðferða sem notaðar eru.
     2.      Staðsetning framkvæmdar.
        Athuga þarf hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til:
         i.        landnotkunar sem fyrir er eða er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun,
         ii.    magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda,
         iii.    verndarsvæða:
                   (a)        friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd,
                   (b)        svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla, Mývatns- og Laxársvæða og Breiðafjarðar,
                   (c)        svæða innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum,
                   (d)        svæða, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóta verndar í samræmi við mengunarvarnareglugerð og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum,
                   (e)        svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu). Válistar falla hér undir enda m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningn um,
                   (f)        hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum, sbr. gr. 4.22 í skipulagsreglugerð,
         iv.    álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til:
                   (a)        votlendissvæða,
                   (b)        strandsvæða,
                   (c)        sérstæðra jarðmyndana, svo sem hverasvæða, vatnsfalla, jökulminja, eldstöðva og bergmyndana,
                   (d)        náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá,
                   (e)        landslagsheilda, ósnortinna víðerna, hálendissvæða og jökla,
                   (f)        upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis,
                   (g)        fuglabjarga og annarra kjörlenda dýra,
                   (h)        svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fornleifafræðilegt gildi,
                   (i)        svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum.
     3.      Eiginleikar hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.
        Áhrif framkvæmdar ber að skoða í ljósi viðmiðana hér á undan, einkum með tilliti til:
         i.        umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum,
         ii.    stærðar og fjölbreytileika áhrifa,
         iii.    þess hverjar líkur eru á áhrifum,
         iv.    tímalengdar, tíðni og óafturkræfi áhrifa,
         v.    sammögnunar ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði,
         vi.    áhrifa yfir landamæri.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


A. Skipun og störf stjórnskipaðrar nefndar.
    Frumvarp þetta til laga um mat á umhverfisáhrifum er samið að meginstefnu til af nefnd sem umhverfisráðherra, Guðmundur Bjarnason, skipaði 30. október 1997. Hlutverk nefndar innar var að endurskoða lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum.
    Í nefndinni áttu sæti Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri, formaður, Ísólfur Gylfi Pálmason alþingismaður, Tómas Ingi Olrich alþingismaður, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir sviðsstjóri, tilnefnd af skipulagsstjóra ríkisins, Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður, tilnefndur af Sam bandi íslenskra sveitarfélaga, og Gísli Már Gíslason prófessor, tilnefndur af Náttúruverndar ráði. Ritari og starfsmaður nefndarinnar var Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir deildarstjóri. Auk þess starfaði með nefndinni Kristín L. Árnadóttir lögfræðingur.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að hlutverk nefndarinnar sé að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum með hliðsjón af fenginni reynslu frá því að lögin öðluðust gildi 21. maí 1993 og að vinna út frá gögnum sem ráðuneytið og skipulagsstjóri ríkisins höfðu tekið sam an. Auk þess var nefndinni ætlað að fella inn í lögin tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, en tilskipunin tók gildi 14. mars 1999 hjá Evrópusambandinu. Hér á landi átti hún að öðlast gildi sex mánuðum eftir að hún hefði verið samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni en það var gert 26. febrúar 1999 þannig að lögin hefðu átt að öðlast gildi frá og með 26. ágúst 1999. Var nefndinni einnig falið að leggja mat á hvort fella ætti lögin um mat á umhverfisáhrifum inn í ný skipulags- og bygg ingarlög, nr. 73/1997, eða halda þeim sem sérstökum lögum á sama hátt og verið hefur.
    Hinn 22. júlí 1998 sendi nefndin í samráði við umhverfisráðherra til umsagnar drög að frumvarpi til laga um mat á umhverfisáhrifum til Rafmagnsveitna ríkisins, Landgræðslunnar, Skógræktar ríkisins, Reykjavíkurborgar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Vegagerðarinnar, Landsvirkjunar, Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Þjóðminjasafns Íslands, embættis veiðimálastjóra, Siglingastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Ferðamálaráðs Íslands, Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands, Landverndar, Félags ráðgjafarverkfræðinga og Nátt úruverndarsamtaka Íslands. Umsagnir bárust frá eftirtöldum aðilum: Rafmagnsveitum ríkis ins, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Reykjavíkurborg, Náttúrufræðistofnun Íslands, Vegagerðinni, Landsvirkjun, Náttúruvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, embætti veiði málastjóra, Orkustofnun, Ferðamálaráði Íslands, Umhverfisstofnun Háskóla Íslands, Félagi ráðgjafarverkfræðinga og Náttúruverndarsamtökum Íslands.
    Núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum eru um margt sérstæð. Þau voru fyrsta löggjöf sinnar tegundar hér á landi. Með setningu þeirra var verið að uppfylla bæði þær skuldbind ingar sem ríkið undirgekkst með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum al þjóðasamningum og yfirlýsingum, einkum þeim sem er að finna í Ríóyfirlýsingunni. Á þeim sex árum sem liðin eru frá því að þau öðluðust gildi hafa þau slitið barnsskónum. Reynslan hefur sýnt að þau eru ekki gallalaus og var endurskoðun þeirra því orðin tímabær. Almennt hefur framkvæmd laganna gengið nokkuð vel fyrir sig og flestir ef ekki allir orðið sammála um nauðsyn þess að meta umhverfisáhrif framkvæmda þar sem hætta er á óbætanlegu tjóni eða verulegum skaða á umhverfinu. Í tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB er byggt á þeim meginreglum sem mótast hafa á síðustu árum og áratugum jafnt á alþjóðavettvangi sem í framkvæmd ríkja, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónar mið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að leggja til að meginreglur þessar yrðu ekki settar inn í frumvarpið sjálft þar sem efni regln anna og orðalag þeirra er um margt óljóst og enn í mótun. Hins vegar er fjallað um megin reglur þessar í 73. gr. EES-samningsins og ber því að hafa þær í huga við framkvæmd lag anna. Meginreglurnar byggjast öðru fremur á því að umhverfisvernd snertir alla og því skulu hagsmunir komandi kynslóða hafðir að leiðarljósi.
    Að mati nefndarinnar sem falið var að endurskoða lögin var ekki talin ástæða til að fella lögin um mat á umhverfisáhrifum inn í ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997. Lög um mat á umhverfisáhrifum eru nokkuð viðamikil og hafa sjálfstæðan sess í þjóðfélaginu. Fram kvæmd laga um mat á umhverfisáhrifum er auk þess alfarið á ábyrgð ríkisins, þ.e. Skipulags stofnunar sem úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir. Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, eru hins vegar að mestu leyti á verksviði sveitarstjórna en sveitarstjórnir eru hér aðeins sem umsagnaraðilar. Slík löggjöf verður og aðgengilegri almenningi sé hún í sérstökum lagabálki.

B. Alþjóðasamningar og þróun löggjafar.
    Íslendingar hafa með aðild að ýmsum alþjóðasamningum skuldbundið sig til að meta um hverfisáhrif tiltekinna framkvæmda sem líklegar eru til að hafa veruleg, skaðleg áhrif á umhverfið en á liðnum árum hefur mat á umhverfisáhrifum orðið veigamikill hluti af umhverfis rétti bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Bandaríkin voru fyrst til að setja löggjöf um mat á umhverfisáhrifum en það var fyrir tæpum þremur áratugum. Nú er viðurkennt að mat á um hverfisáhrifum er mikilvæg leið til að ná fram þeim markmiðum að láta þá sem taka ákvarð anir er snerta umhverfið vera upplýsta um þau umhverfisáhrif sem ákvörðun þeirra hefur og að tryggja að tillit sé tekið til umhverfisins þegar teknar eru slíkar ákvarðanir. Einnig er mat á umhverfisáhrifum tæki stjórnvalda til að upplýsa almenning um framkvæmdir og gefa hon um kost á að koma að athugasemdum.
    Kveðið hefur verið á um skyldur aðildarríkja til að setja reglur um mat á umhverfisáhrif um í nokkrum alþjóðasamningum. Til að mynda hefur verið gerður sérstakur alþjóðasamn ingur um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri og er venjulega kallaður ESPOO-samning urinn frá 25. febrúar 1991. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn 26. febrúar 1991 en hann hefur ekki enn verið fullgiltur. Eins og nafn samningsins ber með sér gildir hann ein ungis um mat á umhverfisáhrifum sem ná yfir landamæri en ólíklegt er að framkvæmdir hér á landi valdi umhverfisáhrifum í öðru landi vegna einangrunar þess.
    Á Ríóráðstefnunni sem haldin var í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 1992 var mörkuð stefna í alþjóðlegum umhverfisrétti næstu áratuga. Gerð var sérstök yfirlýsing, Ríóyfirlýsingin sem hefur að geyma 27 meginreglur en í 17. reglu er fjallað um mat á umhverfisáhrifum. Þar seg ir: „Ríki skulu láta fara fram mat á umhverfisáhrifum þegar um er að ræða fyrirhugaða starf semi sem líkleg er til að hafa veruleg, skaðleg áhrif á umhverfið og háð er úrskurði viðkom andi stjórnvalds.“ Sú meginregla sem olli hvað mestum heilabrotum að koma saman í Ríó yfirlýsingunni var varúðarreglan en segja má að með tilkomu hennar hafi verið mótuð sú meginstefna sem er grundvöllur löggjafar um umhverfismál um heim allan, að umhverfið og náttúran skuli njóta vafans en ekki eins og áður tíðkaðist að framkvæmdir skyldu njóta hans.
    Í framhaldi af ráðstefnunni voru gerðir tveir alþjóðasamningar, rammasamningar Samein uðu þjóðanna, annars vegar um loftslagsbreytingar frá 1992 og hins vegar um líffræðilega fjölbreytni frá 1992. Í samningi um líffræðilega fjölbreytni er meðal annars fjallað um skyldu aðildarríkja til að krefjast mats á umhverfisáhrifum framkvæmda sem líklegar eru til að hafa veruleg, skaðleg áhrif á líffræðilega fjölbreytni.
    Aðrir alþjóðlegir samningar sem Ísland á aðild að og skipta máli varðandi mat á um hverfisáhrifum eru eftirfarandi:
    1. Ramsarsamningurinn um verndun votlendis eða „samþykkt um votlendi, sem hefur al þjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf“ frá 1971. Markmið sáttmálans er verndun votlendis svæða jarðarinnar og nær verndunin til allra dýra og plantna á vernduðum svæðum. Aðildar ríkjum sáttmálans er skylt að stuðla að verndun votlendissvæða og að þau verði nýtt á skyn samlegan hátt. Ber hverju aðildarríki að tilnefna a.m.k. eitt mikilvægt votlendissvæði og hafa nú um sex hundruð votlendissvæði í 65 löndum verið skráð hjá skrifstofunni. Þrjú íslensk svæði eru vernduð samkvæmt Ramsarsamningnum en þau eru Þjórsárver, Mývatns- og Lax ársvæðið og Grunnafjörður.
    2. Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna, dýra og náttúrulegra búsetusvæða þeirra í Evrópu er svæðisbundinn samningur sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins árið 1979. Tilgangur samningsins er að koma á samstarfi ríkja er stuðlar að verndun villtra dýra og jurta í Evrópu og lífsvæða þeirra. Aðildarríkin taka m.a. á sig þá skuldbindingu að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda eða koma fjölda villtra plantna og dýra á það stig sem samsvarar einkum vistfræðilegum, vísindalegum og menningarlegum þörfum o.fl. Einnig er sú skylda lögð á samningsaðila að stuðla að stefnumótun til verndar villtum dýrum og plöntum og lífsvæðum, með sérstöku tilliti til tegunda sem hætt eru komnar eða eru við kvæmar. Í samningnum er m.a. mælt fyrir um skyldu aðildarríkjanna til að efla verndun villtra planta og dýra og lífsvæða þeirra.
    3. Samningur um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins frá 1972 kveður á sama hátt og Ramsarsamningurinn á um að aðildarríkin geri skrá yfir svæði sem mikilvæg teljast fyrir arfleifð jarðar. Eru um sex tugir ríkja aðilar að samningnum og hafa hátt í fjögur hundruð svæði verið skráð þannig. Þar af er um fjórðungur svæðanna skráður vegna ein stakrar náttúrulegrar arfleifðar. Aðildarríkjum sáttmálans er þjóðréttarlega skylt að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda þau svæði þar sem einstæða náttúrulega arfleifð er að finna og skila þeim til komandi kynslóða. Ekkert svæði á Íslandi er á skrá enn sem komið er en sótt hefur verið um að Þingvellir falli hér undir. Þessi samningur fellur undir mennta málaráðuneytið en þeir sem áður eru taldir undir umhverfisráðuneytið.

C. Tilskipanir Evrópusambandsins 85/337/EBE og 97/11/EB.
    Markmið þessa frumvarps er m.a. að uppfylla þær skyldur sem íslenska ríkið tók á sig með aðild að EES-samningnum. Meginmarkmið þess samnings er stofnun Evrópska efna hagssvæðisins sem tekur til allra aðildarríkja Evrópusambandsins auk EFTA-ríkjanna að Sviss undanteknu. Með þeim samningi tóku EFTA-ríkin sem aðild eiga að honum á sig þær skyldur að lögleiða ákveðinn hluta af réttarreglum Evrópusambandsins og stefna með því að einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 73. gr. EES-samningsins er fjallað um umhverfis mál og eru þar sett fram þau markmið sem aðgerðir samingsaðila skulu byggjast á, þ.e. að varðveita, vernda og bæta umhverfið, stuðla að heilbrigði manna og tryggja að auðlindir náttúrunnar séu nýttar af varúð og skynsemi. Í 2. mgr. 73. gr. EES-samningsins er fjallað um þær meginreglur sem framangreind markmið samningsaðila skulu byggjast á, að girða skuli fyrir umhverfisspjöll, leggja áherslu á að bæta það tjón sem þegar hefur orðið og leggja greiðsluskyldu á þann sem mengun veldur. Í 73. gr. EES-samningsins er síðan vísað til XX. viðauka sem hefur að geyma lista yfir þær gerðir Evrópusambandsins sem EFTA-ríkin sam þykktu að innleiða í landsrétt sinn. Í I. undirflokki XX. viðauka er m.a. að finna tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einka aðila kunna að hafa á umhverfið.
    Tilskipun ráðsins 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið var tekin upp í núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Tilskipun ráðsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðilar kunna að hafa á umhverfið felur í sér umtalsverðar breytingar á tilskipun 85/337/EBE, það miklar að nauð synlegt er að taka núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, til endurskoðunar.
    Frumvarp þetta byggist á framangreindum tveimur tilskipunum, þ.e. 85/337/EBE og 97/11/EB. Fyrri tilskipunin 85/337/EBE var sett með tilvísun til 100. og 235. gr. Rómar samningsins. Þessum greinum Rómarsamningsins var ekki ætlað að vera stoð fyrir afleidda löggjöf um umhverfismál en var nýtt sem slík þar til einingarlögin svokölluðu tóku gildi 1. júlí 1997 en enska heitið þeirra er „The Single European Act“. Með þeim var í fyrsta sinn sett ákvæði um umhverfisrétt í Rómarsamninginn en það eru 130. gr. r, s, og t, svo og 100. gr. a. Eins og áður sagði höfðu gerðir sem fjölluðu um umhverfismál verið gefnar út með vís un til 100. og 235. gr. Rómarsamningsins fyrir tilkomu einingarlaganna. Í 100. gr. er fjallað um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkjunum og 235. gr. felur í sér heim ild til að setja reglur til þess að ná markmiðum bandalagsins varðandi starfsemi hins sameiginlega markaðar. Er 73. gr. EES-samningsins því sem næst samhljóða 130. gr. r í Rómar samningnum.
    Tilskipun ráðsins 97/11/EB um breytingu á tilskipun 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið er sett með hliðsjón af 1. mgr. 130. gr. s Rómarsamningsins og í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 189. gr. c í Rómarsamningnum. Í markmiðskafla tilskipunarinnar segir að framkvæmd mats á umhverfisáhrifum sé grundvallaratriði stefnu í umhverfismálum eins og hún er skilgreind í 130. gr. r í sáttmálanum. Í inngangi tilskipunarinnar kemur einnig fram að tilurð seinni tilskipunarinnar byggist á skýrslu um framkvæmd tilskipunar 85/337/EBE sem framkvæmdastjórnin samþykkti 2. apríl 1993 en hún sýndi að nauðsynlegt var að setja nánari ákvæði til að skýra, auka við og bæta reglur um framkvæmd mats á umhverfisáhrifum til þess að tryggja að tilskipuninni verði beitt með æ samhæfðari og skilvirkari hætti.
    Miklu skiptir varðandi aðlögun tilskipunar í íslenskan rétt hvort hún er byggð á 100. gr. eða 130. gr. r, s, eða t þar sem aðildarríkjum EES-samningsins er ekki heimilt að setja strangari reglur en þær sem koma fram í tilskipunum Evrópusambandsins séu þær byggðar á 100. gr. a Rómarsamningsins. Hins vegar er aðildarríkjum heimilt að gera strangari kröfur en koma fram í tilskipuninni ef byggt er á 130. gr. r, s eða t. Tilskipun 97/11/EBE sem byggt er á við gerð frumvarpsins mælir fyrir um lágmarkskröfur þær sem ríki verða að uppfylla en þeim er í sjálfsvald sett hvort þau vilja gera ríkari kröfur en þær sem settar eru fram í tilskip uninni.
    Skýrsla umhverfisráðherra um mótun stefnu í umhverfismálum var lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1993 en skýrslan ber heitið: „Á leið til sjálfbærrar þróunar, stefna og framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.“ Í skýrslunni kemur m.a. fram að stefna ríkisstjórnarinnar sé að leggja grunn að þróun sem fái staðist til frambúðar með því að efla aðgerðir sem koma í veg fyrir óæskileg áhrif manna og dýra á náttúrulegt umhverfi eða draga úr þeim, bæta umhverfið og eftir megni að koma í veg fyrir, draga úr eða tefja óæskilegar breytingar á umhverfi okkar af völdum náttúrurafla. Jafnframt er vísað til nokkurra þeirra meginreglna sem hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar byggist á, m.a. reglunnar um að hver einstaklingur eigi rétt á umhverfi sem stuðlar að heilbrigði og farsæld, réttar sérhvers ein staklings varðandi ákvarðanir er snerta nánasta umhverfi hans og til mengungarbótareglunn ar (Polluter Pays Principle). Í frumvarpinu er byggt á nefndum meginreglum.

D. Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins.
     1.      Markmið laganna eru nánar útfærð í 1. gr.
     2.      Í 2. gr. er lagt til að frumvarpið gildi um allar framkvæmdir hvort heldur er á landi eða sjó innan íslenskrar mengunarlögsögu en ekki einungis á landi að stórstraumsfjöruborði eins og nú er.
     3.      Í 3. gr. er að finna mun ítarlegri skilgreiningar orða og hugtaka en í lögum nr. 63/1993.
     4.      Samkvæmt 4. gr. verður það hlutverk Skipulagsstofnunar en ekki skipulagsstjóra ríkisins að annast eftirlit með framkvæmd laganna og úrskurða um mat á umhverfisáhrifum og er það í samræmi við ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997.
     5.      Í 5. gr. er skírskotað til 1. viðauka við frumvarp þetta en þar eru taldar upp allar þær framkvæmdir sem matsskyldar eru samkvæmt frumvarpi þessu í stað þess að tilgreina þær sérstaklega í lögunum eins og gert er í núgildandi lögum.
     6.      Í 5. gr. er ráðherra veitt heimild til að ákveða að þegar fleiri en ein framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði verði umhverfisáhrif þeirra metin sameiginlega. Þess háttar ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.
     7.      Í 5. gr. er ráðherra veitt heimild til að undanskilja ákveðnar framkvæmdir ákvæðum laganna að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Þetta er gert í samræmi við ákvæði tilskipunar 97/11/EB.
     8.      Sú breyting verður frá 6. gr. laga nr. 63/1993 að nú ber að tilkynna allar framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka tilskipunar 97/11/EB til Skipulagsstofnunar til ákvörð unar um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, en samkvæmt lögunum var ekki um slíka tilkynningarskyldu að ræða heldur var hún í reglugerð nr. 179/1994.
     9.      Í 6. gr er gerð sú breyting að Skipulagsstofnun ákvarðar um matsskyldu framkvæmda í stað ráðherra, þ.e. um þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka tilskipunar 97/11/EB og er ákvörðun Skipulagsstofnunar kæranleg til ráðherra.
     10.      Í 2. viðauka frumvarpsins eru tilgreindar þær framkvæmdir sem ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. Listinn er sá sami og í 2. viðauka tilskipunar 97/11/ESB nema hvað gerðar hafa verið lítils háttar breytingar við aðlögun hans að íslenskum að stæðum.
     11.      Í þriðja viðauka frumvarpsins eru tilgreindar þær viðmiðanir sem hafa skal til hliðsjónar við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda skv. 6. gr. Listinn er sá sami og í 3. viðauka tilskipunar 97/11/ESB nema hvað gerðar hafa verið lítils háttar breytingar við aðlögun hans að íslenskum aðstæðum.
     12.      Samkvæmt 8., 9. og 10. gr. er matsferlið einfaldað. Gert er í fyrsta lagi ráð fyrir að framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að matsáætlun fyrir Skipulagsstofnun, í öðru lagi matsskýrslu framkvæmdaraðila sem skal vera í samræmi við matsáætlun Skipulags stofnunar og í þriðja lagi úrskurð Skipulagsstofnunar sem byggist á matsskýrslu, um sögnum, athugasemdum og áliti framkvæmdaraðila á fram komnum umsögnum og at hugasemdum.
     13.      Samkvæmt 10. gr. er öllum heimilt að gera athugasemdir við framlagða matsskýrslu sem er til samræmis við þá framkvæmd sem verið hefur.
     14.      Lagt er til í 10. gr. að Skipulagsstofnun og framkvæmdaraðili sjái um sameiginlega kynningu á framkvæmd og matsskýrslu í upphafi kynningartíma.
     15.      Lagt er til eitt heildstætt matsferli sem m.a. getur leitt til að fram fari ítarlegra mat á framkvæmd í heild eða að hluta í stað þess að fram fari frummat og frekara mat.
     16.      Í 11. gr. er Skipulagsstofnun heimilað að leggjast gegn viðkomandi framkvæmd án þess að krefjast ítarlegra mats vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa sem framkvæmdin muni hafa í för með sér.
     17.      Í 11. gr. er reynt að auka aðgengi almennings að matsskýrslu og úrskurði Skipulagsstofnunar og að tryggja sem best að almenningur geti haft áhrif á niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
     18.      Í 11. gr. er lagt til að Skipulagsstofnun meti hvort framkvæmd sem ekki hefur hafist innan tíu ára frá því að mat á umhverfisáhrifum hennar fór fram skuli fara að nýju í mat.
     19.      Í 11. gr. er lagt til að Skipulagsstofnun sé heimilt að gera minni háttar breytingar við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum eftir birtingu hans að uppfylltum ákveðnum skilyrð um.
     20.      Til að taka af öll tvímæli er lagt til í 12. gr. að allir geti kært ákvarðanir og úrskurði Skipulagsstofnunar.
     21.      Í 15. gr. er lagt til að heimilt verði að vinna saman að matsáætlun á vegum Skipulagsstofnunar og útgáfu starfsleyfis á vegum starfsleyfisveitanda, en samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir að þessir þættir séu unnir hvor í sínu lagi.
     22.      Lagt er til í 17. gr. að um eftirlit fari samkvæmt þeim lögum sem leyfi er gefið út samkvæmt enda skuli í leyfi tekið fullt tillit til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum.
     23.      Í 18. gr. er lagt til að Skipulagsstofnun beri að tilkynna viðkomandi ríki á Evrópska efnahagssvæðinu um framkvæmdir sem muni geta haft umtalsverð umhverfisáhrif í því ríki.
     24.      Þær framkvæmdir, sem undanþegnar eru núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, verða að hefjast fyrir árslok 2002 eigi þær að vera undan þegnar matsskyldu.
     25.      Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I er lagt til að ágreiningur um hvort framkvæmd sé hafin eigi undir úrskurð ráðherra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í I. kafla laganna eru ákvæði um markmið og gildissvið auk skilgreininga á ýmsum hug tökum sem er að finna í lögunum til skýringar. Lagalegar skýringar hugtaka verða að vera eins nákvæmar og kostur er því framkvæmd laganna er órjúfanlega tengd þeim.

Um 1. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi lögum.
    Í greininni er fjallað um markmið laganna og eru þau í meginatriðum þríþætt;
    Í fyrsta lagi að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum. Litið er á mat á umhverfisáhrifum sem mikilvægt tæki stjórnvalda til að ná fram markmiðum í umhverfis málum og stuðla að sjálfbærri þróun. Eitt af markmiðum laganna er að tryggja að Skipulags stofnun fái nauðsynlegar upplýsingar til að geta tekið ákvörðun um tiltekið verkefni með fulla vitneskju um hvaða líkur eru á því að verkefnið hafi veruleg áhrif á umhverfið.
    Í öðru lagi að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuni að gæta til þess að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmda á umhverfið.
    Í þriðja lagi að tryggja aðkomu almennings að mati á hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með því að kynna umhverfisáhrif fram kvæmdanna og stuðla að því að koma megi að athugasemdum og upplýsingum áður en úr skurðað er um matið. Einn helsti tilgangur áðurnefndar tilskipunar 97/11/EB er að tryggja sem best aðkomu almennings að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar.

Um 2. gr.


    Í greininni er fjallað um gildissvið laganna. Lagt er til að lögin gildi um allar framkvæmd ir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvort heldur er á landi, í land helgi, eða í mengunarlögsögu Íslands og er það breyting frá gildandi lögum en þau ná ekki yfir framkvæmdir utan stórstraumsfjöru.

Um 3. gr.


    Í greininni er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem koma fram í frumvarpinu. Í gildandi lögum er einungis að finna skilgreiningar á hugtakinu „framkvæmdaraðili“ og „leyfisveitandi“ og eru þær óbreyttar hér. Við skilgreiningu á þeim hugtökum sem koma fram í frumvarpinu hefur verið stuðst við skýringar í tilskipun 85/337/EBE og 97/11/EB.

Um 4. gr.


    Í greininni er fjallað um yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til. 1. mgr. er samhljóða 1. málsl. 3. gr. gildandi laga. Eftirlitshlutverk Skipulagsstofnunar með framkvæmd laganna er hins vegar áréttað og að stofnunin skuli veita leiðbeiningar og ráðgjöf, úrskurða um mat á umhverfisáhrifum matsskyldra framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir ásamt því að taka ákvörðun um hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Frá því að núgildandi lög öðluðust gildi hefur stofnunin ekki einungis haft með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum að gera eins og lögin mæla fyrir um heldur hefur hún haft mikilvægu hlut verki að gegna við aðra framkvæmd laganna, svo sem við að veita leiðbeiningar og ráðgjöf.

Um III. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um þær framkvæmdir sem matsskyldar eru og er hér að langmestu leyti tekið mið af tilskipun 97/11/EB og viðaukum við hana. Í fyrsta lagi er um að ræða fram kvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum og eru þær taldar í 1. viðauka við frumvarpið. Í öðru lagi er um að ræða framkvæmdir sem taldar eru í 2. viðauka við frum varpið og eru þær matsskyldar samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar en skylt er að til kynna stofnuninni um slíkar framkvæmdir. Loks getur ráðherra ákveðið að tilteknar fram kvæmdir sem ekki eru taldar í 1. og 2. viðauka skuli matsskyldar.

Um 5. gr.


    Samkvæmt greininni skulu þær framkvæmdir sem taldar eru í 1. viðauka ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, oft nefndar framkvæmdir á skyldulista. Í tilskipun 97/11/EB eru gerðar lágmarkskröfur til aðildarríkjanna og skulu þær framkvæmdir sem taldar eru í 1. viðauka við tilskipunina ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 1. viðauka.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila ákveðið í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði að þær verð metnar sameiginlega. Þess háttar ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum. Varðandi stærri framkvæmdir getur verið um að ræða nokkrar matsskyldar framkvæmdir sem eru háðar hver annarri en á vegum ólíkra aðila, svo sem verksmiðja, höfn, vegur og veitur. Æskilegt getur verið að kynna og fjalla um þessar framkvæmdir samtímis.
    Í 3. mgr. er að finna heimild til handa ráðherra til að undanskilja vissar framkvæmdir skv. 5. og 6. gr. matsskyldu. Í slíkum tilvikum skal ráðherra ákveða hvort fara skuli fram annars konar mat á umhverfisáhrifum og hvaða aðgang almenningur skuli hafa að þeim upplýsingum sem safnað er. Einnig er lagt til það nýmæli að ráðherra geti heimilað að mat á umhverfis áhrifum framkvæmdar skuli fara fram með öðrum hætti en fyrirskipað er í lögum þessum. Þessi tillaga er sett fram í ljósi reynslunnar en sú málsmeðferð að framkvæmd skuli vera ákveðin löngu áður en hún hefst, t.d. um staðsetningu eða umfang, á ekki við um allar fram kvæmdir. Dæmi um slíkt er framkvæmd sem er þess eðlis að hún verði ekki metin í heild sinni á þeim tíma sem þarf til að vinna áfram að undirbúningi framkvæmdar eða ekki sé hægt að ákveða fyrir fram nákvæmlega staðsetningu hennar, t.d. borholu. Með þessari undanþágu heimild er ekki verið að leggja til lakari málsmeðferð en kveðið er á um í IV. kafla, enda segir að framkvæmdin skuli vera jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í honum. Framkvæmdaraðili sem sækir um slíka undanþágu til ráðherra skal leggja fram tillögur að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar á annan hátt en kveðið er á um í lögum þessum og rökstyðja beiðni sína ítarlega. Áður en ráðherra tekur ákvörðun skal hann leita álits Skipu lagsstofnunar, leyfisveitanda og annarra aðila eftir því sem við á, enda ekki síður þörf á vand aðri málsmeðferð þegar veitt er undanþága frá almennum reglum laganna. Ráðherra skal síð an tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni á hvaða forsendum undanþágan sé veitt samkvæmt málsgreininni og láta sameiginlegu EES-nefndinni í té þær upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Þessi undanþága 3. mgr. er til samræmis við 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 97/11/EB þar sem aðildarríkjunum er veitt heimild í sérstökum tilvikum til að undanskilja sérstakar framkvæmdir ákvæðum tilskipunarinnar með öllu eða að hluta með þeim skilyrðum sem greinir hér að framan.

Um 6. gr.


    Samkvæmt greininni er lagt til breytt fyrirkomulag frá gildandi lögum, sbr. almennar at hugasemdir með frumvarpinu. Er lagt til að það fyrirkomulag verði tekið upp sem tilskipun 97/11/EB gerir ráð fyrir, þ.e. að ákvarðanir um hvort þær framkvæmdir sem taldar eru í 2. viðauka við frumvarpið, sem samsvarar II. viðauka við tilskipunina, séu teknar með því að skoða annars vegar hvert tilvik um sig (case by case) eða með því að taka mið af þeim mörk um eða viðmiðunum sem hafa verið sett (thresholds criteria). Hér beri fyrst og fremst að taka tillit til þeirra viðmiðana sem kveðið er á um í 3. viðauka við frumvarpið sem að mestu sam svarar III. viðauka við tilskipun 97/11/EB.
    Í 1. mgr. er því lagt til að þær framkvæmdir sem taldar eru í 2. viðauka við frumvarpið skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfis áhrif vegna umfangs og eðlis, staðsetningar eða væntanlegra umhverfisáhrifa framkvæmdar. Sé hin fyrirhugaða framkvæmd meðal þeirra sem taldar eru í 2. viðauka beri framkvæmdarað ila skv. 2. mgr. að tilkynna Skipulagsstofnun um hana sem skal taka ákvörðun um hvort framkvæmd sé matsskyld og skal stofnunin við ákvörðunina fara eftir viðmiðunum í 3. við auka. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 2. og 3. viðauka. Í síðasta málslið 2. mgr. og 3. mgr. er svo kveðið á um að Skipulagsstofnun skuli gera hlutaðeigandi grein fyrir niður stöðu sinni. Enn fremur er lagt til að almenningur geti tilkynnt framkvæmd til stofnunarinnar eða borið fram fyrirspurn um þær sem taldar eru upp í 2. viðauka. Markmiðið með ákvæði þessu er að auðvelda aðkomu almennings og stuðla að því að þær framkvæmdir sem kunna að vera matsskyldar samkvæmt frumvarpinu verði tilkynntar stofnuninni. Hafa ber í huga að almenningur getur kært ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. og 3. mgr. til ráðherra.

Um 7. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði sem er að mestu samhljóða 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Lagt er til að ráðherra geti ákveðið að framkvæmd sem ekki er talin upp í 1. og 2. viðauka skuli háð mati á umhverfisáhrifum ef sýnt þykir að hún kunni að hafa í för með sér umtals verð umhverfisáhrif. Sama gildir um framkvæmdir og viðmiðanir sem getið er í alþjóðasamn ingum sem Ísland er aðili að og ekki eru tilteknar í viðaukum 1 og 2. Við ákvörðunina skuli ráðherra fylgja viðmiðunum í 3. viðauka og leita umsagnar Skipulagsstofnunar og leyfisveit enda. Það gefur ráðherra nauðsynlegt svigrúm til að ákveða hvort framkvæmd skuli mats skyld þótt hún sé ekki talin upp meðal þeirra sem greinir í 1. og 2. viðauka. Óvíst er hvort upp kunna að koma framkvæmdir í framtíðinni sem hafa umtalsverð umhverfisáhrif en eru ekki meðal matsskyldra framkvæmda samkvæmt frumvarpinu.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum er lögð til breytt málsmeðferð frá núgildandi lögum vegna matsskyldra fram kvæmda. Er lagt til að matsferillinn hefjist með því að framkvæmdaraðili geri tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætlun. Skipulagsstofnun ber að taka ákvörðun um tillögu fram kvæmdaraðila innan fjögurra vikna. Framkvæmdaraðili skal síðan gera matsskýrslu sem byggist á matsáætlun og senda hana til úrskurðar Skipulagsstofnunar. Stofnunin tekur skýrsl una til athugunar og ef sérstakar ástæður mæla með er óskað eftir frekari upplýsingum áður en hún úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega. Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til einfaldast málsmeðferðin frá því sem nú er. Mark miðið er og að framkvæmdaraðili leggi fram á viðhlítandi hátt þær upplýsingar sem krafist er í IV. viðauka við tilskipun 97/11/EB og að Skipulagsstofnun segi til um hvaða upplýsingar framkvæmdaraðili skuli veita. Er hér einkum höfð hliðsjón af 7. mgr. 1. gr. tilskipunar 97/11/EB og verið að uppfylla þær skyldur sem þar er kveðið á um.
    Loks er fjallað um réttinn til að skjóta ákvörðunum og úrskurðum Skipulagsstofnunar til úrskurðar ráðherra.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er lagt til að sé fyrirhuguð framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum skuli framkvæmdaraðili gera tillögu til Skipulagsstofnunar að matsáætl un eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Þar skuli lýsa framkvæmd inni, framkvæmdasvæði og helstu möguleikum sem til greina koma, svo sem á tilhögun og staðsetningu og hvernig framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum. Þar skuli og vera áætlun um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis lögð verði áhersla, hvaða gögn liggi fyrir og áætlun um kynningu og samráð. Framkvæmdaraðila ber að kynna tillögu að matsáætlun fyrir umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.
    Í 2. mgr. er lagt til að Skipulagsstofnun skuli taka ákvörðun um tillögu að matsáætlun framkvæmdaraðila, hvort fallist sé á tillöguna eða stofnunin telji hana ófullnægjandi. Fallist Skipulagsstofnun ekki á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun ber stofnuninni að rök styðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telur ábótavant og leiðbeina framkvæmdar aðila um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun. Mikið er lagt upp úr samráði milli Skipulags stofnunar og framkvæmdaraðila um gerð matsáætlunar til að hún verði sem best úr garði gerð. Skal matsáætlunin taka mið af umfangi og eðli framkvæmda, staðsetningu og hugsan legum umhverfisáhrifum og skal þar koma fram á hvaða þætti framkvæmdar og umhverfis áhersla verði lögð við matið og hvaða gagna skuli að lágmarki aflað auk þess sem þar skulu koma fram þær kröfur sem gerðar eru til kynningar og samráðs.
    Markmiðið með þessari grein er að matsáætlun framkvæmdaraðila skv. 2. mgr. verði grunnur að matsskýrslu hans. Þannig verði sem best komið í veg fyrir að upplýsingar skorti í matsskýrslu sem kynni að tefja matsferlið. Um leið er sá varnagli sleginn í 4. mgr. að lagt er til að stofnunin geti á síðari stigum óskað eftir frekari gögnum ef sérstakar ástæður mæla með enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.

Um 9. gr.


    Í greininni er fjallað um matsskýrslu vegna matsskyldra framkvæmda. Skv. 1. mgr. skal framkvæmdaraðili sem hyggur á framkvæmd sem er háð mati á umhverfisáhrifum gera skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar að lokinni málsmeð ferð skv. 8. gr. Skal gerð og efni matsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. og er það til samræmis við það sem áður segir um 8. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. eru nefndir helstu þættir sem sérstaklega ber að taka tillit til við mat á umhverfis áhrifum. Er við þá upptalningu tekið mið af IV. viðauka við tilskipun 97/11/EB en lýsa skal þeim þáttum fyrirhugaðrar framkvæmdar sem líklegast er talið að geti valdið áhrifum á um hverfið. Helstu breytingar frá gildandi lögum felast í því að lagt er til í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar að framkvæmdaraðili geri grein fyrir helstu möguleikum sem hann hefur kannað og til greina koma, svo sem varðandi tilhögun og staðsetningu. Nýmæli þetta hefur mikla þýðingu því að samanburður á helstu möguleikum er ein helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin. Enn fremur er það nýmæli að lýsa skuli fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og að gera skuli stutta og skýra samantekt um matsskýrsluna og niðurstöðu hennar. Þýðing slíkrar samantektar er að hún ger ir skýrsluna mun aðgengilegri almenningi.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar er fjallað um athugun og úrskurð Skipulagsstofnunar. Líkt og sam kvæmt gildandi lögum úrskurðar Skipulagsstofnun um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin skal innan tveggja vikna meta hvort skýrsla framkvæmdaraðila uppfylli þær kröfur sem gerð ar eru í 9. gr. samkvæmt matsáætlun. Í 4. mgr. 8. gr. er kveðið á um heimildir stofnunarinnar til að fara fram á það við framkvæmdaraðila að hann leggi fram frekari gögn.
    Í 2. mgr. er fjallað um kynningu á matsskýrslu. Markmiðið með slíkri kynningu er fyrst og fremst að gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum vegna hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar og kynna framkvæmdina fyrir honum. Samkvæmt frumvarpinu skal skýrslan kynnt hið minnsta í Lögbirtingablaði, einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu og í þeim fjölmiðli sem ætla má að nái til sem flestra nærri framkvæmdasvæði hverju sinni eftir því sem við á. Með því er stefnt að því að kynningin nái sem mestri útbreiðslu. Ráðherra getur og gert frekari kröfur til kynningar í reglugerð telji hann þörf á því, t.d. að fenginni reynslu.
    Í 4. mgr. er fjallað um kynningu á skýrslunni og hvar hún skuli liggja frammi. Þar er sem fyrr miðað við sex vikna frest til að skila athugasemdum og er lagt til að öllum sé heimilt að gera athugasemdir. Þótt í gildandi lögum sé ekki sérstaklega fjallað um hverjir geti gert at hugasemdir hafa þau verið skýrð svo að um almenna athugasemdaheimild sé að ræða og al menna kæruheimild einnig, sbr. og 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Þykir ástæða til að færa þennan rétt almennings í lög (actio popularis) svo að ekkert fari á milli mála enda verður þeim sjónarmiðum sem fram koma í tilskipun 97/11/EB um aðild almennings ekki náð með öðru móti. Það er um leið forsenda þess að nauðsynlegar upplýsingar liggi til grundvallar ákvörðun um tiltekna framkvæmd sem jafnframt er eitt af markmiðum tilskipunar 97/11/EB.     Í 5. mgr. er leiðbeint um þau atriði sem umsagnaraðilar skulu fjalla um en skv. 8. mgr. 1. gr. tilskipunar 97/11/EB skal tryggja að yfirvöld, sem líklegt er að framkvæmdirnar varði sökum þess að umhverfismál heyra að einhverju leyti undir þau, fái tækifæri til að láta í ljós álit sitt á þeim upplýsingum sem framkvæmdaraðili leggur fram og á umsókn hans um fram kvæmdaleyfi. Lagt er til að Skipulagsstofnun leiti að lágmarki umsagnar leyfisveitenda og annarra sem málið varðar. Ekki er hins vegar tekið af skarið um það til hverra stofnunin skuli leita en hér er fyrst og fremst átt við fagstofnanir á viðkomandi sviði, svo sem Nátturuvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Siglingastofnun Íslands, skipu lags- og byggingaryfirvöld sveitarfélaganna og hlutaðeigandi sveitarstjórnir. Nauðsynlegt er að stofnunin hafi nokkurt svigrúm til að ákveða það en framkvæmdin hefur verið sú að Skipulagsstofnun hefur leitað umsagnar viðkomandi fagstofnana og þeirra samtaka og einstaklinga sem hagsmuna eiga að gæta og málið varðar hverju sinni.
    Í 6. mgr. er framkvæmdaraðila veittur réttur til andmæla og gefinn kostur á að svara þeim athugasemdum sem fram koma og skýra þau atriði sem tilgreind eru í umsögnum og athuga semdum sem stofnuninni berast vegna matsskýrslu í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Gefa skal framkvæmdaraðila a.m.k. viku frest til að fara yfir fram komnar umsagnir og at hugasemdir en ef framkvæmdaraðili óskar eftir lengri fresti er Skipulagsstofnun heimilt að veita hann og þá jafnframt lengja þann frest sem stofnunin hefur til að úrskurða sem þeim tíma nemur.

Um 11. gr.


    Greinin samsvarar efnislega 11. gr. gildandi laga, sbr. nefndarálit umhverfisnefndar um frumvarp til laga um umhverfismat sem lagt var fram á 116. löggjafarþingi, þskj. 1139. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir frummati, sbr. 8. gr. gildandi laga, og frekara mati, sbr. 11. gr., þar sem ekki er fallist á framkvæmd, heldur einu matsferli þannig að ítarlegra mat yrði hluti alls ferlisins en ekki sjálfstætt mat. Einnig er hægt að synja framkvæmd án þess að krefjast áður frekara mats eins og í gildandi lögum. Þar sem frumvarp þetta kveður á um breytta til högun matsferlis er lagt til að Skipulagsstofnun kveði upp úrskurð innan fjögurra vikna frá því að frestur til athugasemda rennur út í stað þriggja vikna eins og gert er í gildandi lögum. Lagt er til í 3. mgr. að þegar krafist er ítarlegra mats skv. b-lið 2. mgr. skuli auglýsa það með sama hætti og matsskýrslu skv. 2. mgr. 10. gr. Það mat sem krafist er skv. b-lið kann að vera umfangsmikið og því ekki óeðlilegt að um kynningu á því fari líkt og kynningu á matsskýrslu skv. 10. gr. Samkvæmt c-lið getur Skipulagsstofnun lagst gegn framkvæmd telji stofnunin að um sé að ræða umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. skilgreiningu í 3. gr. á umtalsverðum um hverfisáhrifum. Dæmi um umtalsverð umhverfisáhrif er staðsetning framkvæmdar á við kvæmu svæði eða vegna mengunarviðmiðana í lögum eða alþjóðlegum samningum. Í 4. mgr. er svo að finna leiðbeiningar um hvernig úrskurður Skipulagsstofnunar skuli úr garði gerður.
    Í 5. mgr. er það nýmæli lagt til að Skipulagsstofnun verði heimilt að binda framkvæmd því skilyrði að framkvæmdaraðili gangist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi meðal annars að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin hafi í för með sér. Slíkar aðgerðir til verndar umhverfinu eru mjög mikilvægar, ekki síst í ljósi þess að líklegt er að framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt frumvarp inu hafi umtalsverð áhrif á umhverfið. Skipulagsstofnun ber að gæta meðalhófsreglu stjórn sýslulaga við framangreindar ákvarðanir.
    Loks er í 6. mgr. fjallað um kynningu á úrskurði Skipulagsstofnunar og um greiðan að gang almennings að honum og að stofnuninni beri að vekja athygli á málskotsrétti til ráð herra.
    Í 7. mgr. er það nýmæli að finna að mat á umhverfisáhrifum gildi aðeins í tiltekinn tíma, þ.e. hafi framkvæmd ekki hafist innan tíu ára frá úrskurði geti Skipulagsstofnun ákvarðað hvort framkvæmdina skuli meta að nýju að þeim tíma liðnum. Forsendur sem fyrra mat bygg ist á kunna að breytast með tímanum og því er ákvæði þetta lagt til.

Um 12. gr.


    Samkvæmt greininni má í fyrsta lagi skjóta ágreiningi um framkvæmd laganna til úrskurð ar umhverfisráðherra. Í annan stað má kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé matsskyld sem er nýmæli og loks má kæra úrskurð Skipulagsstofnunar skv. 11. gr. til ráðherra. Skv. 4. mgr. hafa allir rétt til að kæra.
    Frestur til að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar er óbreyttur frá gildandi lögum.
    Að öðru leyti er lagt til í frumvarpinu að um kæruna fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslu laga.

Um 13. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 14. gr. núgildandi laga, nema í stað þess að miða við átta vikur frá því að beiðni berst ráðherra er lagt til að hann kveði upp úrskurð innan átta vikna frá því að kærufrestur á úrskurði Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 12. gr. rennur út. Þannig skiptir ekki máli hvenær innan fjögurra vikna frestsins úrskurður Skipulagsstofnunar er kærður eins og ráða má af gildandi lögum þótt í framkvæmdinni hafi í reynd verið miðað við lok frestsins. Þá er lagt til að ráðherra hafi fjórar vikur til að kveða upp úrskurð vegna kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé matsskyld skv. 6. gr., þ.e. 2. viðauka. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Í greininni er lögfest með ótvíræðum hætti ábyrgð framkvæmdaraðila á mati á umhverfis áhrifum. Greinin er að öðru leyti efnislega samhljóða 12. gr. gildandi laga. Þó er áréttað að framkvæmdaraðili beri einnig kostnað af auglýsingum og kynningu á hinni fyrirhuguðu fram kvæmd. Sá kostnaður, sem fellur á Skipulagsstofnun, er fólginn í vinnu tengdri almennri stjórnsýslu, þar á meðal leiðbeiningum og ráðgjöf til almennings. Allur annar kostnaður fellur á framkvæmdaraðila í samræmi við mengunarbótarregluna. Áður en vinna hefst við mats áætlun er rétt að fyrir liggi áætlun um kostnað af vinnu Skipulagsstofnunar við matsáætlun og matsskýrslu auk kostnaðar af auglýsingum o.fl.

Um 15. gr.


    Í greininni er fjallað um skipulagsáætlanir samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og starfsleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í mörgum tilvikum er hin fyrirhugaða framkvæmd matsskyld og jafnframt starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. lög nr. 7/1998. Því er lagt til í 2. mgr. að þegar um starfsleyfisskyldar framkvæmdir er að ræða sé framkvæmdaraðila heim ilt að vinna tillögu að matsáætlun í samráði við starfsleyfisveitanda þannig að á sama tíma verði unnið að matsáætlun og starfsleyfi. Slík tillaga þarf að hljóta samþykki Skipulagsstofn unar, sbr. 8. gr. Er þetta í samræmi við heimild í tilskipun 97/11/EB. Ætti þetta að flýta fyrir meðferð mála ef á heildina er litið en af gildandi lögum má ráða að vinnsla starfsleyfis fari fyrst af stað þegar úrskurður liggur fyrir, sbr. 13. gr. laganna, og hefur verið svo í reynd. Hvað skipulagsáætlanir varðar vísast að öðru leyti til greinargerðar með 4. gr. núgildandi laga, sbr. ný skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Um 16. gr.


    Í greininni er lagt til að haldið verði í þá skýru reglu að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskylda framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir fyrr en úrskurður um mat á umhverfis áhrifum liggur fyrir. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega samhljóða 13. gr. núgildandi laga.

Um 17. gr.


    Í greininni er fjallað um eftirlitshlutverk leyfisveitanda. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í núgildandi lögum og hefur gætt óvissu um það í framkvæmd hver fari með eftirlit með framkvæmdum þegar leyfi hefur verið gefið út sem m.a. byggist á mati á umhverfisáhrifum. Ljóst er að leyfisveitendur hafa eftirlitshlutverki að gegna samkvæmt öðrum lögum. Af þeim sökum er jafnframt lagt til að hið sama gildi um þvingunarúrræði og aðrar ráðstafanir sem sá sem eftirlitinu gegnir grípur til. Því er lagt til að ákvæði 16. gr. gildandi laga um refsingu verði fellt niður og fer þá um slíkt samkvæmt sérlögum, svo sem skipulags- og byggingarlög um og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, enda er þá brotið gegn þeim eða reglu gerðum gefnum út samkvæmt þeim.

Um 18. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði sem er efnislega sambærilegt við 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 97/11/EB um mat á umhverfisáhrifum þegar líklegt þykir að framkvæmd muni hafa umtals verð umhverfisáhrif í öðru ríki. Hér er um þjóðréttarlega skyldu að ræða sem þarfnast lögfest ingar auk þess sem slík tilkynningarskylda er sjálfsögð milli ríkja. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 19. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 15. gr. núgildandi laga nema lagt er til að ráðherra leiti um sagnar Skipulagsstofnunar áður en hann setur reglugerð á grundvelli laganna. Gildandi reglu gerð á þessu sviði er nr. 179/1994, um mat á umhverfisáhrifum.

Um 20. gr.


    Tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB öðlast gildi 14. mars 1999 í Evrópusambandinu, sbr. 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Ísland hefur skuldbundið sig til þess að leiða þær breyt ingar sem fram koma í tilskipuninni í lög fyrir 26. ágúst 1999 eða sex mánuðum eftir að sam þykkt var í sameiginlegu EES-nefndinni að hún væri tæk. Sá frestur er liðinn en mikilvægt er að Ísland uppfylli skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum sem fyrst og er því lagt til að lögin taki þegar gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæði til bráðabirgða I er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða í gildandi lögum þess efnis að leyfi sem gefin eru út fyrir 1. maí 1994 falli úr gildi hefjist framkvæmdir ekki fyrir árslok 2002. Samkvæmt gildandi ákvæði er enginn frestur á því hvenær framkvæmdir með leyfi útgefnu fyrir 1. maí 1994 rennur út. Það er óásættanlegt og nauðsynlegt að kveða skýrt á um það vegna þess að sex ár eru liðin frá því að lögin tóku til framkvæmdanna. Þykir hæfilegt að frestinum ljúki 31. desember 2002 og hefur þá fengist rúmlega sjö og hálfs árs aðlögunarfrestur. Verði ágreiningur um það hvort framkvæmdir hafi hafist má skjóta þeim ágreiningi til úrskurðar ráðherra. Vafi hefur þótt leika á því hvenær framkvæmdir teljist hafn ar og er úrskurður um það hér eftir ótvírætt í höndum ráðherra.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Hér er fjallað um lagaskil við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum. Mat telst hafið þegar erindi hefur borist Skipulagsstofnun.

Um ákvæði til bráðabirgða III.


    Samkvæmt íslenskum lögum er úrskurður um mat á umhverfisáhrifum sérstakt ferli og ótengt löggjöf um leyfisveitingar fyrir einstakar framkvæmdir, svo sem lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem kveðið er á um starfsleyfi fyrir mengandi starf semi. Við útgáfu leyfa er hins vegar skv. 13. gr. gildandi laga, sbr. 16. gr. frumvarpsins, gert ráð fyrir að leyfisveitandi skuli taka tillit til úrskurðarins við útgáfu leyfis. Eftir því sem best er vitað er Ísland eina landið á EES-svæðinu sem skilur á milli mats á umhverfisáhrifum og útgáfu framkvæmda með þessum hætti. Annars staðar á Norðurlöndunum er um eitt ferli að ræða sem endar með útgáfu framkvæmdaleyfis/starfsleyfis og er þar lögð áhersla á aðkomu almennings í upphafi málsmeðferðar. Leyfisveitingar eru mismunandi á Norðurlöndunum og er útgáfa framkvæmdaleyfis ýmist í höndum Alþingis, ríkisstjórnar eða einstakra stofnana eftir eðli og umfangi framkvæmdar. Æskilegt er að löggjöf á þessu sviði sé sem mest sam ræmd á EES-svæðinu með hliðsjón af samkeppnisstöðu. Það er hins vegar ljóst að kanna þarf ýmsa þætti löggjafar áður en hægt er að taka afstöðu til samræmds ferils og kveða á um leyfisveitingar til framkvæmdar. Gefa verður stjórnvöldum tíma til þessa verks og má ætla að til þess þurfi tvö ár. Því er lagt til að umhverfisráðherra beiti sér fyrir athugun á málinu og yrði hún unnin í samráði við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, fagstofnanir og hagsmuna aðila, jafnt framkvæmdaraðila og náttúruverndarsamtök. Samkvæmt tilskipun Evrópusam bandsins 97/11 og frumvarpinu er gert ráð fyrir að vinna megi saman mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi. Hefur því á vissan hátt verið mörkuð stefna í átt að samræmingu mats á um hverfisáhrifum og leyfisveitingar.

Athugasemdir við 1., 2. og 3. viðauka.


Um 1. viðauka.


    Ákvæði 97/11/EB eru lágmarksákvæði og er sérstaklega tilgreint í tilskipuninni að aðildar löndunum sé heimilt að setja strangari reglur.
    1. Óbreytt frá 97/11/EB og lögum nr. 63/1993.
    2. Komið hafa upp vandamál við túlkun 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 63/1993. Til að taka af vafa um túlkun er lagt til að ákvæðið sé útfært nánar. Þannig er lagt til að tiltekið sé að vinnsluholur á háhitasvæðum falli undir ákvæðið, enda megi gera ráð fyrir að þær gefi orku til jarðvarmavirkjunar yfir stærðarmörkum matsskyldra framkvæmda. Einnig verði tilgreindar rannsóknarholur á háhitasvæðum þegar þær eru hannaðar eins og vinnsluholur. Tillaga þessi byggist m.a. á áliti frá Hitaveitu Reykjavíkur til Skipulags ríkisins frá 7. nóvember 1994.
    3. Óbreytt frá 97/11/EB.
    4. Óbreytt frá 97/11/EB.
    5. Krafa 97/11/EB nær til verksmiðja þar sem frumbræðsla á steypujárni og stáli fer fram, einnig til stöðva sem framleiða hrámálma sem innihalda ekki járn, úr grýti, kirni eða endur framleiddu hráefni. Ákvæði núgildandi laga ná til frum- og endurbræðslu á steypujárni, stáli og áli. Til einföldunar, og með hliðsjón af tillögu Náttúruverndar ríkisins í umsögn um drög að frumvarpi, er gerð tillaga um að verksmiðjur þar sem fram fer frumframleiðsla eða endur bræðsla á málmum séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Fallið er frá orðalagi í núgildandi lög um þar sem segir frumendurbræðsla og notað orðið frumframleiðsla til að ná yfir allar þær aðferðir sem notaðar eru til framleiðslu málma, til að mynda efnafræðilegar aðferðir.
    6. Óbreytt frá 97/11/EB og lögum nr. 63/1993.
    7. Óbreytt frá 97/11/EB og efnislega óbreytt frá lögum nr. 63/1993.
    8. Óbreytt frá lögum nr. 63/1993.
    9. Lögð er til sú breyting frá núgildandi lögum að í stað þess að allir flugvellir séu háðir mati á umhverfisáhrifum verði miðað við stærðarmörk í 97/11/EB, þ.e. 2.100 m langar flugbrautir. Þannig sé tryggt að stórir flugvellir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif fari í mat á umhverfisáhrifum.
    10. Lögð er til sú breyting frá núgildandi lögum að í stað þess að allir vegir séu háðir mati nái matsskylda til stofnbrauta í þéttbýli, til nýlagningar vega utan þéttbýlis sem eru 10 km eða lengri og enduruppbyggingar vega utan þéttbýlis þar sem nýlagning samkvæmt áætlun nær yfir a.m.k. 10. km svæði. Með nýlagningu er átt við gerð nýs vegar utan vegasvæðis eldri vega. Með stofnbrautum í þéttbýli er m.a. átt við breikkun úr tveimur akreinum í fjórar og gerð mislægra gatnamóta. Með þessu er tekið fyrir óvissu sem ríkt hefur um matsskyldu vega, sérstaklega utan þéttbýlis.
    11. Samhljóða lögum nr. 63/1993.
    12. Efnislega samhljóða 97/11/EB og lögum nr. 63/1993.
    13. Óbreytt frá 97/11/EB.
    14. Ákvæði 12. tölul. a og b í 97/11/EB eru sameinuð. Jafnframt er gerð tillaga um að í stað þess að miða við 100 milljónir rúmmetra á ári sé viðmiðunin 30 milljónir rúmmetra á ári.
    Ákvæðið nær aðalega til stórra hitaveitna. Í ljósi þess að flutningsmannvirki stórra hita veitna geta haft í för með sér talsverð umhverfisáhrif vegna sjónrænna áhrifa stórrar pípu á yfirborði og tilheyrandi vegar, sem og hugsanlegrar röskunar á ósnortnu landi, er hér lögð til stærðarviðmiðun sem miðar við að allra stærstu flutningsmannvirki hitaveitna hér á landi yrðu háð mati á umhverfisáhrifum.
    15. Ákvæði 13. tölul. 97/11/EB er tekið upp en lagt til að stærðarmörk séu lækkuð úr 150.000 persónueiningum (samkvæmt upprunalegum texta tilskipunarinnar er miðað við per sónueiningar en ekki íbúa) í 50.000 persónueiningar vegna aðstæðna hér á landi, svo sem óraskaðra eða lítt raskaðra strandsvæða og tiltölulega lítilla þéttbýlisstaða þar sem ein eða fleiri verksmiðjur geta aukið skólpmagn verulega. Um skilgreiningu á persónueiningum vís ast í mengunarvarnareglugerð.
    16. Óbreytt frá 97/11/EB.
    17. Efnislega samhljóða lögum nr. 63/1993.
    18. Efnislega samhljóða 16. tölul. 97/11/EB nema hvað lagt er til að miðað sé við 1 km langar leiðslur í stað leiðslna sem eru meira en 800 mm í þvermál og meira en 40 km langar, enda geti slíkar leiðslur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif þótt þær liggi yfir styttri vegalengdir. Í núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum í Danmörku er miðað við 1 km langar leiðslur, en í Noregi 10 bara þrýsting í leiðslum eða 10 km langar leiðslur.
    19. Óbreytt frá 97/11/EB.
    20. Óbreytt frá 97/11/EB.
    21. Efnislega samhljóða lögum nr. 63/1993 en ákvæðið er útfært frekar þar sem ríkt hefur óvissa um túlkun 4. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 3/1993. Hér er átt við efnistöku jafnt á sjó og landi.
    22. Efnislega samhljóða lögum nr. 63/1993 varðandi loftlínur, nema hvað lagt er til að stærðarmörk verði hækkuð úr 33 kv í 66 kv, enda eiga línur með lægri spennu almennt ekki að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, m.a. þar sem þær eru í flestum tilfellum lagðar í jarðstreng sem plægður er niður. Einnig er lagt til að sérstaklega sé tilgreind mats skylda sæstrengja til flutnings á raforku og er þar miðað við 132 kv og 20 km lengd. Það er í samræmi við núgildandi lög um mat á umhverfisáhrifum í Noregi.
    23. Samhljóða 97/11/EB nema hvað lagt er til að miðað sé við 50.000 rúmmetra geymslu getu í stað 200.000 tonna. Í ljósi þess að stórar olíubirgðastöðvar kunna að hafa í för með sér talsverð umhverfisáhrif, t.d. vegna mengunar, ekki síst sjávar, umferðar, sjónrænna áhrifa og hugsanlegrar röskunar á ósnortnu landi, er hér lögð til viðmiðun sem leiddi til þess að stærstu olíubirgðastöðvar hér á landi yrðu háðar mati á umhverfisáhrifum.
    24. Lagt er til að fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur í þéttbýli með framleiðslugetu 1.000 tonn á sólarhring eða meiri verði háðar mati á umhverfisáhrifum. Frá því að lög nr. 63/1993 komu til framkvæmda hafa slíkar verksmiðjur í tvígang verið tilkynntar til umhverfisráðherra skv. 6. gr. laganna. Frá slíkum verksmiðjum getur m.a. stafað veruleg lyktarmengun.

Um 2. viðauka.


    Í 2. viðauka eru taldar upp þær framkvæmdir sem ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. Í hverju tilviki metur Skipulagsstofnun, á grundvelli viðmiðana í 3. viðauka, hvort viðkomandi framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.
    2. viðauki byggist á II. viðauka tilskipunar 97/11/EB. Í II. viðauka tilskipunarinnar eru eingöngu taldar upp framkvæmdir án þess að tilgreind séu stærðarmörk eða önnur viðmið, svo sem varðandi staðsetningu. Ef II. viðauki tilskipunarinnar væri tekinn upp óbreyttur í frumvarpinu hefði það í för með sér að framkvæmdaraðila allra framkvæmda tilgreindra í viðaukanum bæri að tilkynna þær til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. til ákvörðunar um hvort þær séu háðar mati. Þetta bæri að gera óháð stærð eða staðsetningu framkvæmdanna. Í 2. við auka frumvarpsins er hins vegar gerð tillaga um stærðarmörk og viðmiðanir varðandi stað setningu sem takmarka hvaða framkvæmdir skuli tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. Þannig verði efnistökustaðir eingöngu tilkynntir til Skipulagsstofnunar skv. 6. gr. þegar þeir eru yfir þeim stærðarmörkum sem tilgreind eru í viðaukanum, auk þess sem tilkynna ber alla efnistökustaði á skilgreindum verndarsvæðum. Skilgreind verndarsvæði eru:
    1.    Friðlýstar náttúruminjar og svæði sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.
    2.    Svæði sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvellir, Mývatns- og Laxársvæðið og Breiðafjörður.
    3.    Svæði innan 100 m fjarlægðar frá fornleifum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum.
    4.    Svæði, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóta verndar í samræmi við mengunarvarnareglugerð og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum.
    5.    Svæði sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, svo sem Ramsarsamningsins (votlendi) og Bernarsamningsins (verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu). Válistar falla hér undir enda m.a. gefnir út til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt Bernarsamningnum.
    6.    Hverfisverndarsvæði samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum, sbr. gr. 4.22 í skipulagsreglugerð.
    Þar sem sett hafa verið stærðarmörk á framkvæmdir í 2. viðauka hefur verið gengið út frá því að almennt megi gera ráð fyrir að viðkomandi tegundir framkvæmda neðan stærðarmark anna hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í tilfelli fiskeldisstöðva eru stærðar mörk og viðmiðanir í samræmi við mörk skilgreind í mengunarvarnareglugerð.
    Í tveimur tilfellum eru tilgreindar framkvæmdir í 2. viðauka sem ekki koma fyrir í II. við auka tilskipunar 97/11/EB, þ.e. uppgræðsla lands og endurvinnslustöðvar. Hvort tveggja er tilgreint í viðauka II með núgildandi reglugerð um mat á umhverfisáhrifum, nr. 179/1994.
    Þrjú ákvæði II. viðauka tilskipunar 97/11/EB eru ekki tekin upp í 2. viðauka frumvarpsins, en það eru a–c-liðir 10. tölul., þar sem þær framkvæmdir eru taldar falla undir skipulags- og byggingarlög en í 9. gr. þeirra er sérstaklega fjallað um að gera skuli grein fyrir umhverfis áhrifum skipulagstillagna og þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru samkvæmt þeim.

Um 3. viðauka.


    Í 3. viðauka, sem byggir að meginstofni til á III. viðauki tilskipunar 97/11/EB, koma fram viðmiðanir sem hafa ber í heiðri við mat á framkvæmdum sem tilgreindar eru í 2. viðauka. Þar kemur fram hvað athuga þarf vegna eðlis framkvæmda, staðsetningar og hugsanlegra áhrifa þeirra.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum.


    Frumvarpið er samið af nefnd sem umhverfisráðherra skipaði til að endurskoða lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, m.a. með hliðsjón af þeim skyldum sem íslenska ríkið tók á sig með aðild að EES-samningnum. Matsferlið hefur verið einfaldað frá núgildandi lögum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili geri tillögu að matsáætlun sem lögð er fyrir Skipulagsstofnun, í öðru lagi matsskýrslu framkvæmdaraðila og í þriðja lagi úrskurði Skipulagsstofnunar sem byggður er á matsskýrslu, umsögnum, at hugasemdum og svörum framkvæmdaraðila. Gert er ráð fyrir að lögfest verði með ótvíræðum hætti ábyrgð framkvæmdaraðila á mati á umhverfisáhrifum og jafnframt skal hann bera allan kostnað af matinu, þar með talinn kostnað af auglýsingum og kynningum á hinni fyrirhuguðu framkvæmd.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að tilteknar framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif skuli tilkynna Skipulagsstofnun og skal það vera háð ákvörðun hennar hvort framkvæmdirnar verði háðar mati. Enn fremur er almenningi heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar og skal Skipulagsstofnun þá leita upp lýsinga hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitendum. Gera má ráð fyrir að vinna stofnunarinnar aukist nokkuð við frumathuganir á matsskyldu framkvæmda svo og kostnaður sem er tengdur almennri stjórnsýslu þar með talin almenn ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð matsskýrslna.
    Það er mat fjármálaráðuneytis að aukin verkefni geti leitt til 5 m.kr. útgjaldaauka hjá Skipulagsstofnun verði frumvarpið óbreytt að lögum. Á móti kemur að sértekjur hækka um 3 m.kr. þar sem miðað er við sama sértekjuhlutfall og í fjárlögum fyrir árið 1999. Heildar hækkun á ári hjá Skipulagsstofnun er því um 2 m.kr. Auk þess má búast við auknum kostnaði annarra aðila vegna umsagna um matsskýrslur, þótt ekki sé hægt að segja fyrir um hve mikill hann verður.