Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:09:46 (3760)

2001-01-17 18:09:46# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því fram og held því fram að frv. sem liggur hér fyrir sé útúrsnúningur á dómnum, ég skýrði skilning minn á dómnum. Hann segir að ekki sé heimilt að skerða á þann hátt sem nefnt er í 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga. Það er tengingin við tekjur maka. Á þann hátt má ekki tengja tekjutrygginguna. Það má tengja hana öðruvísi eins og kemur fram í öðrum málsgreinum greinarinnar, en ekki gagnvart tekjum maka samkvæmt 5. mgr. Ég vil benda hv. þm. á að við erum búin að skoða þetta mál mjög vel. Ég bendi á að ég er 1. flm. að frv. sem leggur til afnám þessarar tekjutengingar og er rökstutt mjög rækilega, og það frv. liggur fyrir í heilbr.- og trn.

Og þegar menn ræða hvort þurft hafi lagasetningu eða ekki, þá er alveg ljóst að í heilbr.- og trn. er frv. sem tekur á þessu máli, þ.e. heimilar ekki tekjutengingu við tekjur maka og er með tillögu að lagabreytingu á þá veru. Það hefði ekkert verið auðveldara, ef menn hefðu verið í einhverjum vandræðum, en að taka og lögfesta það frv. sem er til umræðu í nefndinni. Ég get því alveg fullvissað hv. þm. um það að við erum búin að skoða þetta mál í þaula og búin að gera það síðan lagasetningin var gerð 1998, sem við töldum vera mannréttindabrot og tókum ekki þátt í að greiða atkvæði um. Rökstuðningurinn er allur í greinargerð þess frv. sem liggur í heilbr.- og trn. um að afnema skuli tekjutenginguna við tekjur maka á tekjutryggingu öryrkjans.