Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 14:58:23 (3721)

2001-01-17 14:58:23# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ekki stóð á hæstv. forsrh. að koma í hlutverki prófdómarans að þessu sinni og gefa málflutningi annarra en sjálf sín einkunn. Einkunnin var sú að hér hefði verið ómálefnalega rætt um hlutina fyrir utan framsöguræðu hæstv. heilbrrh., ,,ekki málefnalega``, sagði hæstv. forsrh. Staðreyndin er nú sú, svo ég segi skoðun mína á framsöguræðu hæstv. heilbrrh., að hún var óvenjuléleg. Hún var stutt og það var ekki rökstutt með neinum sannfærandi hætti að nálgun ríkisstjórnarinnar stæðist dóm Hæstaréttar. Í öðru lagi var þar ósmekklega látið að því liggja að Gaukur Jörundsson, fjarstaddur fyrrverandi umboðsmaður Alþingis, væri ábyrgðaraðili að þessari framgöngu sem hér á sér stað.

Starfshópur hæstv. forsrh. getur að sjálfsögðu ekki vænst þess að hlutskipti hans í þessu máli sé hafið yfir gagnrýni. Hann getur reynt að leita réttar síns utan dómstóla og einstaklingar þar ef þeir telja að sér vegið. Mér er ekkert að vanbúnaði að endurtaka ummæli mín um þá herra utan þings.