Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:28:21 (3781)

2001-01-17 19:28:21# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:28]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja því að ítreka spurningu sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði og margoft hefur verið spurt að hér í dag: Af hverju misbjóða 43 þús. kr. ekki réttlætiskenndinni þegar 51 þús. kr. gera það? Af hverju þessi munur? Ég vil fá svar við því, annað en að vísað sé til ákveðins hagræðis af sambúð. Til þess hefur þegar verið tekið tillit í gegnum aðra þætti.

Hv. þm. sagði að hjá stjórnarandstöðunni væri engin sjálfstæð hugsun í þessu máli. Ég vil minna á frv. sem liggur fyrir hv. heilbr.- og trn. sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur margoft flutt um nákvæmlega sama mál og hér er til umfjöllunar. Það vill svo til, herra forseti, að dómur Hæstaréttar er í samræmi við það frv., hvað varðar málefni öryrkjanna. Þar er sem sagt sjálfstæða hugsunin komin. Frv. var til langt á undan dómi Hæstaréttar, herra forseti. Ég vil vekja athygli á þessu hér í umræðunni.