Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 851  —  549. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)

1. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., skal lagt vörugjald í eftirfarandi gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:

Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
I 0–2.000 30
II Yfir 2.000 45

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „70%“ í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 30%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna.
     a.      3. tölul. 2. mgr. orðast svo:
             Greiða skal 10% vörugjald af bifreiðum fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins.
     b.      4. tölul. 2. mgr. orðast svo:
             Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt eftirfarandi töflu miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:

Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
I 0–2.000 10
II Yfir 2.000 13

     c.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo:
             Vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum skal vera:

Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
I 0–2.000 10
II Yfir 2.000 13

             Bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins til að leigja bifreiðar eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Einungis er heimilt að nýta bifreið samkvæmt þessum tölulið til útleigu hjá þeirri bílaleigu sem skráð er fyrir bifreiðinni. Bílaleiga skal haga bókhaldi sínu þannig að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri þeirra bifreiða sem bera lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna, með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til útleigu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum tölulið. Brot á ákvæðum hans varðar því að hin brotlega bílaleiga missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.
     d.      3. mgr. orðast svo:
             Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tölul. 2. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi, að frátöldum c-lið 3. gr. laga þessara sem tekur gildi 15. maí 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum. Meginbreytingin felst í því að lagt er til að flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar verði fækkað úr þremur í tvo. Þannig verði lagt 30% vörugjald á allar fólksbifreiðar með 0–2.000 sm 3 vélar en 45% vörugjald á bifreiðar með vélar yfir 2.000 sm 3. Samkvæmt þessu verður ekki lengur gerður greinarmunur á bensín- og dísilvélum.
    Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald á fólksbifreiðar sem hér greinir:


Sprengirými aflvélar
Flokkur Bensínvélar Dísilvélar Gjald í %
I 0–1.600 0–2.100 30
II 1.601–2.500 2.101–3.000 40
III Yfir 2.500 Yfir 3.000 65

    Undanfarin ár hefur vörugjald af fólksbifreiðum verið lækkað í áföngum og gjaldflokkum fækkað. Með þessu hefur almenningi verið gert auðveldara að kaupa þær gerðir bifreiða sem hann telur best henta þörfum sínum. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er stefnt að því að stíga eitt skref enn í átt til minni neyslustýringar og auðvelda fólki þannig að kaupa öruggari og betur búnar bifreiðar. Ör þróun hefur orðið í öryggisbúnaði bifreiða undanfarin ár og nú bjóðast betur útbúnar og öruggari bifreiðar en áður. Þær eru í mörgum tilvikum stærri en síður útbúnar bifreiðar og búnar vélum með stærra sprengirými. Aukin notkun vel útbúinna bifreiða er til þess fallin að draga úr alvarlegum umferðarslysum. Með hliðsjón af því er lagt til að gjaldflokkum verði fækkað og vörugjald á fólksbifreiðar með aflmeiri vélar lækkað.
    Undanfarin ár hafa tiltölulega fáar bifreiðar verið fluttar inn í 65% gjaldflokki. Voru þær á bilinu 900–1.000 síðustu þrjú ár. Mikill meiri hluti innfluttra bifreiða í þessum gjaldflokki hefur verið notaðar bifreiðar, eða um 70%. Slíkur innflutningur getur ekki talist þjóðhagslega hagkvæmur. Þá uppfylla þessar bifreiðar í mörgum tilvikum síður þær kröfur sem nú eru gerðar til nýrra bifreiða varðandi mengunarvarnir og nýtingu eldsneytis. Af því leiðir að bílaflotinn mengar mun meira en ella væri. Enn fremur er talið að töluvert sé um að rangt tollverð sé gefið upp við innflutning á notuðum bifreiðum og er hvatinn þeim mun meiri eftir því sem gjaldprósentan er hærri.
    Lækkun á 65% vörugjaldi í 45% er til þess fallin að draga úr hvata til innflutnings notaðra bifreiða sem eins og áður segir eru í mörgum tilvikum búnar ófullkomnum mengunarvarnabúnaði. Með því er stuðlað að því að heildarmengun frá bifreiðum minnki. Auk þess má vænta þess að innheimta aðflutningsgjalda verði betri og vegi þannig að hluta upp það tekjutap sem leiðir af breytingunni. Auk þess má nefna að mikil þróun hefur orðið á bensín- og dísilvélum undanfarin ár. Þessar vélar þurfa í mörgum tilvikum stærra sprengirými en hefðbundnar vélar en menga eftir sem áður mun minna. Því er eðlilegt að draga úr fylgni skattheimtu og sprengirýmis bílvéla.
    Nokkrum örðugleikum er háð að meta áhrif framangreindra breytinga á tekjur ríkissjóðs. Kemur það m.a. til af því að innflutningur bifreiða er sveiflukenndur og háður mörgum mismunandi þáttum. Miðað við innflutning síðasta árs má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 300–350 millj. kr. lægri en að óbreyttum lögum. Hins vegar má ætla að breytingar á eftirspurn og innkaupamynstri, í kjölfar lækkunar á vörugjöldum, dragi úr tekjutapinu.
    Gera má ráð fyrir því að framangreindar breytingar á vörugjaldi af fólksbifreiðum muni að öðru óbreyttu leiða til þess að útsöluverð bensínbifreiða með 1.600–2.000 sm 3 vélum lækki um 5–7% en útsöluverð bensínbifreiða með yfir 2.500 sm 3 vélum og dísilbifreiða með yfir 3.000 sm 3 vélum um 10–13%. Hins vegar má gera ráð fyrir því að breytingin hafi þau áhrif að verð á bensínbifreiðum með 2.500–3.000 sm 3 vélum og dísilbifreiðum með 2.000–3.000 sm 3 vélum muni hækka um allt að 2–3%. Gera má ráð fyrir að lækkun á útsöluverði bifreiða leiði til tæplega 0,2% lækkunar á framfærsluvísitölu.
    Ekki eru forsendur til þess að stíga stærra skref til lækkunar vörugjalda við núverandi aðstæður og því er óhjákvæmilegt að mæta lækkuðum tekjum með nokkurri hækkun á ákveðinn flokk bifreiða, einkum ef það mark á að nást að fækka gjaldflokkunum úr þremur í tvo.
    Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Bílgreinasambandið hafa á undanförnum missirum farið þess ítrekað á leit við fjármálaráðuneytið að það beiti sér fyrir því að vörugjald af ökutækjum verði lækkað og flokkum fækkað. Í því sambandi hafa samtökin verið samstíga um að mæla fyrir því að gjaldtakan verði miðuð við tvo flokka þannig að bifreiðar með 0–2.000 sm 3 vélar beri 30% vörugjald en bifreiðar með stærri vélar 40% gjald. Með frumvarpi þessu er verulega komið til móts við tillögur þessara aðila.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að vörugjald af bifhjólum, vélsleðum og fjórhjólum verði lækkað úr 70% í 30%. Vörugjald af þessum ökutækjum hefur verið óbreytt frá árinu 1991. Á sama tíma hefur vörugjald af öðrum ökutækjum lækkað verulega. Ekki þykir ástæða til að leggja mun hærri gjöld á þessi ökutæki. Miðað við innflutning síðasta árs má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 50–60 millj. kr. lægri en að óbreyttum lögum.
    Loks er lagt til að lækkað verði gjald af fólksbifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð eru í atvinnurekstri. Á það hefur einnig verið bent að þjónusta við ferðamenn sem nýta sér bílaleigubifreiðar sem samgöngutæki sé arðvænleg. Hátt verð á bifreiðum til þeirrar starfsemi hafi hins vegar hamlað nokkuð uppbyggingu slíkrar þjónustu. Með þessum breytingum er stefnt að því að koma til móts við ferðaþjónustu á þessu sviði og gera hana betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum.
    

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar verði fækkað úr þremur í tvo. Þannig verði lagt 30% vörugjald á fólksbifreiðar sem knúnar eru vélum með allt að 2.000 sm 3 sprengirými en 45% vörugjald á bifreiðar með stærri vélar. Mismunandi gjaldskylda bifreiða eftir því hvort þær eru búnar bensín- eða dísilvélum fellur niður.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að vörugjald af þeim ökutækjum sem nú bera 70% vörugjald verði lækkað í 30%. Hér er einkum um að ræða bifhjól, vélsleða og fjórhjól, en vörugjald af þessum ökutækjum hefur verið óbreytt frá árinu 1991. Á sama tíma hefur vörugjald af öðrum ökutækjum lækkað verulega. Ekki þykir ástæða til að leggja mun hærri gjöld á þessi ökutæki.

Um 3. gr.

    Um a-lið.
    Nú er lagt 30% vörugjald á bifreiðar fyrir fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar eru af Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt almennum reglum ættu þessar bifreiðar að bera 40–65% vörugjald. Í ljósi þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu á almennum vörugjöldum er lagt til að vörugjald af framangreindum bifreiðum fyrir fatlaða verði lækkað í 10%.
    Einnig er lagt til að felldar verði brott sérreglur varðandi lægra vörugjald af vélsleðum sem ætlaðir eru til nota á svæðum þar sem samgöngur eru torveldar, bifreiðum sem sérstaklega eru ætlaðar til líkflutninga, bifreiðum til útleigu á bílaleigum og vélsleðum í eigu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Ekki þykir ástæða til að hafa sérreglur um lægra vörugjald af þessum tækjum ef frumvarpið verður að lögum.
    Um b-lið.
    Í greininni er lagt til að lækkað vörugjald af leigubifreiðum breytist til samræmis við almennar breytingar á vörugjaldi. Breytingin mun hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Um c-lið.
    Lagt er til að vörugjald af bifreiðum fyrir starfsemi bílaleiga verði lækkað þannig að það verði það sama og af leigubifreiðum að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Markmiðið með þessari breytingu er að gera bílaleigum betur kleift að bjóða upp á fjölbreyttara úrval af bifreiðum til leigu gegn lægra gjaldi en nú er. Á það hefur verið bent af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar að verulegur ávinningur fælist í því að geta boðið fjölbreyttara úrval fólksbifreiða til leigu fyrir erlenda ferðamenn á samkeppnisfæru verði.
    Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fram frumvarp til laga um leigu á ökutækjum þar sem gert er ráð fyrir því að samgönguráðuneytið gefi út starfsleyfi fyrir bílaleigur auk þess sem sett eru almenn skilyrði fyrir rekstri slíkrar starfsemi. Með hliðsjón af því er gert er að skilyrði fyrir lækkun vörugjalda samkvæmt greininni að bifreið sé skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins til að leigja bifreiðar, eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af bílaleigubifreiðum eru nokkuð ströng. Það er gert til þess að tryggja sem best að þær bifreiðar sem bera lægra vörugjald samkvæmt greininni verði eingöngu notaðar til útleigu hjá bílaleigum.
    Um d-lið.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild til sérstakrar lækkunar vörugjalds af vélsleðum til fyrirtækja í ferðaþjónustu verði felld brott. Í 5. gr. er lagt til að orðalagi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 verði breytt til samræmis við þá breytingu.
    

Um 4. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildistöku laganna. Eðlilegt þykir að ákvæði c-liðar 3. gr. er varða vörugjald af bílaleigubifreiðum öðlist ekki gildi fyrr en 15. maí nk. þess að svigrúm gefist til að útfæra nánar skilyrði fyrir lækkun gjaldanna í reglugerð og kynningar á þeim. Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Samkvæmt frumvarpinu verða gerðar nokkrar breytingar á álagningu vörugjalds af bifreiðum. Helsta breytingin sem gerð er tillaga um í frumvarpinu felst í því að fækka flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar úr þremur í tvo og að vörugjaldið lækki nokkuð frá núgildandi lögum. Áætlað er að ríkissjóður gæti orðið af um 300–350 m.kr. tekjum í kjölfar þessarar breytingar miðað við bifreiðainnflutning síðasta árs. Gera má ráð fyrir að aukin eftirspurn eftir bifreiðum geti vegið það upp að einhverju marki. Einnig er lagt til að vörugjald af bifhjólum, vélsleðum og fjórhjólum lækki úr 70% í 30% og er áætlað að það gæti lækkað tekjur ríkissjóðs um 50–60 m.kr. Loks er gert ráð fyrir að vörugjald á fólksbifreiðar til útleigu hjá bifreiðaleigum verði lækkað þannig að það verði það sama og á leigubifreiðum. Áætlað er að þessar breytingar á álagningu vörugjalda hefðu óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.