Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 18:32:42 (3968)

2001-01-18 18:32:42# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú hafa orðið mikil tíðindi hér í umræðunni. Það kemur í ljós að helsti talsmaður Sjálfstfl. í velferðarmálum hefur gert sér upp skoðanir í 36 ræðum eða eitthvað svoleiðis. Hann hefur talað eins og þetta allt væri honum þvert um geð. Hann hefur ekkert skilið í því hvernig við gætum glaðst yfir þessu en svo kemur í ljós að hann er okkur sammála. Hann gleðst yfir því að þessu fólki hafi verið dæmd sín stjórnarskrárvörðu mannréttindi. Um það snýst þetta mál.

Auðvitað fögnum við því að þessi hópur hafi náð tilteknum réttindum á grundvelli mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar. Það er svo sannarlega ástæða til að gleðjaðst yfir því þegar við höfum í huga að þetta var einn þeirra hópa sem dæmdist í hvað mest niðurlægjandi stöðu af öllum þeim sem bjuggu í samfélagi okkar. Ég hef löngum og oft í ræðum einmitt sagt að þetta sé einn af þeim ljótu blettum á velferðarkerfi okkar og samfélagi sem mig hefur sviðið hvað mest undan. Ég þekki marga dugandi menn sem hafa misst starfsorkuna og liðið illa yfir því að vera baggar á fjölskyldum sínum eftir það og hafa enga sjálfstæða möguleika til að kosta þarfir sínar í samfélaginu. Sú staða auðveldar mönnum ekki að halda sjálfsvirðingu sinni ofan í að hafa orðið fyrir áföllum eins og varanleg örorka auðvitað er.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir því. Þetta er tvímælalaust framfaraskref í þróun velferðarkerfis okkar. Mér þykja það mikil undur en ánægjulegt ef í ljós kemur að allar ræður hv. þm. Péturs Blöndals gegn þessu séu á misskilningi byggðar, eða hafi verið leikfléttur og aðferðafræði í þágu umræðunnar væntanlega (Gripið fram í: Leiklistarinnar.) eða leiklistarinnar. Ég býð hann bara velkominn í hópinn.