Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 21:53:08 (4095)

2001-01-22 21:53:08# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[21:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvar örvæntingin er mest í kvöld, í liði Sjálfstfl. eða Framsfl. Ég veit að hún er mikil stjórnarmegin. Það er rangt hjá hv. þm. að Samfylkingin eða aðrir stjórnmálaflokkar hafi þrýst á forseta Íslands um að undirrita ekki þessi lög. Forseti Íslands er fullfær um það sjálfur að ákveða hvað hann gerir.

Það er líka rangt sem mér heyrist annaðhvort koma frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni eða einhvers staðar utan úr salnum að varaformaður Samfylkingarinnar hafi haldið slíku fram. Hið rétta í því máli er að það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði í samtali við Dag var mistúlkað í undirfyrirsögn. Það sem þar stóð var ekki í samræmi við það sem stóð í textanum sjálfum.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. að hér stendur þingmaður sem hefur tilfinningar. Mér hefur stundum verið misboðið í þessari umræðu, t.d. þegar hv. þm. stjórnarliðsins hafa talið það bera vott um sérstaklega slæmt innræti okkar í stjórnarandstöðunni að halda því fram að hér sé brotið gegn stjórnarskránni. Hér koma menn veifandi öllum öngum og segja: Sjáið nú þetta lið sem heldur því fram að við séum vísvitandi að brjóta stjórnarskrána. Það kom fram í einu frammíkalli sem mátti túlka þannig hér á dögunum en að öðru leyti er slíkt ekki að finna í málflutningi okkar. Hins vegar höfum við hér bjargfasta sannfæringu í þessu máli. Hér hefur komið fram að skoðanir stjórnarliða eru aðrar en ekki hef ég nú fundið sannfæringuna. Það þýðir ekki fyrir menn að halda því fram að við stöndum í þessum málflutningi vegna þess að við séum sérstaklega illa innrætt.

Mér svíður að sjá hvernig farið er með þennan hóp öryrkja. Mér svíður líka sem þingmanni að sjá liggjandi fyrir frv. þar sem farin er leið sem einn af þeim lögspekingum sem hv. þm. stjórnarliðsins höfðu samráð við hefur sagt að feli í sér meiri hættu á því að mannréttindi séu aftur brotin en sú leið sem við erum að tala um. Hv. þm. stjórnarliðsins eru hér í háskaleik. Þeir eru enn að koma sér í stöðu þar sem þeir gætu verið að brjóta stjórnarskrána.