Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1051  —  111. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um þjónustukaup.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Atla Frey Guðmundsson, Tryggva Axelsson og Birgi Má Ragnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Erlend Gíslason frá Lögmannafélagi Íslands, Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins, Jón Magnússon og Telmu Halldórsdóttur frá Neytendasamtökunum og Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins og Lögmannafélagi Íslands. Þá tók nefndin til skoðunar umsagnir sem borist höfðu um málið þegar það var til umfjöllunar á 122. og 123. löggjafarþingi.
    Með frumvarpinu er lagt til að löfest verði heildarlög um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni. Tekur það mið af lögum sem sett hafa verið um þetta efni annars staðar á Norðurlöndunum auk þess sem danskt frumvarp frá árinu 1988 var haft til hliðsjónar við samningu þess. Er með frumvarpinu stefnt að því að bæta úr brýnni þörf á lagareglum til að greiða úr réttarágreiningi sem kann að rísa vegna kaupa á þjónustu.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Flestar þeirra eru einungis orðalagsbreytingar, en nefndin leggur þó til eftirtaldar efnisbreytingar:
     1.      Í fyrsta lagi er lagt til að tekið skuli fram að ef til riftunar samnings kemur geti seljandi aðeins krafist greiðslu fyrir ógallaða vinnu og þannig tekinn af allur vafi um að neytanda sé ekki skylt að greiða fyrir gallaða vinnu.
     2.      Lagt er til að kveðið verði á um það í bráðabirgðaákvæði að frá gildistöku laganna og út árið 2005 skuli starfa kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa sem starfi á grundvelli laga um þjónustukaup og laga um lausafjárkaup. Þar sem um er að ræða nýja heildarlöggjöf um þjónustukaup telur nefndin að sú leið að aðilar að þjónustukaupum geti leitað til óháðs stjórnvalds til að fá túlkun á lögunum ætti að gefast vel. Eru fjölmargar slíkar nefndir starfandi, m.a. kærunefnd húsaleigumála og kærunefnd fjöleignarhúsa og hafa þær reynst vel. Lagt er til að nefndin verði þannig skipuð að einn nefndarmanna verði skipaður eftir tilnefningu Neytendasamtakanna, annar eftir tilnefningu Verslunarráðs Íslands og þann þriðja skipi ráðherra án tilnefningar. Lagt er til að kostnaður af störfum kærunefndarinnar greiðist úr ríkissjóði en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar verður hann að lágmarki 2–3 millj. kr. á ári.
     3.      Þá er lagt til að gildistökuákvæði laganna verði breytt á þá leið að lögin öðlist gildi 1. júní 2001 til samræmis við frumvarp til laga um lausafjárkaup.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 2000.Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Hjálmar Árnason.Sigríður A. Þórðardóttir.


Pétur H. Blöndal.


Gunnar Birgisson.Jóhanna Sigurðardóttir.


Margrét Frímannsdóttir.


Ögmundur Jónasson.