Meðferð opinberra mála

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 14:24:16 (3564)

2001-01-15 14:24:16# 126. lþ. 57.1 fundur 367. mál: #A meðferð opinberra mála# (opinber rannsókn) frv., heilbrrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan að það væri alveg einstakt að forsrh. hefði tekið af dagskrá mál sem væri á dagskrá --- áður en það var tekið af dagskrá --- frv. til laga um almannatryggingar. Það kom af sjálfu sér að málið komst ekki á dagskrá vegna þess að það var ekki meiri hluti fyrir því að setja það á dagskrá. Stjórnarandstaðan hafði kynnt það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ekki yrði samkomulag um þau afbrigði sem til þurfti þrátt fyrir að það hefði legið fyrir í meira en viku. Í meira en viku hefur það legið fyrir að þetta frv. kæmi til kasta Alþingis. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur hjá ráðherranum.)

Hér kallar einhver fram í að það sé alger misskilningur hjá ráðherranum. Varðandi gögnin sem við ræddum um áðan þá verð ég að segja að það kemur ekki frá heilbr.- og trn. að gögnin hafi ekki verið öllum klár og opin. (Gripið fram í.) Um leið og ríkisstjórnarfundi var lokið á miðvikudaginn fóru þessi gögn út. En það kann vel að vera og það hefur komið fram að nefndadeildin var ekki tilbúin að láta þessi gögn af hendi. Það er svolítið annar handleggur. Sannleikurinn verður að koma fram. Forsrh. var síðastur á dagskrá áðan og ef hann hefði ekki tekið þetta mál af dagskrá, þá hefði ég komið og kippt þessu máli af dagskrá. Það var sjálfgert og alveg sama hver það gerði því að það var farið af dagskrá miðað við orð stjórnarandstöðunnar.

Ég harma það sjálfsögðu vegna þess að við erum að tala um að greiða öryrkjum ekki síðar en 1. febrúar og ég vona að þetta tefji það mál ekki. Við erum að tala um einn milljarð sem á að greiða út, að vísu ekki allt 1. febrúar því að það eftirágreiðsla sem verður greidd út í apríl. Fyrir janúar og febrúar átti að greiða 1. febrúar og ég harma ef það verður ekki hægt.