Ferill 381. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 795  —  381. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um eftirlit með þungaflutningabifreiðum.

     1.      Hvað kostar eftirlit með þungaflutningabifreiðum á ári, aðgreint eftir kjördæmum?
    Eftirlit Vegagerðar og lögreglu felst í eftirliti með stærð og þyngd ökutækja, aksturs- og hvíldartíma ökumanna, ökumælum til þungaskatts, veitingu hópferðaleyfa og eftirliti með þeim, útgáfu undanþágna til þungaflutninga og útgáfu undanþágna og leyfa vegna ökumæla með tilheyrandi skráningarvinnu í gagnabanka Vegagerðarinnar og Skýrr. Eftirlit þetta kostar um 65 millj. kr. á ári og er kostað af Vegagerðinni.
    Erfitt er að aðgreina kostnað eftir kjördæmum þar sem eftirlitsbifreiðar fara milli kjördæma. Mest áhersla er lögð á staði þar sem umferðin er mest, t.d. frá Suðurlandi til Vesturlands, þ.m.t. á höfuðborgarsvæðinu, en um 80% af umferðinni eru á þessum hluta landsins.

     2.      Hversu margir vinna við eftirlit með ökuritum og vigtun vörubifreiða?
    Gerðar eru út fjórar eftirlitsbifreiðar að staðaldri, þrjár frá Reykjavík og ein frá Akureyri. Á vorin er bætt við eftirlitsbifreiðum frá Ísafirði og Reyðarfirði meðan frost er að fara úr vegum. Við eftirlitið vinna sex menn frá Vegagerðinni og fjórir frá ríkislögreglustjóra.

     3.      Hvers konar tæki eru notuð við eftirlitið?
    Helstu tæki sem notuð eru við eftirlitið eru ásþungavogir, búnaður til skoðunar á skráningarblöðum ökurita, margvíslegur hugbúnaður, ýmis prófunarbúnaður og minni háttar tæki og verkfæri.

     4.      Hver er hagrænn ávinningur ríkisins af eftirlitinu?
    
Verðmæti vegakerfisins hefur ekki verið reiknað út, en ekki er ólíklegt að það geti numið 80–100 milljörðum. Sé afskriftatími um 30 ár er árleg afskrift 2,5–3 milljarðar króna. Tilgangur með þungaeftirliti er m.a. að vernda vegakerfið gegn álagi og tryggja þar með sem lengstan afskriftatíma, en hvert ár í lengri afskriftartíma skilar ríkinu um 100 millj. kr. á ári.
    Árið 1994 var Vegagerðinni ásamt ríkisskattstjóra falið að fylgja eftir reglum um þungaskatt. Með því eftirliti og breyttu lagaumhverfi hafa árlegar tekjur ríkisins aukist um 900 millj. kr. Hluti þessara tekna er tilkominn vegna aukinnar umferðar en talið er að a.m.k. þriðjungur upphæðarinnar sé vegna þessa breytta fyrirkomulags (sjá meðfylgjandi súlurit).





Prentað upp.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þá er það mat Vegagerðarinnar að eftirlitið stuðli að auknu umferðaröryggi.

     5.      Er fyrirhugað að halda áfram slíku eftirliti og sé svo, er þá áætlað að það verði óbreytt eða aukið?

    Eftirlitinu verður haldið áfram og ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar þar á.