Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 20:13:25 (4075)

2001-01-22 20:13:25# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KPál
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[20:13]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er slæm staða í réttarríki eins og Íslandi þegar hægt er að túlka niðurstöður dóma eins og dóma Hæstaréttar á marga vegu og fá þar út mismunandi niðurstöður og túlkun dómanna á marga vegu. Þrískipting valdsins gerir ekki ráð fyrir að túlkun dóma geti verið þannig að hægt sé að túlka þá með þessum hætti.

Alþingi setur lög. Dómsvaldið á að dæma samkvæmt lögunum. Ríkisvaldið eða ríkisstjórnin á að vinna samkvæmt lögunum. Í mínum huga sem leikmanns er það því grundvallaratriði dómara að skýra mál en ekki flækja þau, en það er það sem mér finnst hafa gerst með þessum dómi.

Í því máli sem nú er til umræðu finnst mér það reyndar mjög miður vegna þess að hér á í hlut hópur sem hefur ekki og er ekki ætlast til að þurfi að standa í miklum deilum opinberlega yfirleitt.

Tekjutenging örorkubóta við tekjur maka hafa verið til endurskoðunar í mörg ár og aðrar ívilnandi aðgerðir eins og frítekjumark, en það eru líka peningar fyrir þetta fólk að fá hærra frítekjumark. Þeim breytingum hefur verið náð fram og mörgum breytingum að þessu leyti vegna þess að fólki finnst að strípaðar tekjur öryrkja hafi verið of lágar. Með lögum nr. 149/1998, sem tóku gildi í janúar árið 1999, var tekið sérstakt tillit til öryrkja sem hafa minni möguleika en aðrir til að afla sér lífeyrissjóðsréttinda og frítekjumark allra öryrkja óháð fjölskyldutekjum var hækkað um 50% hjá einhleypingum og hjá öðru hjóna. Enn fremur var tekið sérstakt tillit til þess ef einungis annað hjóna var öryrki en hitt útivinnandi maki.

[20:15]

Við setningu laganna var slíkur bótaþegi meðhöndlaður eins og einstaklingur með 20 þús. kr. frítekjumark og hefði fengið 30 þús. samkvæmt sömu reglum en á nú að fá greiddar 50 þús. kr. í viðbót vegna maka þannig að frítekjumark þessara bótaþega hækkaði verulega. Hjón gátu því verið með um 90 þús. kr. í mánaðarlaun áður en bætur hófu að skerðast samkvæmt þeim reglum sem þá voru settar. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til á þessum tíma, á síðustu tveimur árum, hafa í heild leitt til þess að dómur Hæstaréttar kostar ríkissjóð um 100 millj. kr. á ári á næstu árum en hefði annars kostað 400 millj. kr. Í því liggja þær miklu breytingar sem ríkisstjórnin lét gera á þessu kerfi til þess að mæta þörfum öryrkja fyrir hærri bætur.

Herra forseti. Þetta sýnir svo ekki verður um villst vilja og áhuga meiri hluta Alþingis á því að þessi hópur þjóðfélagsins fengi hærri bætur en þeir höfðu haft fram að því. Auðvitað má deila um það hve þessar bætur eigi að vera háar og hvenær skerðingarákvæði eigi að taka gildi eða fara að virka en ef tengingar við tekjur maka mættu aldrei virka í neinu tilliti á neinar bætur eða í lögum almennt er almannatryggingakerfið fallið og skattkerfið um leið. Afleiðingarnar af slíku væru í mínum huga miklu líkari byltingu en eðlilegri þróun. Ég geri ekki ráð fyrir því að Hæstiréttur sé að biðja um byltingu að þessu leyti. Ég trúi því ekki að Hæstiréttur hafi þær meiningar að löggjafinn geti ekki tekið tillit til aðstæðna hjóna þegar kemur að því að deila út aðstoð sem ríkið greiðir út með skatttekjum.

Skatttekjur ríkissjóðs koma einnig frá fólki sem hefur minni tekjur en þeir sem eru að fá bætur ef litið er til fjölskyldutekna á ýmsum stöðum í þessu kerfi. Við getum þá allt eins velt því fyrir okkur hvort ekki sé rétt að greiða öllum bætur sem hafa ekki náð ákveðnum tekjum. Ég held, herra forseti, að þegar litið er á málið í heild sinni hafi minni hlutinn í raun farið offari í því að reyna að kalla þetta stjórnarskrárbrot. Það getur ekki legið í augum uppi að Hæstiréttur sé að segja okkur að brjóta stjórnarskrána með því kerfi sem unnið hefur verið eftir í á undanförnum árum.

Í áliti umboðsmanns Alþingis, sem hann gaf 13. apríl 1998, kom fram að Alþingi væri ekki að brjóta lögin eða það væri ekki verið að brjóta lögin með þeim afgreiðslum sem ríkisstjórnin gerði þá, ekki heldur þegar skerðing tekjutryggingar lífeyrisþega vegna maka var sett í reglugerð heldur þyrfti að skýra lögin. Ekki var álitið að það væri verið að brjóta lögin heldur þyrfti að skýra þau. Af þeim lögmönnum sem hafa gefið ríkisstjórninni álit sitt vegna þess frv. sem er nú til umræðu hafa þeir lögmenn sem hafa gefið ríkisstjórninni álit og heilbr.- og trn. álit í flestum tilfellum stutt einróma þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin lagði upp með þegar þetta mál var kynnt í þinginu. Sjö af ellefu lögmönnum sem hafa gefið álit að þessu leyti hafa ekki talið þetta frv. stríða gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar né eins og lagt er til í frv. hér að framan væri verið að brjóta niðurstöðu dómsins. Þar að auki vil ég minna á að í þinginu sitja sjö löglærðir menn. Fimm af þeim telja að fyllilega sé farið að ákvörðun samkvæmt stjórnarskránni og ekki sé verið að brjóta lög með því frv. sem hér er lagt fram. Mér finnst það skipta verulega miklu máli að löglærðir menn í þinginu sem eru með sérmenntun, oft er kallað á sérfræðinga til að meta hvernig túlka beri mál með lögfræðilegum aðferðum. (SJS: Þú ættir að fara yfir hópinn.) Það eru fimm stjórnarþingmenn löglærðir og tveir stjórnarandstöðuþingmenn og það þarf ekkert að telja þá upp. Þið getið talið þá á fingrum ykkar í sætunum og áttað ykkur á því hverjir þeir eru. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill áminna þingmenn um að vera ekki með samtöl í salnum og gefa ræðumanni frið til þess að halda ræðu sína.)

Herra forseti. Ég skil ósköp vel að þau séu óróleg yfir þessari upptalningu. Það gefur augaleið þegar menn líta á þá staðreynd að hér inni eru margir mjög færir lögmenn. Það er miklu ólíklegra, held ég, ef við erum með sérfræðingana við hliðina á okkur að verið sé að leiða menn í villu. Þess vegna hef ég sagt að mér finnst stjórnarandstaðan fara offari í þessu máli þegar verið er að tala um stjórnarskrárbrot.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna aðeins í eina af fullyrðingum sem koma fram í áliti minni hlutans og er hér á bls. 8. Ég verð að segja eins og er að mér brá verulega þegar ég sá þessa fullyrðingu í áliti minni hlutans því að mér er jafnannt um að halda stjórnarskrána og ég hygg að flestöllum öðrum mönnum hér inni sé. Ég trúi því. En það stendur hér, með leyfi forseta, í áliti minni hlutans:

,,Það er óumdeilt að óheimilt er að setja afturvirk íþyngjandi ákvæði í lög. Minni hlutinn hafnar með öllu þeirri túlkun sem fram kemur í skýrslu starfshópsins og nefndaráliti meiri hlutans að hér sé um ívilnandi reglu að ræða og hún því heimil. Rök minni hlutans eru eftirfarandi: Við dóm Hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á grundvelli tekna maka, féll framangreind skerðingarheimild niður. Við þetta varð til nýtt réttarástand ...``

Herra forseti. Ég spurði lögmenn að því hvað þetta þýddi. Af hálfu sérfræðinga ríkisstjórnarinnar er verið að tala um að verið sé að ívilna öryrkjum með því að nota afturvirkni frv. með þeim hætti sem þar er gert en aftur á móti kemur minni hlutinn allt í einu og segir að þetta sé íþyngjandi og það skapi þá nýtt réttarástand. Ég spurði lögmenn að því hvað þetta þýddi. Lögmenn sem ég talaði við skildu ekki hvað þetta þýddi. Þeir áttuðu sig ekki á því hvað væri verið að meina. Í huga þeirra hljómar þetta eins og hver önnur golfranska. Þess vegna langaði mig til að fá svör við því frá minni hlutanum hvað sé í rauninni verið að meina. Hvað þýðir að íþyngjandi ákvæði í þessum lögum skapi nýtt réttarástand? Hvað þýðir það að skapa nýtt réttarástand með þessu ákvæði? Ef stjórnarandstaðan getur skýrt þetta fyrir mér þá þætti mér vænt um það en ef hún getur það ekki er það væntanlega vegna þess að hún skilur það ekki sjálf eða sérfræðingar hennar eru ekki á staðnum. En ég held að mjög nauðsynlegt sé að skýra þær fullyrðingar sem koma fram í þessu áliti. Með leyfi, herra forseti, ætla ég að lesa upp lokin á þessu:

,,Í samræmi við þetta mótmælir minni hlutinn því harkalega að ætlunin sé að skerða bætur til örorkulífeyrisþega í hjúskap aftur í tímann, enda standist það ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. Við þetta má síðan bæta að það hefur verið talið eitt af grundvallarskilyrðum réttarríkis að óheimilt sé að lög virki aftur fyrir sig og þá sérstaklega ef þau eru íþyngjandi.``

Búið er að segja það af meiri hlutanum og sérfræðingum hans að þetta séu ívilnandi ákvæði. Þetta eru ekki íþyngjandi ákvæði. (SJS: Það er rangt.) Samt kemur minni hlutinn hingað og segir að verið sé að brjóta stjórnarskrána. Mér finnst svo órúlegt hvernig minni hlutinn er að nýta sér þetta áróðursvopn, stjórnarskrána, með þessum formerkjum, annaðhvort til að hræða fólk eða afvegaleiða í þessari umræðu. Ég veit ekki hvers vegna en starfandi lögmenn skilja ekki hvað átt er við með þessari fullyrðingu í áliti minni hlutans, því miður. Ég óska a.m.k. eftir því að fá skýringu á þessu.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, á ég ekki von á því að minni hlutinn vilji vísvitandi afvegaleiða fólk og ég vonast til að það komi í ljós núna á eftir.

Ef litið er á annað sem kemur fram í áliti minni hlutans, herra forseti, þá kemur fram í áliti þeirra að einhver önnur aðferð sé við að leysa velferðarmál hjá nágrannaþjóðunum. Töluvert hefur heyrst í þessari umræðu að menn telji að Íslendingar séu eitthvað einstakir í þessu þannig að þau vandamál sem snúa að velferðarkerfinu séu leyst með rýrari hætti en annars staðar. Þar sem vitnað hefur verið til annarra þjóða í þessu sambandi er því haldið fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hlutanum hafi það verið gert ranglega. En ég vildi bara minna á það, herra forseti, að það kemur mjög vel fram í áliti meiri hlutans á bls. 3 að þar hefur verið skoðað sérstaklega hvernig félagsmálum og tekjutryggingum í almannatryggingalögunum er beitt og hvernig skerðingarákvæðum er beitt. Það kemur í ljós að bæði í Noregi og Danmörku og eins í flestöllum Evrópuríkjum sem við miðum okkur við eru skerðingarákvæði svipuð í lögum þeirra eins og hér er sem mér finnst það skipta verulega miklu máli. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli að við byggjum á réttarhefð sem er að sjálfu sér byggð upp á sambærilegan hátt og hjá öðrum ríkjum í Evrópu. Þess vegna skiptir það máli. Það hlýtur að skipta máli vegna þess að Hæstiréttur hafi í dómum skírskotað til þess. Ég er að biðja um útskýringar á því sem kemur fram í áliti ykkar og ég ætla að vonast til að einhver skýring komi á því.

Herra forseti. Eftir skoðun mína, bæði með því að hlusta á þá lögmenn sem hafa útskýrt málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og eftir að hafa séð það álit sem kemur frá meiri hluta heilbr.- og trn. ásamt þeirri skoðun sem ég hef sjálfur gert með lögmönnum sem ég treysti, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé verið að brjóta stjórnarskrána, ekki sé verið að brjóta mannréttindi og þar með eigum við ekki að vera í neinni hættu með að gera það frv. sem hér liggur fyrir að lögum. Þess vegna mun ég, herra forseti, styðja það.

Í þessari greinargerð kemur fram, herra forseti, að minni hlutinn vitnar nokkuð mikið í bók Stefáns Ólafssonar, Íslenska leiðin. Þar er m.a. vitnað í hugmyndafræði um almannatryggingar, og þeir segja þar á bls. 9, með leyfi forseta:

,,Hugmyndafræði almannatrygginga, sem leysti gömlu fátækraaðstoðina að mestu af hólmi á 20. öldinni, gengur gegn þessari hugsun að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur, eins og fram kom í fyrstu tveimur köflunum í þessari bók.``

Herra forseti. Þetta dreg ég fram í áliti minni hlutans til að sýna fram á það hversu aftarlega á merinni Íslendingar voru að þessu leyti. Ég heyrði um þetta sérstaklega frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrr í umræðunni. Mér finnst að verið sé að reyna að misnota þessa bók til að hjálpa minni hlutanum í umræðunni. Það er alveg ljóst að í þessum kafla er verið að tala um allt önnur lög og allt aðrar breytingar sem áttu sér stað 1935 þegar lögum um framfærslu var breytt til þess að þau ákvæði sem skertu fjárræði og kosningarrétt þeirra sem þurftu að þiggja af sveitinni fóru út. Þau ákvæði voru tekin út úr lögum. Það er allt allt annað en það sem verið er að tala um núna. Árið 1946 voru síðan lögð fram lög á Alþingi um almannatryggingar sem settu Íslendinga fremst á bekk að þessu leyti. Íslendingar voru fremstir þjóða í heiminum á sviði almannatrygginga og ef menn muna það ekki, þá var það ríkisstjórn Ólafs Thors sem lét setja þau lög árið 1946. Þau lög eru ítarlega skilgreind í bók Stefáns Ólafssonar Íslensku leiðinni, og því hefði að skaðlausu verið hægt að taka það líka fram.

Ég ætla aðeins að leyfa mér, herra forseti, að lesa upp úr því sem stendur í þeirri bók en þar segir á bls. 356, með leyfi forseta:

,,Þannig verður lífskjaraskipting norrænu þjóðanna misjöfn. Fátækt er enn heldur meiri á Íslandi og tekjuskipting ívið ójafnari. Lífskjaravandi sérhópa er þó heldur meiri á Íslandi en hjá frændþjóðunum. Að öðru leyti koma Íslendingar mjög vel út úr öllum samanburði á lífskjörum og lífsgæðum, bæði gagnvart norrænum þjóðum og öðrum vestrænum þjóðum.

Ef tekst að draga markvisst út lífskjaravandanum sem enn er fyrir hendi hér á landi munu fáar eða engar þjóðir í heiminum standast Íslendingum snúning, hvað gæði lífskjara snertir. Umbætur í almannatryggingum geta gegnt stóru hlutverki við að leysa þennan vanda og þar með átt drjúgan þátt í að koma Íslandi efst á toppinn í lífskjarastiga þjóðanna.``

Ég get ekki séð, herra forseti, að þetta sé einhver áfellisdómur um almannatryggingakerfið á Íslandi nema síður væri. Ég mundi segja að þarna hafi þetta kerfi sem hefur þó verið unnið eftir í grundvallaratriðum alveg frá 1947 staðist tímans tönn að mörgu leyti en að sjálfsögðu hefur þurft að breyta því eins og öðru í gegnum árin. En markmiðin voru sett hátt á þeim árum og ég held að óhætt sé að fullyrða að Íslendingar vilja vinna þannig og ekki er nokkur vafi í mínum huga að núverandi ríkisstjórn vill vinna þannig.