Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 772  —  490. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Við embætti landlæknis skal starfa læknir, sóttvarnalæknir, sem ber ábyrgð á sóttvörnum. Sóttvarnalæknir skal hafa þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra.

2. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Telji sóttvarnalæknir hættu á að dýr, matvæli, vatn, skólplagnir, loftræsting eða annað í umhverfinu dreifi eða geti dreift smitnæmum sjúkdómsvöldum sem ógna heilsu manna skal ráðherra skipa sérstaka samstarfsnefnd til að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með nauðsynlegum aðgerðum til að meta og uppræta smithættu. Samstarfsnefndin skal skipuð þremur mönnum, sóttvarnalækni, sem jafnframt er formaður, einum tilnefndum af Hollustuvernd ríkisins og öðrum tilnefndum af yfirdýralækni. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndinni er heimill aðgangur að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og getur fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Nefndin skal gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta smithættu. Að öðru leyti skal framkvæmd vera í samræmi við lög þessi og, eftir því sem við á, sérlög um einstaka eftirlitsaðila.

3. gr.

    Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Brjótist út hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna skal sóttvarnalæknir gera faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits og hefur í slíkum tilvikum sama rétt til aðgangs að gögnum og til skoðunar og kveðið er á um í 2. mgr. 11. gr.

4. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Telji sóttvarnalæknir hættu á að næmar sóttir sem ógnað geta almannaheill berist til landsins getur hann beint tilmælum til ráðherra um að setja reglugerð um að þeir hópar sem koma til landsins og talin er hætta á að beri með sér slíkar sóttir skuli sæta læknisrannsókn.

5. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Kostnaður sem hlýst af framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði. Greiðsluhlutdeild sjúklinga skal fylgja lögum um almannatryggingar. Heimilt er þó með reglugerð að veita undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga, svo sem þegar sjúklingar leita til göngudeilda smitsjúkdóma vegna greiningar og meðferðar tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, sjúklingar eru kvaddir til rannsókna til að leita að smiti og þegar fólki er gert að sæta læknisrannsókn.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2000. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, er m.a. samið til að bregðast við tillögum nefndar um framkvæmd mála vegna útbreiðslu campylobacter. Tillögurnar felast fyrst og fremst í breytingum til að tryggja að gripið verði til samræmdra aðgerða þegar hætta er talin á útbreiðslu smitnæmra sjúkdóma sem ógnað geta heilsu manna. Gerir frumvarpið ráð fyrir að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipi sérstaka samstarfsnefnd, þegar þörf skapast, sem hafi það hlutverk að afla nauðsynlegra gagna og hafa yfirumsjón með aðgerðum til að meta og uppræta smithættu. Gert er ráð fyrir að samstarfsnefndin verði skipuð þremur mönnum, sóttvarnalækni, sem verði jafnframt formaður nefndarinnar, einum manni tilnefndum af Hollustuvernd ríkisins og öðrum tilnefndum af yfirdýralækni. Varamenn verði skipaðir á sama hátt og aðalmenn en í forföllum sóttvarnalæknis gegni staðgengill hans formennsku. Gert er ráð fyrir að nefndin hafi aðgang að nauðsynlegum gögnum og öllum stöðum sem hún telur nauðsynlegt að skoða og geti fengið til þess aðstoð lögreglu ef með þarf. Þegar nefndin telur þörf á skal hún gefa öllum þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til allra nauðsynlegra aðgerða til að uppræta smithættu. Einnig gerir frumvarpið ráð fyrir að sóttvarnalæknir geri faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits ef hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna brýst út. Hefur sóttvarnalæknir í slíkum tilvikum sama rétt til að fá upplýsingar og til skoðunar og samstarfsnefndin.
    Sú vinnuregla hefur skapast hjá Útlendingaeftirlitinu að krefja útlendinga sem ekki heyra undir EES-samninginn og sækja um dvalarleyfi, hæli og/eða atvinnuleyfi um heilbrigðisvottorð áður en umsókn er yfirfarin. Útlendingaeftirlitið hefur stuðst við tilmæli og dreifibréf landlæknis en hefur ekki haft skýra lagaheimild til að gera kröfu um heilbrigðisvottorð. Sóttvarnalæknir telur mikilvægt að hafa slíka heimild í lögum þegar talin er hætta á að næmar sóttir sem ógnað geta almannaheill berist til landsins. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að setja ákvæði um læknisrannsókn í reglugerð ef tilmæli berast um það frá sóttvarnalækni.
    Ákvæði sóttvarnalaga um kostnað við framkvæmd laganna eru gerð skýrari. Sama gildir um ákvæði um greiðsluhlutdeild sjúklinga og er gert ráð fyrir að heimilt sé með reglugerð að veita undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga.
    Kveðið er skýrar á um ábyrgð sóttvarnalæknis en í núgildandi lögum.
    Gert er ráð fyrir gildistöku 1. september 2000. Einnig eru lög nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir, felld úr gildi en sóttvarnalögin leystu þau af hólmi.
    Meginbreytingarnar samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi:
     a.      Kveðið er á um að ráðherra skipi samstarfsnefnd til að bregðast við smithættu.
     b.      Nefndin er skipuð sóttvarnalækni og fulltrúum frá Hollustuvernd ríkisins og yfirdýralækni.
     c.      Kveðið er á um heimild til að setja reglugerð um að tilteknir hópar fólks sem koma til landsins skuli sæta læknisrannsókn ef tilmæli berast um það frá sóttvarnalækni.
     d.      Kveðið er skýrar á um kostnað við framkvæmd sóttvarnalaga og greiðsluhlutdeild sjúklinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 4. gr. laganna er fjallað um yfirstjórn sóttvarna og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að 2. mgr. verði breytt á þann veg að kveðið sé skýrar á um ábyrgð sóttvarnalæknis.

Um 2. og 3. gr.

    Ákvæðum 11. og 12. gr. laganna er breytt í samræmi við tillögur nefndar sem umhverfisráðherra skipaði í desember 1999 til að gera tillögur um framkvæmd mála í framhaldi af skýrslu Hollustuverndar ríkisins, landlæknisembættisins og embættis yfirdýralæknis um könnun á útbreiðslu campylobacter. Leggur nefndin til að sóttvarnalögum verði breytt til að tryggja íhlutunarrétt sóttvarnayfirvalda þegar almannaheill er stefnt í voða og þegar hópsýkingar eða farsótt sem ógnar almannaheill brjótast út. Einnig leggur nefndin til að sóttvarnalæknir geri faraldsfræðilega rannsókn á uppruna smits ef hætta er á að hópsýking eða farsótt sem ógnar heilsu manna brjótist út. Má reikna með að starf sóttvarnalæknis verði viðameira vegna þessa og hefur það nokkurn kostnað í för með sér.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að ný málsgrein bætist við 14. gr. laganna þar sem heimilað er að setja reglugerð um að fólk sem kemur til landsins skuli sæta læknisrannsókn ef tilmæli berast um það frá sóttvarnalækni og hann telur að slíkt sé nauðsynlegt til að hindra útbreiðslu næmra sótta sem ógnað geta almannaheill. Heimildin er mikilvægt öryggisatriði að mati sóttvarnalæknis. Sú vinnuregla hefur skapast hjá Útlendingaeftirlitinu að krefja útlendinga sem ekki heyra undir EES-samninginn og sækja um dvalarleyfi, hæli og/eða atvinnuleyfi um heilbrigðisvottorð áður en umsókn er yfirfarin. Þess hefur verið krafist að vottorðið sé nýlegt og gefið út af íslenskum lækni. Útlendingaeftirlitið hefur stuðst við tilmæli og dreifibréf frá landlæknisembættinu en ekki hefur verið skýr lagaheimild til að gera kröfu um slíkt heilbrigðisvottorð. Er talið mikilvægt að geta gert kröfu um heilbrigðisvottorð þegar um er að ræða fólk sem kemur frá ríkjum þar sem smitsóttir eru landlægar.

Um 5. gr.

    Í frumvarpinu eru ákvæði um kostnað við sóttvarnir og greiðsluhlutdeild sjúklinga gerð skýrari. Þá er lagt til að heimilt verði að veita undanþágur frá greiðsluhlutdeild sjúklinga. Slíkar undanþágur eru nauðsynlegar, m.a. þegar um er að ræða sjúklinga sem leita til göngudeilda smitsjúkdóma vegna greiningar og meðferðar tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, sjúklinga sem kvaddir eru til rannsókna til leitar að smiti og fólk sem skylt er að sæta læknisrannsókn.

Um 6. gr.

    Sóttvarnalög, nr. 19/1997, leystu lög nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir, af hólmi og er því lagt til að síðarnefndu lögin verði felld úr gildi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.

    Frumvarp þetta er samið í framhaldi af tillögum nefndar um framkvæmd mála vegna útbreiðslu campylobacter. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra skipi þriggja manna samráðsnefnd í þeim tilvikum sem sóttvarnalæknir telur hættu á dreifingu smitnæmra sjúkdóma. Nefndin starfi undir forsæti sóttvarnalæknis og skal hún gefa þeim sem hafa eftirlit með dýrum, matvælum og umhverfi fyrirmæli um að grípa án tafar til nauðsynlegra aðgerða til að uppræta smithættu. Samkvæmt frumvarpinu mun sóttvarnalæknir geta beint tilmælum til ráðherra að sett verði reglugerð um að þeir hópar sem koma til landsins og talin er hætta á að beri með sér slíkar sóttir skuli sæta læknisrannsókn. Brjótist út smit skal sóttvarnalæknir rannsaka faraldsfræðilegan uppruna þess til að skýra uppruna smits.Gera má ráð fyrir að með samþykkt frumvarpsins aukist verkefni sóttvarnalæknis sem leiði til að fjölga þurfi um eitt stöðugildi læknis sem starfi að sóttvörnum ásamt sóttvarnalækni. Verði frumvarpið að lögum má því ætla að útgjöld ríkisins aukist um 5–5,5 m.kr. á ári að meðtölu auknu rekstrarumfangi.