Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 16:28:05 (3945)

2001-01-18 16:28:05# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. undrast það hvers vegna áróðursstaða Sjálfstfl. í þessu máli er jafnslöpp og raun ber vitni þá ætti hann að fá allar ræður sínar sem hann hefur flutt við þessar umræður og hlusta á þær heima. Þá skilur hann það ef til vill.

Hv. þm., eins og margir þingmenn Sjálfstfl., hangir á einu hálmstrái. Hann hangir á því orðalagi sem er að finna í forsendum dómsins að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laganna.

Herra forseti. Um hvað fjallar þessi 17. gr. sem hv. þm. vísar þarna til? Hún fjallar um skerðingu tekjutryggingar vegna tekna öryrkjans sjálfs, vegna lífeyrissjóðstekna. Og í téðri 5. mgr. er einmitt fjallað um skerðingu vegna tekna maka. Dómurinn er því klárlega að segja að heimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkjans áfram með þeim hætti sem er gert í fyrri málsgreinum, þ.e. vegna eigin tekna, vegna lífeyrissjóðstekna, en --- svo ég vitni í dóminn --- ekki með þeim hætti sem gert er í 5. mgr., þ.e. í krafti tekna makans. Þetta er alveg kristaltært, herra forseti, og þetta sýnir það líka að þó að Hæstiréttur telji óheimilt að nota tekjur maka til að skerða tekjutrygginguna þá segir hann að það sé heimilt að skerða hana með þessum tveimur atriðum öðrum.