Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 12:50:52 (3904)

2001-01-18 12:50:52# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[12:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þingmanninum finnst bara ekkert leiðinlegt hverju ég er að svara honum af því að hann veit fullkomlega hvert svar mitt er. Þeir eru í hártogun um orðalag, hvort það eigi við um málslið, hvort það eigi við alla 5. mgr. (Gripið fram í.) eða seinni málsliðinn o.s.frv. Við höfum haldið því sama fram og vel metnir lögfræðingar úti í bæ hafa tjáð sig um, að miðað við hæstaréttardóminn hafi verið heimilt að greiða út. En það þýddi auðvitað að þá varð stjórnarmeirihlutinn að koma sér saman um að greiða samkvæmt dómnum, að greiða 51 þúsund. Ég er fullkomlega sammála hæstv. heilbrrh. og ég kýs að hanga á setningunni hennar af því ég hef afskaplega gaman af því. Hæstiréttur dæmdi gjörning löggjafans ómerkan.