Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:10:06 (4085)

2001-01-22 21:10:06# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til þess að spyrja hv. þm. hvort hann sé undrandi á því að víða í þjóðfélaginu sé borin heldur lítil virðing fyrir þessari háu stofnun sem við sitjum í. Hann talar hér um stormsveit og er með því að líkja þeim sem eru að vinna að þessu máli væntanlega við nasista. Hann talar um öryrkjamafíuna. Hver hefur talað um öryrkjamafíuna nema hann? Hann talar um að við höfum fundið upp orðin ríku öryrkjarnir. Hver hefur sagt það? Hann segir að þeir þingmenn sem að þessu standa þurfi að hafa alveg sérstakt geðslag til að standa í þessu. Hvernig stendur á því að þessi umræða þarf að vera á þessu plani? Það er málefnalegur ágreiningur um þetta mál. Mér er það alveg ljóst. En miðað við orðbragð hans og ýmissa annarra hv. þm. sem tala um naglaskap og fantaskap og ýtrasta fantaskap þá er ég ekkert hissa á því þó mjög margir í þjóðfélaginu beri litla virðingu fyrir Alþingi, því það eru þessir hv. þm. sem tala með þessum hætti sem draga niður virðingu Alþingis.