Almannatryggingar

Þriðjudaginn 23. janúar 2001, kl. 14:25:20 (4178)

2001-01-23 14:25:20# 126. lþ. 64.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að benda mér á að ég skuli vanda mig í ræðustól. Ég held að þetta eigi við alla og skal taka þetta alvarlega.

Opinberar tölur kjararannsóknarnefndar Þjóðhagsstofnunar og annarra um þróun þessara hluta liggja fyrir. Ég vísa til þess að það er betra að bera þetta saman á opinberum vettvangi en að standa hér eins og hanar og segja mig fara með ósannindi. Ég hef allar upplýsingar um að þetta er nákvæmlega sama þróunin. Kaupmáttur lífeyrisgreiðslna hefur fylgt launaþróun í landinu nákvæmlega allt frá því við breyttum þessum lögum veturinn 1997, góðu heilli. (Gripið fram í.) Það liggur nákvæmlega fyrir að engin lög hafa verið brotin heldur hefur þeim verið fylgt. Þetta ákvæði sem við settum 1997 er lífeyrisþegum mjög til heilla. Það tryggir að það gerist ekki aftur að kaupmáttur þeirra rýrni þegar harðnar á dalnum í þjóðfélaginu. Það tryggir það og það er stóra málið.