Almannatryggingar

Mánudaginn 22. janúar 2001, kl. 23:14:31 (4114)

2001-01-22 23:14:31# 126. lþ. 63.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 126. lþ.

[23:14]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Málið fjallar um mannréttindi. Hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu sinni að menn greiddu atkvæði eftir bestu samvisku og teldu sig eftir bestu samvisku ekki vera að brjóta stjórnarskrá og hið sama hafa þeir væntanlega gert árið 1998 þegar þetta mál kom fyrst til atkvæða í þinginu, þ.e. þessi lög.

[23:15]

Herra forseti. Besta samviska hv. þingmanna sem greiddu atkvæði með frv. 1998 var ekki nógu góð að mati Hæstaréttar. Hlýtur það ekki að gefa tilefni til að menn taki samvisku sína virkilega vel til endurskoðunar í ljósi þessarar niðurstöðu frekar en að taka áhættu á því að aftur verði litið svo á fyrir Hæstarétti að mannréttindi hafi verið brotin áfram á þeim hópi sem Hæstiréttur hefur sagt að ríkisvaldið hafi brotið mannréttindi á um árabil? Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að verið er að taka áhættu með því að túlka dóminn á þennan hátt.