Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:26:47 (3848)

2001-01-17 23:26:47# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:26]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við það að hv. þm. hafi annan skilning á máli en ég hef. Þannig er það nú oft og tíðum og ekkert er við því að gera. Hins vegar legg ég á það áherslu að það sé ekki mistúlkað sem ég var að segja og mér fannst hv. þm. hafa misskilið orð mín og ég vildi leiðrétta það. Hvort það hefur nokkuð lagað skilning hans veit ég ekki. Það verður að koma í ljós. En Hæstiréttur hefur fellt sinn dóm og þetta frv. er flutt til þess að bregðast við þeim dómi og taka fullt tillit til hans. Það hefur margoft komið fram í okkar máli. Hins vegar er ekki verið að ganga lengra nema að einu leyti og það varðar skerðingu vegna tekna sem viðkomandi lífeyrisþegi hefur sjálfur. Þar er gert ráð fyrir því að vegna þessara viðbótartekna verði ekki skerðing krónu fyrir krónu heldur 67% af viðbótartekjunum. Ekkert er kveðið á um þetta í dómi Hæstaréttar. En þegar menn fóru að fara yfir málið sýndist mönnum að hér væri um slíkt óréttlæti að ræða að rétt væri að bregðast við því og þess vegna gerir ein lagagrein í frv. ráð fyrir því.