Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:23:15 (3777)

2001-01-17 19:23:15# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir það særa réttlætiskennd fólks að það eigi að leiðrétta bæturnar samkvæmt hæstaréttardómnum eins og við leggjum til. Ég ætla að fara nokkrum orðum um réttlætiskennd.

Ríkisstjórnin frestar skattlagningu á arð af hlutabréfum sem 636 einstaklingar eiga. Fjárhæðin nemur um 20 milljörðum á tveimur árum og tekjutap ríkissjóðs og sveitarfélaganna er um 8,5 milljarðar á tveimur árum. Það særir réttlætiskennd.

Ríkisstjórnin lækkar vörugjöld af dýrum bifreiðum með tekjutapi upp á mörg hundruð milljónir sem hefði fjármagnað þennan dóm og gott betur. Það særir réttlætiskennd.

Ef ríkisstjórnin sæi til þess að allir greiddu skatta og þar með kvótahæstu útgerðarfyrirtækin í landinu, en tveir og þrír af 20 kvótahæstu eigendum og útgerðarfélögum í þessu landi greiddu skatta fyrir tvö síðustu ár, þá mundi viðhorf fólks til þessarar ríkisstjórnar kannski breytast. Eins og staðan í þeim málum er í dag þá særir það réttlætiskenndina.