Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:44:45 (3921)

2001-01-18 14:44:45# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aldrei þótt góð lögfræði að lesa bara út eina og eina setningu sem mönnum hentar hverju sinni, en lesa hana ekki og skoða hana ekki í samhengi við ákveðin grundvallaratriði sem dómurinn byggir á. En það heyrir maður hv. stjórnarliða gera hér aftur og aftur í sínu máli. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé af ásetningi. Það gæti orsakast af einhverjum misskilningi líka. Ég er að reyna að draga þetta fram og er margsinnis búin að gera það hér, að það er grundvallarmunur á þessu, þeim stjórnarskrárvarða rétti sem felst í þessari grunngreiðslu annars vegar og svo hins vegar á einhverjum öðrum heimildargreiðslum til þess að greiða fólki fjárhagslega aðstoð úr opinberum sjóðum í einni eða annarri mynd. Á þessu er grundvallarmunur. Það eru ekki allar félagslegar greiðslur úr opinberum sjóði stjórnarskrárvarinn réttur einstaklinganna og Hæstiréttur er ekki að segja það heldur. Menn verða að átta sig á þessu grundvallaratriði áður en hægt er að ræða málið.