Ferill 520. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 821  —  520. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999-2000.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
     a.      Af vörum í eftirgreindum tollskrárnúmerum í A-lið viðaukans breytist fjárhæð magngjalds úr 15 kr./kg í 60 kr./kg:

1805.0001 1806.9011 1806.9012
1805.0009

     b.      Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr A-lið viðaukans:

1904.1001 2005.2003 2008.1900
1905.9030 2008.1109 2008.9902
1905.9060

     c.      Eftirgreind tollskrárnúmer falla brott úr C-lið viðaukans:

6802.9102 8535.2900 8536.6900
6802.9103 8535.3000 8536.9000
6802.9202 8535.4000 8537.1009
6802.9203 8535.9000 8537.2000
6802.9302 8536.1000 8538.1000
6802.9303 8536.2000 8538.9000
6802.9902 8536.3000 8716.8001
6802.9903 8536.4100 8716.8009
6803.0001 8536.4900 8716.9009
8535.1000 8536.5000
8535.2100 8536.6100

     d.      Eftirgreind tollskrárnúmer falla brott úr E-lið viðaukans:

9301.0000 9304.0000 9306.1000
9302.0000 9305.1000 9306.9009
9303.1000 9305.2900 9307.0000
9303.9009 9305.9000
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2000.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði laga þessara skulu taka til allra vara sem ótollafgreiddar eru við gildistöku þeirra, þó ekki vara sem afhentar hafa verið með bráðabirgðatollafgreiðslu, svo og til allra innlendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi því sem hér er lagt fram er lagt til að vörugjald verði fellt niður af tilteknum vörum og af öðrum verði fjárhæð gjaldsins breytt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að vörugjald verði fellt niður af rafmagnsvörum í vöruliðum nr. 8535-8538 í tollskrá. Hér er um að ræða ýmiss konar raftækjabúnað sem að verulegu leyti er nýttur í iðnaði, svo sem rafmagnstöflur og öryggisrofa. Enda þótt vörugjaldslögin kveði á um heimild innlendra framleiðenda til að fá vörugjald fellt niður af vörum sem notaðar eru sem efnivara í framleiðslu er að mati fjármálaráðuneytisins æskilegt að vörugjaldi verði aflétt af slíkum iðnaðarvörum í áföngum, eftir því sem staða ríkissjóðs veitir svigrúm til. Lagt er til að skref verði stigið í þá átt með niðurfellingu vörugjalds af fyrrgreindum rafmagnsvörum.
    Í annan stað er lagt til að vörugjald verði fellt niður af vörugjaldsskyldu snakki, poppkorni, salthnetum, saltkexi og saltstöngum. Ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til er sú að misræmis þykir gæta í álagningu vörugjalds á snakk og sambærilegar vörur þar sem sumar tegundir bera vörugjald en aðrar ekki. Slíkt misræmi getur leitt til röskunar á samkeppni við markaðssetningu og sölu á vörum sem eru í beinni samkeppni um hylli neytenda. Heppilegast þykir að gjaldtaka af snakki verði að öllu leyti felld niður.
    Í þriðja lagi er lagt til að fjárhæð vörugjalds af kakói og vörum framleiddum úr því verði samræmd. Kakóduft og vörur framleiddar úr kakói bera almennt vörugjald og er gjaldið í flestum tilvikum 60 kr./kg. Þó er gjaldið aðeins 15 kr./kg. á einstaka vörur, þ.e. kakóduft, og drykkjarvöruefni sem ætluð eru til framleiðslu á kakómalti með íblöndun í vatn. Lagt er til að gjaldtakan verði samræmd þannig að gjaldið verði 60 kr./kg. Markmiðið með breytingunni er að samræma gjaldtöku af vörum sem eru svipaðar að efnisinnihaldi og í samkeppni um hylli neytenda.
    Í fjórða lagi er lagt til að vörugjald verði fellt niður af hjólbörum.
    Í fimmta lagi er lagt til að vörugjald verði fellt niður af marmara og öðrum steini sem ætlaður er til framleiðslu, svo sem legsteinagerðar, en ekki til klæðningar, t.d. á veggi.
    Loks er í sjötta lagi lagt til að vörugjald verði fellt niður af þeim vopnum og skotfærum sem enn bera vörugjald. Með lögum nr. 89/1998 var vörugjald fellt niður af ýmsum skotvopnum og skotfærum sem einkum eru notuð til veiða. Ástæðan fyrir þessari tillögu er sú að þessar vörur eru einkum notaðar til íþróttaskotfimi. Þykir eðlilegt að vörugjald verði fellt niður af slíkum vörum á sama hátt og það var fellt niður af rifflum og öðrum skotvopnum og skotfærum sem notuð eru við veiðar.
    Í heildina má áætla að tekjutap ríkissjóðs vegna þeirra gjaldbreytinga sem af frumvarpi þessu leiða verði rúmlega 150 millj. kr.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/1987,
um vörugjöld, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að vörugjald af tilteknum vörum verði fellt niður og að fjárhæð gjalds af öðrum vörum verði breytt. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum lækki alls um rúmlega 150 m.kr. verði frumvarpið að lögum. Talið er að útgjöld ríkissjóðs vegna þessara breytinga yrðu óveruleg.