Ferill 652. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 1388  —  652. mál.




Frumvarp til laga



um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Árni Steinar Jóhannsson,


Guðjón A. Kristjánsson, Ólafur Örn Haraldsson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990.
1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Orðin „og er undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt,
nr. 75/1981, með síðari breytingum.

2. gr.

    1. tölul. 4. gr. laganna fellur brott.

III. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum.
3. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, með síðari breytingum.
4. gr.

    1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
nr. 94/1996, með síðari breytingum.

5. gr.

    Orðin „Forseti Íslands og maki hans“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

VI. KAFLI
Gildistaka.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2000.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að felld verði brott ákvæði í lögum þar sem kveðið er á um undanþágur forseta Íslands og maka hans frá greiðslu skatta og opinberra gjalda.
    Undanfarin ár hefur oftsinnis kviknað umræða um það í þjóðfélaginu að óeðlilegt sé að forseti lýðveldisins sé undanþeginn greiðslu skatta og opinberra gjalda og hefur verið mjög almenn skoðun að taka beri lagaákvæði þar að lútandi til endurskoðunar. Lýstu m.a. allir forsetaframbjóðendur því yfir fyrir síðustu forsetakosningar í umræðum í sjónvarpssal að þeir væru hlynntir því að skattfrelsi forseta Íslands og maka hans yrði afnumið.
    Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir:
    „Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“
    Flutningsmenn telja að nú sé rétti tíminn, þegar kjörtímabili forseta Íslands er að ljúka, að taka ákvörðun um að afnema skattfríðindi forseta Íslands og maka hans. Telja þeir að skattfríðindin séu tímaskekkja og gangi gegn almennum jafnræðissjónarmiðum sem skattalög byggjast á.
    Þau ákvæði sem kveða á um undanþágu frá skattskyldu, og lagt er til í frumvarpi þessu að falli brott, eru nú í lögum um laun forseta Íslands, nr. 10/1990, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, tollalögum, nr. 55/1987, lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990, og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996.
    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. ágúst 2000 þar sem í 6. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er kveðið á um að kjörtímabil forseta Íslands hefjist 1. ágúst og endi 31. júlí að fjórum árum liðnum.