Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:49:12 (3837)

2001-01-17 22:49:12# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:49]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það kemur iðulega fyrir að ég er ekki sammála skoðunum hv. þm. né annarra í stjórnarandstöðunni. Þrátt fyrir það dytti mér aldrei í hug að segja að þær skoðanir væru rangar. Ég reikna með því að hv. þingmenn móti skoðanir sínar með hliðsjón af heimssýn sinni og þeir sem eru félagshyggjufólk og vinstri sinnar hafa aðra heimssýn. En mér ber samt sem áður að virða skoðanir þeirra. Þess vegna sló það mig ansi illa, herra forseti, þegar hv. þm. byrjaði ræðu sína með því að segja: Hæstv. Alþingi er kallað saman til að staðfesta brot á stjórnarskránni. --- Til að staðfesta brot á stjórnarskránni. Hv. þm. er að segja það að allir þeir þingmenn sem hér hafa talað og styðja ríkisstjórnina, ráðherrar meðtaldir, séu að brjóta stjórnarskrána (ÖJ: Það er rétt.) og að skoðun þeirra og sannfæring hafi ekkert gildi ... (SJS: Þið brutuð hana 1998.) hafi ekkert gildi. Þetta líkar mér miður, herra forseti. Menn eiga að bera virðingu fyrir skoðunum annarra og ekki fullyrða að þeir séu að brjóta stjórnarskrána nema hægt sé að sanna að þeir geri það vísvitandi. En það ætla ég ekki nokkrum manni. Ég hef a.m.k. þá sannfæringu að dómur Hæstaréttar sé annar en hv. þm. les út úr honum. Ég hef þá sannfæringu og ég mun rökstyðja það seinna.

Nú ætla ég að segja við hv. þm. Hann segir: Stefna vinstri grænna er að jafna kjörin í landinu. Hvernig má það vera að það sé jöfnun á kjörum í landinu að nú á að fara að senda hátekjufjölskyldum tékka upp á 1,4 millj. fjögur ár aftur í tímann. Vinstri grænir vilja fara enn þá lengra. Eftir skatt yrðu það svona 800--900 þús. kr. Það er bara sæmilegur bíll. Það á að fara að senda þetta á silfurfati til hátekjufjölskyldna á meðan lágtekjuöryrkjar fá ekki neitt. (Gripið fram í.)