Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 859  —  557. mál.




Frumvarp til laga



um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)



1. gr.

    Lög þessi gilda um alþjóðaverslun með dýr og plöntur sem heyra undir samninginn að svo miklu leyti sem önnur lög gera ekki strangari kröfur.

2. gr.

    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, nema hvað sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn mála er varða nytjastofna sjávar.
    Sækja skal um leyfi eða vottorð til hlutaðeigandi stjórnvalds vegna verslunar með dýr eða plöntur sem heyra undir lög þessi.

3. gr.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Samningurinn: Samningur um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES) sem gerður var í Washington 3. mars 1973 ásamt breytingum á honum sem gerðar voru í Bonn 22. júní 1979 og viðaukum við hann, fyrir utan þau atriði sem Ísland hefur gert fyrirvara við.
     2.      Umsækjandi leyfis eða vottorðs: Sérhver aðili sem sækir um innflutnings-, útflutnings- eða endurútflutningsleyfi eða vottorð vegna aðflutnings úr sjó.
     3.      Verslun:
                  a.      innflutningur,
                  b.      útflutningur,
                  c.      endurútflutningur sem er útflutningur á dýri eða plöntu sem áður hefur verið flutt inn,
                  d.      aðflutningur úr sjó sem er innflutningur á dýri eða plöntu sem tekin hefur verið úr sjó utan lögsögu ríkja.
     4.      Dýr eða planta: Sérhvert dýr eða planta og auðþekkjanlegur hluti og afleiðsla þess, sem fjallað er um í samningnum og viðaukum við hann, fyrir utan þau atriði sem Ísland hefur gert fyrirvara við.

4. gr.

    Til að stuðla að framkvæmd laga þessara setja umhverfisráðherra og sjávarútvegsráðherra í reglugerð almenn ákvæði um:
     a.      verslun með dýr og plöntur,
     b.      innflutnings-, útflutnings- og endurútflutningsleyfi og vottorð vegna aðflutnings úr sjó,
     c.      lista yfir dýr og plöntur sem talin eru upp í I. viðauka við samninginn og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við, svo og reglur um verslun með þau,
     d.      lista yfir dýr og plöntur sem talin eru upp í II. viðauka við samninginn og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við, svo og reglur um verslun með þau,
     e.      lista yfir dýr og plöntur sem taldar eru upp í III. viðauka við samninginn og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við, svo og reglur um verslun með þau,
     f.      undanþágur frá almennum reglum um verslun með dýr og plöntur í samræmi við samninginn,
     g.      hlutverk leyfisveitenda og vísindalegra stjórnvalda,
     h.      verslun með dýr og plöntur við ríki sem ekki eru aðilar að samningnum,
     i.      eftirlit stjórnvalda með því að ákvæðum laganna sé framfylgt,
     j.      meðferð lifandi dýra,
     k.      önnur atriði sem falla undir samninginn.

5. gr.

    Umsækjandi leyfis eða vottorðs skal veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar sem það óskar eftir í því skyni að framfylgja ákvæðum laganna, svo sem leggja fram eða veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum, bréfum, leyfum og vottorðum, samningum og öðrum gögnum er varða verslun með dýr eða plöntur.
    Kostnaður við meðferð umsókna um leyfi eða vottorð skv. 2. mgr. 2. gr. greiðist af umsækjanda um leyfi eða vottorð. Heimilt er hlutaðeigandi ráðherra að setja gjaldskrá sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda.

6. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar eru á grundvelli þeirra, varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Tilraun til brota gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar eru á grundvelli þeirra, varðar refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildir um hlutdeild í brotum.
    Heimilt er að gera upptæk til ríkissjóðs dýr eða plöntur sem hafa verið flutt eða reynt hefur verið að flytja ólöglega inn eða á annan hátt verið farið með andstætt ákvæðum laga þessara eða fyrirmæla sem sett eru samkvæmt þeim, án tillits til þess hver er eigandi þeirra eða til eignarhafta sem á þeim hvíla.
    Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Nú er brot framið í starfsemi lögaðila og verður honum þá gerð fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Einnig er lögaðili ábyrgur fyrir greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda sé brot framið í starfi hans hjá lögaðilanum.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði nauðsynleg lagaákvæði til að unnt verði að fullnægja skuldbindingum samkvæmt samningi um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu sem gerður var í Washington 3. mars 1973 ásamt breytingu á honum sem gerð var í Bonn 22. júní 1979, hér eftir nefndur samningurinn. Um er að ræða samning sem hefur það að markmiði að vernda villt dýr og plöntur sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þau. Hann nær bæði til viðskipta með lifandi dýr og dauð, auk plantna. Samningurinn hefur að geyma reglur um innflutning, útflutning og endurútflutning dýra og plantna og aðflutning tegunda úr sjó sem skráð eru í viðaukum við samninginn. Með þingsályktun 14. desember 1999 veitti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að gerast aðili að samningnum fyrir Íslands hönd og var samningurinn í heild sinni ásamt viðaukum birtur með þingsályktunartillögunni. Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 3. janúar 2000 og á hann að öðlast gildi að því er Ísland varðar 2. apríl 2000.
    Í frumvarpinu er lagt til að efnisreglur um framkvæmd frumvarpsins verði settar í reglugerð. Gert er ráð fyrir að þær verði a.m.k. tvær, enda heyrir frumvarpið samkvæmt efni sínu undir tvö ráðuneyti, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti. Unnið var að frumvarpinu í náinni samvinnu við sjávarútvegsráðuneytið.
    Samningurinn sem frumvarpinu er ætlað að leiða í íslenskan rétt fjallar um innflutning, útflutning, endurútflutning og aðflutning dýra og plantna úr sjó. Dýr og plöntur sem falla undir samningin eru talin upp og flokkuð í þrjá viðauka en mismunandi reglur gilda um verslun með þau eftir hvaða viðauka þau falla undir.
    Í I. viðauka samningsins eru tegundir sem eru í útrýmingarhættu og viðskipti hafa eða geta haft áhrif á. Verslun með dýr og plöntur sem skráð eru í þessum viðauka er aðeins heimiluð í undantekningartilvikum og með því skilyrði að tilskilin innflutnings-, útflutnings- og/eða endurútflutningsleyfi viðkomandi landa, eða vottorð vegna aðflutnings úr sjó, séu fyrir hendi.
    Í II. viðauka eru tegundir sem kunna að vera í útrýmingarhættu ef ekki er höfð stjórn á alþjóðaverslun með þær. Alþjóðaverslun með tegundir í þessum viðauka er einungis heimiluð að uppfylltu því skilyrði að tilskilin útflutnings- og/eða endurútflutningsleyfi viðkomandi landa, eða vottorð vegna aðflutnings úr sjó, séu fyrir hendi.
    Innflutningsleyfi vegna tegunda í I. viðauka má aðeins veita ef tryggt er að viðkomandi eintak sé ekki nýtt fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi og að innflutningur þess stefni tegundinni ekki í hættu. Útflutningsleyfi vegna tegunda í I. og II. viðauka má aðeins veita ef viðkomandi eintak hefur verið fengið löglega og viðskiptin stefna tegundinni ekki í hættu. Það skilyrði er jafnframt sett fyrir veitingu útflutningsleyfis vegna tegunda í I. viðauka að tilskilið innflutningsleyfi sé þegar fyrir hendi. Endurútflutningsleyfi vegna tegunda í I. og II. viðauka má aðeins veita ef eintakið var flutt inn samkvæmt ákvæðum samningsins. Útflutningsleyfi vegna tegunda í III. viðauka má aðeins veita ef viðkomandi eintaks var aflað löglega. Vottorð vegna aðflutnings úr sjó á eintaki tegundar í I. og II. viðauka má aðeins veita ef staðfest er að aðflutningurinn stefni tegundinni ekki í hættu. Það skilyrði er jafnframt sett fyrir veitingu vottorðs vegna tegunda í I. viðauka að fyrir liggi að viðkomandi eintak verði ekki nýtt fyrst og fremst í viðskiptalegum tilgangi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um gildissvið frumvarpsins en lagt er til að það gildi um alþjóðaverslun með dýr og plöntur sem falla undir samninginn. Lagt er til að frumvarpið gildi einungis að svo miklu leyti sem önnur lög geri ekki strangari kröfur, t.d. um innflutning dýra, en það er í samræmi við samninginn sem heimilar aðildarríkjum að gera strangari kröfur um verslun með dýr og plöntur en samningurinn gerir.

Um 2. gr.

    Frumvarpið heyrir samkvæmt efni sínu undir tvö ráðuneyti, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti hvað varðar nytjastofna sjávar. Er þessi skipting í samræmi við reglugerð um Stjórnarráð Íslands.
    Í 2. mgr. er, í samræmi við skyldur þær sem Ísland gekkst undir samkvæmt samningnum, gert ráð fyrir að öll verslun með dýr og plöntur sem heyra undir lögin sé leyfisskyld. En samningurinn kveður á um að sækja þurfi um sérstakt leyfi eða vottorð til viðeigandi stjórnvalds vegna inn- og útflutnings, endurútflutnings og aðflutnings úr sjó.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem er að finna í frumvarpinu. Við skilgreiningu á hugtökunum hefur m.a. verið byggt á skilgreiningum sem fram koma í samningnum.

Um 4. gr.

    Í greininni er að finna heimild fyrir umhverfisráðherra og sjávarútvegsráðherra til að setja reglugerð um atriði sem talin eru upp í ellefu töluliðum. Þau atriði sem þar koma fram eru helstu efnisatriði er varða framkvæmd samningsins auk almennrar heimildar um önnur atriði sem undir hann falla og Ísland hefur ekki gert fyrirvara við.

Um 5. gr.

    Í greininni er að finna heimildir til handa stjórnvöldum til að krefja þann sem sækir um leyfi eða vottorð um að leggja fram eða veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum, bréfum, leyfum og vottorðum, samningum og öðrum gögnum sem varða verslun með dýr og plöntur.
    Í 2. mgr. er lögð til gjaldtökuheimild vegna kostnaðar við meðferð umsókna um leyfi eða vottorða, en gert er ráð fyrir að allur kostnaður við meðferð umsókna, sbr. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, greiðist af umsækjanda. Heimilt er viðkomandi ráðherra að setja gjaldskrá og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um refsingu fyrir brot gegn ákvæðum laganna og reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim. Varða brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Er ákvæðið í samræmi við skyldur þær sem Ísland gekkst undir samkvæmt samningnum en skv. 8. gr. samningsins skulu aðildarríki hans gera viðeigandi ráðstafanir til þess að framfylgja ákvæðum hans, m.a. banna verslun með dýr og plöntur í útrýmingarhættu sem brýtur í bága við ákvæði samningsins og gera hana refsiverða.
    Í 2. mgr. er lagt til að tilraun til brota gegn frumvarpinu og reglugerðum settum samkvæmt því varði refsingu sem fullframið brot og að hið sama gildi um hlutdeild í brotum.
    Í 3. mgr. er lögð til heimild til að gera upptæk dýr og plöntur sem hafa verið flutt eða reynt hefur verið að flytja á ólögmætan hátt inn til landsins eða á annan hátt verið farið með andstætt ákvæðum frumvarpsins eða fyrirmæla sem sett eru samkvæmt því. Samningurinn gerir þær kröfur að heimild sé samkvæmt landsrétti hvers lands að sjá um að dýr og plöntur sem flutt eru inn til aðildarríkis í bága við ákvæði samningsins séu gerð upptæk eða flutt aftur til útflutningslandsins.
    Í 4. mgr. er heimild til að sekta jafnt lögaðila sem einstakling. Lagt er til að verði brot framið í starfsemi lögaðila verði honum gerð fésekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga. Lagt er til að lögaðili beri ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda sé brot framið í starfi hans hjá lögaðilanum.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir
villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES).

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að staðfesta aðild Íslands að CITES, alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, en með aðild gæti Ísland haft áhrif á hvaða tegundir eru skráðar í viðauka við samninginn um dýr og plöntur í útrýmingarhættu. Þetta er m.a. mikilvægt í ljósi vaxandi umfjöllunar um skráningu nytjastofna sjávar í viðaukann. CITES-samningurinn fjallar um inn- og útflutning á dýrum og plöntum sem eru á lista yfir dýr og plöntur sem kunna að vera eða eru í útrýmingarhættu og inn- og útflutning vara sem hefur áhrif á þessa verslun.
    Kostnaður við aðildina er tvíþættur: Annars vegar er leyfisveiting og vottun sem greiðist af umsækjenda. Sjávarútvegsráðuneyti með Hafrannsókastofnunina sem umsagnaraðila veitir leyfi og vottar fyrir verslun með nytjastofa sjávar. Umhverfisráðuneyti með Náttúrufræðistofnun sem umsagnaraðila veitir leyfi og vottar fyrir aðrar tegundir en þær sem koma úr sjó. Miðað við tölur frá viðkomandi stofnunum þurfa árlegar tekjur af leyfisveitingu að verða 1,2 m.kr. fyrir vörur úr sjó og 1,5 m.kr. af annarri vöru til að standa undir kostnaði. Hins vegar kostar ríkissjóður ferða- og þjálfunarkostnað fulltrúa stofnana sem koma til með að sjá um upplýsingaöflun fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Reiknað er með að sá kostnaður verði um 500.000 kr. fyrir hverja stofnun fyrir sig eða alls 2 m.kr. á ári.