Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 761  —  481. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun kosningalaga.

Flm.: Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fram fari á vegum Alþingis endurskoðun á kosningalöggjöf með það fyrir augum að tryggja
     a.      að sjúklingar, aldraðir og öryrkjar geti ávallt nýtt kosningarrétt sinn,
     b.      að jafnan fjalli óháður aðili um kærumál sem upp kunna að koma í tengslum við framkvæmd kosningalaga.

Greinargerð.


    Brögð eru að því að sjúklingar, aldrað fólk og öryrkjar geti ekki neytt kosningarréttar síns. Víða hefur tíðkast að láta fara fram atkvæðagreiðslu á sjúkrastofnunum og dvalarheimilum aldraðra. Þó er það ekki algilt og hafa í þessu samhengi risið deilumál og dómsmál (sjá fylgiskjal). Brýnt er að tryggja jafnræði með þegnunum til kosningarréttar og nauðsynlegt að fram fari athugun á framkvæmd kosningalaganna hvað þetta atriði snertir.
    Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að einnig verði kannað hvernig unnt verði að koma því á að óháður aðili skeri jafnan úr um deilumál sem rísa við framkvæmd laganna.
    Í deilumálum sem risið hafa í tengslum við kosningar um sameiningu sveitarfélaga hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt að þeim sé skotið til úrskurðar í félagsmálaráðuneytinu eins og lög gera ráð fyrir þar sem það málefni sem greidd eru atkvæði um er á vegum þess ráðuneytis. Það getur í slíkum tilvikum ekki talist hlutlaus aðili. Ef fram kemur kæra um framkvæmd kosninganna kæmi til álita að hún væri milliliðalaust látin ganga til dómstóla.
    Til glöggvunar á þeim álita- og deilumálum sem kunna að rísa er í fylgiskjali grein Erlendar Hansen og Harðar Ingimarssonar úr Morgunblaðinu 29. nóvember 1998 en þeir kærðu framkvæmd kosninga sem fram fóru 15. nóvember 1997 um sameiningu sveitarfélaga í Skagafjarðarsýslu.


Fylgiskjal.


Erlendur Hansen og Hörður Ingimarsson:

Hæstiréttur varði ekki kosningarréttinn.
(Morgunblaðið, 29. nóvember 1998.)

    Um þessar mundir er nú liðið ár síðan að kosningar fóru fram um sameiningu sveitarfélaga í Skagafirði.
    Framkvæmd kosninganna varð með þeim hætti, að það leiddi til kæru. Málareksturinn sem fylgdi kosningakærunni varð lengri og flóknari en séð var fyrir í upphafi.
    Málavextir eru þeir í stuttu máli, að engin kosning fór fram á Sjúkrahúsi Skagfirðinga, þar sem gera mátti ráð fyrir að 20–30 einstaklingar mundu nýta kosningarrétt sinn. Þar á meðal voru fjórir einstaklingar úr Lýtingstaðahreppi, sem að öllum líkindum hefðu fellt kosninguna í hreppnum, en þar var munurinn aðeins tvö atkvæði. Það hefði leitt til endurtekningar kosninganna í hinum sveitarfélögunum, sem hugsanlega hefði leitt til skynsamlegri sameiningar sveitarfélaga en nú er. Í lýðræðisríki er eina leiðin að fara að lögum, ef ná skal fram réttlæti, svo er a.m.k. skoðun margra. Svo er um, þegar kemur að helgasta réttinum, sjálfum kosnningaréttinum, sem er spurningin um grundvallarmannréttindi. Sá réttur sem allur hinn vestræni heimur byggir sína tilveru á. Kosningasvik, misbeiting embættismanna og óvönduð vinnubrögð þar sem tilgangurinn helgar meðalið er bara í öðrum löndum. Löndum utan hins vestræna siðgæðis.
    En er það svo?

Samtrygging og dómskerfið.

    Í upphafi kæruferilsins sagði okkur ráðhollur maður að vonlaust væri að vinna mál, sem beindust að stjórnsýslunni. Hún fyndi sér alltaf vörn, hefði innbyggt sjálfvirkt samtryggingarkerfi, og þegar við bættist að tvö stærstu stjórnmálaöfl landsins ættu svo mikilla hagsmuna að gæta, þá væri kæran fyrir fram töpuð.
    Ráðholli maðurinn sagði að aldrei mætti gleyma því að dómskerfið væri 99% byggt upp af tveim stærstu stjórnmálaöflunum, og þau kipptu í spotta sem dygðu til að minna á hagsmuni sína. Þessu er erfitt að kyngja, búandi á Íslandi, en ekki í bananalýðveldi eða Rússlandi. Hæstiréttur var það haldreipi um réttlæti sem við kærendur treystum, er við fórum af stað í upphafi. En svo bregðast krosstré sem önnur tré.

Kjörstjóri og „kjörnefnd“.

    Meginþungi kærunnar beindist að kjörstjóra, sem lét hjá líða að framkvæma kosningu á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki. Svo gáfulegt sem það er, þurfti að kæra til sýslumanns, sem jafnframt er kjörstjóri, einn og sami maðurinn, sem lét kosninguna ekki fara fram á Sjúkrahúsinu. Sýslumaður skipaði sérstaka „kjörnefnd“ þriggja lögfræðinga á Akureyri, er það skv. kosningalögum. Þar með skipar sýslumaður „kjörnefnd“ í sjálfs sín „sök“. Lögin gera greinilega ekki ráð fyrir að kjöstjóri brjóti af sér í starfi. Úrskurður kjörnefndarinnar 5. des. 1997 (lögfræðinganna þriggja á Akureyri) voru dæmigerðar hártoganir og útúrsnúningar sbr. lið 2 og 3. Og niðurstaðan eftir því. Við kærendur höfðum reiknað með þessu og vorum því undir það búnir, að halda áfram með málið.

Ríki Páls Péturssonar.

    Kosningalögin gera ráð fyrir að kærur gangi næst til félagsmálaráðuneytis, þar sem Páll Pétursson ræður nú ríkjum. Það sjá auðvitað allir, að fyrir fram var vita vonlaust að fá málefnalega umfjöllun hjá þessu ráðuneyti. Félagsmálaráðuneytið í bullandi pólitík um sameiningu sveitarfélaga og í þessu tilfelli í hjarta kjördæmis Páls Péturssonar. Pólitískir hagsmunir Páls svo miklir, að hann hefði umbúðalaust átt að víkja sæti. Það gerði Páll auðvitað ekki og dró úrskurðinn á langinn svo sem hann frekast gat. Kæruna fékk hann 12. des. 1997.
    Rétt er að taka það fram að frá kosningunum er kærufrestur aðeins sjö dagar, jafnlengdar frestur er frá úrskurði kjörnefndar eða sjö dagar til að áfrýja til félagsmálaráðuneytisins. Almenningur sem gerir athugasemdir við kosningar hefur afmarkaðan tíma, stjórnsýslan skammtar sér sinn tíma, sem segir sitt. Nýverið felldi félagsmálaráðuneytið úrskurð vegna kosninga á Raufarhöfn tæpum sex mánuðum eftir kosningar!

Japlið í ráðuneytinu.

    Úrskurður félagsmálaráðuneytisins vegna kærunnar hér í Skagafirði var kveðinn upp 3. feb. 1998. Á bls. 8 og 9 í úrskurðinum kemur fram það sem mestu máli skiptir. Þar japlar „ráðuneytið“ á því áliti kjörnefndar að einungis heimilisfast fólk á Sauðárkróki hefði getað kosið á Sjúkrahúsinu. Lýtingar hefðu verið án kosningarréttar og hefðu þar með ekki getað haft áhrif á kosninguna. Þetta er dæmalaus hártogun á kosningakærunni og sýnir hve „ráðuneytið“ leggst lágt. Úrskurðurinn er undirritaður af Páli Péturssyni og Sesselju Árnadóttur. Í þeirri stöðu sem Páll Pétursson hefur um þessar mundir var vita vonlaust að fá réttláta niðurstöðu.
    Fyrstu tvö meðferðarstig kærunnar, svo sem sjá má af framansögðu, eru tilgangslaus og ekki til annars en tefja og þæfa málið. Því lengri tími sem líður frá kosningum og kæra kom fram, aukast líkurnar á því að ekki verði kosið aftur. Tvö fyrstu meðferðarstigin verða mótandi fyrir málsmeðferðina fyrir dómstólum. Stjórnsýsluþráðurinn hefur verið spunninn og gengur eins og rauður þráður málið á enda.

Hæstiréttur okkar von.

    Fyrir héraðsdómi komu fram margar nýjar upplýsingar við réttarhöldin sem undirstrikuðu þvílík handvömm það var, að láta ekki kosningu fara fram á Sjúkrahúsinu.
    Af ýmsum ástæðum töldum við kærendur litlar líkur á því að vinna málið fyrir héraðsdómi. Öll okkar von var, að Hæstiréttur virti og verði grundvallarmannréttindi, þ.e. réttinn til að kjósa.
    Fimmtudaginn 14. maí var uppkveðinn dómur í Hæstarétti í málinu nr. 160/1998, þar segir m.a.:
    „Ljóst er að 2. mgr. 63. gr. laga nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis, felur í sér heimild en ekki skyldu fyrir kjörstjóra (sýslumann) til að láta fara fram atkvæðagreiðslu á sjúkrahúsi. Slík ákvörðun er þó ekki háð geðþótta kjörstjóra hverju sinni, heldur ber honum að láta kosningu fara fram, ef fram kemur ósk eða vísbending um að þess sé þörf. Svo var ekki í máli því, sem hér er til úrlausnar.“

Tveggja tíma verk?

    Hæstiréttur staðfesti forsendur héraðsdóms og staðfesti hann (dóminn). Málflutningur fyrir Hæstarétti fór fram að morgni 14. maí og lauk nokkru fyrir hádegið. Ekki grunaði okkur að dómsuppkvaðning færi fram fyrir miðjan dag, þennan sama dag. Töldum að Hæstiréttur þyrfti a.m.k. nokkra daga eftir málflutninginn til að komast að niðurstöðu. Að frádregnum matartíma hefur „rétturinn“ gefið sér eina til tvær stundir til að komast að niðurstöðu. Las „rétturinn“ málsgögnin?
    Það er auðvelt að hafa efasemdir um það, að svo hafi verið.
    Fyrir héraðsdómi í gögnum og réttarhaldinu er allt löðrandi í vísbendingum um þörf þess, að kosning færi fram á Sjúkrahúsinu.
    En í niðurstöðu Hæstaréttar segir, að um enga vísbendingu hafi verið að ræða að kosning skyldi fara fram á Sjúkrahúsinu.

Bréf kjörstjóra.

    Til glöggvunar fyrir lesendur skal vitnað í bréf sýslumannsins (kjörstjóra) á Sauðárkróki frá 11. des. 1997. Þar kemur fram að kosið var utan kjörfundar á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á vegum sýslumanns (kjörstjóra) vegna Alþingiskosninga 1987, forsetakosninga 1988, Alþingiskosninga 1991, vegna kosninga um sameiningu sveitarfélaga 1993, vegna sveitarstjórnarkosninga 1994, Alþingiskosninga 1995 en þá neyttu 29 einstaklingar kosningarréttar síns, og forsetakosninga 1996, en þá kusu 37 einstaklingar á sjúkrahúsinu.
    Við sveitarstjórnarkosningar í maí 1998 kusu 17 einstaklingar!

Þarf frekari vitna við?

    Gögn um kosningar fyrir 1987 voru komin á safn og ekki í fórum sýslumanns. Á vegum kjörstjórnar Sauðárkrókskaupstaðar var undirkjördeild á Sjúkrahúsinu við Alþingiskosningar 1979, 1983, 1987 og 1991. Við bæjarstjórnarkosningar 1986, 1990 og 1994. Við forsetakosningar 1988. Ekki var undirkjördeild við kosningar um opnun útsölu ÁTVR 1983, ekki við sameiningarkosningar 1993, ekki við Alþingiskosningar 1995 og við forsetakosningar 1996. 1993, 1995 og 1996 annaðist kjörstjóri (sýslumaður) utankjörfundaratkvæðagreiðslu svo sem er áður fram komið.

Málflutningur formsatriði?

    Víkjum á ný að Hæstarétti. Ekki hefur „rétturinn“ þurft að eyða tíma sínum í að hlusta á málflutninginn að nýju, sem fram fór fyrir hádegið, því hann var ekki tekinn upp á band. Það er með ólíkindum að málflutningur fyrir Hæstarétti skuli ekki skjalfestur með upptöku og það í þessu nýja fína húsi sem allt átti að leysa, sérhannað fyrir nútímann og langa framtíð. Er það svo að málflutningurinn sé best gleymdur jafnóðum og hann fer fram eða lítur „rétturinn“ svo á að málflutningurinn sé aðeins formsatriði? Tæplega eru dómarar réttarins svo bráðskarpir að muna hann frá orði til orðs. Málflutningur fyrir héraðsdómi var allur tekinn upp á band og auðsótt mál að fá hann í hendur. Þar er öllu haldið til skila, frá orði til orðs.
    Hverju er Hæstiréttur að hlífa að geyma ekki munnlegan málflutning? Getur „rétturinn“ leyft sér óvandaðri vinnubrögð og veikari dómsniðurstöður? Var Hæstiréttur kannski fyrst og fremst að verja stjórnsýslukerfið? Var tekið í einhverja spotta og mannskapurinn minntur á hver framseldi valdið til þeirra?
    Niðurstaðan liggur fyrir. Hæstiréttur varði ekki mannréttindi, þ.e. réttinn til að kjósa. Hæstiréttur varði stjórnsýsluna.

Hundahreinsun réttarkerfis.

    Forsætisráðherra hefur nýverið komið því til skila við þjóðina, hversu áreiðanlegur Hæstiréttur er. Réttarkerfið þarfnist hundahreinsunar í einstökum málum. Skyldi svo vera í þessu kosningakærumáli? Í málinu 160/1998 er niðurstaða Hæstaréttar meira í ætt venjulegrar embættismannaafgreiðslu fremur en dómur.
    Dómurinn er svo þversagnarkenndur. Hæstaréttinn skipuðu Haraldur Henrýsson, Guðrún Erlendsdóttir, Pétur Hafstein, Hrafn Bragason og Hjörtur Torfason, nefnd í þeirri röð frá vinstri til hægri séð úr réttarsal.
    Það kom til álita að vísa málinu til mannréttindadómstóls Evrópu, en kostnaðarins vegna var það ekki kleift. Að auki er a.m.k. annar kærandi þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að annast sitt réttarkerfi sjálfir, Jónar á reiðhjólum þurfi ekki að sækja rétt sinn til Evrópudómstólsins.

Ísland án mannréttindabrota?

    Nýlega hefur íslenskum stjórnvöldum verið hælt alveg sérstaklega fyrir að vera án mannréttindabrota. Það er auðvelt að efast um réttmæti slíks hóls, þótt margt sé í góðu lagi á Íslandi. Niðurstaða þess að kosningarrétturinn var ekki virtur á Sjúkrahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki verður alltaf svartur blettur á sameiningarkosningunum. Það var haft rangt við.
    Sameiningin mun líða fyrir það um langa framtíð.