Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:04:09 (3556)

2001-01-15 14:04:09# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála. Með frv. er lagt til að unnt verði að kæra til dómsmrh. ákvörðun ríkissaksóknara um hvort opinber rannsókn á grundvelli 4. mgr. 67. gr. laganna skuli fara fram eða ekki.

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1999 var nýju ákvæði bætt í 4. mgr. 66. gr. laganna um rannsókn opinberra mála. Samkvæmt ákvæðinu er ríkissaksóknara heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að mæla fyrir um rannsókn opinbers máls þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök sé fyrnd, ef ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því.

Í athugasemdum við þetta ákvæði í frv. til laga segir að rannsókn af þessu tagi verði að beinast að háttsemi sem ljóst væri eða grunur léki á að hefði verið refsiverð þegar hún var framin auk þess sem ríkar ástæður yrðu að vera fyrir hendi til þess að unnt væri að mæla fyrir um rannsókn samkvæmt þessu ákvæði, svo sem sú að skaðabótakrafa gæti stofnast í kjölfar slíkrar rannsóknar.

Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála er rannsókn sakamála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé ákveðið í lögum.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að hafa fundarhlé. Ég sé að sumir sem hafa kvartað undan því undir öðrum kringumstæðum að slíkt sé gert eru með einkafundi.)

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan, samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála er rannsókn sakamála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé ákveðið í lögum. Lögregla skal hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Ríkissaksóknari getur gefið fyrirmæli í þeim efnum eins og mælt er fyrir í 66. gr. laganna. Ákvörðun lögreglu um hvort rannsókn fer fram er síðan kæranleg til ríkissaksóknara, samanber 76. gr. laganna. Almennt sætir því ákvörðun um rannsókn opinberra mála endurskoðun hjá æðra stjórnvaldi.

Þegar ríkissaksóknari tekur ákvörðun skv. 66. gr. laganna um hvort rannsókn fer fram þó refsingu verði ekki við komið, svo sem vegna þess að sök er fyrnd er ákvörðun hans fullnaðarákvörðun og verður því ekki kærð til æðra stjórnvalds.

Þessu frv. er ætlað að ráða bót á því þannig að mál geti í samræmi við almennar reglur fengið skoðun öðru sinni. Í frv. er gert ráð fyrir að ráðherra geti fellt úr gildi ákvörðun ríkissaksóknara og sett sérstakan saksóknara til að taka ákvörðun um hvort rannsókn fari fram og til að fara síðar með málið.

Þetta fyrirkomulag um kæru á ákvörðun ríkissaksóknara á sér hliðstæðu í 2. mgr. 26. gr. Ég vil taka skýrt fram að um er að ræða mjög þrönga undantekningu á meginreglunni um sjálfstæði ríkissaksóknara sem helgaðist af sérstöðu þessara mála og nauðsyn þess að unnt verði að endurskoða ákvörðun af þessu tagi rétt eins og á almennt við um rannsókn opinberra mála.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. og 2. umr.