Ferill 349. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 746  —  349. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um gróðurvinjar á hálendinu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað telur ráðherra að stór hluti af gróðurvinjum hálendisins falli undir c-lið 1. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, um sérstaka vernd mýra og flóa?

    Til þess að hægt sé að meta hversu stór hluti af gróðurvinjum hálendisins falli undir ákvæði um sérstaka vernd mýra og flóa, sbr. c-lið, 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, verður að vera ljóst hvar mörk hálendisins eru dregin og hvernig gróðurvin og flóar og mýrar eru skilgreind. Til hægðarauka er hér gert ráð fyrir að mörk hálendisins séu þau sömu og miðað er við í miðhálendisskipulaginu, þ.e. lína sem er dregin á milli heimalanda og afrétta, en ekki fylgt tiltekinni hæðarlínu sem ætti að sýna náttúruleg mörk hálendisins. Útreikningar á þekju mýra og flóa á hálendinu og umfangi gróðurvinja lágu ekki fyrir í ráðuneytinu og því var leitað eftir upplýsingum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins.
    Í fyrirspurninni er talað um gróðurvin án frekari skilgreiningar en í orðinu felst samkvæmt íslenskri málvitund gróðursæll blettur. Hér er hins vegar ráðlegt að líta á gróðurþekju hálendisins í heild og síðan hlutdeild mýra og flóa af henni þar sem upplýsingar um skiptingu landsins eftir gróðurfélögum er að finna í gróðurkortagögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands en þar er hugtakið gróðurvin ekki skilgreint. Á gróðurkortum er gróðurlendi skilgreint eftir ríkjandi tegundum plantna. Þannig eru mýri og flói oftast skilgreind eftir ákveðnum tegundum stara og fífa. Gróðurinn endurspeglar mismunandi vatnsstöðu í mýrum og flóum þar sem flóar eru jafnan blautari. Hálfdeigja, sem er jaðar milli votlendis og þurrlendis, er reiknuð með í flatarmáli flóa og mýra þar sem ekki var hægt að greina á milli hálfdeigju og votlendanna í þeim gögnum sem svarið byggist á.
    Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands er unnt að fá gróft yfirlit um mýrar og flóa með því að nota stafrænt gróðurkort í mælikvarðanum 1:500.000 sem stofnunin gaf út árið 1998 og byggjast eftirfarandi upplýsingar á þeim gögnum. Stofnunin býr yfir nákvæmari gögnum um gróðurþekju hálendisins, þ.e. í mælikvarðanum 1:40.000, en þau hafa ekki verið tölvutekin og því er á þessari stundu ekki hægt að veita ítarlegi upplýsingar.
    Náttúrufræðistofnun Íslands reiknast til að votlendi (þar með talin hálfdeigja) á hálendinu sé um 1.300 km², sem er um 3,3% af hálendinu öllu, en það er tæpir 40 km². Sé einungis tekið vel gróið land með gróðurþekju yfir 50% mælist votlendi um 19% af flatarmáli hálendisins.
    Í fylgiskjali er kort sem Náttúrufræðistofnun Íslands vann út úr gróðurkorti af Íslandi í skalanum 1:500.000 og sýnir annars vegar útbreiðslu gróðurlenda á hálendinu sem eru meira en hálfgróin (meira en 50% þekja) og hins vegar berangursgróður (minna en 50% þekja). Vegna grófleika kortsins má reikna með að öll votlendi stærri en 3 hektarar komi fram, en það eru þau viðmiðunarmörk sem getið er í 37. gr. laga um náttúruvernd.

Fylgiskjal.
Graphic file svmynd6c.bmp with height 885 p and width 626 p Left aligned