Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 17:01:39 (3952)

2001-01-18 17:01:39# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef spurt alla félagshyggjumenn, hv. þingmenn sem kenna sig við félagshyggju og standa að þeirri stefnu og hafa hana sem heimssýn, þeirrar spurningar hvort þeim finnist að þessi dómur sé í samræmi við þær jafnaðarhugsjónir sem þeir hafa.

Auðvitað hlítum við hæstaréttardómnum. Auðvitað borgum við út 1,5 millj. til hátekjufólks. En ég er að spyrja hvort hv. þingmanni ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Get ég fengið orðið? Ég er að spyrja hvort hv. þm. finnist það í samræmi við lífsskoðanir sínar að verið sé að jafna kjörin með þessum hætti.

Hv. þm. minntist ekkert á það sem ég kom inn á með fyrninguna, þar sem ég gat þess að Hæstiréttur hefði sérstaklega vísað í 48. gr. laganna þar sem stendur að bætur skuli aldrei úrskurða lengra aftur en tvö ár. Hæstiréttur sjálfur segir þetta. Hvernig getur þá hv. þm. sagt að ekki megi fyrna mannréttindabrot? Hann er þá að segja að Hæstiréttur sjálfur sé að fyrna mannréttindabrot.

Ég ætla að biðja hv. þm. að taka afstöðu til þessa.