Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 714  —  344. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um verndun votlendis.

    Hvaða skyldur leggja ákvæði alþjóðlegra samninga á íslensk stjórnvöld um verndun og endurheimt votlendis?
    Tveir alþjóðlegir samningar leggja skyldur á herðar íslenskra stjórnvalda varðandi verndun og endurheimt votlendis, Ramsar-samþykktin um verndun votlendis, sem hefur alþjóðlega þýðingu, einkum fyrir fuglalíf, og samningur um líffræðilega fjölbreytni. Auk þess felur Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu í sér almennar skyldur um verndun tegunda og lífsvæða sem snerta votlendi og lífríki þeirra.
     Ramsar-samþykktin kveður á um verndun votlendissvæða heimsins, sérstaklega með tilliti til fuglalífs. Verndunin er þó mun víðtækari þar sem öll dýr og plöntur votlendis skulu vernduð gegn ofnýtingu þannig að vistkerfið raskist ekki. Skilgreining samþykktarinnar á votlendi er víðtæk og nær m.a. til mýra, flóa, fenja og vatna með fersku, ísöltu eða söltu vatni, þ.m.t. er sjór þar sem dýpi er innan við sex metrar, t.d. leirur og sjávarfitjar. Aðildarríkjum ber samkvæmt samþykktinni skylda til að tilnefna a.m.k. eitt svæði á skrá hennar sem telst vera alþjóðlega mikilvægt samkvæmt ákveðnum viðmiðunum samþykktarinnar. Auk þess skulu ríkin vinna að verndun votlendissvæða almennt, m.a. með friðlýsingum votlendissvæða, og stuðla að skynsamlegri nýtingu þeirra. Sérstakt tillit þarf að taka til Ramsar-svæða við ýmsa landnotkun og ákvarðanir um framkvæmdir eða aðgerðir sem geta haft áhrif á ástand þeirra. Ísland hefur tilnefnt þrjú svæði á Ramsar-skrána, Mývatn og Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörð. Aðildarríkjunum ber að vernda vistkerfi viðkomandi svæða.
    Samkvæmt ályktun á síðasta aðildarríkjaþingi sem haldið var í maí 1999 eru þau aðildarríki samþykktarinnar sem ekki hafa lokið við heildaryfirlit yfir votlendissvæði hvött til þess að ljúka gerð þess á næstu þremur árum.
    Markmið samnings um líffræðilega fjölbreytni er þríþætt, þ.e. að vernda líffræðilega fjölbreytni, að tryggja sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda og að stuðla að sanngjarni skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda, sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær.
    Í samningnum sjálfum er ekki fjallað sérstaklega um votlendi fremur en önnur vistkerfi þannig að samningurinn kveður ekki á um verndun þess umfram annað. Á vettvangi samningsins hefur hins vegar verið unnið að nánari útfærslu hans á ýmsum sviðum og hefur m.a. verið fjallað sérstaklega um líffræðilega fjölbreytni í hafinu, skóga og líffræðilega fjölbreytni og um vistkerfi ferskvatnskerfa. Á næsta aðildarríkjaþingi samningsins verður farið yfir stöðu þessara mála.
     Bernarsamningurinn kveður ekki frekar en samningurinn um líffræðilega fjölbreytni á um votlendisverndun sérstaklega en fjallar aftur á móti um verndun villtra dýra og plantna og búsvæða þeirra í samræmi við lista yfir plöntur og dýr sem samningurinn tekur til. Þannig tekur hann óbeint til verndunar votlendisplantna og dýra sem þar lifa þó að ekki sé minnst á votlendi sérstaklega, enda er í samningnum gengið út frá verndun einstakra tegunda.