Vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 10:55:27 (3874)

2001-01-18 10:55:27# 126. lþ. 61.94 fundur 260#B vaxtahækkun og staðan í húsnæðismálum láglaunafólks# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[10:55]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Félmrh. ætlar að standa fyrir hækkun á vöxtum í húsnæðiskerfinu og hver er ástæðan? Það er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar því að hún er föst í vítahring. Seðlabankinn beitir hæstu stýrivöxtum sem þekkjast til að braskararnir geti haldið áfram að flytja inn gjaldeyri, framkalla þannig það sem hagspekingar ríkisstjórnarinnar kalla jákvæðan viðskiptahalla. Svo aumt er ástandið að ef þessi gjaldeyrisinnflutningur félli snögglega niður mundi gengi krónunnar falla verulega. Þessi peningastefna væri einungis rekin sem skammtímaráðstöfun annars staðar en á Íslandi.

Afleiðingin er vaxtaokur. Almennir vextir eru komnir í um 20%. Þetta okur lendir fyrst og fremst á almenningi og smærri fyrirtækjum. Þeir stóru flytja sjálfir inn peninga á lægri vöxtum. Fyrrv. ráðherra bankamála lýsti reglulega yfir á Alþingi að ríkisstjórnin væri alveg á næstunni að fara að lækka vexti þangað til sá sami ráðherra flutti sig yfir í Seðlabankann, líklega til að lækka vextina. Á skyldi að ósi stemma, héldu sumir, en síðan hafa vextirnir hækkað sem aldrei fyrr. Nú bregður svo við að nýr bankamálaráðherra nefnir ekki vaxtalækkanir.

Stjórnvöld hafa gefist upp á því að reyna að koma á sambærilegum vöxtum hér og í nágrannalöndunum og keyra nú upp vexti á langtímalánum til félagslegs húsnæðis með hæstv. félmrh. í broddi fylkingar. Hann gengur þar fram af fyllstu hörku gagnvart umbjóðendum sínum, lágtekjuhópunum sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda og sveitarfélögunum sem verða að tryggja fátæku fólki húsnæði hvað sem líður hávaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra þarf að svara því hvernig hann ætlar sér að bæta þessum aðilum það sem verið er að leggja á herðar þeirra. Hann þarf að svara því hvort hann hafi endanlega misst vonina um að hægt sé að halda uppi eðlilegum vöxtum í húsnæðismálum á Íslandi. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að tryggja að sveitarfélögin geti staðið undir vaxtakröfunni?