Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:19:16 (3692)

2001-01-17 11:19:16# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi málið sem hæstv. ráðherra reifaði hérna um hina einstæðu móður: Hvers vegna greip hún til þess að breyta bótunum? Vegna þess að henni var hótað málssókn. Hún var þá þegar með aðra málssókn á bakinu og þess vegna varð af þeirri breytingu. Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra hefur hækkað frítekjumarkið er einfaldlega sú að hún hefur reynt að rétta sinn hlut áður en hún lenti fyrir dómstólum. Það er eina ástæðan. Þetta er eina frítekjumarkið sem hæstv. ráðherra hefur hækkað.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra verður að svara því hér skýrt og skorinort: Stendur hún við það sem hún sagði í blaðaviðtali 30. september? Hún sagði þá: ,,Stærsta breytingin er að tekjur maka skerði ekki bætur öryrkja.``

Er það enn stefna hæstv. heilbrrh. að koma því svo fyrir að almannatryggingalögunum verði breytt þannig að tekjur maka skerði ekki tekjutryggingu öryrkja? Ef svarið er já, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna er hún að leggja þetta frv. fyrir? Ef svarið er nei, þá spyr ég: Hvenær breytti Framsfl. stefnu sinni?