Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:21:36 (4091)

2001-01-22 21:21:36# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn hélt því fram við 1. umr. málsins að 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga væri fallin brott. Nú segir hann að aðeins skerðingarákvæði málsgreinarinnar hafi fallið brott og hefur þá séð sig um hönd á milli umræðna í þessari fullyrðingu sinni.

Það sem ég held að þingmaðurinn hafi áttað sig á og fleiri úr stjórnarandstöðunni að ef aðeins átti að styðjast við lögin eins og þau voru orðin eftir hæstaréttardóminn væri ekki hægt að greiða út annað en fulla tekjutryggingu og það fá aðeins þeir sem eru undir tilgreindum mörkum. Allir þeir sem höfðu fengið og áttu að fá áfram minna en fulla tekjutryggingu gátu því ekki fengið það vegna þess að lagastoð skorti til að ákvarða þannig minnkaða tekjutryggingu. Það er það sem stjórnarandstaðan hefur áttað sig á og þess vegna hefur hún fallist á það að nauðsynlegt sé að flytja frv.

Ég vil svo segja við hv. þm., af því hann vék sér undan því að skýra ummæli sín sem ég held að sé skynsamlegt af honum að vera ekki að fjalla meira um heldur láta niður falla, að hv. þm. hættir nokkuð oft til þess að tala niður til þingmanna. Ég skildi þessi ummæli hvor tveggja svo að hann væri að gera lítið úr þeim sem hann talaði til með þessum orðum. Má vera að það sé misskilningur minn en ég skildi ummælin þannig.

Ég vil segja við hv. þm. að honum væri ráðlegra að venja sig af því að tala niður til fólks. Ég held hann hafi ekki efni á því. Vilji hann hins vegar kynna sér mál um valdhroka og ræða það mál bendi ég honum á mál sem rak inn á Alþingi á sínum tíma um valdhroka þáv. umhvrh., Össurar Skarphéðinssonar.