Tóbaksvarnir

Mánudaginn 15. janúar 2001, kl. 17:01:21 (3593)

2001-01-15 17:01:21# 126. lþ. 57.2 fundur 345. mál: #A tóbaksvarnir# (markaðssetning, tóbaksmengun o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti og hæstv. ráðherra. Það er annað atriði sem þarf að hafa í huga þegar tekin er ákvörðun varðandi fangelsin og það er að þrátt fyrir að allar reglur um heimsóknir til fanga hafi verið hertar þá koma aðstandendur og dvelja með þeim klukkutímum saman í sérstökum heimsóknarherbergjum. Þetta allt saman þarf að hafa í huga þegar ákvörðun er tekin í sambandi við fangelsin.

En ég hef gjarnan litið svo á, virðulegi forseti, að dvalarheimili aldraðra séu heimili þeirra. Hver aldraður greiðir eða greiddar eru með honum háar upphæðir til dvalarheimila. Engu að síður hefur sú ákvörðun oft verið tekin að leyfa ekki reykingar, hvorki á herbergjum né göngum, en vera með lélegar vistarverur fyrir þá sem reykja. Ég tel að það sé ekki rétt og þess vegna hefði ég viljað sjá hrein og klár skilyrði þess efnis að á dvalarheimilum skuli vera vel loftræst rými fyrir þá sem reykja og það sé nokkuð sem þeir sem reka dvalarheimilin skuli sjá um. Þrátt fyrir að þetta séu heimili viðkomandi einstaklinga þá gilda þar allt aðrar reglur en einstaklingarnir hafa vanist á heimilum sínum, eðlilega, þar sem þeir eru oft í sambýli við aðra. Það er einungis í þeirra eigin íbúðum á dvalarheimilum sem þeir geta hugsanlega leyft sér að reykja, en ekki þar sem um er að ræða herbergi á dvalarheimilum, þar sem ekki er boðið upp á sérstakar íbúðir.

En ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þetta og eins heilbr.- og trn. Ég verð að segja að ég hef saknað þess að ekki skuli vera fleiri úr heilbr.- og trn. viðstaddir til að ræða þetta mál eða fylgjast með umræðunni sem á sér stað og taka niður þær ábendingar sem fram hafa komið.