Ferill 502. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 797  —  502. mál.




Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er nefnist Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt að leggja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum, til hins nýja félags.

2. gr.

    Utanríkisráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins og fer með hlut íslenska ríkisins í því.

3. gr.

    Unnið skal að því að nafnverð stofnhlutafjár félagsins nemi allt að 80% af bókfærðu eigin fé Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar samkvæmt endurskoðuðum efnahagsreikningi 30. júní 2000 sem jafnframt skal gilda sem stofnefnahagsreikningur félagsins, en 20% af eigin fé færist í varasjóð. Endanleg upphæð hlutafjár skal þó taka breytingum til hækkunar eða lækkunar í samræmi við niðurstöðu matsnefndar, sbr. 4. gr.

4. gr.

    Utanríkisráðherra skipar nefnd þriggja óvilhallra manna, þar sem sitji a.m.k. einn löggiltur endurskoðandi, til að meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og leggja mat á hvert hlutafé hlutafélagsins skuli vera. Nefndin skal hafa fullan aðgang að öllum gögnum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og skulu stjórnendur og starfsmenn hennar veita nefndinni þá aðstoð er hún óskar. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir eigi síðar en í lok júlí 2000.

5. gr.

    Hlutafé félagsins eins og það er ákveðið skv. 3. og 4. gr. telst að fullu innborgað með yfirtöku félagsins á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öllu því er henni fylgir skv. 1. gr.

6. gr.

    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og ráðstöfun óheimil án samþykkis Alþingis.

7. gr.

    Tilgangur félagsins er að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist.

8. gr.

    Heimili og varnarþing félagsins skulu vera á Keflavíkurflugvelli, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

9. gr.

    Ákvæði 2. mgr. 3. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um tölu stofnenda og fjölda hluthafa í félaginu né heldur skulu ákvæði 2. mgr. 14. gr. hlutafélagalaga gilda um félagið. Að öðru leyti og ef annað leiðir ekki af lögum þessum taka ákvæði hlutafélagalaga til félagsins.

10. gr.

    Félagið greiðir opinber gjöld á sama hátt og önnur hlutafélög hér á landi.

11. gr.

    Við niðurlagningu stofnunarinnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sbr. 13. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 77/1993, eftir því sem við á.

12. gr.

    Stofnfund félagsins skal halda fyrir lok ágúst 2000. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið. Á stofnfundi skal kjósa félaginu stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar.

13. gr.

    Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. skal hinn 1. október 2000 yfirtaka stofnunina Flugstöð Leifs Eiríkssonar með öllum eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum sem henni fylgja. Stofnunin skal lögð niður frá og með þeim degi og fellur þá jafnframt niður umboð ráðgefandi stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

14. gr.

    Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. ber í allri starfsemi sinni að virða og standa við þær skuldbindingar á starfssviði og starfssvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem íslenska ríkið undirgengst og varða flugstöðina og starfsemi þá sem félagið yfirtekur. Er félaginu skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda hér að lútandi sem og öðrum fyrirmælum er varða flugstöðina og starfsemi hennar. Utanríkisráðherra er heimilt að útfæra nánar ákvæði þessarar greinar í reglugerð.

15. gr.

    Stjórn félagsins er heimilt að setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða og jafnframt tekið tillit til nýjunga sem geta haft áhrif á söluverð þjónustu félagsins.
    Þjónustugjaldskrá öðlast gildi þegar hún hefur verið staðfest af utanríkisráðherra og birt í Stjórnartíðindum.

16. gr.

    Allur kostnaður Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku þess á rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar greiðist af félaginu.

17. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar var gert ráð fyrir því að hún gegndi tvíþættu hlutverki. Annars vegar skyldi hún notuð í þágu almenns flugrekstrar af hálfu ríkisstjórnar Íslands og hins vegar af heryfirvöldum Bandaríkjanna á ófriðartímum eða í neyðartilfellum í samræmi við varnarsamninginn og tengda samninga. Á grundvelli samkomulags á milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Bandaríkjanna um framangreint greiddi Bandaríkjastjórn 20 milljónir dollara af byggingarkostnaði flugstöðvarinnar. Flugstöðin er eigi að síður óskipt eign íslenska ríkisins. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að rekstrarformi flugstöðvarinnar verði breytt og rekstur hennar og frekari uppbygging fært til hlutafélags sem verði að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins.
    Frá því að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun árið 1987 og allt þar til í október 1998 heyrði hún undir embætti flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli. Starfsemi hennar var þó greind frá annarri starfsemi þess embættis að ákveðnu marki og hún hefur til að mynda lengi verið sjálfstæður fjárlagaliður. Frá því í október 1998 hefur verið litið á hana sem sérstaka ríkisstofnun í B-hluta ríkisreiknings. Um stofnunina gilda þó ekki sjálfstæð lög. Stjórnsýslulega heyrir hún undir utanríkisráðuneytið sem skipað hefur henni þriggja manna ráðgefandi stjórn.
    Árið 1997 var verulegt átak gert í því að styrkja fjárhag stöðvarinnar. Fólst það aðallega í því að fá einkaaðila til umsvifameiri verslunar- og veitingarekstrar en áður hafði tíðkast þar. Í þessu skyni voru þjónusturými boðin út til leigu og leigugjaldið veltutengt samkvæmt útboðsskilmálum. Þetta skilaði þeim árangri að störfum fjölgaði í flugstöðinni og henni reyndist í fyrsta skipti unnt að standa í skilum með vexti og afborganir af þeim lánum sem enn eru í skuld vegna byggingarkostnaðar hennar.
    Framangreindur áfangi var vart að baki þegar ákvörðun var tekin um stækkun flugstöðvarinnar og fyrirséð að þær ráðstafanir sem gripið var til árið 1997 mundu á engan hátt standa undir þeim viðbótarfjárfestingum sem stækkun munu fylgja. Frekari uppbygging stöðvarinnar er hins vegar nauðsynjamál sem ekki er lengur unnt að skjóta á frest og horfast verður í augu við að stækkunin kallar á aukin fjárútlát og aukningu skulda sem eru þó miklar fyrir.
    Stefnt er að því að tekjur flugstöðvarinnar standi undir fjárfestingum hennar og rekstri. Stofnun hlutafélags um reksturinn, sem í eðli sínu er á sviði einkarekstrar og viðskipta fremur en opinberrar stjórnsýslu, er ætlað að stuðla að því að markmiði þessu verði náð. Hlutafélag á þess kost í ríkari mæli en ríkisstofnun að laga sig að breyttum aðstæðum enda býður rekstrarformið upp á meiri sveigjanleika en við verður komið í hefðbundnum stofnanarekstri. Þar sem ekki gilda sjálfstæð lög um flugstöðina er henni með frumvarpi þessu mörkuð skýr staða bæði í stjórnunarlegu og rekstrarlegu tilliti.
    Umsjón með 1. áfanga stækkunar flugstöðvarinnar, sem þegar er unnið að, er í höndum sérstakrar byggingarnefndar sem starfar á vegum utanríkisráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að byggingarnefndin starfi uns viðbyggingin verður tekin í notkun, en þá taki hlutafélagið við henni. Augljós þörf er á því að byggingarnefndin hafi náið samstarf við stjórn hins nýja hlutafélags um allar ákvarðanir enda er það hlutafélagið sem verður ábyrgt fyrir greiðslu byggingarkostnaðar og öflun fjár til greiðslu hans af rekstri sínum. Er kostnaður þessi áætlaður 3,6 milljarðar króna. Í erindisbréfum byggingarnefndarmanna er fyrir þá lagt að gefa sérstakan gaum að því að í viðbyggingunni verði sköpuð aðstaða fyrir tekjugefandi rekstur en það verður hlutverk nýja hlutafélagsins að bjóða þá aðstöðu út, eða ákvarða fyrirkomulag þessa reksturs að öðru leyti.
    Til að styrkja enn frekar fjárhagslegan grundvöll þeirrar uppbyggingar á aðstöðu til farþegaflugs sem nú fer fram á Keflavíkurflugvelli hefur utanríkisráðherra tekið þá ákvörðun að fella rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli undir starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hlutafélagið mun yfirtaka starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eins og hún verður eftir þá breytingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein er ríkisstjórninni falið að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ríkisstjórninni er í því skyni heimilað að leggja hinu nýja hlutafélagi til allar eignir flugstöðvarinnar, hverju nafni sem nefnast, auk réttinda, skulda og skuldbindinga hennar.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra annist fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun hlutafélagsins enda lýtur Flugstöð Leifs Eiríkssonar yfirstjórn hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 106/1954, um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., og auglýsingar nr. 96/1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Í samræmi við þetta er jafnframt mælt fyrir um að utanríkisráðherra fari með hlut íslenska ríkisins í félaginu.

Um 3. gr.


    Rétt þykir að setja í lög tiltekna viðmiðun um nafnverð stofnfjár hins nýja félags. Sú viðmiðun sem hér um ræðir verður þó að vera háð nánara mati matsnefndar og getur því hækkað eða lækkað þegar niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir, sbr. 4. gr. Gert er ráð fyrir að 20% af eigin fé verði óráðstafað í bókum félagsins í upphafi.

Um 4. gr.


    Óháð nefnd sem ráðherra skipar skal meta eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar flugstöðvarinnar. Matið skal leggja til viðmiðunar um andvirði hlutafjár og upphaflega eiginfjárstöðu hins nýja félags, sbr. 3. gr. Niðurstaða nefndarinnar verður að liggja fyrir eigi síðar en í lok júlí 2000 eigi að takast að stofna félagið 1. september 2000. Stjórnendum og starfsmönnum flugstöðvarinnar er skylt að veita nefndinni þá aðstoð sem hún óskar í þessu skyni og skal nefndin hafa fullan aðgang að öllum gögnum flugstöðvarinnar í starfi sínu. Gert er ráð fyrir því að nefndin verði skipuð þegar við gildistöku laganna og að hún hefji störf þá þegar.

Um 5. gr.


    Innborgað hlutafé skal nema þeirri upphæð sem matsnefnd leggur til skv. 4. gr., sbr. 3. gr. frumvarpsins. Með yfirtöku hlutafélagsins á flugstöðinni og því sem henni fylgir telst hlutaféð að fullu greitt.

Um 6. gr.


    Öll hlutabréf félagsins verða í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess. Í ljósi stöðu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og hins nýja hlutafélags er eðlilegt að Alþingi fjalli um hugsanlega sölu hlutabréfa í fyrirtækinu eða annars konar ráðstöfun þeirra. Engin slík áform eru uppi.

Um 7. gr.


    Í grein þessari er tilgangi með rekstri félagsins lýst. Félagið yfirtekur alla starfsemi flugstöðvarinnar eins og hún er rekin eftir að rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur verið felldur undir starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Um rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli vísast til 79. gr. tollalaga, nr. 55/1987. Félagið hefur jafnframt heimildir til að stunda hvers konar aðra starfsemi sem rekstri flugstöðvarinnar tengist eða tengjast kann. Til að tryggja sveigjanleika gagnvart breytingum sem framtíðarþarfir kunna að kalla á er útilokað að binda tilgangslýsingu félagsins til allrar framtíðar og verður því tekið fram í stofnsamningi að breyta megi henni með breytingum á samþykktum félagsins á hluthafafundi. Þetta er tekið fram til að taka af öll tvímæli, en er í samræmi við þá reglu hlutafélagalaga að samþykktir félags taka við af stofnsamningi þess sem grunnheimild um starfsemi félagsins.

Um 8. gr.


    Flugstöð Leifs Eiríkssonar er og verður á Keflavíkurflugvelli um næstu framtíð. Eðlilegt þykir því að fram komi í lagatextanum að lögheimili og varnarþing félagsins skulu vera á Keflavíkurflugvelli. Ástæða er þó til að taka fram að heimilt sé að stofna útibú, t.d. vegna skrifstofu- eða þjónustustarfa annars staðar.

Um 9. gr.


    Hlutafélagalög geyma áskilnað um að ekki færri en tveir aðilar standi jafnan að þeim. Um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. gildir það frávik að íslenska ríkið stendur eitt að stofnun félagsins og er því nauðsynlegt að veita undanþágu frá ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarkstölu stofnenda og hluthafa. Lúta ákvæði 9. gr. annars vegar að því að tryggja heimildir til þeirrar skipunar. Hins vegar skal það ekki hamla skráningu félagsins í hlutafélagaskrá að hlutafé félagsins er ekki greitt með þeim hætti sem segir í 2. mgr. 14. gr. hlutafélagalaga heldur eins og kveðið er á um í 1., 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins. Um stofnun hlutafélagsins og rekstur þess skal að öðru leyti farið að ákvæðum hlutafélagalaga.

Um 10. gr.


    Gert er ráð fyrir að hlutafélagið verði skattskylt eftir almennum reglum.

Um 11. gr.


    Gert er ráð fyrir að við niðurlagningu stofnunarinnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar fari um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir almennum ákvæðum laga þar að lútandi. Í því felst m.a. að engum starfsmanni verður sagt upp vegna yfirtöku hlutafélagsins á starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þeir starfsmenn, sem falla undir 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, fyrirgera ekki rétti sínum til biðlauna þótt þeir hafni boði um að starfa áfram hjá félaginu. Rétt er þó að taka fram að hvers konar launatekjur á biðlaunatíma koma til frádráttar biðlaunagreiðslum.

Um 12. gr.


    Lagt er til að sett verði tímamörk um stofnun félagsins og er miðað við lok ágúst árið 2000 í þeim efnum. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnsamningi og samþykktum eins og skylt er við stofnun hlutafélaga. Þá skal félaginu jafnframt kosin stjórn samkvæmt samþykktum þess til fyrsta aðalfundar.

Um 13. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu yfirtekur hlutafélagið Flugstöð Leifs Eiríkssonar hinn 1. október 2000. Félagið yfirtekur allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar stofnunarinnar sem verður þá lögð niður, þ.m.t. eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli. Tekið er fram að umboð núverandi ráðgefandi stjórnar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar skuli falla niður frá og með sama degi.
    Helsta eign félagsins er flugstöðvarbyggingin sjálf og önnur mannvirki og búnaður sem henni tilheyra, ásamt lóðarréttindum.
    Meginþáttur reksturs flugstöðvarinnar nú er útleiga á verslunar- og þjónusturýmum. Er stofnunin bundin leigusamningum við rekstraraðila og yfirtekur hlutafélagið réttindi og skyldur stofnunarinnar samkvæmt þeim.
    Af byggingarkostnaði flugstöðvarinnar frá árinu 1987 skuldar hún um 4,4 milljarða króna. Þessa skuld yfirtekur hlutafélagið og er því ætlað að standa skil á greiðslu hennar. Er út frá því gengið að félagið leiti endurfjármögnunar og þeirra lánskjara sem það best getur fengið.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að hið nýja hlutafélag skuli bundið af þeim skuldbindingum á starfssviði þess sem íslenska ríkið undirgengst. Það eru einkum tvenns konar skuldbindingar sem hér eru hafðar í huga: Annars vegar alþjóðlegar skuldbindingar sem lúta að flugmálum í víðtækustu merkingu en flugstöðin er hluti af samgöngukerfi landsins og landamærastöð. Sem dæmi má nefna skuldbindingar á sviði flugafgreiðslu, flug- og farþegaöryggis, svo og landamæraeftirlits í víðtækum skilningi.
    Hins vegar er hér um að ræða skuldbindingar sem lúta að varnarliðinu. Svo sem áður greinir var flugstöðin byggð á grundvelli sérstaks samkomulags milli Íslands og Bandaríkjanna um samvinnu um byggingu hennar. Samkvæmt ákvæðum þess samkomulags skal flugstöðin vera heryfirvöldum Bandaríkjanna til afnota á ófriðartímum eða í neyðartilfellum. Þeim skuldbindingum er á engan hátt raskað með stofnun hlutafélagsins enda skal það teljast bundið af þeim.
    Félaginu er skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda hér að lútandi sem og öðrum fyrirmælum er varða flugstöðina og starfsemi hennar og sett eru vegna sérstöðu hennar. Utanríkisráðherra er heimilt að útfæra nánar ákvæði þessarar greinar í reglugerð.

Um 15. gr.


    Í greininni er lagt til að heimilt verði að setja sérstaka þjónustugjaldskrá fyrir félagið. Við gerð hennar skal gætt almennra arðsemissjónarmiða auk þess sem tillit skal tekið til nýjunga. Á hinn bóginn er lagt til að gjaldskrá sé háð staðfestingu utanríkisráðherra.

Um 16. gr.


    Eðlilegt er að hlutafélagið beri allan kostnað af stofnun félagsins, svo sem kostnað matsnefndar og kostnað vegna skjalagerðar og skráningar.

Um 17. gr.


    Gert er ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi svo að undirbúningur stofnunar hlutafélagsins geti hafist sem fyrst.
Fylgiskjal I.


Samruni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Fríhafnar.
Rekstrar- og fjárhagsáætlun árin 2001–2005.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að fela ríkisstjórninni að stofna hlutafélag sem taki við rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gert er ráð fyrir að eignir og skuldir núverandi fyrirtækja renni til hins nýja hlutafélags. Þar á meðal eru taldar lífeyrisskuldbindingar sem verði greiddar LSR með skuldabréfi. Skv. 16. gr. frumvarpsins verður allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri greiddur af félaginu, þar með taldar hugsanlegar biðlaunagreiðslur. Í rekstrar- og fjárhagsáætlunum fyrir hið nýja fyrirtæki er gert ráð fyrir að það fái 25% af lendingargjöldum eins og er í gildandi fjárlögum og sömu hlutdeild og í núverandi farþegaskatti. Í þessari kostnaðarumsögn er gert ráð fyrir að áfengisgjaldi verði skilað til ríkissjóðs eins og nú er. Í fjárlögum fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir 410 m.kr. arði frá Fríhöfninni. Samkvæmt rekstrar- og fjárhagsáætlun hins nýja hlutafélags fyrir árin 2001 til 2005 er gert ráð fyrir að arðgreiðslur verði að meðaltali 66,4 m.kr. á ári, þar til viðbótar koma ríflega 200 m.kr. í tekju- og eignarskatt. Nettótekjur ríkissjóðs af fyrirtækinu lækka þannig um 140 m.kr. á ári á tímabilinu en tæplega 200 m.kr. á fyrsta árinu. Á móti kemur að hlutafélagið mun bera ábyrgð á öllum skuldum félagsins. Gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi á húsaleigu fyrir landamæravörslu, tollafgreiðslu og öryggiseftirlit, en í athugun er að fella þá leigu niður.