Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1369  —  610. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Birgissonar um bað- og snyrtiaðstöðu á hjúkrunarheimilum.

     1.      Hverjar eru reglur heilbrigðisráðuneytisins um bað- og snyrtiaðstöðu fyrir vistrými á hjúkrunarheimilum, þ.e. um:
                  a.      stærð,
                  b.      frágang?

    Ekki hafa verið settir staðlar um bað- og snyrtiaðstöðu fyrir vistrými á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarheimili á Íslandi eru byggð á löngum tíma og vissulega hafa viðhorf til aðstöðu breyst talsvert á undanförnum áratugum. Þannig eru nýbyggingar og endurbætur hannaðar öðruvísi, meðal annars að þessu leyti, en gert var fyrr á árum, enda er um heilbrigðisstofnanir að ræða sem lúta strangari kröfum en almennt gerist um stærð rýma, aðgengi og frágang.
    Þegar um er að ræða nýbyggingar eða endurbætur hefur Framkvæmdasjóður aldraðra í flestum tilvikum tekið þátt í kostnaði. Stjórn sjóðsins hefur farið yfir teikningar auk þess að fá fagfólk sér og framkvæmdaraðilum til ráðgjafar eftir því sem þörf hefur verið hverju sinni, meðal annars með hliðsjón af væntanlegri umönnunarþyngd vistmanna. Þannig hafa verið mótaðar ákveðnar viðmiðunarreglur um þá aðstöðu sem talin er nauðsynleg á hjúkrunarheimilum. Árið 1994 voru þær gefnar út af ráðuneytinu í bæklingi um málstærðir á hjúkrunarheimilum aldraðra. Í þessum viðmiðunum er gert ráð fyrir að salerni og handlaug séu fyrir hvert herbergi og æskilegt að einnig sé sérstök baðaðstaða en það fer eftir því hvort um mikla umönnunarþyngd er að ræða. Einnig er í áðurnefndum málstærðum gert ráð fyrir einni snyrtingu fyrir tvær samliggjandi eins manns sjúkrastofur.
    Á síðustu árum hafa kröfur um aðbúnað sífellt verið að aukast og þannig hafa komið fram kröfur um hærra hlutfall einstaklingsherbegja á hjúkrunardeildum ásamt kröfu um að snyrtiaðstaða sé með hverri sjúkrastofu, með salerni, handlaug og sturtu, hvort heldur um er að ræða eins eða tveggja manna stofu.
    Í útboði um einkaframkvæmd á hjúkrunarheimili í Sóltúni voru gerðar meiri kröfur en í framangreindum bæklingi, meðal annars vegna þess að gert er ráð fyrir að vistmenn þar hafi meiri þörf fyrir umönnun en almennt gerist á hjúkrunarheimilum í dag. Því var gerð krafa um salerni, handlaug og sturtu í hvert herbergi.
    Ekki eru til formlegar reglur um frágang bað- og snyrtiaðstöðu, en þar sem um sjúkrastofnanir er að ræða eru gerðar strangari kröfur um frágang en almennt þekkist, meðal annars með tilliti til aðgengis og ræstingar.

     2.      Er leyfilegt að hafa sameiginlega bað- og snyrtiaðstöðu fyrir tvö eða fleiri aðliggjandi hjúkrunarrými?
    Þess eru dæmi að eitt snyrtiherbergi sé ætlað fyrir fleiri en eitt hjúkrunarrými, enda er húsnæði hjúkrunarheimila í ýmsum tilvikum komið nokkuð til ára sinna. Ekki hefur verið gerð krafa um að hvert hjúkrunarrými hafi sérstaka snyrtingu. Þar sem vistmenn þurfa oft mikla hjúkrun hefur á síðari árum verið leitast við að skipuleggja nýbyggingar og endurbætur þannig að snyrtiherbergi sé ekki fyrir fleiri en tvö aðliggjandi hjúkrunarrými og á hverri deild séu einhver rými með sérstöku snyrtiherbergi þar sem unnt geti verið að sinna þörfum þeirra veikustu eða einstaklingum með sérstakar þarfir.