Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 890  —  588. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök.

Flm.: Katrín Fjeldsted, Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Pálsson,


Ásta Möller, Ísólfur Gylfi Pálmason, Gunnar Birgisson,


Drífa Hjartardóttir, Árni R. Árnason.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og hvernig samskiptum stjórnvalda og sveitarstjórna við þau er háttað. Jafnframt skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar um hvernig samráði stjórnvalda við frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála verði hagað með vísan til skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem undirritaður var í Árósum 23.–25. júní 1998.

Greinargerð.


    Í lýðræðisríkjum hafa frjáls félagasamtök (Non-Governmental Organisations, NGOs) gegnt sífellt mikilvægara hlutverki undanfarna áratugi. Á þetta ekki síst við á sviði umhverfismála. Þau veita stjórnvöldum og atvinnurekendum mikilvægt aðhald og sinna bæði fræðslu- og eftirlitshlutverki. Einkenni frjálsra félagasamtaka er að þau eru óháð ríkisvaldinu, hafa sjálfstæðan fjárhag, eru rekin án gróðasjónarmiða og hafa fagleg vinnubrögð að leiðarljósi. Fleiri og fleiri viðurkenna nauðsyn þess að virkja mannauð og þekkingu frjálsra félagasamtaka.
    Stjórnvöld í ríkjum heims hafa gengið einna lengst í að viðurkenna nauðsyn þess að almenningur og frjáls félagasamtök séu höfð með í ráðum þegar umhverfismálum er skipað. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Ríó 1992 var í samningi um Dagskrá 21, 27. kafla, fjallað um nauðsyn þess að styrkja stöðu frjálsra félagasamtaka og mikilvægt hlutverk þeirra í umfjöllun um sjálfbæra þróun.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig haldið svæðisbundnar ráðstefnur um umhverfismál. Á fjórða ráðherrafundi umhverfisráðherra um umhverfismál í Evrópu sem haldinn var í Árósum í Danmörku 23.–25. júní 1998 var gengið skrefi lengra og undirritaður alþjóðasamningur um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samningurinn felur í sér viðurkenningu á réttindum borgaranna að því er varðar umhverfismál og er, eins og fram kom í yfirlýsingu umhverfisráðherranna, mikilsvert framfaraskerf bæði fyrir umhverfið og lýðræðið. Með samningnum er staðfest mikilvægi þess að einstaklingar og frjáls félagasamtök taki þátt í mótun umhverfisreglna og viðurkennt að stjórnvöldum beri að hafa eðlilegt samráð við almenning við mótun umhverfisstefnu.
    Flutningsmenn tillögunnar telja eðlilegt að skipuð verði nefnd er geri annars vegar úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og samskiptum stjórnvalda við þau og hins vegar tillögur byggðar á Árósa-samningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
    Flutningsmenn gera hvorki tillögu um fjölda nefndarmanna né hvernig þeir verða skipaðir. Eðlilegt er að nefndin verði skipuð á breiðum grunni, þ.e. með þátttöku hins opinbera, atvinnulífsins, launþegasamtaka og frjálsra félagasamtaka.